Bjarni Bjarnason og Nina Baastad reka húsdýragarðinn á Hraðastöðum í Mosfellsdal.
Á Hraðastöðum í Mosfellsdal er fjölbreytt dýralíf svo vægt sé til orða tekið en Húsdýragarðurinn þar nýtur sívaxandi vinsælda en hann hefur verið starfræktur frá árinu 2013.
Ábúendurnir á bænum, Bjarni, Nina og dætur þeirra, hafa tekið á móti leik- og grunnskólabörnum frá árinu 2004 en flest þeirra koma á meðan sauðburður stendur yfir. Um leið og skólum lýkur taka Sveitasælunámskeiðin við þar sem börnin læra að umgangast dýrin, fóðra þau og njóta sveitarinnar um leið.
Bjarni fæddist 25. apríl 1962. Foreldrar hans eru þau Klara Þórðardóttir og Bjarni Bjarnason bændur á Hraðastöðum. Bjarni á fjögur systkini, Þórhildi f. 1958, Sigrúnu f. 1965, Guðna f. 1971 og Berglindi f. 1973.
Nina fæddist í Noregi 30. ágúst 1969. Foreldrar hennar eru þau Ragnhild Baastad húsmóðir og Per Kristian Baastad vörubílstjóri en hann lést árið 2019. Nina á tvo bræður, Björn f. 1966 og Knut f. 1968.
Fóru í langa útreiðartúra
Bjarni ólst upp á Hraðastöðum og á góðar minningar frá æskuárunum. Minnistæðastar eru ferðirnar sem þau systkinin fóru í með pabba sínum en þá fóru þau ríðandi yfir Mosfellsheiðina að Jórukleif og borðuðu þar nesti. Gott var svo að koma heim í heitan kvöldmat hjá mömmu eftir langan og góðan reiðtúr.
„Við félagarnir hérna í Dalnum vorum mjög duglegir að ríða út og við fórum í margar mjög svo ánægjulegar ferðir saman, þá lágu leiðir oft til Þingvalla eða á Kjalarnesið. Það er sko fátt sem toppar svona túra,“ segir Bjarni og brosir.
Útskrifaðist sem vélfræðingur
Bjarni gekk í Varmárskóla og Gagnfræðaskóla Mosfellsbæjar og á sumrin starfaði hann við bústörf á heimili sínu. Eftir útskrift fór Bjarni í Iðnskólann í Reykjavík til að læra vélvirkjun og eftir úskrift starfaði hann í vélsmiðjum og verksmiðjum.
Hann rekur vélaleigu í dag og starfar sjálfur við gröfuvinnu og snjómokstur. Hans helstu áhugamál eru hestamennska og vélar og allt sem tengist þeim.
Þetta var reynslumikill tími
Nina ólst upp í Trysil í Noregi en þar er að finna eitt stærsta skíðasvæði landsins. Á æskuárunum eyddi hún miklum tíma úti í náttúrunni, var á gönguskíðum, fór í göngutúra, á hestbak eða tíndi ber. Hún hefur alla tíð verið í kringum dýr, bæði með vinnu og sér til skemmtunar en hestarnir eiga hug hennar allan. Nina gekk í grunnskólann í Trysil og með skóla starfaði hún við að mjólka í geitafjósi.
„Skemmtilegasta ævintýri sem ég fór í á æskuárunum var þegar ég fékk að fara í þriggja daga hestaferð en þá var ég tólf ára. Eftir þessa ferð fékk ég sumarvinnu á hestaleigunni í Femundsmarka sem er þjóðgarður. Þetta var rosalega góður og reynslumikill tími, ég kynntist fullt af fólki í sveitinni og fékk að upplifa alvöru sveitaball sem haldið var úti við.“
Útskrifaðist sem búfræðingur
„Ég var 16 ára þegar ég flutti á heimavistina í bændaskólanum í Alvdal og þar var ég í tvö ár. Ég fór svo til Íslands 1988 til að taka verklega hluta námsins. Ég starfaði á Káraneskoti í Kjós í 10 mánuði við að mjólka kýr, fara á hestbak og við almenn störf.
Það var rosalegt ævintýri að koma hingað til Íslands, ég var strax hrifin af menningunni og náttúrunni og auðvitað íslenska hestinum. Ég fór svo aftur til Noregs, kláraði bændaskólann og útskrifaðist sem búfræðingur 1990. Ég fór strax til Íslands eftir útskrift og skellti mér á Landsmót hestamanna fyrir norðan. Á landsmótinu hitti ég yndislegan pilt, sem ég er gift í dag,“ segir Nina og brosir til Bjarna. „Ég hélt svo áfram að ferðast ein hringinn í kringum landið með bakpoka og tjald í viku áður en ég hóf störf í Helgadal í Mosfellsdal.
Ég hóf síðar störf hjá Reykjabúinu og var þar í 10 ár og og í söludeild Nóa og Síríus í 13 ár, svo var ég í vörukynningum fyrir MS um helgar. Sl. fjögur ár hef ég starfað hér heima við og í tvö ár hef ég verið að moka snjó fyrir bæinn.“
Börnin læra að umgangast dýrin
Bjarni og Nina hófu búskap á Hraðastöðum árið 1990. Þau eiga þrjár dætur, Klöru f. 1997, Lindu f. 1999 og Söru f. 2002. Síðastliðin ár hefur tími þeirra aðallega farið í endurbætur á húsum og vélakosti á bænum en þau skreppa þó einu sinni á ári til Noregs til að kíkja á æskuslóðir Ninu.
Árið 2004 byrjuðu þau að taka á móti leik- og grunnskólanemum og gera enn en þessar heimsóknir fara fram yfir sauðburðartímann. Um leið og skólunum lýkur þá byrja Sveitasælunámskeiðin sem heimasæturnar Linda og Sara stýra. Aðsóknin á námskeiðin hefur aukist gríðarlega í gegnum árin og er algengt að börn komi á fleiri en eitt námskeið og sum þeirra koma ár eftir ár. Aldursbilið er frá 6 ára og upp úr og margir hafa eignast góða vini.
Markmiðið með þessu námskeiði er að börnin skemmti sér vel, læri að umgangast dýr og njóti þess að vera í sveitinni. Þau fá að fóðra dýrin og veita þeim ást og umhyggju, moka flórinn, kemba og flétta hestana og þeir sem vilja geta farið á hestbak. Námskeiðin eru viku í senn, þrjár klukkustundir á dag.
Opnuðu húsdýragarð
„Húsdýragarðinn opnuðum við 2013 en sú hugmynd kom upp því stelpurnar okkar vantaði sumarvinnu. Þetta var kjörið tækifæri því öll dýrin voru hér til staðar. Opnunartíminn er mjög mismunandi svo fyrir áhugasama er best að fara inn á hradastadir.is til þess að fá nánari upplýsingar.
Garðurinn er opinn fjóra mánuði á ári og hér er hægt að fara á hestbak, setjast á traktora, leika með leikföng, borða nesti úti við og almenningur getur komið með pylsur og grillað.
Við erum líka með hestaleigu á bænum, tökum á móti hópum og bjóðum upp á persónulega þjónustu.
Það var gaman að sjá í Covid hversu margir Íslendingar komu á hestbak. Margir höfðu á orði hversu umhverfið í Dalnum væri fallegt, meira að segja margir Mosfellingar sem hafa bara verið vanir að keyra hér í gegn,“ segir Nina og brosir.
Björt vornótt með fuglasöng
„Við stefnum á að bjóða upp á að fólk geti komið hingað og haldið upp á barnaafmæli og bekkjarkvöld og eins að starfsmannafélög geti komið og notið góðra stunda með dýrunum.
Ég spyr Bjarna og Ninu að lokum hvað gefi þeim mest við að reka húsdýragarð? „Án efa að sjá hvað fólk nýtur þess að koma hingað og vera innan um dýrin og ekki síst fullorðna fólkið,“ segir Bjarni. Og Nina bætir við: „Það er ekkert eins dásamlegt eins og að vera út í fjárhúsum á björtum vornóttum, hlusta á fuglasönginn og horfa á lömbin koma í heiminn,“ og með þeim orðum kvöddumst við.