Breytingar

Það er hollt að breyta, hætta að gera eitthvað sem maður hefur gert lengi og gera eitthvað annað í staðinn. Það er ekki auðvelt að hætta, sérstaklega ekki einhverju sem maður hefur haft ánægju af lengi, en mín skoðun og reynsla er að það sé betra að hætta á meðan það er enn gaman. Ég er í hætta-ferli núna, er að hætta með ýmislegt sem ég hef gert eða tekið þátt í lengi. Af hverju er ég að hætta? Af því að mig langar að gera aðra hluti og til þess að geta gert þá vel, þarf ég að hafa góðan tíma og mikla orku.

Ég er samt ekki að loka dyrum eða skella hurðum á eftir mér. Mér finnst best að hætta þannig að ég eigi möguleika á að taka aftur upp þráðinn seinna. Kannski miklu seinna, kannski aldrei, en ég vil halda endurkomumöguleikum opnum, maður veit aldrei hvernig lífið þróast.

Um leið og það er erfitt að hætta, fylgir því mikil tilhlökkun að búa sér til rými til að takast á við nýja hluti og verkefni.

Fyrir mér er heimurinn stór og lítill á sama tíma. Það er allt hægt, ef maður trúir og virkilega vill. Og það er gaman að horfa fram á veg og reyna við hluti sem virðast óraunhæfir og ómögulegir. Ég hlustaði á dögunum á viðtal við Guðmund Guðmundsson, landsliðsþjálfara karlalandsliðsins okkar í handbolta. Mér fannst bæði áhugavert og hvetjandi að heyra hann tala um verkefnin sem hann sem hefur tekið að sér í gegnum tíðina og hvernig hann hefur brugðist við þeim tilboðum sem hann hefur fengið. Áskoranir og erfið verkefni voru hæst á hans óskalista, hvort sem það var að koma Aftureldingu upp í efstu deild í fyrsta sinn í sögu félagsins eða að gera Dani að Ólympíumeisturum í fyrsta sinn. Áfram veginn!

Heilsumolar Gaua
Mosfellingur 23. júní 2022

Mikil og lífleg starfsemi í Bólinu

Félagsmiðstöðin Ból er búin að vera með starfsemi í þremur félagsmiðstöðvum í vetur enda er Mosfellsbær ört stækkandi bæjarfélag og mikill ávinningur að gera sem best fyrir unga fólkið okkar.
Mosfellingur tók Guðrúnu Helgadóttur forstöðukonu Bólsins tali, gefum henni orðið.

Metþátttaka í alla viðburði
„Þrátt fyrir að fyrri hluti vetrar hafi aðeins verið undir áhrifum frá Covid þá náum við að ljúka þessum skólavetri með magnaðri dagskrá og metþátttöku á alla okkar viðburði.
Það er ekki séns að fara yfir allt það sem er búið að vera í gangi en þrír stærstu viðburðirnir voru núna í lok apríl og maí og það má hrósa unga fólkinu okkar fyrir að vera almennt til fyrirmyndar í öllu því sem þau gera og hér kemur smá upptalning á því sem við m.a. gerðum.“

Samfestingurinn Hann var haldinn dagana 29.–30 apríl. Hann samanstendur af balli þar sem 4.500 unglingar koma saman og skemmta sér og svo er söngkeppni seinni daginn.
Í söngkeppninni keppa unglingar af öllu landinu. Í ár var Samfestingurinn haldinn á Ásvöllum í Hafnarfirði og við fórum með tvær fullar rútur af frábærum unglingum á þennan geggjaða viðburð.
Sundpartý Í samstarfi við starfsmenn Lágafellslaugar var Félagsmiðstöðin Ból með sundpartý fyrir 5.–7. bekk og svo annað daginn eftir fyrir 8.–10. bekk. Þar vorum við með mismunandi skemmtun víðsvegar um laugina eins og t.d. zumba í útilauginni og wipe-out braut í innilauginni.
Tvö hundruð og sextíu börn og unglingar mættu og skemmtu sér saman. Það náðist upp svo mikil stemning að aðrir sundgestir voru farnir að taka þátt. Að loknu partýi fengu svo allir ís.

Rave ball Loksins náðum við að halda aftur ball í Hlégarði, sem var langþráð. Við ákváðum að fara bara „all in“ og leigðum flottan ljósabúnað, fengum góða skemmtikrafta en best var sennilega að unglingarnir fengu tækifæri til að vera DJ í byrjun og keyra ballið í gang.
Tæplega 300 unglingar mættu á ballið og dönsuðu í 150 mínútur samfleytt. Það var alveg magnað að vera þarna og upplifa stemninguna. Margir voru búin að undirbúa sig dagana fyrir ballið því það var hægt að koma til okkar í Bólið og mála með neonlitum á hvíta boli. Þetta gerði það að verkum að það náðist upp stemning strax tveim dögum fyrir ball.

Pop-up félagsmiðstöð í sumar
Því miður er víst komið að því að Bólið fari formlega í sumarfrí. Við erum samt ekki alveg til í sleppa unglingunum okkar þannig að við ætlum að vera með pop-up félagsmiðstöð í sumar í samstarfi við Vinnuskóla Mosfellsbæjar.
Við munum auglýsa á Instagram hvað er á dagskrá og hvar og hvenær við munum hittast. Við ætlum að nýta okkur útivistarsvæðin í Mosfellsbæ. Þannig að ég mæli með að foreldrar fylgi okkur líka á Insta @Bolid270 þannig að þetta fari ekki fram hjá neinum.
Einnig verða fimm námskeið í boði fyrir yngri hópinn okkar. Námskeiðin eru eftir hádegi og hvert námskeið stendur yfir í fjóra daga. Skráning á námskeiðin er í gegnum Sportabler en allar upplýsingar eru á bolid.is.

Opið alla daga
„Opnunartíminn hjá okkur yfir veturinn er alla virka daga frá 9–16 og svo er opið öll virk kvöld, mismunandi kvöld eftir félagsmiðstöðvum, þannig að unglingarnir hafa alltaf samastað. Bólið býður einnig upp á starfsemi fyrir 10-12 ára en allar upplýsingar um starfið er að finna á heimasíðu Bólsins bolid.is.
Í Bólinu starfa 17 starfsmenn sem allir eru frábærir á sínu sviði. Það er mjög lítil starfsmannavelta þannig að börnin og unglingarnir þekkja vel mitt fólk sem er alveg ómetanlegt því þá myndast þetta traust sem er svo mikilvægt í félagsmiðstöðvarstarfi.
Í lokin þá mæli ég með að allir reyni að vera besta útgáfan af sjálfum sér. Ef við komum fram við hvert annað af virðingu, óháð aldri, þá verður sumarið algjör snilld. Svo ef eitthvað er, þá geta unglingarnir alltaf sent á okkur skilaboð á Insta eða leitað til Bólstarfsmanna sem eru í Vinnuskólanum,“ sagði Guðrún að lokum.

KYNNING

Flipp flopp í skapandi skólastarfi

Sævaldur Bjarnason kennari í Kvíslarskóla.

Flipp flopp í skapandi skólastarfi er heiti á nýju þróunarverkefni sem hefur verið unnið að í Kvíslarskóla í vetur.
Sævaldur Bjarnason, kennari í Kvíslarskóla, kom með hugmyndina að verkefninu og vann í að koma því á laggirnar ásamt hópi kennara í skólanum. Flipp flopp dagar hafa verið mánaðarlega næstum allt skólaárið við frábærar undirtektir nemenda og kennara.

Hvernig varð hugmyndin að Flipp flopp til?
Hún varð fyrst til eftir að það kom gagnrýni frá Menntamálastofnun að kennsluhættir væru heldur einhæfir í skólanum. Stjórnendur skólans sáu tækifæri í þessu og þegar ákveðið var að skipta skólanum upp í tvo skóla ákváðu þeir að láta á þetta reyna, prófa verkefnið og sjá hversu langt við kæmumst með að breyta kennsluháttum og reyna að búa til fleiri verkefni sem nemendur tengdu meira við með fjölbreyttara námsmati. Þá tók ég við boltanum og úr varð þessi hugmynd.
Húsnæði skólans býður ekki upp á mikla möguleika á teymiskennslu en okkur langaði til að prófa okkur áfram með okkar útgáfu af því. Þegar skólinn fór frá því að vera Varmárskóli – eldri deild yfir í Kvíslarskóla þá ákváðum við að nýta tækifærið og endurskoða kennsluna og skólabraginn og gera tilraun með að gera endurbætur til að efla nýjan unglingaskóla í bænum.
Kennararnir tóku vel í þessar pælingar og höfðu mikinn áhuga á að færa sig frá hefðbundinni bókarkennslu yfir í nútímalegri kennsluhætti með fjölbreyttum verkefnum og verkefnaskilum. Aðalnámskrá var nýtt í öll verkefnin og lykilhæfni grunnskólanna. Hvert Flipp flopp þurfti þannig að hafa markmið sem tengdist lykilhæfni grunnskólanna.

Hvaðan kemur nafnið Flipp flopp?
Við vildum hvorki kalla þetta þemadaga né verkefnadaga. Það er náttúrulega fullt af svipuðum verkefnum í gangi í öðrum skólum eins og sprellifix, uglur og smiðjur. Við erum með teymi utan um þetta nokkrir kennarar. Við veltum upp hugmyndum í kringum þetta, okkur fannst þetta frekar flippað allt saman að fara af stað með eitthvað svona og einhvernvegin varð þetta nafn til Flipp flopp.

Hversu oft eru Flipp flopp dagar í skólanum?
Tveir Flipp flopp dagar eru haldnir mánaðarlega og snúa að vinnulagi þar sem nokkrar námsgreinar eru samþættar að hverju sinni. Áhersla er lögð á nýstárleg vinnubrögð af hálfu nemenda og kennara auk samspils upplýsingatækni og kennslufræðilegra hugmynda í námi, hugmynda á borð við verkefnamiðað nám, þemanám, þrautalausnanám, hönnunarmiðað nám og samvinnunám.

Hvernig hafa nemendur og kennarar tekið dögunum?
Flestum nemendum hefur þótt þetta mjög skemmtilegt, það er svo gaman að brjóta aðeins upp hversdagsleikann og hafa kennsluna öðruvísi. Við leggjum mikla áherslu á hópefli, reynum að þétta hópinn og gera eitthvað saman. Að mínu mati er miklu betri og skemmtilegri stemmning í skólanum síðan við byrjuðum með þetta.
Kennararnir hafa almennt verið mjög jákvæðir en þetta krefst þess að maður þarf að undirbúa sig öðruvísi en fyrir venjulega kennslu og oftast í öðrum fögum en maður ert vanur að kenna.

Myndiru vilja breyta einhverju á næsta ári?
Nei, bara fínpússa verkefnin og lagfæra þessa hnökra sem við urðum vör við. Sum verkefnin litu kannski vel út á blaði en heppnuðust svo ekki nóg vel í framkvæmd.
Við erum því bara spennt að takast á við nýtt skólaár með alls konar Flipp flopp dögum og að gera enn betur en í fyrra.

 

Sundnámskeið Tobbu vinsæl

Þorbjörg Sólbjartsdóttir útskrifast úr Háskóla Íslands árið 2012 sem íþrótta- og heilsufræðingur og kennir í Helgafellsskóla, þar vinnur hún sem umsjón­ar­kennari, sundkennari og er með sérkennslu í sundi og íþróttum.
Mosfellingur tók Þorbjörgu tali um sundkennslustarfið með börnunum og gefum henni nú orðið.

„Ég byrjaði að kenna sund með náminu mínu árið 2009, datt í raun í afleysingu sem varð lengri en ég átti von á. Ég átti ekki von á því þegar ég fór í námið að ég myndi sérhæfa mig eitthvað sérstaklega í sundi, enda hef ég engan afburðagrunn í því.
Þetta hefur líka kennt mér að það þarf ekki alltaf Íslandsmeistaratitil til að gera eitthvað vel. Ég á auðvelt með að ná til þessa aldurshóps og mér finnst það afskaplega gaman þar sem ég nýt þess að kenna börnum og þessi aldur 3-6 ára er alveg dásamlegur.“

Mikilvægt að börnin fái jákvæða upplifun í sundi
„Ég er með tvo hópa og kenni á fimmtudögum, hver hópur fær 30 mínútur í kennslu en ég skipti því þannig að þriggja og fjögurra ára börn eru saman og fimm og sex ára. Yngri hópurinn er með foreldra sína með sér ofan í lauginni en eldri börnin koma ein í laugina með mér.
Námskeiðin mín eru yfirleitt í átta vikur í senn en ég byrja á haustin þegar skólarnir byrja og kenni fram í byrjun júní. Það er svo mikilvægt að börn fái jákvæða upplifun í sundi en það getur verið stressvaldur hjá börnum að vera í vatni.“

Fyrstu skrefin í gegnum leik og söng
„Ég byrja alltaf námskeiðin mín á því að vinna með vatnsaðlögun en það geri ég í gegnum leiki og söng, svo bæti ég inn sundtökunum en ég styðst við fyrsta ­stig í sundi hjá eldri hópnum. Þau þjálfast líka í því að fara í gegnum búningsklefann en það getur verið svolítið mikið stökk fyrir þau að hafa ekki foreldra sína til að aðstoða sig þegar þau eru komin í fyrsta bekk.
Það er svo mikið öryggisatriði að geta lært að bjarga sér í vatni og því oftar sem börn fara í sund því meiri grunni byggja þau á til að geta bjargað sér ef þau lenda í erfiðum aðstæðum í vatni.“

Gott að hafa foreldrana með
„Ég reyni að gera upplifun þeirra eins jákvæða og ég mögulega get og styrki þau ef þau lenda í því að fá vatn ofan í sig eða í nefið sem þeim finnst auðvitað óþægilegt.
Ég kenni þeim að fylla lungun af lofti áður en þau kafa og nota orð eins og að fylla blöðruna sína (lungun), einnig nota ég orð eins og að róa með fótunum þegar ég kenni þeim bringusund og að láta hælana kyssast þegar þau eru að kreppa.
Ég man sjálf þegar ég byrjaði í sundkennslu, þá í fyrsta bekk, að ég skildi ekki hvað var að kreppa! Svona næ ég að umorða hlutina og gefa aðra merkingu svo að þau skilja hvað þau eiga að gera.
Ég hef virkilega gaman af því að sjá framfarirnar sem geta verið fljótar að koma, sérstaklega ef foreldrar eru duglegir að fara í sund samhliða námskeiðinu til að byggja á þekkingunni,“ sagði Þorbjörg að lokum.
Fjórar vikur eru eftir af námskeiðinu sem nú er í gangi og segist Þorbjörg taka glöð við nýjum börnum næsta haust en hún er með tvö námskeið fyrir áramót og tvö eftir áramótin. Skráningar á námskeiðin fara fram á facebook-síðunni hennar „Sundskóli Tobbu“.

KYNNING

Lalli ljóshraði undirbýr jólabókaflóðið

Lárus okkar Jónsson, Lalli Ljóshraði, leikari og Mosfellingur númer 1, ætlar að taka slaginn í næsta jólabókaflóði ásamt félaga sínum, Guðjóni Inga Eiríkssyni. Bókin mun heita Jólasveinarnir í Esjunni og byggir á hugmynd Lalla sem hann viðraði við Guðjón fyrir um 30 árum síðan.
Guðjón gleymdi aldrei hugmynd Lalla og á vordögum 2021 fór hann að setja efnið saman í barnabók, án þess þó að Lalli vissi af. Þegar allt var orðið klappað og klárt fékk Lalli loksins að vita af þessu og datt þá andlitið bókstaflega af kappanum.
En hvað heitir bókin og um hvað er hún? Hún heitir Jólasveinarnir í Esjunni og fjallar um fótboltastrák, sem auðvitað heitir Lalli. Hann fer nauðugur með foreldrum sínum í göngu á Esjuna, dauðþreyttur eftir hörkuleik. Já, hann er bókstaflega með hangandi haus, en uppi við Stein, þar sem hann hvílir lúin bein, gerast ævintýrin og það svo um munar.
Meira verður ekki sagt hér og nú, en á Karolina Fund geta þeir sem vilja styrkja þetta bráðskemmtilega verkefni og eignast bókina stutt við það. Slóðin er: www.karolinafund.com/project/view/3891
Það eru Bossa Blossar sem hafa sett söfnunina af stað en þeir eru gamlir félagar úr fótboltanum í Aftureldingu á 9. áratugnum.

Mikil þróun í hreyfingu á síðustu árum

Ólafur Ágúst Gíslason hefur starfað við íþróttakennslu nær óslitið frá árinu 1978. Hann hefur einnig starfrækt íþrótta- og leikjanámskeið, fótboltaþjálfun og kennt ungbarnasund og líkamsrækt í áratugi.
Hann segir þróunina í hreyfingu fyrir alla aldurshópa hafa verið öra síðustu ár en Ólafur hefur fylgst vel með á þeim sviðum með því að sækja ýmis námskeið bæði hér heima og erlendis.

Ólafur Ágúst er fæddur í Reykjavík, á degi íslenskrar tungu, 16. nóvember 1952. Foreldrar hans eru Erla Haraldsdóttir húsmóðir og Gísli Ólafsson læknir en þau eru bæði látin.
Ólafur á tvær systur, Arndísi f. 1946 og Hildi f. 1951.

Minn stærsti leikvöllur alla tíð
„Ég ólst upp í Laugarneshverfinu í Reykjavík til 25 ára aldurs. Gamli Ármannsvöllurinn var rétt við heimili mitt og hann var minn stærsti leikvöllur alla tíð. Þar var farið í fótbolta, handbolta og stundaðar frjálsar á leikja- og íþróttanámskeiðum á sumrin, jafnvel spilað golf þegar best lét.
Ýmislegt var brallað úti í kálgörðunum sem voru handan við Laugarnesveginn. Þá voru þar engar byggingar en Sjálfsbjargarhúsin og Grand Hótel hafa nú risið á þessu svæði.“

Lærði ungur að spila golf
„Æskuminningarnar eru bundnar við alls konar leiki sem við krakkarnir fórum í. Við vorum langt fram á kvöld í fallin spýta, hlaupa í skarðið og hark og púkk með fimm aura peningum.
Ég lærði snemma að spila golf með pabba sem var fyrsti Íslandsmeistarinn í golfi árið 1940. Við fórum oft á gamla GR golfvöllinn í Öskjuhlíð en það var ekki mikið um að börn væru að spila golf á þessum tíma eða í kringum 1960.
Við systkinin fórum einnig mikið á skíði með foreldrum okkar í Úlfarsfell og Skíðaskálann í Hveradölum. Einnig eru góðar minningar bundnar við sumarbústað sem afi minn, Haraldur Árnason stórkaupmaður, byggði í Heiðarbæjarlandi á Þingvöllum. Við systkinin ásamt öðrum frændsystkinum dvöldum þar oft á sumrin með mæðrum okkar á meðan pabbi keyrði til vinnu í Reykjavík.“

Ævintýri út af fyrir sig
„Ég gekk í Laugarnesskólann, bæði í barna-og unglingadeild, og var með frábæran umsjónarkennara, Gróu Kristjánsdóttur. Mér þótti alltaf gaman að fara í skólann og hitta skólafélagana. Það var alltaf morgunsöngur í sal og maður lærði mörg lögin þar. Sundkennslan var í gömlu sundlaugunum sem voru alveg ævintýri út af fyrir sig, við vinirnir fórum oft í laugarnar.
Ég lauk gagnfræðaprófi frá Lindargötuskóla og fór þaðan í Verzlunarskóla Íslands. Á sumrin starfaði ég hjá skrúðgarðyrkjumeistara við að standsetja lóðir og fleira.“

Fór til Noregs í nám
Ólafur hóf störf hjá herrafataversluninni, Andersen&Lauth á Laugavegi árið 1970 og starfaði þar í þrjú ár. Þaðan fór hann til Noregs í lýðháskóla, Gauldal Folkehaugsskola í Melhus og var þar á íþróttabraut. Það var þar sem hann uppgötvaði hvað hann vildi starfa við í framtíðinni en það var að verða íþróttakennari.
Eftir að heim var komið þá fór hann aftur í Lindargötuskólann í uppeldis- og hjúkrunarnám en árið 1976 lá leiðin í Íþróttakennaraskóla Íslands á Laugarvatni.

Góðir tímar á Laugarvatni
„Ég átti dásamlegan tíma á Laugarvatni en þar kynntist ég konunni minni, Guðríði Ernu Jónsdóttur frá Patreksfirði en við útskrifuðumst bæði sem íþróttakennarar árið 1978. Við fluttum til Fáskrúðsfjarðar sama ár og kenndum þar í tvö ár. Við fluttum síðan í bæinn og ég hóf störf sem íþróttakennari í Garðaskóla í Garðabæ og kenndi þar nánast óslitið til 2018 eða í 38 ár. Erna byrjaði á sama tíma í Gagnfræðaskóla Mosfellsbæjar og Varmárskóla og kenndi til 2021.
Ég hef einnig verið fótboltaþjálfari á sumrin á nokkrum stöðum úti á landi. Á árunum 1984-1990 sá ég um íþrótta-og leikjanámskeið í Mosfellsbæ ásamt Ölfu Regínu og svo var ég með Íþróttaskóla Stjörnunnar frá 1991-1994. Í Garðaskóla hafði ég umsjón með Skíðaklúbbi Garðalundar ásamt öðrum í yfir 30 ár. Frá 1989 hef ég starfað með líkamsrækt fyrir karla í Garðabæ, líkamsrækt B&Ó, og er enn að. Allt að 60 þátttakendur koma saman tvisvar í viku í hreyfingu og í körfubolta.
Hreyfing og alhliða líkamsþjálfun er nauðsynleg hverjum manni og þróunin í hreyfingu fyrir alla aldurshópa hefur verið ör síðustu árin. Ég hef reynt eftir fremsta megni að fylgjast vel með á þeim sviðum með því að sækja ýmis námskeið bæði hér heima og erlendis.“

Það gafst meiri tími með þeim þar
Óli og Erna eiga saman þrjú börn, Brynju Rós f. 1987 stöðvarstjóra hjá Íslandspósti, Þórdísi f. 1989 sjúkraþjálfara og Gísla f. 1994 viðskiptafræðing en þau búa öll í Mosfellsbæ. Barnabörnin eru tvö.
Árið 1998 skelltum við Erna okkur í nám í Osló í íþróttaháskólann þar. Ég segi alltaf að þar hafi ég kynnst börnunum mínum betur því það gafst meiri tími með þeim þar heldur en hér heima, vegna vinnu, þetta var ótrúlega skemmtilegur tími.
Við fjölskyldan reynum að hittast sem oftast, förum í ferðalög, útilegur, sumarbústaðaferðir og skíðaferðir erlendis.“

Hættir eftir frábær ár á Reykjalundi
„Áður en við fórum frá Noregi skellti ég mér í ungbarnasundkennslu og var þar með námskeið um vorið. Árið 2001 byrjaði ég svo með ungbarnasund á Reykjalundi sem er ætlað fyrir börn frá 3 mánaða aldri til 2 ára og nú er ég að hætta á þeim starfsvettvangi eftir 22 ár. Þarna hef ég haft frábæra aðstöðu í gegnum árin.
Að kenna ungbarnasund hefur verið mjög gefandi, frábær samvera bæði með foreldrum og ekki síst litlu krílunum sem eru orðin allt að fimm þúsund í gegnum tíðina. Það eru mikil forréttindi að fá að vinna með börnum og fyrir það er ég þakklátur.
En er Óli búinn að finna arftaka? „Já, hann heitir Fabio La Marca og hann kemur til með að halda áfram með námskeiðin. Ég er ótrúlega ánægður með að fá hann Fabio því ég treysti honum til allra góðra verka,“ segir Óli og brosir.

Ætla að njóta lífsins
Ég spyr Óla að lokum hvað hann ætli að fara að taka sér fyrir hendur? „Nú ætla ég hreinlega að njóta lífsins og sinna áhugamálunum, fara í líkamsrækt, hjóla, fara í fjallgöngur og göngutúra og svo ætla ég að snúa mér meira að golfinu með konunni sem er að byrja fyrir alvöru.
Markmið mitt er að njóta þess að vera hraustur, hafa gaman af hlutunum og verja sem mest af tímanum með fjölskyldunni minni og vinum.“ Með þeim orðum kvöddumst við.

Nýr meirihluti – málefnasamningur í höfn

Oddvitarnir Anna Sigríður, Halla Karen og Lovísa handsala samstarfið.           Mynd/Hilmar

Í sveitarstjórnarkosningunum þann 14. maí fengu Framsókn, Samfylkingin og Viðreisn sex kjörna fulltrúa af ellefu og tóku flokkarnir ákvörðun um það að vel ígrunduðu máli að hefja meirihlutasamstarf enda mikill málefnalegur samhljómur með þessum þremur flokkum.
Oddvitar þessara þriggja flokka eru konur og þetta er í fyrsta sinn sem fjölflokka meirihluti í Mosfellsbæ er einungis leiddur af konum.

Áherslur þræddar inn í öll störf
Lýðheilsa, lýðræði, umhverfismál og nýsköpun eru leiðarstef í nýjum málefnasamningi og verða þessar áherslur ofnar inn í samþykkktir allra nefnda. Með þessu vill nýr meirihluti tryggja að þessi áhersluatriði verði ávallt í forgrunni í nefndarstarfi.
Nýr meirihluti ætlar sér líka að efla allt nefndarstarf og tryggja að lýðræðisleg umræða eigi sér stað inni í nefndunum. Þá verða unnar mun ítarlegri starfsáætlanir fyrir hverja nefnd en hingað til hefur tíðkast þar sem skilgreind verða þau sérstöku verkefni í málefnasáttmálanum sem hverri nefnd er ætlað að vinna að.

Framtíðarsýn fyrir bæjarfélagið í heild
Næstu fjögur árin verður unnið að því byggja upp framtíðarsýn fyrir bæjarfélagið í heild. Áhersla verður lögð á langtímaáætlanir, traust og uppbyggileg samskipti.
Það er leiðarljós nýs meirihluta í bæjarstjórn að leita breiðrar sáttar og samvinnu þvert á alla flokka í vinnu sinni fyrir Mosfellsbæ.
Það eru stór verkefni fram undan í Mosfellsbæ í flestum málaflokkum og leggur nýr meirihluti mikla áherslu á ábyrgan rekstur og gæði þeirrar þjónustu sem Mosfellsbær veitir. Stærsta uppbyggingarverkefni á höfuðborgarsvæðinu er í undirbúningi og að mörgu að hyggja hvað það varðar.
Umhverfis- og loftslagsmál eru mikilvægir málaflokkar hér eins og annars staðar. Nauðsynlegt er að Mosfellsbær sé framsækið sveitarfélag sem setur sér metnaðarfull markmið þegar kemur að því að efna skuldbindingar Íslands um kolefnishlutleysi og sjálfbærni.

Jöfn tækifæri og aukin þjónusta
Í málefnasamningnum er einnig að finna áætlanir um að skólar Mosfellsbæjar séu eftirsóttir til að læra og starfa í. Til þess þurfi meðal annars að styrkja stoðþjónustu skólanna og efla sjálfstæði skólastofnana. Skólahúsnæði sé heilsusamlegt og í gangi sé viðhaldsáætlun fyrir allar fasteignir í eigu bæjarins.
Rík áhersla verður lögð á að efla Mosfellsbæ sem heilsueflandi samfélag. Unnin verður heildstæð langtíma uppbyggingar- og viðhaldsáætlun fyrir Varmársvæðið svo það standist nútímakröfur.
Nýr meirihluti ætlar sér að ljúka innleiðingu Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna á kjörtímabilinu og vill að farið sé að samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Eins verður unnin aðgerðaráætlun varðandi uppbyggingu sértækra búsetuúrræða. Þá verður lögð áhersla á áframhaldandi uppbyggingu faglegs starfs sem stuðlar að líkamlegri, andlegri og félagslegri heilsu eldri Mosfellinga.
Lengri opnunartímar sundlauga, fjölgun nemenda í tónlistarnámi, fjölgun grenndarstöðva og endurskoðun á rekstrar­fyrir­komulagi Hlégarðs eru fleiri dæmi um aðgerðir í málefnasamningnum og stefnt er að því að leysa aðstöðumál leikfélagsins til lengri tíma.

Stuðla að fjölbreyttu atvinnulífi
Atvinnumálum verður gert hærra undir höfði í nefndarstarfi bæjarins enda skiptir öflugt atvinnulíf miklu máli í hverju samfélagi. Meirihlutinn ætlar sér þess vegna að vinna atvinnustefnu fyrir bæjarfélagið á kjörtímabilinu og verður unnið markvisst að því að laða fleiri og fjölbreyttari fyrirtæki til bæjarins.
Mikilvægt er að skipulag stuðli að öflugu og fjölbreyttu atvinnulífi og til staðar sé miðbæjarskipulag sem laðar að sér verslun og þjónustu sem leggur grunn að kraftmiklu mannlífi.


Góður samhljómur Anna Sigríður Guðnadóttir oddviti Samfylkingarinnar
Fyrst vil ég þakka þeim kjósendum sem treystu Samfylkingunni fyrir atkvæði sínu. Ég er full tilhlökkunar og auðmýktar yfir þessu nýja hlutverki í meirihluta og ég veit að allt það góða fólk sem kemur að þessum meirihluta mun vanda sig í öllum sínum störfum og vinna vel saman enda mikill samhljómur á milli okkar. Þá viljum við sem meirihluti vinna að góðu samstarfi innan bæjarstjórnar allrar. Við munum taka til hendinni!


Munum vinna af heilindumHalla Karen Kristjánsdóttir oddviti Framsóknar

Ég vil byrja á því að þakka íbúum Mosfellsbæjar fyrir stuðninginn og það mikla traust sem þið sýnduð okkur í Framsókn. Það fylgir því mikil ábyrgð að vera komin í þessa stöðu og munum við leggja allt okkar í að standa undir henni. Ég bind miklar vonir við vinnu okkar í þessu meirihlutasamstarfi með Samfylkingu og Viðreisn auk samstarfsins í bæjarstjórninni í heild. Ég veit að við munum öll vinna af heilindum og metnaði fyrir ykkur bæjarbúa og bæinn í heild sinni. Rauði þráðurinn í gegnum allar nefndir verður lýðheilsa, lýðræði, nýsköpun og umhverfismál. Við þrjár ásamt okkar góða fólki tökum við keflinu full tilhlökkunar og ætlum að vanda okkur.


Nýir tímar fram undan – Lovísa Jónsdóttir oddviti Viðreisnar

Ég persónulega er mjög stolt af því að vera hluti af þessu nýja þríeyki og hlakka til samvinnunnar. Á heildina litið þá líst okkur mjög vel á samstarfið enda hefur það farið mjög vel af stað. Það er góð samvinna í hópnum og gleði og ég tel að bæjarbúar muni strax verða varir við nýjar áherslur. Við teljum það mikilvægt hvernig megináherslurnar í samstarfinu verða ofnar inn í allt starfið og þar með vonumst við til þess að geta innleitt meiri samvinnu milli nefnda.


Bæjarstjórn Mosfellsbæjar skipa:
Halla Karen Kristjánsdóttir (B)
Ásgeir Sveinsson (D)
Aldís Stefánsdóttir (B)
Jana Katrín Knútsdóttir (D)
Dagný Kristinsdóttir (L)
Sævar Birgisson (B)
Rúnar Bragi Guðlaugsson (D)
Anna Sigríður Guðnadóttir (S)
Örvar Jóhannsson (B)
Lovísa Jónsdóttir (C)
Helga Jóhannesdóttir (D)

Helstu nefndir og ráð:
Formaður bæjarráðs: Halla Karen Kristjánsdóttir (B)
Forseti bæjarstjórnar: Anna Sigríður Guðnadóttir (S)
Formaður fjölskyldunefndar: Ólafur Ingi Óskarsson (S)
Formaður fræðslunefndar: Aldís Stefánsdóttir (B)
Formaður íþrótta og tómstundanefndar: Erla Edvardsdóttir (B)
Formaður lýðræðis- og mannréttindanefndar: Sævar Birgisson (B)
Formaður menningar- og nýsköpunarnefndar: Hrafnhildur Gísladóttir (B)
Formaður skipulagsnefndar: Valdimar Birgisson (C)
Formaður umhverfisnefndar: Örvar Jóhannsson (B)
Stjórn Sorpu bs.: Aldís Stefánsdóttir (B)
Stjórn Strætó: Lovísa Jónsdóttir (C)
Heilbrigðisnefnd: Bjarni Ingimarsson (B)

 

 

 

Eins og barðir hundar

Nottingham Forest komst upp í efstu deild á Englandi um síðustu helgi eftir að hafa reynt það í 23 ár. Þrautsegja og þolinmæði, takk fyrir. Hinn ungi fyrirliði Joe Worrall talaði um í viðtali strax eftir úrslitaleikinn við Huddersfield á Wembley að ástæðan fyrir þessum árangri væri fyrst og fremst knattspyrnustjórinn, Steve Cooper, en hann tók við liðinu 21. september 2021, þá sigurlausu í neðsta sæti næstefstu deildar.
„Við vorum eins og barðir hundar áður en hann tók við liðinu,“ sagði Worrall. „Hans aðferðafræði og nálgun er allt önnur en við höfum kynnst hjá öðrum stjórum. Hann gaf okkur trú á sjálfa okkur og gerir allt sem hann getur til þess að láta okkur líða vel, sem leikmönnum og manneskjum.“

Ég hef aldrei skilið hina leiðina, að stjórna með yfirgangi og látum, að skamma fólk endalaust fyrir að gera mistök, láta það stöðugt vita hvað það getur ekki gert og þannig draga úr því kraft, vilja og orku.

Ég hef kynnst þannig þjálfurum, kennurum og leiðbeinendum og enginn þeirra gerði mikið fyrir mig. Frekar öfugt. Ég man miklu meira eftir þeim sem litu jákvæðum augum á lífið og létu mann vita að það væri eitthvað í mann spunnið. Alveg eins og Steve Cooper er að gera með Forest í dag. Ég man eftir nafna mínum Eiríkssyni sem var flokksstjórinn minn í unglingavinnunni. Hann var hress, hvetjandi, jákvæður og hélt góðum aga á okkur letidýrunum með húmor og jákvæðri ákveðni. Hann fékk mig síðan seinna til að koma og æfa með Aftureldingu, ég man enn eftir mjög uppbyggilegu símtali frá honum sem mér þótti vænt um. Ég man líka eftir Ruth umsjónarkennara í Árbæjarskóla sem var hvetjandi og ströng á jákvæðan hátt. Hún var elskuð og virt af öllum bekknum og lifir alltaf í minningunni.

Njótum ferðalagsins!

Heilsumolar Gaua
Mosfellingur 2. júní 2022

Tindahlaupið í boði Nettó

Hrannar frá Kyndli, Ingibjörg frá Nettó og Gunna Stína frá blakdeild Aftureldingar.

Næstu tvö árin mun Tinda­hlaup Mos­fells­bæj­ar bera nafnið Tindahlaup Mosfellsbæjar í boði Nettó en á dögunum skrifuðu Mosfellsbær, Nettó og aðstandendur Tindahlaupsins undir tveggja ára samstarfssamning þar um.
Aðspurð segist Ingibjörg Ásta Halldórsdóttir markaðsstjóri Samkaupa hlakka til samstarfsins en markmið Nettó væri að styðja við íþróttastarf á landsvísu. „Við styðjum margþætt æskulýðs- og forvarnarstarf á landsvísu sem stuðlar að heilbrigðum lífsstíl og endurspeglast þessir þættir að öllu leyti í samstarfinu við Tindahlaupið,“ segir Ingibjörg Ásta.
Nettó opnaði verslun í Sunnukrika í Mosfellsbæ í byrjun júní í fyrra. Í versluninni er m.a. að finna gríðarlegt úrval af heilsuvörum fyrir hlaupara og alla sem huga að heilsunni.

Fjórar vegalengdir í boði 27. ágúst
Fyrir þá sem ekki þekkja til þá er Tindahlaupið skemmtilegt og krefj­andi ut­an­vega­hlaup sem haldið er síð­ustu helg­ina í ág­úst ár hvert í tengslum við bæjarhátíðina Í túninu heima.
Hlaupið býður upp á fjórar leiðir og vegalengdir eða 1, 3, 5 og 7 tinda þar sem hlaupið er um fjöll, heiðar og dali Mosfellsbæjar. Geta því allir áhugasamir fundið leið og vegalengd við sitt hæfi í hlaupinu, óháð fyrri hlaupareynslu eða -getu.
Fyrir utanvegahlaupara sem stefna á hlaup erlendis má greina frá því að Tindahlaupið hefur staðist kröfur ITRA (International Trail Running Association) og fengið þrjár af fjórum hlaupaleiðum viðurkenndar sem punktahlaup.
Nánari upplýsingar um hlaupið er hægt að nálgast inn á vefsíðunni Tindahlaup.is.

Gleði og hreyfing í Fótboltafitness

Reynsluboltarnir og frænkurnar Eygerður og Bóel sameina fitness og fótbolta.

Frænkurnar, Eygerður Helgadóttir og Bóel Kristjánsdóttir hafa báðar tekið mikinn þátt í starfi Aftureldingar í gegnum árin og hafa mikla reynslu og menntun í knattspyrnuþjálfun.
Nú gefst Mosfellingum á besta aldri tækifæri til að sækja fótboltanámskeið þeirra sér að kostnaðarlausu. Mosfellingur tók þær frænkur tali á dögunum.

Dönsk fyrirmynd
„Verkefnið hefur verið lengi í fæðingu og Valdimar Gunnarsson framkvæmdastjóri UMSK hafði mikinn áhuga á að koma þessu af stað hér á Íslandi eftir að hafa fylgst með Football Fitness vaxa og dafna í Danmörku.
Valdimar setti sig í samband við okkur og við vorum tilbúnar að skoða þessa hugmynd, okkur þótti hún spennandi. Í framhaldinu hafði hann samband við Danina og fékk frekari upplýsingar um verkefnið ásamt æfingabanka til að styðjast við.“

Samstarfsverkefni KSÍ, UMSK og Aftureldingar
„Ákveðið var, í samstarfi við UMSK, KSÍ og Aftureldingu, að fara af stað með æfingar tvisvar í viku, iðkendum að kostnaðarlausu. UMSK og KSÍ útveguðu búnað og Afturelding æfingaaðstöðu.
Æfingar hófust í byrjun mars og hafa hátt í hundrað manns mætt í heildina síðan, þrátt fyrir það hefur ekki gengið vel að ná upp reglulegri mætingu. En smátt og smátt er að myndast kjarni sem vonandi þéttist þegar á líður.“

Gleði og hreyfing með og án bolta
„Aðalmarkmið Fótboltafitness er gleði og hreyfing með og án bolta. Lagt er upp með þol, styrk, tækni og leikgleði. Það er gert í gegnum hinar ýmsu æfingar með eða án boltans.
Það sem er skemmtilegt við þetta verkefni er að allir geta mætt á æfingarnar sama hvaða grunn þeir hafa. Kannski hefur einhvern alltaf langað til að prófa fótboltaæfingu en ekki treyst sér, þá er þetta einmitt vettvangurinn.
Við höfum fengið fótboltakempur á öllum aldri á æfingar og þær hafa einnig fengið heilmikið út úr æfingunum.“
Æfingar fram á sumar
„Æfingar verða fram á sumar einu sinni í viku á þriðjudögum kl. 20:30 og er mæting við Fellið og þar verða æfingarnar áfram eins og verið hefur en þegar fer að hlýna verður farið út á gervigras eða sparkvöllinn.“
„Við bjóðum alla velkomna á æfingu í Fótboltafitnes,” sögðu þær frænkur, Bóel og Eyja að lokum.

KYNNING

Hafa alla tíð verið umkringd dýrum

Bjarni Bjarnason og Nina Baastad reka húsdýragarðinn á Hraðastöðum í Mosfellsdal.

Á Hraðastöðum í Mosfellsdal er fjölbreytt dýralíf svo vægt sé til orða tekið en Húsdýragarðurinn þar nýtur sívaxandi vinsælda en hann hefur verið starfræktur frá árinu 2013.
Ábúendurnir á bænum, Bjarni, Nina og dætur þeirra, hafa tekið á móti leik- og grunnskólabörnum frá árinu 2004 en flest þeirra koma á meðan sauðburður stendur yfir. Um leið og skólum lýkur taka Sveitasælunámskeiðin við þar sem börnin læra að umgangast dýrin, fóðra þau og njóta sveitarinnar um leið.

Bjarni fæddist 25. apríl 1962. Foreldrar hans eru þau Klara Þórðardóttir og Bjarni Bjarnason bændur á Hraðastöðum. Bjarni á fjögur systkini, Þórhildi f. 1958, Sigrúnu f. 1965, Guðna f. 1971 og Berglindi f. 1973.
Nina fæddist í Noregi 30. ágúst 1969. Foreldrar hennar eru þau Ragnhild Baastad húsmóðir og Per Kristian Baastad vörubílstjóri en hann lést árið 2019. Nina á tvo bræður, Björn f. 1966 og Knut f. 1968.

Fóru í langa útreiðartúra
Bjarni ólst upp á Hraðastöðum og á góðar minningar frá æskuárunum. Minnistæðastar eru ferðirnar sem þau systkinin fóru í með pabba sínum en þá fóru þau ríðandi yfir Mosfellsheiðina að Jórukleif og borðuðu þar nesti. Gott var svo að koma heim í heitan kvöldmat hjá mömmu eftir langan og góðan reiðtúr.
„Við félagarnir hérna í Dalnum vorum mjög duglegir að ríða út og við fórum í margar mjög svo ánægjulegar ferðir saman, þá lágu leiðir oft til Þingvalla eða á Kjalarnesið. Það er sko fátt sem toppar svona túra,“ segir Bjarni og brosir.

Útskrifaðist sem vélfræðingur
Bjarni gekk í Varmárskóla og Gagnfræðaskóla Mosfellsbæjar og á sumrin starfaði hann við bústörf á heimili sínu. Eftir útskrift fór Bjarni í Iðnskólann í Reykjavík til að læra vélvirkjun og eftir úskrift starfaði hann í vélsmiðjum og verksmiðjum.
Hann rekur vélaleigu í dag og starfar sjálfur við gröfuvinnu og snjómokstur. Hans helstu áhugamál eru hestamennska og vélar og allt sem tengist þeim.

Þetta var reynslumikill tími
Nina ólst upp í Trysil í Noregi en þar er að finna eitt stærsta skíðasvæði landsins. Á æskuárunum eyddi hún miklum tíma úti í náttúrunni, var á gönguskíðum, fór í göngutúra, á hestbak eða tíndi ber. Hún hefur alla tíð verið í kringum dýr, bæði með vinnu og sér til skemmtunar en hestarnir eiga hug hennar allan. Nina gekk í grunnskólann í Trysil og með skóla starfaði hún við að mjólka í geitafjósi.
„Skemmtilegasta ævintýri sem ég fór í á æskuárunum var þegar ég fékk að fara í þriggja daga hestaferð en þá var ég tólf ára. Eftir þessa ferð fékk ég sumarvinnu á hestaleigunni í Femundsmarka sem er þjóðgarður. Þetta var rosalega góður og reynslumikill tími, ég kynntist fullt af fólki í sveitinni og fékk að upplifa alvöru sveitaball sem haldið var úti við.“

Útskrifaðist sem búfræðingur
„Ég var 16 ára þegar ég flutti á heimavistina í bændaskólanum í Alvdal og þar var ég í tvö ár. Ég fór svo til Íslands 1988 til að taka verklega hluta námsins. Ég starfaði á Káraneskoti í Kjós í 10 mánuði við að mjólka kýr, fara á hestbak og við almenn störf.
Það var rosalegt ævintýri að koma hingað til Íslands, ég var strax hrifin af menningunni og náttúrunni og auðvitað íslenska hestinum. Ég fór svo aftur til Noregs, kláraði bændaskólann og útskrifaðist sem búfræðingur 1990. Ég fór strax til Íslands eftir útskrift og skellti mér á Landsmót hestamanna fyrir norðan. Á landsmótinu hitti ég yndislegan pilt, sem ég er gift í dag,“ segir Nina og brosir til Bjarna. „Ég hélt svo áfram að ferðast ein hringinn í kringum landið með bakpoka og tjald í viku áður en ég hóf störf í Helgadal í Mosfellsdal.
Ég hóf síðar störf hjá Reykjabúinu og var þar í 10 ár og og í söludeild Nóa og Síríus í 13 ár, svo var ég í vörukynningum fyrir MS um helgar. Sl. fjögur ár hef ég starfað hér heima við og í tvö ár hef ég verið að moka snjó fyrir bæinn.“

Börnin læra að umgangast dýrin
Bjarni og Nina hófu búskap á Hraðastöðum árið 1990. Þau eiga þrjár dætur, Klöru f. 1997, Lindu f. 1999 og Söru f. 2002. Síðastliðin ár hefur tími þeirra aðallega farið í endurbætur á húsum og vélakosti á bænum en þau skreppa þó einu sinni á ári til Noregs til að kíkja á æskuslóðir Ninu.
Árið 2004 byrjuðu þau að taka á móti leik- og grunnskólanemum og gera enn en þessar heimsóknir fara fram yfir sauðburðartímann. Um leið og skólunum lýkur þá byrja Sveitasælunámskeiðin sem heimasæturnar Linda og Sara stýra. Aðsóknin á námskeiðin hefur aukist gríðarlega í gegnum árin og er algengt að börn komi á fleiri en eitt námskeið og sum þeirra koma ár eftir ár. Aldursbilið er frá 6 ára og upp úr og margir hafa eignast góða vini.
Markmiðið með þessu námskeiði er að börnin skemmti sér vel, læri að umgangast dýr og njóti þess að vera í sveitinni. Þau fá að fóðra dýrin og veita þeim ást og umhyggju, moka flórinn, kemba og flétta hestana og þeir sem vilja geta farið á hestbak. Námskeiðin eru viku í senn, þrjár klukkustundir á dag.

Opnuðu húsdýragarð
„Húsdýragarðinn opnuðum við 2013 en sú hugmynd kom upp því stelpurnar okkar vantaði sumarvinnu. Þetta var kjörið tækifæri því öll dýrin voru hér til staðar. Opnunartíminn er mjög mismunandi svo fyrir áhugasama er best að fara inn á hrada­stadir.is til þess að fá nánari upplýsingar.
Garðurinn er opinn fjóra mánuði á ári og hér er hægt að fara á hestbak, setjast á traktora, leika með leikföng, borða nesti úti við og almenningur getur komið með pylsur og grillað.
Við erum líka með hestaleigu á bænum, tökum á móti hópum og bjóðum upp á persónulega þjónustu.
Það var gaman að sjá í Covid hversu margir Íslendingar komu á hestbak. Margir höfðu á orði hversu umhverfið í Dalnum væri fallegt, meira að segja margir Mosfellingar sem hafa bara verið vanir að keyra hér í gegn,“ segir Nina og brosir.

Björt vornótt með fuglasöng
„Við stefnum á að bjóða upp á að fólk geti komið hingað og haldið upp á barnaafmæli og bekkjarkvöld og eins að starfsmannafélög geti komið og notið góðra stunda með dýrunum.
Ég spyr Bjarna og Ninu að lokum hvað gefi þeim mest við að reka húsdýragarð? „Án efa að sjá hvað fólk nýtur þess að koma hingað og vera innan um dýrin og ekki síst fullorðna fólkið,“ segir Bjarni. Og Nina bætir við: „Það er ekkert eins dásamlegt eins og að vera út í fjárhúsum á björtum vornóttum, hlusta á fuglasönginn og horfa á lömbin koma í heiminn,“ og með þeim orðum kvöddumst við.

Úthlutað úr Klörusjóði

Styrkþegar frá Krikaskóla og Helgafellsskóla ásamt Kolbrúnu formanni fræðslunefndar.

Mánudaginn 9. maí voru afhentir styrkir úr Klörusjóði en markmið sjóðsins er að stuðla að nýsköpun og framþróun í skóla- og frístundastarfi í Mosfellsbæ.
Í ­sjóð­inn getur sótt starfsfólk skóla- og frí­stundastarfs og verkefnin geta verið samstarfsverkefni bæði innan og utan skóla. Í ár var áhersla lögð á umhverfisfræðslu og fengu Krikaskóli og Helgafellsskóli úthlutað til eftirfarandi verkefna.

Tími og rými til að kanna umhverfið
UM HVERFIÐ er verkefni sem ætlað er gefa börnunum í Krikaskóla tíma og rými til að kanna umhverfi sitt sérstaklega út frá sínum veruleika, skóla og búsetu hér í Mosfellsbæ. Markmið verkefnisins er að gefa börnunum færi á að að auka skilning sinn á umhverfinu og samspili þess við búsetu.
Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna mun hafa sérstakt vægi í fyrirhuguðu umhverfis­verkefni. Verkefnið hefur öfluga tengingu við skólastarfið í Krikaskóla eins og það er sett fram í almennum hluta skólanámskrár Krikaskóla frá 2021.
Skólanámskrá Krikaskóla er nánari útfærsla skólans á Aðalnámskrám leik- og grunnskóla ásamt þeim lögum og reglum sem um íslenskt skólastarf gilda. Að sama skapi er verkefnið með tengingu við nýútgefna menntastefnu Mosfellsbæjar en vöxtur, fjölbreytni og samvinna eru þrjár grunnstoðir nýrrar menntastefnu Mosfellsbæjar.

Gönguskíði fyrir leikskólabörn
FJÖLBREYTT HREYFING OG ÚTIVIST er verkefni sem hugsað er fyrir leikskólabörn í Helgafellsskóla. Markmiðið er að börnin fái sem fjölbreyttasta hreyfingu og útivist, með því erum við að efla lýðheilsu og umhverfisvitund barnanna.
Með styrknum er ætlunin að fjárfesta í sex pörum af gönguskíðum til að auka hreyfifærni barna og útivistaráhuga. Gott svæði er til að stunda útiveru í nærumhverfi Helgafellsskóla og með hverri ferð út fyrir skólalóðina á sér stað ákveðin umhverfisfræðsla.
Verkefnið er langtímaverkefni sem væri í stöðugri þróun, það gefur augaleið að það myndi eiga sér stað yfir vetrartímann þegar aðstæður leyfa. Búnaðurinn væri eign skólans en vissulega opnað fyrir þann möguleika að lána hann til annarra skóla í sveitarfélaginu.

Uppbygging á Blikastöðum – áhersla lögð á fjölbreytta byggð

Horft yfir Blikastaðalandið af Úlfarsfelli.

Mosfellsbær og Blikastaðaland ehf. hafa undirritað samstarfssamning um uppbyggingu sjálfbærrar og mannvænnar byggðar í landi Blikastaða. 
Í tillögum hefur verið gengið út frá því að sett verði viðmið um að svæðisnýting á þróunarás Borgarlínu verði um 0,4. Til viðmiðunar er Helgafellshverfi þéttast í 0,65 og á Hlíðarenda í Reykjavík 1,4.
Blikastaðaland, sem er um 87 hektarar að stærð og er eitt stærsta óþróaða landið á höfuðborgarsvæðinu, er í eigu Blikastaðalands ehf., dótturfélags Arion banka. Áhersla verður lögð á þrenns konar þéttleika og karakter byggðarinnar undir yfirskriftunum bær, þorp og sveit. Þá er gert ráð fyrir tveimur grunnskólum, fjórum leikskólum og íþróttaðstöðu á svæðinu. 

Hverfið verður hannað frá grunni sem fjölbreytt og blönduð byggð þar sem fólk getur sinnt helstu erindum fótgangandi eða með almenningssamgöngum þar sem Borgarlínan verður í burðarhlutverki. Með því er stuðlað að betri nýtingu náttúrugæða, orku og innviða sem sýnir ábyrgð í umhverfismálum og tryggir lífsgæði komandi kynslóða.
Samráð við íbúa vegna vinnu við skipulag svæðisins er tryggt að lögum en samningurinn rammar inn þátttöku landeigandans í fjárfestingu í innviðum hverfisins.

Byggð á Blikastöðum lengi legið fyrir
„Það hefur lengi legið fyrir að það mun rísa byggð í landi Blikastaða,“ segir Haraldur Sverrisson, bæjarstjóri Mosfellsbæjar.
„Gildandi stefnumörkun um þéttleika á Blikastaða­landi má rekja til svæðisskipulags höfuðborgarsvæðisins og breytinga á því skipulagi sem auglýst var á síðasta kjörtímabili og tók gildi á þessu kjörtímabili. Þar er um að ræða breytingu sem bar heitið „Samgöngu- og þróunarásar fyrir hágæðakerfi almenningssamgangna á höfuðborgarsvæðinu – Borgarlína.“
Þar er kveðið á um þann þéttleika byggðar sem þarf að vera til að bera slíkt samgöngukerfi og það er ein af stoðunum þremur í samgöngusáttmála sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu og ríkisins sem undirritaður var 2019.
Á árinu 2020 kynntu eigendur Blika­staða­lands bæjarstjórn Mosfellsbæjar drög að forsögn fyrir rammaskipulag og þróunar­áætlun. Bæjarráð ákvað að skipa rýnihópa til að rýna framlögð gögn. Að þeirri vinnu lokinni héldu áfram kynningar og vinna rammaskipulags með skipulagsnefnd frá því síðasta haust. Framgangur málsins hefur birst meðal annars á vef bæjarins í fundargerðum skipu

Við Blikastaðabæinn má búast við þjónustu, verslun og afþreyingu.

lagsnefndar.“

Aðkoma íbúa að mótun skipulagsins
„Í forsögn að rammaskipulagi Blikastaða­lands er gert ráð fyrir að uppbygging og skipulag geti verið unnið í þremur til fimm áföngum. Þannig muni landeigendur vinna áfram náið með starfsfólki og kjörnum fulltrúum Mosfellsbæjar að frekari útfærslum.
Í skipulagsferli hafa íbúar jafnframt tækifæri til að koma sínum sjónarmiðum að. Við rýni svæðisins og undirbúning er leitast við að halda í helstu sérstöðu Mosfellsbæjar innan höfuðborgarinnar, þar sem græn byggð og lágreist yfirbragð einkennir bæinn. Í tillögum hefur verið gengið út frá því að sett verði viðmið um að svæðisnýting á þróunarás Borgarlínu verði um 0,4. Frekari útfærslur um ásýnd, gerð og gæði byggðar munu eiga sér stað við gerð deiliskipulags og fara í viðeigandi samráðsferli.“

Bær, þorp, sveit og Borgarlína
Í framsetningu hugmynda er lögð áhersla á þrenns konar þéttleika og karakter byggðarinnar undir yfirskriftunum bær, þorp og sveit. Bærinn verður byggð fjölbreyttra búsetukosta í fjölbýli næst fyrirhugaðri þjónustu og legu Borgarlínu. Þorpið lýsir sér sem smærri fjölbýliskostur í bland við sérbýli í par- og raðhúsum á völdum reitum. Sveitin er svo sá hluti hverfisins sem gengið er út frá að verði vestast á svæðinu og ætlaður sérbýli af fjölbreyttri stærð og gerð.“
Þá telur Haraldur mikilvægt að fram komi að: „Í þeim viðræðum sem hófust síðustu áramót um gerð uppbyggingarsamnings um Blikastaðalandið var því ekki verið að semja um þéttleika eða fjölda íbúða því þær forsendur lágu fyrir eftir umfjöllun í bæjarráði, bæjarstjórn og skipulagsnefnd.
Það er skýrt tekið fram í samningnum og allir fyrirvarar gerðir um að þessa skipulagsvinnu á eftir að vinna með aðkomu íbúa með lögbundnu samráði. Samráðið er líka lykilþáttur í að skapa vandað, umhverfisvænt og mannvænt bæjarumhverfi.
Samningurinn tryggir hins vegar þá fjármuni sem landeigandi skuldbindur sig til að láta af hendi til að standa undir þeim innviðum sem byggja þarf í hverfinu. Þar er um að ræða tvo grunnskóla, fjóra leikskóla og íþróttaaðstöðu.
Þetta var flókin samningagerð enda miklir hagsmunir undir en ég veit að út úr öllu þessu starfi kom mjög góður samningur fyrir Mosfellsbæ.“

Uppbyggingarsamningur án hliðstæðu
„Þetta er uppbyggingarsamningur án hliðstæðu í öllu tilliti. Verðmæti samningsins fyrir Mosfellsbæ er um 10 milljarðar króna sem skiptist annars vegar í 7 milljarða sem greiddir eru með peningum í tengslum við framvindu útgáfu byggingarleyfa og svo byggingu íþróttamannvirkja og hins vegar lóðaréttindi sem metin eru á 3 milljarða. Þetta eru upphæðir sem ekki hafa áður sést í samningum sem þessum.
Samningurinn tryggir farsæla uppbyggingu hér í Mosfellsbæ, uppbyggingu sem er til þess fallin að efla þjónustu og lífsgæði Mosfellinga og efla samfélag okkar á alla lund. Þá verður ekki framhjá því litið að uppbygging í landi Blikastaða verður lykilþáttur í að tryggja gott lóðaframboð á höfuðborgarsvæðinu sem mætir þeirri eftirspurn eftir húsnæði sem við höfum fundið svo vel,“ segir Haraldur.

Heilsuefling og kosningar

Tveir dagar í kosningar. Það skiptir máli hverjir stjórna. Heilsuefling er mér ofarlega í huga þegar ég velti því mér hvaða framboð á að fá kross í kjörklefanum. Ég er búinn að skoða nokkuð vel hvað framboðin segja um heilsueflingu okkar bæjarbúa og hvað þau hafa í hyggju að gera á því sviði. Það sem mér finnst skipta máli er að fólk viti hvað það er að tala um og að það sé trúverðugt að loforð og góðar fyrirætlanir muni verði að veruleika. Íþróttir hafa mikið forvarnargildi, félagslega, andlega og líkamlega. Því betri aðstaða sem íþróttafélögin okkar búa við, því fleiri eru líklegir til þess að æfa reglulega. Peningar sem eru settir í íþróttaaðstöðu skila sér margfalt til baka inn í samfélagið – það er staðreynd.

En heilsuefling snýst ekki bara um skipulagðar íþróttir. Heilsuefling snýst líka um vellíðan barna og unglinga og þar skipta skólarnir mjög miklu máli. Því betur sem krökkum, unglingum og starfsmönnum líður í skólanum, því betur líður okkur öllum. Margfeldisáhrifin eru mikil. Vellíðan og metnaður fara vel saman, það er gaman að gera vel, finna að maður er að ná betri tökum á lífinu og því sem maður fæst við.

Heilsuefling snýst líka um eldri borgara. Við viljum halda eldra fólki eins hraustu og hressu eins lengi og við getum. Bæði vegna þess að þau eiga það skilið eftir allt sem þau hafa gert fyrir komandi kynslóðir og vegna þess að það skilar sér margfalt til baka inn í samfélagið. Því fyrr sem fólkið okkar missir heilsu og getu til að sjá um sig sjálft, því dýrara fyrir samfélagið allt. Umönnum kostar sitt.

Forvarnir og skýr framtíðarsýn á sviði heilsu og vellíðunar er það sem ég legg mesta áherslu í kjörklefanum. Trúverðugleiki er lykilatriði. Innan­tóm loforð gera lítið fyrir mig. Heilsueflandi kosninga­kveðjur!

Heilsumolar Gaua
Mosfellingur 12. maí 2022

Be Happy opnar í Kjarna

Á dögunum opnaði í Kjarnanum fyrirtækið Be happy Iceland. Eigandanum Söndru Ragnarsson er margt til lista lagt en hún meðal annars hannar, saumar og málar.
Sandra er frá Litháen en hefur búið á Íslandi í 23 ár. „Fyrirtækið var stofnað fyrir 13 árum, fyrst í Hafnarfirðinum en ég er sjálf nýflutt í Mosó og er ánægð að vera komin með stúdíóið á þennan skemmtilega stað,“ segir Sandra sem einnig er með heimasíðu þar sem allar hennar vörur eru aðgengilegar.

Fatabreytingar og saumaviðgerðir
„Ég tek að mér fatabreytingar og alls kyns saumaverkefni bæði fyrir einstaklinga og fyrirtæki.
Svo er ég ýmislegt sem ég sauma eins og til dæmis töskur, húfur og hettupeysur. Allar upplýsingar eru á heimasíðunni. Þar eru einnig sokkar, kerti, skartgripir og fleira.
Opnunartíminn er sveigjanlegur hjá mér og um að gera að hafa bara samband við mig annaðhvort í síma 862-3782 eða á netfangið verslun@byhappy.is,“ segir Sandra sem vonast til að Mosfellingar verði duglegir að nýta hennar þjónustu.