Gildran undibýr endurkomu í haust

Þórhallur Árnason, Karl Tómasson, Birgir Haraldsson og Sigurgeir Sigmundsson. 

Mosfellska hljómsveitin Gildran hefur ákveðið að koma saman í haust og blása til tónleika undir yfirskriftinni „Nú eða aldrei“.
Hljómsveitin var stofnuð árið 1985 og fagnar því brátt 40 ára afmæli. Sveitin er skipuð þeim Þórhalli Árnasyni, Karli Tómassyni, Birgi Haraldssyni og Sigurgeiri Sigmundssyni.

Gildran kemur nú saman eftir nokkurt hlé og varð heimabærinn fyrir valinu eins og oft áður. Helgina 6.-7. október er orðið uppselt á tvenna tónleika í Hlégarði og seldust miðar upp á augabragði.
Nú hafa þeir félagar ákveðið að fara norður í land og spila á Græna hattinum tveimur vikum síðar og bæta síðan við tónleikum í Hlégarði 4. nóvember.

„Það er gríðarleg tilhlökkun í okkur félögum að hefja störf á ný við tónleikahald, sköpun og upptökur á nýju efni,“ segir í tilkynningu frá hljómsveitinni. Þessi magnaða rokkhljómsveit, Gildran, hefur á löngum starfsaldri skipað stóran sess í mosfellsku menningarlífi í gegnum tíðina.


NU EÐA ALDREI
6. október – Hlégarður – UPPSELT
7. október – Hlégarður – UPPSELT
20. október – Græni hatturinn, Akureyri
4. nóvember – Hlégarður, Mosfellsbæ
Miðasala á Tix.is og graenihatturinn.is.