Þrennt gott

Ég var þátttakandi í alþjóðlegu samstarfsverkefni fyrir nokkrum árum. 10 manns frá 8 mismunandi löndum unnu saman í nokkrar vikur að sameiginlegu verkefni.

Á hverjum morgni voru haldnir stuttir fundir sem gengu út á að draga fram það sem við höfðum gert vel daginn áður og nýta það til þess að gera enn betur í dag. Hver og einn átti að nefna eitthvað þrennt sem hafði gengið vel og mátti á þessum fundi ekki minnast orði á það sem hafði ekki gengið vel – það var rætt á öðrum vettvangi.

Við byrjuðum daginn því með um 30 jákvæð atriði í kollinum og hugmyndir að því hvernig við gætum byggt ofan á þau. Þetta var snúið fyrst. Sumir áttu mjög erfitt með að halda sig frá því að tala um það sem gekk ekki vel, en fundarstjórinn stýrði öllu með myndarbrag og leyfði bara stuttar og jákvæðar setningar. Smám saman lærðu þeir sem voru vanir að einbeita sér að því sem illa gekk og betur mætti fara, að fókusera á það sem þeir og aðrir höfðu gert vel.

Í lok verkefnisins vann hópurinn saman sem smurð vél og átti í engum vandræðum með að nefna þrennt gott á morgunfundunum.

Ég tók þátt í sams konar verkefni ári síðar. Þá voru þessir fundir ekki á dagskránni, menn gáfu sér ekki tíma í þá. Það var verið að prófa nýja tækni, sem krafðist mikils tíma, og hún átti allan hug og hjörtu stjórnenda. Mér fannst það miður, saknaði jákvæðu morgunfundanna sem minntu okkur öll reglulega á hvað við værum að gera góða hluti og hvöttu okkur áfram á uppbyggilegan hátt.

Prófaðu þetta á sjálfum þér í eina viku: Spurðu þig yfir morgunbollanum hvað þú gerðir þrennt gott í gær og hvernig þú getir nýtt þér það til að gera enn betur í dag.

Heilsumolar Gaua
Mosfellingur 17. mars 2022

Ástríða mín að hvetja fólk og sjá það blómstra

Berta Guðrún Þórhalladóttir hefur lengi haft áhuga á hreyfingu og andlegri heilsu. Hún er með mastersgráðu í jákvæðri sálfræði, einkaþjálfararéttindi frá ACE og hefur nýlega lokið námi í markþjálfun.
Berta starfar í dag sem lífstílsþjálfari og segir það mikil forréttindi að geta starfað í sínum heimabæ. Hún þjálfar jafnt hópa sem einstaklinga bæði inni og úti við og veit ekkert betra en þegar hún sér fólkið sitt ná markmiðum sínum.

Berta fæddist í Reykjavík 8. ágúst 1985. Foreldrar hennar eru Guðný Tómasdóttir skrifstofustjóri og Þórhalli Einarsson húsasmíðameistari. Berta á tvö systkini, Bryndísi f. 1974 og Ásgeir Arnar f. 1979.

Þetta var mikið ævintýri
„Ég er alin upp í Foldahverfinu í Grafarvogi og það var frábært að alast þar upp. Ég bjó rétt hjá skólanum og íþróttahúsinu og í hverfinu var fullt af börnum til að leika við.
Ein af mínum góðu minningum úr æsku er þegar foreldrar mínir gáfu mér tækifæri til að fara ein til útlanda til að fara í sumarbúðir en þá var ég 11 ára. Ég fór til Finnlands og dvaldi í mánuð. Þetta var mikið ævintýri, við fengum að gista um helgar hjá finnskum fjölskyldum, kynnast því að fara í sauna og hlaupa svo út í kalda á til að kæla okkur.“

Góðar stundir með ömmu og afa
„Foreldrar mínir ráku fyrirtæki en móðir mín var einnig í fullu starfi annars staðar. Ég var heppin að eiga góða ömmu og afa sem bjuggu í Árbænum. Afi sótti mig alltaf í leikskólann og svo í skólann alveg þangað til ég varð 9 ára.
Amma var með Parkinsons og ég fylgdist vel með hennar baráttu, fékk að fylgja henni í líkamræktarsal þar sem hún fór í æfingar. Ætli megi ekki segja að áhugi minn á heilsu hafi kviknað við það að vera svona mikið í návist ömmu og afa.“

Mikill sveitabragur á öllu
Berta gekk í Foldaskóla og síðar Borgarholtsskóla, með námi starfaði hún við hin ýmsu störf, á frístundaheimilum, verslun, veitingastöðum og við handboltaþjálfun.
„Ég byrjaði að æfa handbolta þegar ég var 11 ára og æfði til 17 ára aldurs. Um tvítugt þá langaði mig aftur í boltann svo ég hóaði saman nokkrum stelpum og við stofnuðum utandeildarlið í Fjölni. Okkur langaði að fá Svövu Ýr Baldvinsdóttur til að þjálfa okkur en það þýddi að við þurftum að færa okkur yfir í Aftureldingu.
Við það að sækja æfingar í Mosfellsbæ kynntist maður bænum vel, það var svo mikill sveitabragur á öllu að ég gjörsamlega heillaðist. Svava Ýr á mikið þakklæti skilið fyrir að ýfa upp þessa góðu upplifun,“ segir Berta og brosir.

Fór ein í bakpokaferðalag
„Eftir útskrift úr Borgó fór ég ein í bakpokaferðalag til Ástralíu og Nýja-Sjálands. Ég fékk leyfi frá foreldrum mínum til þess að fara með því skilyrði að skrá mig í skóla í þrjá mánuði og dvelja hjá fjölskyldu. Ég er mjög þakklát fyrir að hafa gert það því ég er enn í sambandi við fjölskylduna mína þar.
Eftir að ég kom heim þá fór ég í það að flytja að heiman og hóf svo störf hjá Kaupþingi með öllum stórlöxunum þar, ég sá um að færa þeim kaffi og kampavín. Þetta voru satt best að segja áhugaverðir tímar.“

Þetta var skrítinn tími
„Haustið 2006 lá leið mín í Háskólann í Reykjavík í viðskiptafræði. Ég tók eina önn erlendis, dvaldi í Leipzig þar sem ég stundaði nám við þýskan viðskiptaháskóla.
Eftir útskrift fékk ég vinnu hjá Arion banka sem áður var Kaupþing og starfaði þar í miðju bankahruninu. Þetta var lærdómsríkur tími sem ég er þakklát fyrir en hann var líka skrítinn, þetta var í raun smá klikkun. Ég var lánsöm með samstarfsfólk sem ég er enn í sambandi við í dag.“

Fluttu til Danmerkur
Eiginmaður Bertu er Hannes Rúnar Herbertsson rafmagnsverkfræðingur hjá Norðuráli. Synir þeirra eru Þórhalli Leó f. 17. ágúst 2011 og Theodór Nói f. 12. október 2016., d. 15. október 2016.
„Við fjölskyldan fluttum til Danmerkur árið 2013 þar sem Hannes fór í framhaldsnám í verkfræði. Ég fékk vinnu í leikskóla sem matráður og þar lærði ég að tala dönsku. Hannes fékk síðan góða vinnu og við vorum ekkert á leiðinni heim. Lífið lék við okkur, annað barn á leiðinni og við búin að koma okkur vel fyrir í Charlottenlund í úthverfi Kaupmannahafnar.
Síðar kom áfallið, ég fór af stað gengin 34 vikur og Theodór Nói fæddist með hraði, stór og stæðilegur drengur. Allt gekk vel en eftir fæðingu hófst rússíbanareiðin mikla sem ég óska engum að upplifa. Til að gera langa sögu stutta þá var Theodór mikið nýrnaveikur og þurfti að fara beint í öndunarvél. Við vorum lánsöm að tengdamamma var komin út og foreldrar mínir á leiðinni.
Við fengum öll fallegar stundir með Nóa í þá þrjá sólarhringa sem hann lifði.“

Þetta voru erfið skref
„Ég átti mjög erfitt eftir allt sem á undan var gengið en reyndi mitt besta. Hannes minn tók þá ákvörðun fyrir okkur bæði að nú skyldum við flytja heim til þess að ég gæti komist aftur upp á bakkann. Þetta voru erfið skref að stíga en við fengum stuðning úr öllum áttum sem við erum mjög þakklát fyrir.
Við ákváðum að flytja í Mosfellsbæinn eftir mína góðu upplifun af bænum. Systir mín býr hér, foreldrar og bróðir í Grafarvoginum svo staðsetningin var góð upp á að vera nálægt baklandinu. Ég réð mig í fulla vinnu og meira til en ég endaði á vegg. Þarna hófst mín endurhæfing en ég er á góðum stað í dag.
Ég fékk aðstoð víða, Alfa Regína Jóhannsdóttir sem þá var stöðvarstjóri World Class í Mosfellsbæ gaf mér tækifæri þar innan veggja og þannig hófst mín vegferð sem þjálfari hjá World Class. Ég skráði mig í mastersnám í jákvæðri sálfræði sem ég kláraði haustið 2021 frá Buckinghamshire New University. Ég sá svo sóknartækifæri í Covid og bætti við mig markþjálfun.“

Við nýtum þekkingu okkar
„Á meðan á námi mínu stóð var ég svo heppin að Halla Karen Kristjánsdóttir, íþróttakennari hafði samband við mig og bauð mér að stíga inn með sér sem þjálfari fyrir 65 ára og eldri. Ég var fljót að segja já og höfum við stöllur brallað ýmislegt saman síðan þá.
Við Halla höfum verið að þróa námskeið sem við erum með fyrir hópa í Word Class og að Varmá. Við nýtum þekkingu okkar til þess að efla þetta frábæra fólk enn frekar og erum með fræðslu um andlega og líkamlega heilsu. Við erum líka með útifjör fyrir konur á öllum aldri þar sem skemmtun ræður ríkjum.
Ég er svo með hvatningarþjálfun og námskeið fyrir konur í World Class ásamt því að vera með opna hóptíma. Ástríða mín liggur í því að vinna með fólki, hvetja það áfram og sjá það blómstra,“ segir Berta brosandi að lokum er við kveðjumst.

Gefur út plötur á tíu ára fresti

Undanfarið ár hefur tónlistarmaðurinn Bjarni Ómar spilað reglulega fyrir gesti á Barion og getið sér gott orð fyrir vandaðan tónlistarfluting. Hann flutti í Mosfellsbæinn ásamt eiginkonu sinni Öldu Guðmundsdóttur fyrir rúmu ári en þau keyptu sér íbúð í einni nýbyggingunni í Bjarkarholtinu.
„Ég er fæddur á Akureyri en ólst upp á Raufarhöfn frá fimm ára aldri,“ segir Bjarni Ómar sem starfar sem sérfræðingur á kjarasviði Sambands íslenskra sveitarfélaga.
„Samhliða aðalstarfi hef ég alltaf fengist við tónlist og tónlistarflutning. Ég hef komið fram sem söngvari og gítarleikari í rúm 30 ár við dansleikja- og tónleikahald víðsvegar um landið og þá lengst af í hljómsveitum með vinum mínum og félögum frá Raufarhöfn.“

Hver eru helstu tónlistarverkefnin í dag?
„Núna er ég söngvari og gítarleikari í hljómsveitunum Kokkteil frá Raufarhöfn og Sífrera sem báðar eru svona tilfallandi ballbönd og svo er það Nostal sem er virkasta bandið en við æfum reglulega einu sinni í viku allan ársins hring nema yfir heitasta sumartímann.
Nostal spilar á tónleikum nokkrum sinnum á ári og æfir og spilar bæði frumsamið efni en tekur líka fyrir einstaka tónlistarmenn eða hljómsveitir. T.d. spiluðum við á Barion í nóvember þar sem við fluttum lög hljómsveitanna Uriah Heep, Deep Purple og Rainbow við góðar undirtektir.
Svo er ég í skemmtilegu verkefni í Borgarleikhúsinu þessa dagana þar sem ég tek þátt í sýningunni Níu líf. Kem þar inn í miðja sýningu og læt ljós mitt skína.
Ég hef reyndar alltaf gert í því að flytja lög Bubba og hef um nokkurra ára skeið verið með efnisskrá sem ég kalla „Í hlutverki Bubba“ en það varð til löngu áður en ég ákvað að að láta reyna á að komast inn í Níu líf.“

Þú ert þá að semja eigin tónlist og gefa út plötur?
„Já, ég ég setti mér það markmið fyrir rúmum 30 árum að gefa út hljómplötu með eigin efni á a.m.k. tíu ára fresti. Fyrsta sólóplata mín, Annað líf, 12 laga plata kom út árið 1998, Fyrirheit kom út árið 2008 en á henni eru 12 melódísk og róleg popplög sem samin voru yfir stutt tímabil árin 2007-2008. Árið 2018 kom svo út nýjasta platan Enginn vafi en á henni eru 13 lög.
Fyrst og fremst er ég að gefa út plötur fyrir sjálfan mig en auðvitað vonar maður alltaf að aðrir njóti tónlistarinnar. Það hefur alveg gengið eftir og plöturnar fengið ágæta dóma og þokkalega spilun á tónlistarveitum.“

Hvert er viðfangsefni nýjustu plötunnar?
„Ég er að gera upp tímabil þar sem ég gekk í gegnum veikindi, m.a. krabbamein, erfið samskipti, missi og skilnað en líka nýtt upphaf á gömlum grunni með viljann og bjartsýnina að vopni.
Platan er býsna persónuleg, of persónuleg finnst sumum, því lagasmíðarnar og textarnir hafa sprottið upp úr þessum jarðvegi erfiðrar lífsreynslu. Sú reynsla fékk mig til að takast á við lífið og tilveruna með nýju og jákvæðu hugarfari. Nú nálgast ég lífið á hamingjuríkari hátt og er svo ótrúlega heppinn að hafa tekið upp sambúð með Öldu minni aftur og gifst henni í þetta skiptið og auðvitað flutt í Mosó.“

Og hvað er svo fram undan?
„Ég er að hefja upptökur á fjórðu sólóplötunni sem kemur vonandi út ekki síðar en á árinu 2023. Á plötunni verða meðal annars þrjú lög sem ég samdi fyrir skírnir barnabarnana svona út frá afahlutverkinu.
Nokkur kvöld eru svo bókuð á Barion fram að sumarbyrjun. Fyrst er að nefna að ég flyt Bubba prógrammið „Í hlutverki Bubba“ laugardaginn 26. febrúar. Laugardaginn 19. mars, og um páskana, laugardaginn 16. apríl held ég uppi stuðinu á Barion með blandaðri tónlist úr öllum áttum. Nostal endurtekur svo Uriha Heep og Rainbow efnið á Barion föstudaginn 1. apríl og kemur svo aftur með rísandi sól þann 28. maí og spilar lög frá hljómsveitum Bubba.
Vona ég að Mosfellingar og nærsveitungar láti sjá sig á þessum kvöldum því ég lofa fyrst og fremst skemmtilegri kvöldstund.“

 


Fyrir þá sem vilja kynna sér tónlist Bjarna Ómars geta t.d. gert það á Facebook, Spotify og Youtube.

Ásgeir Sveinsson nýr oddviti Sjálfstæðisflokksins

Hluti listans í Kjarna: Efri röð: Rúnar Bragi, Helga, Ragnheiður, Ásgeir, Jana og Elín María. Neðri röð: Hjörtur, Bjarney, Hilmar og Brynja Hlíf.

Prófkjör Sjálfstæðis­flokksins í Mosfellsbæ fór fram laugardaginn 5. febrúar. 17 frambjóðendur gáfu kost á sér og greiddu alls 1.044 manns atkvæði.
Haraldur Sverrisson bæjarstjóri gaf ekki kost á sér til áframhaldandi setu.
Ásgeir Sveinsson formaður bæjarráðs fékk afgerandi kosningu í 1. sæti eða um 70% atkvæða. „Ég hlakka til að halda áfram að gera Mosfellsbæ að enn betra samfélagi með því kraftmikla og hæfileikaríka fólki sem mun mynda samheldinn og sterkan lista flokksins í kosningunum í vor.
Endanlegur listi var samþykktur af fulltrúaráði flokksins en Kolbrún Þorsteinsdóttir (4) og Kristín Ýr (11) þáðu ekki þau sæti sem þær lentu í og mun Helga Jóhannesdóttir varabæjarfulltrúi skipa 4. sætið.


Ásgeir Sveinsson

Sterkur og fjölbreyttur listi fyrir kosningar
„Ég er mjög þakklátur fyrir það sterka umboð sem ég fékk til þess að leiða listann,“ segir Ásgeir Sveinsson. Það voru 17 manns sem tóku þátt í prófkjörinu og 15 af þeim munu taka sæti á listanum okkar sem er mjög ánægjulegt. Listinn er fjölbreyttur í þekkingu, reynslu og aldri, mjög öflugir nýliðar sem bætast í hópinn okkar sem er mjög jákvætt. Það var mjög mikill áhugi á prófkjörinu og það gefur okkur mikinn kraft og bjartsýni inn í baráttuna fyrir kosningarnar 14. maí.
Meirihlutasamstarf D- og V-lista hefur gengið ákaflega vel á þessu kjörtímabili, við höfum náð að uppfylla allflest okkar markmið sem komu fram í málefnasamningi flokkana. Fram undan hjá okkur er málefnavinna og við munum eins og áður leitast eftir samtali við íbúa um hugmyndir inn í þá vinnu.


Jana Katrín Knútsdóttir

Saman getum við gert góða hluti í þágu bæjarbúa
Jana Katrín Knútsdóttir, hjúkrunar- og viðskiptafræðingur hafnaði í 2. sæti í prófkjörinu með 380 atkvæði.
Jana er fædd og uppalin í Mosfellsbæ og segist afar þakklát fyrir stuðninginn.
,,Ég veit að verkefnið er verðugt og ég hlakka til að vinna með þeim fjölbreytta og sterka hópi sem prýðir listann. Ég er sannfærð um að saman getum við gert góða hluti í þágu bæjarbúa,“ segir Jana Katrín.


Framboðslisti Sjálfstæðisflokksins 2022

1. Ásgeir Sveinsson  Bæjarfulltrúi og rekstrarstjóri 
2. Jana Katrín Knútsdóttir  Hjúkrunar- og viðskiptafræðingur
3. Rúnar Bragi Guðlaugsson  Bæjarfulltrúi og framkvæmdastjóri
4. Helga Jóhannesdóttir  Forstöðumaður 
5. Hjörtur Örn Arnarson  Landfræðingur 
6. Arna Hagalínsdóttir  Rekstrar- og fjármálastjóri 
7. Hilmar Stefánsson  Framkvæmdastjóri 
8. Brynja Hlíf Hjaltadóttir  Laganemi 
9. Helga Möller  Söngkona og fyrv. flugfreyja 
10. Ragnar Bjarni Zoega Hreiðarsson  Flugnemi 
11. Davíð Örn Guðnason  Lögmaður 
12. Júlíana Guðmundsdóttir  Lögfræðingur 
13. Gunnar Pétur Haraldsson  Sölu- og þjónustufulltrúi 
14. Kári Sigurðsson  Viðskiptastjóri 
15. Þóra Björg Ingimundardóttir  Sölu- og þjónusturáðgjafi 
16. Franklin Ernir Kristjánsson  Háskólanemi/þjónn 
17. Ragnheiður Ríkharðsdóttir  Fyrrv. bæjarstjóri og alþingismaður
18. Alfa Regína Jóhannsdóttir  Kennari
19. Davíð Ólafsson  Söngvari
20. Elín María Jónsdóttir  Húsmóðir 
21. Ari Hermann Oddsson  Múrari 
22. Bjarney Einarsdóttir  Athafnakona 

Algjör endurnýjun á lista Framsóknar

Efstu sjö á lista Framsóknar: Erla, Sævar, Leifur Ingi, Halla Karen, Hrafnhildur, Aldís og Örvar.

Á félagsfundi þriðjudaginn 22. febrúar var samþykkt tillaga að framboðslista Framsóknar í Mosfellsbæ, en uppstillingarnefnd hefur unnið að mótun listans frá því í nóvember.
Halla Karen Kristjánsdóttir íþróttakennari skipar 1. sæti listans og Aldís Stefánsdóttir viðskiptafræðingur er í 2. sæti.

Áhersla lögð á samtal og samvinnu
„Við, sem skipum lista Framsóknar í Mosfellsbæ, erum hópur fólks sem gefur kost á sér til að taka þátt í að byggja upp samfélag þar sem lögð er áhersla á samtal og samvinnu,“ segir Halla Karen nýr oddviti Framsóknar.
„Þar sem áherslurnar eru skýrar en við getum rætt um leiðir að markmiðunum. Þar sem við missum aldrei sjónar á þeirri ánægju og gleði sem þarf að vera fylgifiskur þess að taka þátt í að byggja upp samfélag. Þar sem við berum virðingu hvert fyrir öðru og þeim sjónarmiðum sem uppi eru á hverjum tíma. Þar sem kjörnir fulltrúar bjóða fram þjónustu sína og styðja við þann mannauð sem fyrirfinnst bæði í stjórnkerfinu og í íbúum bæjarins.“

Fjölmargar áskoranir næstu ár
„Það er af mörgu að taka þegar kemur að áskorunum næstu ára í starfsemi Mosfellsbæjar.
Það hefur varla farið fram hjá nokkrum manni að íbúum hefur fjölgað mikið á síðustu árum. Slíkri fjölgun fylgja áskoranir sem mikilvægt er að ræða.
Heimsfaraldurinn mun án efa skilja eftir sig verkefni sem mikilvægt er að fylgja eftir bæði hjá ungum íbúum og einnig hjá þeim sem eldri eru.
Mikill þrýstingur er á sveitarfélög að uppbygging haldi áfram. Það þýðir áframhaldandi vaxtaverki og innviðauppbyggingu í Mosfellsbæ. Áskoranir sem varða umhverfismál eru miklar og þar verða allir að leggja sitt af mörkum.“

 


Halla Karen Kristjánsdóttir

Sameinumst um góðar ákvarðanir
„Við höfum tækifæri til að hafa áhrif á hvernig við viljum hafa Mosfellsbæ í framtíðinni með því að láta okkur málin varða og sameinast um að taka góðar ákvarðanir sem eru okkur sjálfum og samfélaginu okkar til framdráttar.
Við viljum hvetja öll þau sem hafa áhuga á að koma á fyrsta fundinn okkar, þar getið þið haft áhrif með því að koma með ábendingar eða vinna með okkur að stefnumótun listans og þeirri málefnavinnu sem fram undan er.
Fyrsti opni fundurinn verður á kosningaskrifstofu Framsóknar á 5. hæð í Kjarnanum laugardaginn 26. febrúar kl. 10:00-12:30.
Þín rödd er mikilvæg og þú skiptir máli fyrir bæjarfélagið. Það er okkur mikilvægt að eiga gott samráð og samvinnu við ykkur bæjarbúa og tryggja að raddir sem flestra heyrist.“

 


LISTI FRAMSÓKNAR 2022

1. Halla Karen Kristjánsdóttir  Íþróttakennari
2. Aldís Stefánsdóttir  Viðskiptafræðingur
3. Sævar Birgisson Viðskiptafræðingur
4. Örvar Jóhannsson  Rafvirki
5. Leifur Ingi Eysteinsson  Háskólanemi
6. Erla Edvardsdóttir  Kennari
7. Hrafnhildur Gísladóttir  Tómstunda‐ og félagsfræðingur, Verkefnastjóri
8. Þorbjörg Sólbjartsdóttir  Kennari
9. Hilmar Tómas Guðmundsson  Sjálfstætt starfandi
10. Rúnar Þór Guðbrandsson  Framkvæmdastjóri
11. Hallgerður Ragnarsdóttir  Stjórnmálafræðingur og master í verkefnastjórnun
12. Birkir Már Árnason  Söluráðgjafi
13. Grétar Strange  Flugmaður
14. Ragnar Sverrisson  Matreiðslumeistari og framkvæmdastjóri
15. Matthildur Þórðardóttir  Kennari og stjórnmálafræðingur
16. Ísak Viktorsson  Háskólanemi
17. Bjarni Ingimarsson  Slökkviliðs- og sjúkraflutningamaður
18. Hörður Hafberg Gunnlaugsson  Húsasmíðameistari
19. Ævar H. Sigdórsson  Vélstjóri
20. Ingibjörg Óskarsdóttir  Hjúkrunarfræðingur
21. Níels Unnar Hauksson  Verktaki
22. Eygló Harðardóttir  Matreiðslunemi og fyrrverandi ráðherra

Samvinna og samskipti

Mér hlotnaðist sá heiður haustið 2020 að verða formaður knattspyrnufélagsins Hvíta riddarans. Fyrir mér erum við eitt, Afturelding, Hvíti riddarinn og Álafoss. Þrjú fótboltalið, hvert með sínar áherslur en sameiginlega hugmyndafræði: að allir sem vilja æfa fótbolta geti fundið tækifæri við sitt hæfi. Í dag eru Hvíti riddarinn og Álafoss bara með karlalið, en nú þegar stelpum í fótbolta fjölgar ört í Mosfellsbæ er ekkert því til fyrirstöðu að kvennalið bætist við á næstu árum.

Aðalatriðið er samvinna milli þeirra sem þjálfa og stýra liðunum. Eitt af okkar aðalhlutverkum er að hjálpa ungum knattspyrnuiðkendum að halda áfram að æfa þegar þeir eru gengnir upp úr unglingaflokki og komnir í meistaraflokk. Við viljum halda þeim í íþróttum, það hefur forvarnargildi, er heilsueflandi og félagslega mikilvægt. Samvinnan teygir sig niður í yngri flokkana og í sumar munu leikmenn úr 2. flokki Aftureldingar líka spila leiki með meistaraflokkum Hvíta riddarans og Álafoss. Hér vinna saman yfirþjálfari knattspyrnudeildar Aftureldingar sem og þjálfarar 2. flokks og meistaraflokks liðsins og þjálfarar Hvíta riddarans og Álafoss.

Samskiptin eru regluleg og góð og snúast um að finna tækifæri fyrir þá leikmenn sem eru að nálgast meistaraflokkinn og styrkja þann hóp leikmanna sem mynda kjarnann í meistaraflokkunum. Liðin þrjú leggja áherslu á að byggja sem mest á heimamönnum og skapa þannig sterka tengingu við Mosfellsbæ og Mosfellinga. Þetta eru liðin okkar.

Hvíti riddarinn spilaði æfingaleik við Skallagrím í fyrrakvöld. Hópurinn: Birkir, Guðjón B, Gummi K, Daníel I, Egill, Búi, Kolli, Guðbjörn, Hrafn E, Eiður, Björgvin, Kári, Patz, Davíð, Logi, Eiki. Allt heimamenn. Fjórir úr 2. flokki Aftureldingar.

Ég hef ofurtrú á góðu samstarfi þar sem allir skipta máli og samstaða ríkir um hvert skal haldið. Markmiðin skýr. Mér finnst við vera á þannig leið og get varla beðið eftir fótboltasumrinu sem er fram undan. Áfram veginn!

Heilsumolar Gaua
Mosfellingur 24. febrúar 2022

Skógrækt möguleg og áhugaverð á Mosfellsheiði

Reynir Kristinsson

Kolviður og Skógræktarfélag Mosfellsbæjar hafa lengi haft áhuga á að koma upp loftslagsskógi á Mosfellsheiði til þess að skila henni aftur því sem frá henni hefur verið tekið í gróðri frá landnámi og til að auka við skjól og útivistarmöguleika fyrir Mosfellinga.
Kolviður er sjóður með Skógræktarfélag Íslands og Landvernd sem bakhjarla. Kolviður hefur starfað í 15 ár og gróðursett um 1,5 milljónir plantna víða um land.
Markmið sjóðsins er aukin binding kolefnis í gróðri og jarðvegi í þeim tilgangi að draga úr styrk koltvíoxíðs (CO2) í andrúmslofti. Sjóðurinn vinnur að þessu markmiði með því m.a. að:
a. Gefa fyrirtækjum, stofnunum og einstaklingum tækifæri til þess að gerast kolefnishlutlaus. b. Fjármagna aðgerðir til bindingar kolefnis með landgræðslu og skógrækt. c. Stuðla að verndun jarðvegs og gróðurs. d. Stuðla að aukinni vitund almennings og fyrirtækja um losun gróðurhúsalofttegunda. e. Draga úr heildarlosun gróðurhúsalofttegunda á Íslandi.

Niðurstöður tveggja ára tilraunar
Kolviður hefur látið gera rannsókn á möguleikum skógræktar á Mosfellsheiði.
Settir voru upp 12 afgirtir tilraunareitir á heiðinni og plantað inn í þá furu og birki, einnig var plantað með sama hætti utan við hina afgirtu reiti. Ýmsir þættir voru kannaðir svo sem hitastig, veðrun og lifun plantna.

Björn Traustason

Við fengum þá Reyni Kristinsson formann Kolviðar og Björn Traustason formann Skógræktarfélags Mosfellsbæjar til að skýra þetta betur fyrir okkur.
„Niðurstöður þessarar tveggja ára tilraunar liggja nú fyrir og samkvæmt þeim er skógrækt á Mosfellsheiði möguleg en taka þarf tillit til eftirfarandi þátta.
– Án beitarfriðunar er ekki raunhæft að koma upp skógi á Mosfellsheiði.
– Sumarhiti er nægjanlega hár fyrir skógrækt alls staðar á heiðinni.
– Víða er veruleg hætta á sumarfrostum allt að -3,5°C og kali.
– Velja þarf tegundir sem þola frost á vaxtartímanum, stafafura og birki eru dæmi um tiltölulega þolnar tegundir.
– Mikið vindálag mældist á tilraunarstöðunum og miklar barrskemdir á stafafuru nema þar sem smáplönturnar nutu skjóls.“

Leiðir til aukins skjóls í Mosfellsbæ
Það er álit Kolviðar að Mosfellsheiðin geti verið álitlegur valkostur sérstaklega vestari hluti hennar og niður á Bringurnar.
Fyrst þarf þó að skilgreina svæðið með heimild til skógræktar í nýju aðalskipulagi Mosfellsbæjar sem verið er að vinna að.
„Við höfum lagt til að land sunnan við Þingvallaveg frá Bringum austur að Bugðu verði skilgreint með heimild til skógræktar en þetta eru um 1.800 ha.
Færa þarf um 15 km af núverandi beitargirðingu austar en við það skerðist beitarland á Mosfellsheiði um 2%.“
Kolviður hefur áhuga á að hefja skógrækt á þessu svæði og sjá um færslu girðingarinnar og skógræktina án kostnaðar fyrir Mosfellsbæ.
„Með skógrækt á framangreindu svæði legði Mosfellsbær nokkuð af mörkum til kolefnisbindingar upp í skuldbindingar Íslands í loftslagsmálum, skógurinn yrði opinn til útivistar og hann ætti að leiða til aukins skjóls í Mosfellsdal og Mosfellsbæ. Mosfellsbær og aðrir landeigendur eignast síðan skóginn 50 árum eftir að gróðursetningu lýkur.
Við horfum til þess að Mosfellsheiðin geti komið inn í áætlanir Kolviðar innan fimm ára ef vilji bæjarbúa stendur til þess.
Ákvörðun um skógrækt á Mosfellsheiði kemur líklega til með að liggja hjá nýjum bæjarfulltrúum sem taka við í vor.“

Fyrirtækið vaxið um 40% á ári síðastliðin fjögur ár

Alda Kristinsdóttir og Sigurður Hansson. Múrefni og Vínylparket sameinast undir nafninu Fagefni.

Hjónin Alda Kristinsdóttir og Sigurður Hansson reka gólf- og múrefnaverslunina Fagefni í Desjamýri 8.
„Ég er búin að vera sjálfstætt starfandi í gólfefnabransanum í 30 ár og hef sérhæft mig í því að flota gólf,“ segir Siggi eins og hann er alltaf kallaður.
„Í kringum árið 2000 byrjaði ég að flytja inn múrefni og fleira frá Bretlandi ásamt föður mínum Hans Þór Jenssyni dúklagningameistara, en við unnum saman í 25 ár. Í raun var þetta bara svona hliðarbúgrein til að byrja með en það var svo í kringum 2008 að við stofnum fyrirtæki sem hélt utan um innflutninginn og svo rek ég verktakafyrirtækið Siggi Dúkari“, segir Siggi.

Leggja áherslu á að bjóða aðeins upp á hágæða vörur
„Í kringum 2014 fórum við að leggja drög að versluninni sem slíkri, ég byrjaði á að koma inn í fyrirtækið til að sjá um bókhaldið,“ segir Alda en í dag sér hún um almenna markaðssetningu og reksturinn á búðinni.
Við fórum markvisst í að breikka vöruúrval hjá okkur og meðal annars byrjuðum að flytja inn vínilparket og fleira. Við fluttum svo í Desjamýrina 2018 þar sem við rekum flotta verslun með miklu úrvali af hágæða múrefnum, þéttiefnum og vínilgólfefnum frá heimsþekktum framleiðendum,“ segir Alda.

Góð og persónuleg þjónusta
„Síðastliðin fjögur ár hefur fyrirtækið vaxið um u.þ.b. 40% á ári. Við þjónustum bæði stofnanir, verktaka og einstaklinga. Okkar markmið er að bjóða upp á gæðavöru á hagstæðu verði og veita faglega og persónulega þjónustu og ráðgjöf um allt sem snýr að okkar sviðum í mannvirkjalausnum.
Kúnnahópurinn okkar er fjölbreyttur og við erum þekkt fyrir að þjónusta landsbyggðina sérstaklega vel. Við hvetjum alla Mosfellinga að kíkja á okkur og styrkja verslun í heimabyggð í leiðinni,“ segja Siggi og Alda að lokum en verslunin er opin alla daga frá kl. 8 – 17, nema föstudaga til kl. 16.
Vefverslunin www.fagefni er opin allan sólarhringinn.

Ný lýðheilsu- og forvarnastefna

Eins og flestir íbúar vita þá er Mosfellsbær heilsueflandi samfélag sem þýðir að sveitarfélagið setur heilsu og heilsueflingu í for­grunn við alla stefnumótun og útfærslu á þjónustu í samvinnu við íbúa og starfsmenn.
Hugmyndin á bak við þá nálgun er að þannig sé unnt að stuðla að aðgengi, þekkingu og sterkri umgjörð sem gerir öllum íbúum kleift að taka ákvarðanir sem eru heilsusamlegar. Mosfellsbær var fyrsta sveitarfélag landsins til að gera samning við embætti Landlæknis um að verða heilsueflandi samfélag.
Íþrótta- og tómstundanefnd Mosfellsbæjar ákvað í júní 2019 að setja af stað heildstæða stefnumörkun í lýðheilsu og forvörnum.
Markmiðið með mótun stefnunnar er því að tryggja að í Mosfellsbæ þróist enn öflugra og heilbrigðara samfélag öllum til heilla og að Heimsmarkmið og Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna endurspeglist í lýðheilsu- og forvarnarstefnu bæjarins.

Nýrri stefnu er þannig ætlað að:
• auka þekkingu á mikilvægi heilsueflingar
• auka þekkingu á þeim fjölbreyttu möguleikum sem eru til heilsueflingar innan sveitarfélagsins
• auka þátttöku í heilsueflandi athöfnum
• minnka líkur á athöfnum sem hafa neikvæð áhrif á heilsu og líðan og auka lífsgæði, öryggi og ánægju íbúa
Loks er lýðheilsu- og forvarnarstefnunni ætlað að tryggja að áherslur á sviði lýðheilsu og forvarna séu samþættar við aðrar stefnur sveitarfélagsins og stuðla að samvinnu við íbúa og starfsfólk Mosfellsbæjar.

Um samráð við gerð stefnunnar
Við mótun stefnunnar reyndist ekki unnt að halda opinn fund íþrótta- og tómstundanefndar þar sem kallað yrði eftir hugmyndum íbúa vegna samkomutakmarkana.
19. nóvember til 22. desember 2020 var hins vegar leitað eftir hugmyndum að markmiðum og leiðum við útfærslu áhersluþátta stefnunnar sem þá lágu fyrir í drögum sem byggðust á viðtölum fjölda aðila. Samráðið átti sér stað undir merkinu „Okkar heilsu Mosó“ í samráðsgáttinni Betra Ísland.
Við samráðið settu íbúar fram 30 tillögur sem unnið var úr við lokafrágang þeirra tillagna sem nefndin gerði að sínum.


ÁHERSLUFLOKKAR:

  • Skólastarf þar sem yfirmarkmiðið er að allt skólastarf verði heilsueflandi.
  • Æskulýðs-, félags- og íþróttastarf þar sem yfirmarkmiðið er að tryggja íbúum gott aðgengi að starfinu og að sú starfsemi þróist í takt við þarfir bæjarbúa.
  • Öryggi íbúa og forvarnir þar sem yfirmarkmiðið er að heilsa og öryggi íbúa verði haft að leiðarljósi í allri stefnumótun og að áhersla verði lögð á snemmtæka íhlutun með forvörnum.
  • Íbúar og starfsfólk þar sem yf­irmarkmiðið er að stuðlað verði að stuðningi og aðgerðum til heilsueflingar og aukinna lífsgæða fyrir íbúa og starfsmenn.
  • Heilbrigðisþjónusta þar sem yf­ir­­­markmiðið er að Mosfellsbær sé í virku samstarfi við heilbrigðisyfirvöld um aukinn aðbúnað og gæði heilbrigðisþjónustu.
  • Umhverfi og samgöngur þar sem yfirmarkmiðið er að stuðlað verði að útivist og heilsueflingu í sveitarfélaginu og að íbúar hafi gott aðgengi að útivistarsvæðum og heilsueflandi þjónustu.

Sárt að vera hent í ruslið

Ragnheiður Kristín Jóhannesdóttir Thoroddsen hefur glímt við sjúkdóminn endómetríósu í 37 ár.

Sjúkdómurinn endómetríósa, eða endó eins og hann er gjarnan kallaður í daglegu tali, var áður betur þekktur sem legslímuflakk. Þetta er krónískur fjölkerfa- og fjölgenasjúkdómur sem veldur mismiklum áhrifum á daglegt líf fólks með sjúkdóminn.
Ein af þeim sem hefur glímt lengi við þennan sjúkdóm er Ragnheiður K. Jóhannesdóttir en hún var um fertugt er hún fékk loks greiningu. Hún segir að fordómarnir og skilningsleysið á þessum sjúkdómi sé með ólíkindum og meðferðarúrræðin lítil sem engin.

Ragnheiður fæddist á Fæðingarheimilinu í Reykjavík 1. janúar 1972. Foreldrar hennar eru þau Helga Ragnhildur S. Thoroddsen fv. bankastarfsmaður og Jóhannes Jóhannsson húsgagnasmíðameistari.
Ragnheiður á fjögur systkini, Svein f. 1963, Sverri f. 1965, Eyþór Skúla f. 1975 og Helgu Laufeyju f. 1980.

Sveitin var einn stór ævintýragarður
„Fyrstu þrjú æviár mín bjuggum við fjölskyldan í Reykjavík en svo fluttum við í Mosfellssveitina og ég ólst upp í Teigunum. Sveitin var einn stór ævintýragarður og maður naut náttúrunnar og frelsisins.
Það var mikil samheldi milli krakkanna í hverfinu, á sumrin vorum við „niðri í gili“ á milli Álafosskvosar og Teigahverfisins og á veturna renndum við okkur niður Leifsbrekku. Við vinkonurnar vorum duglegar að fara í sund, rækta grænmeti eða fara í hjólaferðir upp á Hafravatn.
Foreldrar mínir hafa alla tíð verið dugleg að ferðast um landið og það eru ófáar minningarnar þar sem við systkinin hossuðumst aftur í í jeppanum á meðan mamma las fróðleik úr Landið þitt Ísland ferðahandbókinni.“

Tók meðvitaða ákvörðun
Ragnheiður gekk í Varmárskóla og Gagnfræðaskóla Mosfellsbæjar og líkaði vel þrátt fyrir að vera pínlega feimin alla grunnskólagönguna eins og hún orðaði það. „Ég átti auðvelt með nám en feimnin háði mér hins vegar töluvert. Þegar ég byrjaði í Menntaskólanum við Sund þá tók ég meðvitaða ákvörðun um að „hætta að vera svona feimin“ og það tókst bara ágætlega og ég fór að njóta mín betur.
Á sumrin starfaði ég á Álafossi, Reykjalundi, Kaupfélagssjoppunni, Svanssjoppu, Ísfugli og með fötluðum börnum.“

Fékk starf í Portúgal
Ragnheiður fór út á vinnumarkaðinn eftir menntaskólaárin en tók síðar alþjóðlegt diplómanám í Ferðaskóla Flugleiða sem þá var og hét og fékk í kjölfarið sumarstarf á söluskrifstofu félagsins.
„Ég fann að ég var komin á rétta hillu og fékk í framhaldi starf hjá Úrval-Útsýn. Þar starfaði ég í rúm níu ár við hin ýmsu störf. Eftir árabil sótti ég um að fá að starfa sem fararstjóri í Portúgal en ég hafði tekið ástfóstri við landið eftir fyrstu heimsókn þangað. Í Portúgal kynntist ég barnsföður mínum, Antonio, við eignuðumst dóttur saman, Katrínu Noemiu f. 1999. Við Antonio slitum samvistum og við Katrín fluttum heim þegar hún var 2 ára.
Árið 2001 kynntist ég eiginmanni mínum, Hafþóri Ólasyni en hann er faðir yngri dóttur minnar, Birnu Hlínar f. 2004. Við slitum samvistum árið 2009. Við mæðgur höfum gaman af því að ferðast og erum líka duglegar að fara í stuttar dagsferðir.“

Skellti sér í háskólanám
„Ég skellti mér í háskólanám um þrítugt, tók B.S í ferðamálafræði með viðskiptafræði sem aukagrein. Eftir útskrift 2006 fór ég að vinna hjá Valitor í alþjóðaviðskiptum. Starfinu fylgdu rétt eins og starfinu í ferðageiranum reglulegar vinnuferðir erlendis sem hentaði ferðasjúku mér mjög vel,“ segir Ragnheiður og hlær. „Þetta var gríðarlega skemmtilegt og krefjandi starf.“

Gerði allt sem í mínu valdi stóð
„Vorið 2011 sá ég umfjöllun í dagblaði um sjúkdóminn endómetríósu sem vægast sagt vakti athygli mína. Ég var á þessum tíma búin að vera með hita upp á hvern einasta dag í rúm 2 ár og átti fullt í fangi með að halda mér gangandi í daglegu lífi. Ég var búin að ganga á milli lækna og gera allt sem í mínu valdi stóð til að ná betri heilsu, nefndu það, ég var búin að prófa það,“ segir Ragnheiður alvarleg á svip. „Ég hef oft fengið að heyra það frá læknum að ég sé ímyndunarveik, móðursjúk, kvíðin eða þunglynd, ég hef ekki tölu á því og á það meira að segja skriflegt.
Heilsu minni hélt áfram að hraka og líkaminn orðinn undirlagður af verkjum. Ég þurfti að skipuleggja allt mitt líf í kringum blæðingarnar hjá mér og veikindadögunum í vinnunni fjölgaði á ógnahraða.“

Það var engin meðhöndlun
„Ég komst loks að í kviðarholsspeglun en það var eina leið mín til að fá staðfestingu á því hvort ég væri með þennan sjúkdóm. Þarna var ég að verða fertug og búin að glíma við langan lista af einkennum í ára­raðir, sumt síðan ég var barn. Mamma fór með mig fyrst til læknis þegar ég var 13 ára og aldrei minntist nokkur læknir á þennan sjúkdóm.
Niðurstaða speglunarinnar leiddi í ljós að ég var með sjúkdóminn en ég fékk enga meðhöndlun, engar ráðleggingar, ekkert. Ég fór aftur í vinnuna og hélt áfram á síðustu blóðdropunum þangað til ári síðar að ég „krassaði“ algjörlega og var send í veikindaleyfi. Þetta veikindaleyfi átti að vera einn mánuður en er nú orðin rúm átta ár.“

Glími við verki flesta daga
„Ég fékk meðhöndlun fjórum árum eftir fyrstu speglun sem tókst ekki betur en svo að það var skilið eftir eitt stykki endómetrí­ósuæxli á ristlinum á mér því læknirinn sá það ekki, en það var búið að vaxa þarna í nokkur ár. Æxlið var ekki tekið fyrr en tveimur hræðilegum og mjög kvalafullum árum seinna og þá þurfti að stytta ristilinn um 15 cm auk þess sem endó var búið að dreifa sér um kviðarholið.
Ég er með skaddaða þvagblöðru, ristil og búin að missa kvenlíffærin mín. Ég glími við verki flesta daga og er búin að berjast fyrir því að fá að komast í aðgerð en þangað til núna í haust var enginn sérfræðingur í sjúkdómnum hér á landi. Einn slíkur hóf nýlega störf en ég kemst ekki í aðgerð hjá honum þar sem hann fær ekki samning við Sjúkratryggingar. Ég hef sótt um að komast utan í aðgerð en fengið synjun.“

Þetta er grafalvarlegt ástand
„Ég var alin upp í að vera samviskusöm og fara fram úr væntingum í vinnu og hef lagt mig fram við það frá 12 ára aldri. Mig langar ekkert meira en að geta verið út á vinnumarkaðnum. Það er sárt að vera „hent í ruslið“ þegar maður veikist og fá ekki þá heilbrigðisþjónustu sem maður á rétt á samkvæmt lögum. Maður skilur ekki þetta reikningsdæmi hjá yfirvöldum að hafa fólk frekar á örorku en að veita því læknishjálp,“ segir Ragnheiður og hristir höfuðið. „Það er heldur ekkert grín að lifa á lífeyri sem nær ekki lágmarkslaunum.
Skilningsleysið og fordómarnir fyrir þessum sjúkdómi er með ólíkindum og meðferðarúrræðin hér á landi lítil sem engin. Þetta er grafalvarlegt ástand, fjöldinn allur af konum glímir við miklar kvalir án þess að fá neina hjálp. Ég veit um nokkrar á þrítugsaldri sem eru komnar á örorku
Ég hef unnið töluvert með Samtökum um endómetríósu og á eigin spýtur til að vekja athygli á sjúkdómnum með von um betri heilbrigðisþjónustu og skilning. Ef mín saga getur hjálpað þó ekki sé nema einni konu, þá er tilganginum náð.“

Samræming úrgangsflokkunar

Íbúar á höfuðborgarsvæðinu hafa lengi kallað eftir samræmdu sorphirðukerfi við heimili og sérsöfnun á lífrænum eldhúsúrgangi.
Undanfarna mánuði hafa Samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu (SSH) unnið að undirbúningi á slíku og var skýrsla starfshóps um samræmingu og sérsöfnun nýlega kynnt. Mosfellsbær hefur nú þegar samþykkt að taka þátt í samstarfinu.
Stefnt er að því að um mitt ár 2022 hefjist innleiðing á samræmdu sorphirðukerfi við heimili sem felur í sér sérsöfnun á plasti, pappa og lífrænum eldhúsúrgangi. Samræming sorphirðukerfis er stórt framfaraskref sem er hluti af sóknaráætlun höfuðborgarsvæðisins og mun skipta miklu máli í baráttunni gegn loftslagsvánni og fyrir innleiðingu hringrásarhagkerfisins á Íslandi.
„Við hjá Mosfellsbæ höfum lengi barist fyrir umbótum í flokkun á sorpi og tókum strax ákvörðun um að styðja vel við og taka þátt í verkefninu eins og það liggur fyrir núna. Jafnframt samþykktum við sérstaklega að kynna verkefnið fyrir ungmennaráði enda eru það gjarnan ungmennin á heimilunum sem brýna fyrir hinum fullorðnu mikilvægi flokkunar og byggja þannig undir góða siði á sviði umhverfismála,“ segir Haraldur Sverrisson bæjarstjóri Mosfellsbæjar.

Fjórir flokkar af sorpi
Í nýja sorphirðukerfinu er lagt til að fjórum úrgangsflokkum verði safnað við öll heimili á höfuðborgarsvæðinu.
Úrgangsflokkarnir eru:
– Lífrænn eldhúsúrgangur
– Blandað heimilissorp
– Pappír og pappi
– Plastumbúðir
Kerfið er í samræmi við þær breytingar sem taka gildi á lögum um söfnun á úrgangi við heimili um áramótin og er að norrænni fyrirmynd.
Sérsöfnun á lífrænum eldhúsúrgangi er mikilvæg aðgerð til að gas- og jarðgerðarstöð Sorpu í Álfsnesi geti unnið moltu úr lífrænum eldhúsúrgangi frá höfuðborgarsvæðinu, og er lagt til að lífræna eldhúsúrgangnum verði safnað í bréfpoka sem sveitarfélögin útvegi íbúum til að tryggja hreinleika efnisins í moltugerð.

Fleiri og betri grenndargámar
Til viðbótar við fjögurra flokka kerfi við heimili er lagt til að grenndarstöðvanet höfuðborgarsvæðisins verði þétt og að gleri, málmum, textíl og skilagjaldsskyldum umbúðum verði safnað á öllum grenndarstöðvum, ásamt plasti, pappír og pappa á stærri stöðvum.

Brian Clough

Brian Clough er einn af áhugaverðustu knattspyrnustjórum sögunnar. Hann stýrði Hartlepool, Derby, Brighton og Leeds (í nokkra daga) áður en hann tók við Nottingham Forest. Hann tók Forest upp í efstu deild á Englandi árið 1997, vann efstu deild með liðinu árið eftir og gerði liðið að Evrópumeisturum meistaraliða (nú Champions League) tvö ár í röð.

Clough var markaskorari sem leikmaður, skoraði 251 mörk í 274 leikjum með Middlesbrough og Sunderland. Hann hefur haft mikil áhrif á knattspyrnustjóra nútímans og er og verður alltaf goðsögn í borg Hróa Hattar.

Hann var maður einfaldleikans og náði árangri með því hugarfari. „Ég var aldrei hræddur, líkamlega. Starfslýsingin mín var einföld og skýr, að koma boltanum í netið. Það var mitt verkefni og ég leyfði engu og engum að afvegaleiða mig frá þeim tilgangi.“

Skilaboð hans til leikmanna þegar hann var orðinn knattspyrnustjóri voru skýr. Spilið boltanum á jörðinni og komið honum í netið. Hann lagði mikla áherslu á að hver og einn leikmaður ætti að einbeita sér að því sem hann væri góður í, ekki velta sér endalaust upp úr veikleikum sínum og leggja mikla vinnu í að bæta sig þar.

Ég hugsa stundum til Brian Clough þegar lífið virðist flókið og þræðir þess margir og út um allt. Sé hann fyrir mér í grænu peysunni sinni á hliðarlínunni á City Ground, sallarólegan og sjálfsöruggan, vitandi að einfaldleikinn er bestur.

Við þurfum ekki að geta allt eða vita allt. Okkur líður best og náum mestum árangri þegar við útilokum áreiti og einbeitum okkur að því sem við erum góð í og höfum gaman af. Hvort sem það er að skora mörk, stýra teymum til sigra eða eitthvað allt annað.

Í hverju er þú góð/ur? Hvar nýtur þú þín best? Hvernig geturðu gert meira af því og minna af öllu hinu?

Heilsumolar Gaua
Mosfellingur 3. febrúar 2022

Fjölbreyttur matseðill og framúrskarandi þjónusta

Ólafur og Einar, vertar á Blik Bistro.

Í september síðastliðnum tóku þeir Ólafur Guðmundsson og Einar Gústafsson við rekstrinum á veitingastaðnum Blik Bistro sem rekinn er í Kletti, íþróttamiðstöð Golfklúbbs Mosfellsbæjar.
„Við tókum við hér í lok golftímabilsins og líka veitingasölu í Bakkakoti í Mosfellsdal. Við höfum síðan þá reynt að vera hugmyndaríkir hvernig við getum gert hlutina sem best á þessum skrýtnu tímum.
Við erum báðir í Golfklúbbi Mosfellsbæjar og sjáum mikla rekstrarmöguleika hér á þessum frábæra stað, held að það séu ekki margir veitingastaðir á höfuðborgarsvæðinu sem bjóða upp á fallegri staðsetningu og útsýni,“ segir Ólafur en þeir félagar hafa mikla reynslu í þessum geira, Ólafur sem rekstrarstjóri og Einar sem matreiðslumaður.

Pizzatilboð á fimmtudögum
„Þetta hefur gengið vel og við lítum á staðinn sem veitingastað fyrir Mosfellinga, leggjum mikla áherslu á fjölbreyttan og vandaðan matseðil og framúrskarandi þjónustu.
Við erum með alls kyns nýjungar, til dæmis byrjaðir með tilboð á pizzum á fimmtudögum. Allar pizzur eru þá á 1.990 kr. Við erum alltaf með með eina pizzu vikunnar sem er þá ekki á matseðli til að auka fjölbreytnina og kanna viðtökur.
Það er margt fram undan og ætlum við að stíla meira upp á beinar útsendingar frá íþróttaviðburðum og vera þá með tilboð í samræmi við það,“ segir Einar.

Þorrablót og aðrar uppákomur
Boðið verður upp á fimm rétta matseðil á bóndadaginn og þann 22. janúar verður þorrablót á Blik. „Við ætlum að vera duglegir að nýta þessa sérstöku daga og þar sem búið er að fresta Þorrablóti Aftureldingar ætlum við að bjóða upp á að litlir hópar geti komið hingað í staðinn og blótað þorra.
Einnig ætlum við að vera með uppákomur á Valentínusardaginn og konudaginn. Þessir viðburðir verða sérstaklega stílaðir á Mosfellinga svo að bæjarbúar þurfi ekki að leita út fyrir bæinn til að gera sér glaðan dag.“

Vínklúbbur
„Það er gaman að segja frá því að við erum að byrja með í samstarfi við birgjana okkar, vínklúbb. Það verður þannig að í hverri viku, líklega á miðvikudagskvöldum kemur einn af birgjunum og kynnir ákveðin vín og jafnvel pörun á víni og mat. Hugmyndin er svo að rétt áður en golftímabilið byrjar þá höldum við veglegt galakvöld fyrir meðlimi vínklúbbsins.
Allar upplýsingar um vínklúbbinn og aðrar uppákomur er hægt að nálgast á heimasíðunni okkar og facebook. Það verður mikið um að vera hjá okkur og við hvetjum alla til að fylgjast með,“ segir Ólafur.

Einstakur staður á einstökum stað
„Okkur hefur verið tekið rosalega vel af klúbbmeðlimum og Mosfellingum öllum. Það er gaman upplifa þessa skemmtilegu bæjarstemningu, nálægðina við fólkið og náttúruna. Við erum með opið kl. 11-22 alla virka daga, við erum með rétt dagsins og bjóðum fyrirtækjum upp á klippikort á sérstökum kjörum. Við erum alla vega spenntir fyrir komandi tímum og hlökkum til að taka á móti sem flestum Mosfellingum,“ segja þeir félagar að lokum.

Frelsið í æsku mótaði mig

Jóhannes Vandill Oddsson átti sér alltaf draum um að verða bóndi en áhugi hans á bústörfum, hestamennsku og fiskeldi kviknaði á æskuárum hans í Mosfellssveitinni. Hann naut þá leiðsagnar reynslumikilla manna og lagði þar með drög að lífsbók sinni enda hafa dýrin aldrei verið langt undan.
Í dag dvelur Jói löngum stundum ásamt fjölskyldu sinni að Grenjum við Langá í Borgarfirði en þar hafa þau gert upp eyðibýli og stunda nú frístundabúskap með hesta og kindur.

Jóhannes Vandill Oddsson er fæddur á Reykjalundi 12. júní 1956. Foreldrar hans eru þau Ragnheiður Jóhannesdóttir hárgreiðslumeistari og Oddur Ólafsson yfirlæknir á Reykjalundi og alþingismaður en þau eru bæði látin.
Jóhannes er yngstur sex systkina, Vífill f. 1937, Ketill f. 1941, Þengill f. 1944, Ólafur Hergill f. 1946 og Guðríður Steinunn f. 1948.

Alinn upp á Reykjalundi
„Ég var alinn upp á Reykjalundi þar sem faðir minn var yfirlæknir. Það var mjög líflegt og skemmtilegt að alast þar upp umkringdur sjúklingum og fjölskyldum starfsmanna. Í þá daga var engin leikskóli heldur léku börn sér saman á svæðinu alla daga.
Jólin á Reykjalundi eru mér eftirminnileg, þá borðuðu allir saman, sjúklingar, starfsmenn og fjölskyldur, svo var sungið, spilað og dansað í kringum jólatréð.
Tengslin og samskiptin við sjúklinga á Reykjalundi voru mikil og lærdómsrík.“

Alltaf nóg að gera í bústörfunum
„Ég var mjög fjörugur sem barn og unglingur og var oft óþolinmóður, átti það til að taka sprettinn heim úr skólanum í stað þess að bíða eftir skólabílnum.
Ég hafði snemma áhuga á dýrum og sótti mikið á Reyki til Jóns bónda. Það var alltaf gaman að koma þangað og nóg að gera í bústörfunum. Ég tók ungur þátt í að slátra ásamt Binna vinnumanni, sjálfur hafði ég ekki áhuga á slátruninni, vildi heldur flýta fyrir þannig að við kæmumst í hesthúsið og í útreiðartúr,“ segir Jói og brosir. „Þarna kviknaði áhuginn minn á bústörfum og hestamennsku.“

Hef alltaf verið framkvæmdaglaður
„Við félagarnir fórum oft hjólandi upp að Hafravatni og veiddum þar í vatninu. Eitt sinn veiddum við bleikjur og bárum í fötu yfir í Skammadal ofan Reykjalundar og slepptum þeim þar í litla á. Þarna kviknaði áhugi minn á ræktun á fiski.
Það má segja að uppvöxturinn og frelsið í barnæsku hafi mótað mig talsvert, ég hef alltaf verið framkvæmdaglaður og verið óhræddur við að fara mínar eigin leiðir í lífinu.
Foreldrar mínir ferðuðust mikið og á meðan bjó Eva föðursystir mín á heimili okkar og hugsaði afar vel um mig alla barnæskuna. Hún las mikið fyrir mig og sérstaklega er mér minnisstæð bókin um Óla Alexander.“

Hafði taugar til Hafna
„Sumrin á Vopnafirði voru líka skemmtileg en þar dvaldi ég með fjölskyldunni meðal annars þegar sprengt var fyrir laxastiga í Selá og seiði flutt milli landshluta á vörubíl. Þar með var lagður grunnur að einni bestu og fallegustu laxveiðiá landsins en á framkvæmdatímanum bjuggum við m.a. í sundlauginni í Selárdal.
Faðir minn hafði miklar taugar til Hafna þar sem hann var fæddur og uppalinn. Það voru ófáar ferðirnar sem við fórum þangað til að heimsækja fólk, taka á móti bátum á leið í land og njóta náttúrunnar.“

Stofnaði eigið fyrirtæki
Jóhannes gekk í Varmárskóla og Brúarlandsskóla sem barn og síðar í Lindargötuskóla og lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum við Hamrahlíð.
„Mér líkaði almennt vel á skólagöngu minni og eignaðist marga góða vini og félaga. Stundaði íþróttir af kappi, m.a. knattspyrnu, fimleika og hóf síðar hestamennsku.
Ég stofnaði snemma mitt eigið fyrirtæki, Hafnarsand s.f. sem ég hef starfrækt í áratugi. Sinnti þar verkefnum í sandsölu, vegagerð og við nýbyggingar. Ég sérhæfði mig í gerð keppnisvalla og vann við lagningu yfirborðsefnis í reiðhallir. Ég hef sinnt verkefnum um allt land en þó mestmegnis á höfuðborgarsvæðinu.“

Fluttu í Hamraborgina
Eiginkona Jóhannesar er Þóra Arnheiður Sigmundsdóttir fyrrv. bankastarfsmaður. Þau eiga tvær dætur, Ragnheiði f. 1975, maki hennar er Sigurjón Gunnlaugsson, þau eiga tvö börn, Þóru Maríu og Sindra. Hrafnhildur f. 1982, maki hennar er Jógvan Hansen, þau eiga tvö börn, Jóhannes Ara og Ásu Maríu.
„Við Þóra byggðum okkar fyrsta húsnæði í smáíbúðahverfinu í Reykjavík og svo hesthús í Mosfellssveit en byggðum síðan á kunnuglegum slóðum í Grenibyggð, nálægt Reykjalundi. Árið 1996 fluttum við svo í Hamraborgina, hús foreldra minna sem þau byggðu á sínum tíma og þar búum við enn. Í kringum Hamraborgina gróðursettum við pabbi fjölda trjáa sem standa enn í dag. Hér er alveg dásamlegt að vera,“ segir Jói um leið og hann sýnir mér allan gróðurinn í kringum húsið.

Farið víða á hestbaki
„Við fjölskyldan höfum verið dugleg að ferðast saman bæði hérlendis og erlendis, fara í hestaferðir og stunda laxveiðar. Við höfum ferðast mikið á hestbaki með góðu fólki vítt og breitt um Ísland ásamt því að fara í hestaferð á Ítalíu.
Ógleymanlegar eru trússferðir án vélknúinna ökutækja á hálendi Íslands, í kringum jökla og óbyggðir á Vestfjörðum. Á sumrin stundum við laxveiðar við Langá og Selá, þar sem fjölskyldan á íverustaði. Í gegnum tíðina hef ég haft áhuga á og prófað ýmis konar ræktun m.a. kálfa-, anda-, fjár- og hrossaræktun.“

Bústörfin veita mér ómælda gleði
„Í 20 ár hef ég starfað við veiðivörslu við Langá í Borgarfirði á sumrin en það hentaði vel með vinnu, frístundabúskap, hrossaræktun og áhugamálum okkar.
Okkar annað heimili er Grenjar við Langá í Borgarfirði, í dag er ég frístundabóndi með 20 hesta og um 100 kindur og líkar það vel, við dveljum þarna löngum stundum. Við gerðum upp gamlan bæ sem var kominn í eyði og höfum nýlega lokið við að byggja skemmu. Bústörfin taka mikinn tíma en þau veita mér ómælda gleði ásamt samveru með fjölskyldu og vinum.
Ég horfi bjartsýnn og jákvæður til ársins 2022, þrátt fyrir Covid-ástandið. Næg eru verkefnin í sveitinni og við Hamraborgina en mitt stærsta verkefni akkúrat núna er að ná betri heilsu en ég hef barist við krabbamein síðastliðin 5 ár með hléum. Við skulum vona að þetta sé allt á uppleið, við krossum fingur alla vega,“ segir Jói og brosir er við kveðjumst.

Þorrablótsnefndin með plan A, B, C og D

Ásgeir og Rúnar Bragi fara fyrir þorrablótsnefd Aftureldingar líkt og síðastliðin 13 ár.

Þorrablót Aftureldingar hefur verið stærsti viðburður í skemmtana- og menningarlífi Mosfellinga mörg undanfarin ár. Mikil stemming hefur skapast fyrir blótinu og fólk skemmt sér konunglega og ávallt mikil eftirvænting í loftinu þegar þorrinn nálgast.
Á síðasta ári féll þorrablótið niður og nú er spurning hver staðan er. Rúnar Bragi Guðlaugsson og Ásgeir Sveinsson hafa verið forseti og varaforseti þorrablótsnefndar Aftureldingar undanfarin 13 ár, og hafa þeir ásamt hópi af öflugu fólki í þorrablótsnefnd skipulagt þennan vinsæla viðburð allan þann tíma.

Fleiri plön á teikniborðinu
„Það var mjög leiðinlegt að þurfa að sleppa blótinu í fyrra og því miður eru blikur á lofti aftur í ár með þorrablótið,“ segja þeir félagar. „Upphaflegt plan var að halda þorrablót 22. janúar en nú er útséð með að það gangi vegna sóttvarnartakmarkana.
Við í nefndinni viljum samt gera allt til þess að þorrablót verði haldið með einhverju sniði og við erum með plan B, C og D tilbúið eftir því hvernig staðan í faraldrinum þróast.
Plan B er að halda þorrablótið laugardaginn 19. febrúar sem er síðasti laugardagur í þorra og yrði það þá með hefðbundu sniði.
Plan C er að halda viðburð 26. mars sem yrði með sams konar sniði og þorrablót, en öðruvísi mat og þema.
Plan D er að halda viðburð 30. apríl með sama sniði og hefði verið haldið 26. mars.

Ein stærsta fjáröflun Aftureldingar
„Við finnum fyrir mkilli stemningu fyrir því að halda lífi í þessum viðburði þó svo að það þurfi að fresta honum eitthvað fram á vor og með þessu plani er nefndin að hugsa í lausnum og koma til móts við þær fjölmörgu óskir um að halda stóran styrktarviðburð fyrir Aftureldingu um leið og færi gefst.
Mosfellingar eru orðnir spenntir fyrir því að komast á stórt og skemmtilegt djamm, og svo má ekki gleyma því að þetta er ein stærsta fjáröflun Aftureldingar á hverju ári og því mjög slæmt ef þetta fellur niður annað árið í röð.
Við verðum bara að vona það besta og við sjálfboðaliðarnir í nefndinni og þeir fjölmörgu aðrir velunnarar Aftureldingar sem koma að þessu á hverju ári verðum tilbúin að setja þetta í gang þegar og ef aðstæður leyfa.“