Tónlist og tímabil

Tónlist er mögnuð. Tónlist getur haft upplífgandi, hressandi, róandi, hvetjandi, skapandi og margs konar áhrif á okkur sem hlustum.

Ég er ekki alæta á tónlist, en get hlustað á margt. Ég hef farið í gegnum nokkur ólík tímabil þar sem fátt komst að í einu. Það fyrsta sem kveikti almennilega í mér var þegar Maggi Jóns setti Ísbjarnarblús kassettu í græjurnar hjá Siggu frænku á Hvammstanga. Við vorum báðir á leið í sveitina og sátum þarna saman í sófanum og hlustuðum á þessa snilld. Bubbi fylgdi mér áfram og ég bætti Adam & the Ants, AC/DC, Kiss og Iron Maiden og fleiri góðum á TDK kassetturnar mínar (Spotify þess tíma).

Svo datt ég á unglingsárum inn í nýrómantíkina. Depeche Mode varð þá besta hljómsveit í heimi og Maiden og Kiss fóru upp í hillu. Duran náði mér svo á efri unglingsárum, man enn eftir því þegar það gerðist. Ég sat unglingslega í hægindastól í Brautarásnum þegar tónleikaferðalagsmyndin þeirra, Sing Blue Silver, fór í gang í sjónvarpinu. Planið var ekki að stökkva inn í þennan heim, en Duran náði mér þarna alveg og Depeche Mode fór upp í hillu með hinum.

Það er of langt mál að telja upp öll tímabilin sem fylgdu á eftir, en á meðal þeirra sem komu við sögu í þeim voru Guns N‘ Roses, Jane‘s Addiction, Radiohead og Villi Vill.

Það skemmtilega, þegar ég er búinn með fyrri hálfleikinn í lífinu, er að nú eru þessi tímabil ekki lengur aðskilin, heldur blandast saman í eitt og ég vel þá tónlist sem ég vil hlusta eftir því hvað ég er að gera og í hvernig skapi ég er.

Stand and Deliver í morgunmat, Dans gleðinnar í hádeginu og Mr. Brownstone seinni partinn. Svo lengi sem lagið gerir lífið betra skiptir ekki máli hvaðan það kemur.

Heilsumolar Gaua
Mosfellingur 11. maí 2023