Ég játa mig sigraða

Anita Pálsdóttir segir ótrúlega sárt að geta ekki hugsað um barnið sitt.

Downs-heilkenni er litningafrávik sem veldur þroskahömlun. Um það bil eitt af hverjum 800 börnum fæðast með heilkennið sem þekkt er um allan heim, þvert á heimssvæði og kynþætti.
Anita Pálsdóttir eignaðist barn með Downs-heilkenni árið 2006. Hún segir að það hafi verið henni mikið áfall þegar hún fékk fréttirnar komin sjö mánuði á leið. Hún fór strax að syrgja barnið sitt sem hún hafði ætlað allt önnur tækifæri í lífinu.

Anita er fædd á Akureyri 25. desember 1967. Foreldrar hennar eru Bjarney Steinunn Einarsdóttir og Páll Helgason tónlistar­maður. Anita á tvo bræður, Helga f. 1963 og Einar f. 1966.

Lékum okkur við Varmána
„Ég ólst upp í Mosfellsbæ frá fjögurra ára aldri en fyrstu árin mín bjuggum við fjölskyldan á Akureyri. Við fluttum í vinnuskúr við Álafoss og leiksvæði okkar krakkanna var á Álafosssvæðinu, í gömlu verksmiðjunni og við Varmána.
Ég man þegar ég og bræður mínir ásamt einum vini vorum að leika okkur á heimagerðum plönkum úti í tjörninni Tító sem er á bak við Þrúðvang. Yngri bróðir minn sem var í þykkri úlpu datt útbyrðis í tjörnina og bróðir minn og vinur okkar náðu honum upp úr með erfiðismunum, þetta situr fast í mér,“ segir Anita alvarleg á svip.
„Við færðum okkur svo um set fjölskyldan, í Byggðarholtið.“

Þar með lauk mínum ferli
„Ég gekk mína grunnskólagöngu í Varmárskóla og fannst gaman í skólanum og mér gekk vel að læra. Ég byrjaði sjö ára að læra á píanó í Tónlistarskólanum í Brúarlandi og þar var ég í eitt ár. Ég byrjaði svo að læra á trompet hjá Lárusi Sveinssyni og var í Skólahljómsveit Mosfellsbæjar í átta ár.
Á unglingsárunum langaði mig að breyta til og fara að læra á annað hljóðfæri en foreldrar mínir tóku það ekki í mál og Lárus ekki heldur svo ég gerði mér lítið fyrir og pakkaði saman dótinu mínu og þar með lauk mínum trompetferli.“

Þetta voru skemmtileg ár
„Við vinkonurnar byrjuðum ungar að stunda handbolta en við spiluðum einnig fótbolta á sumrin. Þegar ég fermdist þá fékk ég hest í fermingargjöf frá foreldrum mínum og fékk í framhaldi mikinn áhuga á hestamennsku, þetta voru skemmtileg ár.
Eftir að grunnskóla lauk þá þurftum við krakkarnir að sækja framhaldsskóla til Reykjavíkur. Ég fór með rútunni alla daga í Verslunarskólann, tók tvö ár þar en kláraði stúdentinn frá Fjölbrautaskólanum í Breiðholti. Ég fór síðar í Tækniskóla Íslands í rekstrarfræði og útskrifast þaðan 2005.
Á sumrin starfaði ég í trefladeildinni á Álafossi, Búnaðarbankanum, skólagörðunum og svo starfaði ég lengi hjá Ragnari Björnssyni á Western Fried en það var aðal kjúklingastaðurinn í Mosfellssveit, ég á góðar minningar þaðan.
Ég ólst upp í dásamlegri sveitasælu sem nú er orðin að stórum bæ sem vex á ofurhraða, hér hefur mikið breyst,“ segir Anita og brosir.

Syngja fyrir eldri borgara
Eftir framhaldsskóla hóf Anita störf hjá Bílasölu Jöfurs, fór þaðan í ritarastarf hjá Sakadómi Reykjavíkur og svo til Alþýðusambands Íslands. Árið 1999 hóf Anita störf sem ritari í Varmárskóla en 2003 færði hún sig yfir á skrifstofu Borgarholtsskóla. Hjá Vátryggingafélagi Íslands starfaði hún í nokkur ár en í dag starfar hún sem móttökuritari hjá Hjartavernd í Kópavogi.
Anita á þrjú börn, Róbert f. 1992, Rakel Dóru f. 1998 og Katrínu f. 2006 og hundinn Pablo Picasso. En hver skyldu vera áhugamál Anitu? „Golfið og tónlistin eru mín áhugamál í dag og svo hjóla ég þegar tími gefst til, öll útivera finnst mér skemmtileg, náttúran, fólkið og dýrin.
Ég hef sungið lengi með Rokkkór Íslands og er líka í sönghóp sem kallar sig Söngelskur. Við höfum verið að syngja mikið fyrir eldri borgara öll gömlu góðu lögin sem þau muna eftir, mjög gefandi og gaman.“

Var nauðbeygð til að fara
Anita var 39 ára er hún gekk með sitt þriðja barn, á meðgöngunni kom í ljós að barnið hafði 3 eintök af litningi númer 21, Downs heilkenni.
„Meðgangan gekk vel og á 20. viku fór ég í sónar eins og ég hafði gert með hin börnin mín tvö. Í sónar virtist allt vera í lagi með litlu skvísuna sem var á leið í heiminn nema það fannst vökvi í brjóstholi sem þurfti að athuga. Eina sem hægt var að gera var að fara í ástungu, því annaðhvort var þetta sýking í fóstrinu eða litningagalli svo ég var eiginlega nauðbeygð að fara í þessa stungu sem ég og gerði, sýking hefði þýtt aðgerð í Svíþjóð. Ég var búin að fara í hnakkaþykktarmælingu og blóðprufu til að athuga með Downs heilkenni en það kom allt vel út.“

Byrjaði strax að syrgja
„Það kom svo á daginn eftir nánari skoðanir að okkar litla snót var með þriðja litning í öllum sínum frumum sem er kallað Downs heilkenni. Þessar fréttir fékk ég þegar tveir mánuðir voru eftir af meðgöngunni. Ég fékk sjokk, grét og byrjaði strax að syrgja litla barnið mitt. Ég hugsaði um hvernig ég gæti verið móðir fatlaðs barns, ég kunni ekkert í þeim efnum. Það tók mig um tvær vikur að syrgja, ég var að syrgja stúlku sem ég hafði ætlað önnur tækifæri í lífinu.
Ég fór í það að læra ýmislegt um Downs heilkennið, hafði samband við foreldra og fékk bara góð viðbrögð. Downs börn geta lifað sómasamlegu lífi alveg eins og við hin og þau geta flest en eru með þroskafrávik, það sem háir þeim mest er samfélagið sem hleypir þeim ekki inn.“

Vildum að þau mynduðu sér skoðun
„Við ákváðum að segja systkinunum ekki frá þessum fréttum, við vildum að þau myndu sjá systur sína áður en þau mynduðu sér skoðun um hana. Katrín fæddist 31. desember 2006, yndisleg mannvera. Viku áður en hún kom í heiminn greindist hún með hjartagalla, þannig að við fórum með hana tveggja mánaða til Boston í hjartaaðgerð sem gekk vel. Ári eftir aðgerðina fór hún að fá flogaköst og svo hefur hún greinst með ýmiss konar önnur frávik, einhverfu, hegðunarröskun og ADHD svo eitthvað sé nefnt.“

Þetta er ótrúlega sárt
„Það er stundum þannig að þegar fólk eignast fatlað barn þá verður það foreldrum ofviða. Hegðun Katrínar minnar var orðin þannig að það var ekki lengur ráðið við, ég játaði mig sigraða og kallaði eftir hjálp, hún er í dag í vistun á Klettabæ og þarf stuðning tveggja aðila allan sólarhringinn.
Að þurfa að ganga í gegnum það að geta ekki hugsað um barnið sitt er alveg ótrúlega sárt því hún er mér alveg jafn kær og hin börnin mín. Við eigum samt okkar góðu gleðistundir saman sem eru gulls ígildi,“ segir Anita að lokum er við kveðjumst.