Ný bæjarstjórn

Bryndís Haraldsdóttir

Bryndís Haraldsdóttir

Um miðjan þennan mánuð lét ég af störfum sem bæjarfulltrúi, ég hef verið þeirrar gæfu aðnjótandi að sitja í bæjarstjórn í 8 ár og sem varamaður 8 ár þar á undan.
Það eru því orðin heil 16 ár síðan ég kom fyrst að bæjarmálunum. Það hefur verið ótrúlega skemmtilegur tími og ég verð að viðurkenna að það er ekkert verkefni sem ég hef tekið að mér (ef frá er talið foreldrahlutverkið) sem hefur verið jafn skemmtilegt og lærdómsríkt og bæjarfulltrúahlutverkið.
Ég hef mikla trúa á Mosfellsbæ, ég veit að sveitarfélagið er vel rekið, hér eru bæði góðir skólar og leikskólar, íþrótta- og tómstundastarf er í miklum blóma og síðast en ekki síst er sveitarfélagið fallegt. Mosfellsbær er umvafinn fallegri náttúru, við erum innrömmuð fellum, ám og Leirvoginum. Endalaus tækifæri til útivistar og hreyfingar í túninu heima. Sveitarfélagið hefur vaxið mikið á síðustu árum og nú erum við komin yfir 10 þúsund. Það er bæði ánægjulegt en líka krefjandi verkefni þegar sveitarfélagið vex hratt bæði hvað varðar skipulagsmál svo og uppbyggingu innviða og nærþjónustu.

Höldum í sérstöðu Mosfellsbæjar
Ég hef þá sýn að Mosfellsbær eigi að byggja á sérstöðu sinni sem er bæði náttúrutengd og samfélagstengd. Þannig er mikilvægt að þrátt fyrir stækkun sveitarfélagsins og óhjákvæmilega og eðlilega þéttingu byggðar þá haldi sveitarfélagið samt í þá sérstöðu sína að hér sé hátt hlutfall sérbýla, hér sé stutt í náttúru og að við séum grænn og umhverfisvænn bær. Mosfellsbær hefur lengið verið eftirsóknarverður staður til að búa á og þá sérstaklega fyrir fjölskyldufólk en hvergi á höfuðborgarsvæðinu er hlutfall barna jafn hátt og hér í Mosfellsbæ.
En hvað samfélagslega þáttinn varðar þá er það ekki síst hlutverk okkar allra íbúa að tryggja að hér verði áfram sá þorpsbragur sem löngum hefur einkennt Mosfellssveitina. Okkur er umhugað um náungann og samfélagið okkar. Sá mikli samfélagslegi auður sem felst í sjálfboðastarfi allra sem koma að íþrótta- og tómstundafélögum hér í bæ er ómetanlegur. Það að við fjölmennum á þorrablót, brennu og bæjarhátíð og skemmtum okkur saman er líka mikilvægur hluti af öflugu og góðu samfélagi. Höldum því áfram.

Takk fyrir mig
Ég vil óska öllum nýkjörnum bæjarfulltrúum velfarnaðar í störfum sínum. Ég vona að nýrri bæjarstjórn auðnist að vinna saman að því að tryggja að það verði áfram best að búa í Mosfellsbæ. Ég vil þakka öllum þeim kjörnu fulltrúum sem ég hef unnið með á vettvangi bæjarstjórnar og nefnda bæjarins á síðustu árum. Einnig vil ég þakka því frábæra starfsfólki sem vinnur fyrir Mosfellsbæ en það hefur verið einstaklega ánægjulegt að kynnast þeim góða hópi sem vinnur á hverjum degi fyrir þjónustufyrirtækið Mosfellsbæ.
Síðast en ekki síst vil ég þakka kjósendum fyrir að hafa treyst mér fyrir því mikilvæga starfi sem bæjarfulltrúastarfið er, það eru forréttindi að fá að sinna því. Ég hef lagt mig alla fram við að gera það af metnaði og alhug. Það er aldrei hægt að gera þannig að öllum líki en ég hef ávallt haft hagsmuni heildarinnar að leiðarljósi. Í hlutverki kjörins fulltrúa lærir maður að málin geta oft verið mun flóknari en virðist í fyrstu og það er að mörgu sem þarf að huga áður en ákvörðun er tekin.
Þrátt fyrir að hverfa af vettvangi bæjarstjórnar mun ég áfram í starfi mínu sem þingmaður fylgjast með rekstri sveitarfélagsins og leggja mitt af mörkum við að tryggja framgang verkefna sem heyra undir ríkisvaldið en þjóna hagsmunum okkar hér í bæ. Sérstaklega má þar nefna stækkun hjúkrunarheimilis og umferðaröryggismál á Vesturlandsvegi og Þingvallavegi.

Bryndís Haraldsdóttir
þingmaður