Hlín Blómahús í 30 ár – fyrst og fremst þakklát
Hlín Blómahús fagnaði 30 ára afmæli þann 8. maí. Það eru hjónin Hlín Sveinsdóttir og Sigþór Hólm Þórarinsson sem eiga og hafa rekið blómabúðina í þennan tíma.
„Við erum fyrst og fremst þakklát fyrir þessi ár og einstaklega trygga viðskiptavini. Við opnuðum hér í þessu húsi 1993, fluttum í skamman tíma í Krónuhúsnæðið, vorum á tímabili með reksturinn heima en komum aftur hingað árið 2015,“ segir Hlín sem tekur brosandi á móti öllum viðskiptavinum.
Náttúruskreytingar okkar sérstaða
„Sérstaða okkar hefur alltaf verið náttúruskreytingar og við nýtum fallegu náttúruna hér í sveitinni til efnisöflunar. Við erum alltaf með fjölbreytt úrval af afskornum blómum, pottaplöntum, pottum og fleiru.
Það má segja að búðin sé mjög árstíðabundin, nú erum við með sumarblómin, á haustin einblínum við á haustskreytingar og jólin eru í algjöru uppáhaldi hjá mér.
Við erum líka mikið að sinna skreytingum á viðburðum, þá sérstaklega í kringum ferðamenn, og þar er verið að sækjast eftir íslenskum náttúruskreytingum.“
Tryggir viðskiptavinir
„Við höfum verið einstaklega heppin með kúnnahópinn okkar, við marga hefur myndast sterk og traust vinátta.
Maður er búinn að fylgja heilu fjölskyldunum á eftirminnilegum stundum jafnt í gleði sem sorg. Ég hef meðal annars gert skírnar-, fermingar- og brúðarskreytingu fyrir sama einstaklinginn.
Við höfum alltaf einsett okkur að veita persónulega þjónustu og lagt okkur fram við að mynda tengsl við okkar viðskiptavini,“ segir Hlín að lokum og tekur það fram að það sé einstaklega gefandi að starfa við að nýta náttúrlegan efnivið til að gleðja viðskiptavinina.