Diddú og Davíð Þór á 200. stofutónleikum Gljúfrasteins

Stofutónleikar Gljúfrasteins hafa verið fastur liður í starfseminni frá því 2006 og sunnudaginn 9. júlí verða stofutónleikar númer 200 í stofu skáldsins.
Á þessum tímamótatónleikum munu Mosfellingarnir Sigrún Hjálmtýsdóttir söngkona og Davíð Þór Jónsson píanóleikari koma fram og syngja og spila af hjartans list. Efnisskrá verður fjölbreytt, lífleg og einlæg. Tónleikarnir hefjast kl. 16 og miðar verða til sölu í móttöku safnsins.

Minnast Önnu Guðnýjar píanóleikara
Það er við hæfi að þessir frábæru listamenn sem bæði hafa verið bæjarlistamenn Mosfellsbæjar komi fram á stofutónleikum númer 200 á Gljúfrasteini.
Á tónleikunum munu þau minnast Önnu Guðnýjar Guðmundsdóttur píanóleikara sem var tónlistarráðunautur Gljúfrasteins og lagði línur um fyrirkomulag tónleikahalds á Gljúfrasteini.
Diddú og Davíð eru bæði sannkallaðir vinir Gljúfrasteins og hafa margoft sungið og spilað í húsi skáldsins. Tónleikahald á Gljúfrasteini hefur verið fastur liður í starfsemi hússins og var til þeirra stofnað í anda Halldórs og Auðar Laxness.

Einn fjölhæfasti píanóleikari landsins
Davíð Þór Jónsson er einn fjölhæfasti píanóleikari landsins og fetar oft ótroðnar slóðir við hljóðfærið. Hann útskrifaðist frá Tónlistarskóla FÍH 2001. Hann hefur spunnið, samið tónlist fyrir fjölda leik – og listsýninga.
Davíð Þór var útnefndur bæjarlistamaður Mosfellsbæjar 2017 og hefur hlotið margvísleg verðlaun, Íslensku tónlistarverðlaunin og Grímuverðlaunin, auk þess sem tónlist hans úr kvikmyndinni Hross í oss var verðlaunuð á kvikmyndahátíðum í Evrópu.
Diddú hóf feril sinn ung á sviði
Diddú eða Sigrún Hjálmtýsdóttir hóf feril sinn ung á sviði tónlistar og þarf því vart að kynna. Hún hefur hlotið margs konar viðurkenningar fyrir söng sinn og meðal annars verið valin söngkona ársins þrjú ár í röð frá 1977-79. Hún var sæmd riddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu fyrir framlag sitt á sviði sönglistarinnar árið 1995. Hún var einnig Stórmeistari af finnsku ljónsorðunni 1997 og var útnefnd bæjarlistamaður Mosfellsbæjar 1998. Diddú var heiðursverðlaunahafi Íslensku tónlistarverðlaunanna árið 2019.