Fljúgum hærra

Esjan er falleg. Flestir sem fara á Esjuna fara upp að Steini og svo aftur niður. Langfæstir fara alla leið upp á topp. Upp á Þverfellshorn. Ég sjálfur hafði ekki farið alla leið í svo mörg ár að ég man ekki hvað þau eru mörg fyrr en ég fór á toppinn með konunni og þeim yngsta í síðasta mánuði. Hann var í áheitaverkefni tengt fótboltanum og langaði að hafa göngu upp á Esjutopp hluta af verkefninu. Maður lifandi hvað þetta var gaman!

Svo gaman að ég fór aftur sömu leið viku seinna og stefni á margar fleiri í sumar. Það er ekkert að því að stoppa við Stein, leiðin þangað tekur vel í og útsýnið er fallegt. Síðustu metrarnir upp á topp eru brattari og aðeins meira krefjandi, en leiðin tekur samt bara um korter á jöfnum þægilegum hraða. Það er búið að leggja keðjur og tröppur í klettunum nánast alla leið og flestir þeirra sem komast upp að Steini ættu að geta komist líka á toppinn. Útsýnið þar er enn magnaðra. Síðasti spölurinn á toppinn er skemmtileg áskorun og tilfinningin að hafa farið alla leið frábær.

Afturelding er núna í toppbaráttu í Lengjudeild karla. Þeir stefna á Bestu deildina, alla leið á toppinn. Liðið hefur ekki farið þangað áður, en kvennalið Aftureldingar hefur farið alla leið og ætlar þangað aftur. Aðalþjálfari Aftureldingar hefur farið upp í efstu deild sem leikmaður og lykilmenn í leikmannahópnum hafa farið upp í deildina með sínum liðum. Reynslan og þekkingin er til staðar og það er mikilvægt þegar stefnt er á toppinn – að fara með einhverjum sem hefur farið áður.

Alveg eins og okkar yngsti fékk okkur foreldrana með í sína fyrstu ferð á Þverfellshornið. Aðalmálið er samt að sjá toppinn, vilja fara á hann og trúa því að leiðin sé greið.

Heilsumolar Gaua
Mosfellingur 6. júlí 2023