Mosfellsbær tekur alfarið við starfsemi Skálatúns

Mosfellingarnir Ásmundur Einar barnamálaráðherra, Sigrún Lóu íbúi á Skálatúni og Regína bæjarstjóra Mosfellsbæjar.

Fimmtudaginn 25. maí var undirritaður samningur um að Mosfellsbær taki alfarið að sér að annast og þróa áfram þjónustu við íbúa Skálatúns en í dag búa þar 33 einstaklingar. Skálatún er rekið af IOGT á Íslandi sem hefur ákveðið að ánafna fasteignir og lóð Skálatúns til nýtingar í málefnum barna og fjölskyldna.
Stofnuð verður sjálfseignarstofnun um fasteignir Skálatúns og verður framsal lóðaréttinda til sjálfseignarstofnunarinnar bundið þeirri kvöð að framtíðaruppbygging á svæðinu verði einungis í þágu hagsmuna barna og fjölskyldna auk þess sem frekari takmarkanir eru á framsali landsins.

Miðstöð barna að Skálatúni
Þá var skrifað undir viljayfirlýsingu milli mennta- og barnamálaráðuneytis og Mosfellsbæjar sem lýtur að því að stofnanir ríkisins sem sinna málefnum barna, samtök sem vinna í þágu barna og þjónustuaðilar barna, verði staðsett að Skálatúni í nokkurs konar miðstöð barna.
Loks var undirritað samkomulag um að jöfnunarsjóður yfirtaki skammtímaskuldir Skálatúns og greiði Mosfellsbæ 240 m.kr. viðbótarframlag árlega næstu 10 árin.

Starfsfólki boðið áframhaldandi starf
„Við í bæjarstjórn Mosfellsbæjar fögnum því að niðurstaða sé komin í viðræður um framtíðarskipan á rekstri Skálatúns,“ segir Halla Karen Kristjánsdóttir formaður bæjarráðs. „Sú uppbygging sem er ráðgerð á svæðinu mun opna spennandi möguleika á þróun og nýsköpun í þjónustu við börn og fjölskyldur á Íslandi. Í þeim samningum sem liggja fyrir er sérstaklega gætt að hagsmunum íbúa Skálatúns og tryggt að þeir njóti þeirrar þjónustu og aðbúnaðar sem þeir eiga rétt á. Öllu starfsfólki verður boðið áframhaldandi starf og það boðið velkomið í starfsmannahóp Mosfellsbæjar.“

Með virðingu við íbúana að leiðarljósi
Mjög góð samvinna hefur verið um þessi verkefni í bæjarstjórn Mosfellsbæjar. „Að loknum fundi bæjarráðs var haldinn aukafundur í bæjarstjórn og strax í kjölfarið starfsmannafundur á bæjarskrifstofunum. Í framhaldi var boðað til starfsmannafundar á Skálatúni en þar starfa rúmlega 100 manns. Þar sköpuðust góðar umræður um það mikilvæga starf sem fram undan er og samstaða um að vinna verkin saman,“ segir Regína Ásvaldsdóttir bæjarstjóri.
Í framhaldi af þeim fundi var fundað með íbúum Skálatúns og aðstandendum þeirra. Eins og við var að búast komu fram fjölmargar spurninga á þeim fundi, meðal annars um hvað verði um þá fötluðu íbúa sem búa á Skálatúni í dag. Okkar svör eru þau að við förum í þetta verkefni með virðingu við íbúana að leiðarljósi og berum hag þeirra fyrst og fremst fyrir brjósti. Þeir sem þess óska fá að búa áfram á Skálatúni en við munum þurfa að bretta upp ermar og bjóða upp á aðra búsetukosti fyrir þá sem vilja búa sjálfstæðar. Næstu vikur og mánuðir fara í að kynnast íbúum og starfsmönnum betur og auglýst hefur verið eftir leiðtoga í málaflokk fatlaðs fólks hjá Mosfellsbæ til að leiða þessar mikilvægu breytingar.“

Uppbygging fyrir börn og fjölskyldur
Sú uppbygging sem stefnt er að felur í sér að aðilar sem veita börnum og fjölskyldum þjónustu, stofnanir ríkisins, félagasamtök og aðrir aðilar verði staðsettir á sama svæðinu. Markmiðið með því er að auka samstarf og samtal milli aðila, samnýta yfirbyggingu, lækka rekstrarkostnað og bæta aðgengi fyrir börn og fjölskyldur að þjónustu mismunandi aðila á sama stað. Þá stendur einnig til að leita leiða til þess að veita aukna og samþætta þjónustu til þeirra barna sem glíma við fjölþættan vanda og þurfa á miklum stuðningi að halda.