Nýtt fólk hjá Framsókn í Mosfellsbæ
Stutt er til sveitarstjórnarkosninga. Kosningabaráttan er á lokastigi og fólk er að spá í möguleg úrslit.
Framsókn hefur ekki fengið bæjarfulltrúa í Mosfellsbæ í síðustu kosningum og nú bætist við klofningur í liði samvinnumanna og félagshyggjufólks þar sem margir telja rétt að fylgja lista Miðflokksins víða um land. Á móti kemur að síðustu alþingiskosningarnar hafa sýnt að nýir kjósendur koma í staðínn og útkoman var glæsilegur varnarsigur Framsóknarmanna.
Nú er verkefnið annað en í Alþingiskosningunum og aðstæður eru mismunandi eftir hinum ýmsu stöðum á landinu. Hér í Mosfellsbæ er Sjálfstæðisflokkurinn sterkur og hefur þar að auki varadekk undir sínum vagni. Atkvæði til VG hljóta að teljast ávísun á óbreytt valdatímabil Sjálfstæðisfokksins. Hjá íhaldinu gætir líklega klofnings til Viðreisnar og harðsoðinn sjálfstæðismaður í 1. sæti Miðflokksins þannig að ljóst er hvar hann á að fiska. Það má spá því að Sjálfstæðismenn tapi einhverju fylgi í þessum kosningum og vel gæti það skeð að fá atkvæði gætu ákveðið hver endanleg úrslit yrðu.
Það má segja að þau sem blésu lífi í Framsóknarfélag Mosfellsbæjar þegar klofningurinn varð í aðdraganda síðustu Alþingiskosninga hafi verið Sveinbjörn Ottesen, Sveingerður Hjartardóttir og formaðurinn Óskar Guðmundsson. Þetta fólk allt er nú ofarlega á B-listanum í Mosfellsbæ, þar af Sveinbjörn Ottesen í 1. sæti.
Sveinbjörn er vel að þessu sæti kominn, traustur og duglegur og sannarlega líklegur til þess að vinna ötullega að hagsmunamálum bæjarbúa. Síðan tel ég ómetanlegt happ fyrir þetta bæjarfélag að fá ungt og efnilegt fólk í 2. og 3. sæti B-listans eða þau Þorbjörgu Sólbjartsdóttur og Birki Má Árnason.
B-listinn í Mosfellsbæ með þetta fólk í efstu sætunum er sigurstranglegur og það er kominn tími til þess að Framsókn fái 1-2 bæjarfulltrúa hér í Mosfellsbæ.
Til þess að svo megi verða þurfa kjósendur að skoða hug sinn og ekki aðeins styðja Framsókn í kjörklefanum heldur þá daga sem enn eru til kosninga að afla B-listanum fylgis, stuðla þannig að valddreifingu og bættri þjónustu í Mosfellsbæ.
Sigurður Kristjánsson
í stjórn Framsóknarfélags Mosfellsbæjar.