Grænt skipulag í Mosfellsbæ

Steinunn Dögg Steinsen

Steinunn Dögg Steinsen

Mosfellsbær er einstaklega vel í sveit settur og býður íbúum sínum og nærsveitungum upp á frábæra útivistarmöguleika bæði innanbæjar sem og í umliggjandi landbúnaðar- og náttúrusvæðum.
Það er mikilvægt að Mosfellsbær tryggi íbúum sínum áfram aðgengi að góðum útivistarsvæðum ásamt því að stuðla að umhverfis- og náttúruvernd. Besta leiðin til þess er grænt skipulag.
Grænt skipulag er heildstætt skipulag á öllum grænum svæðum, frá litlum svæðum í þéttbýli til stórra náttúrusvæða. Skipulagið felst í að mynda samhangandi svæði og samgöngukerfi, nokkurs konar grænan vef, innan byggðar og sem tengir saman byggð við náttúru- og útivistarsvæði, landbúnaðarsvæði, fjöll, vötn, árfarvegi og strandsvæði.
Samfylkingin vill leggja áherslu á heildarskipulag grænna svæða og að bæjarland Mosfellsbæjar verði eftirsótt útivistarsvæði. Með markvissri stefnu viljum við auka trjá- og skógrækt til skjólmyndunar fyrir byggðina og þá sérstaklega með ræktun í nýjum hverfum. Með heildstæðu skipulagi grænna svæða getum við einnig staðið vörð um náttúru bæjarins sem okkur ber skylda til að varðveita og færa til komandi kynslóða.

Samson Bjarnar Harðarson

Samson Bjarnar Harðarson

Samfylkingin vill að byggð Mosfellsbæjar þróist á hagkvæman og skynsaman hátt, þar sem almannahagsmunir ráði för í skipulagsmálum. Samfylkingin vill að Mosfellsbær verði fallegur, skjólsæll og lágreistur bær með fjölbreyttri byggð, starfsemi og útivistarsvæðum. Við viljum að fólk geti búið sér gott heimili í Mosfellsbæ sem hentar þörfum þess óháð fjölskyldustærð og efnahag.

Við viljum styrkja ímynd bæjarins sem útivistarbæjar, sveitar í borg með góðu skólastarfi og möguleikum til íþrótta og frístunda. Götur, torg og græn svæði eiga að vera falleg, mannvæn og skjólsæl umgjörð daglegs lífs í Mosfellsbæ.
Miðbær Mosfellsbæjar þarf að þróast á þann hátt að þar dafni fjölbreytt þjónusta og atvinnustarfsemi. Það getur einungis gerst með því að þétta byggð með nægilegum íbúafjölda til að styðja við miðbæjarstafsemi. Þétt miðbæjarsvæði er jafnframt lykilatriði í þróun á hagkvæmum og skilvirkum almenningssamgöngum í því nútímaborgarsamfélagi sem við viljum vera hluti af.

Með fjölbreytni, fegurð og mannvænt umhverfi að leiðarljósi viljum við gera Mosfellsbæ að grænum nútímabæ og virkum hluta af höfuðborgarsvæðinu.

Steinunn Dögg Steinsen skipar 3. sæti á framboðslista Samfylkingarinnar
Samson Bjarnar Harðarson skipar 4. sæti á framboðslista Samfylkingarinnar

Leikskólastörf eru láglaunastörf

Katrín Sif Oddgeirsdóttir

Katrín Sif Oddgeirsdóttir

Fjölskyldan er hornsteinn samfélagsins og í langflestum fjölskyldum eru börn sem ganga í leik- og grunnskóla. Bæði skólastigin eru menntastofnanir sem hafa þann tilgang að börn njóti alls þess besta sem bernskan hefur upp á að bjóða.
Í Mosfellsbæ er gott að búa með börn og öll viljum við skapa þeim bestu mögulegu aðstæður í skólagöngu þeirra, frá tveggja til sextán ára aldurs. Bærinn hefur nýlega innleitt ungbarnaleikskóla sem er stórt skref fram á veginn fyrir fjölskyldur bæjarins.
Leikskólar í Mosfellsbæ eru sjö talsins og kjölfesta þeirra er kennarar og aðrir starfsmenn, faglært og ófaglært fólk sem leysir störf sín af alúð og eljusemi. Mikil gleði og kraftur ríkir í leikskólum bæjarins enda gefandi starf að kynnast öllum þeim litlu einstaklingum sem mæta þar hvern dag með bros á vör.
En leikskólastörf eru láglaunastörf og að mestu leyti kvennastörf. Vegna lágra launa er starfsmannavelta mikil og álagið segir til sín. Oft reynist erfitt að fá fagmenntað starfsfólk og Mosfellsbær er þar ekki undanskilinn.
Það ætti að vera forgangsmál allra sveitarfélaga að bæta kjör láglaunastétta og hækka laun leikskólakennara svo þau verði samkeppnishæf. Grípa þarf til markvissra aðgerða hér í bænum, starfsfólk þarf að fá afslátt af leikskólagjöldum, skoða þarf aðrar kjarabætur og veita þarf svigrúm til að auka undirbúningstíma starfsmanna. Önnur nágrannasveitarfélög hafa farið þessa leið, það eina sem þarf er vilji og staðfesta til að gera slíkt hið sama.

Katrín Sif Oddgeirsdóttir, skipar 4. sæti á lista VG í komandi kosningum.

Umhverfis- og náttúru­verndarmál

Úrsúla Jünemann

Úrsúla Jünemann

Í dag 22. apríl, þegar þetta er skrifað, er alþjóðlegur dagur jarðar þar sem allir eru hvattir að hugsa um umhverfismál.
Hver og einn getur nefnilega lagt eitthvað til þannig að jörðin verði áfram byggileg fyrir komandi kynslóðir.
Umhverfisnefnd bæjarins stóð í mars fyrir mjög vel heppnuðum opnum fundi þar sem íbúum gafst kost á að tjá sig um umhverfismál í bænum. Nú mun nefndin byrja að vinna að umhverfisstefnu Mosfellbæjar úr öllum góðum athugasemdum og vonandi fáum við bráðum vel mótað plagg sem íbúarnir geta verið stoltir af. En auðvitað er talsverð vinna fram undan í sambandi við þetta.
Einn mikilvægur partur í umhverfismálum er náttúruverndin. Við allt skipulag ætti að hafa í huga að raska sem minnst viðkvæmum svæðum. Reglur um framkvæmdir á viðkvæmum svæðum sem umhverfisnefndin vann í fyrra er að finna á heimasíðu Mosfellsbæjar, því miður er erfitt að finna þær. Hér er slóðin: Þjónusta – skipulagsmál – framkvæmdir – tengd skjöl – reglur og samþykktir – framkvæmdir á viðkvæmum svæðum. Sem flestir ættu að kynna sér þetta.
Hingað til hafa náttúruverndarmálin ekki verið framarlega á dagskrá hvað fjárveitingar snertir. Umhverfisstjóri, garðyrkjustjóri og framkvæmdastjóri umhverfissviðs hafa bent á að þeir hafi ekki fjármagn til að ganga í verkefnin eins og skyldi.
Náttúruvernd verður ekki markviss nema með því að kortleggja lífríki og náttúrufar í bænum, s.s. búsvæði fugla og fiska, gróður, landslag, votlendi, jarðhitasvæði, uppsprettur ferskvatns o.fl. Spurning er hvort ekki sé hægt að fela háskólanemum og jafnvel nemum á náttúrufræðibraut í framhaldsskólum að vinna verkefni í sambandi við þetta. Háskóli Íslands, Landbúnaðarháskóli og jafnvel Framhaldsskóli Mos. kæmu sérlega til greina.
Við getum að vísu ekki talað um það að í landi Mosfellsbæjar sé „ósnortin náttúra“ enda hafa menn alls staðar haft einhver áhrif. En hins vegar eigum við talsvert af dýrmætum náttúrusvæðum sem okkur ber að varðveita og virða þannig að heilbrigð og óskemmd vistkerfi geta áfram veitt okkur fjölbreytilega þjónustu, ekki síst með hliðsjón af komandi kynslóðum.

Úrsúla Jünemann, aðalmaður
í umhverfisnefnd fyrir Íbúahreyfinguna.

Þegar fjármagnið ræður för

Sigurður Kristjánsson

Sigurður Kristjánsson

Arion banki er á förum úr Mosfellsbæ. Ekki svo mikil tíðindi út af fyrir sig nema fyrir þá sök að þá erum við íbúar í þessum ágæta bæ alveg án banka í þeirri mynd sem flestir leggja í það orð.
Þeim sem hér búa þykir þetta spor aftur á bak svo ekki sé kveðið fastar að orði. Að sjálfsögðu kemur þetta misjafnlega við fólk. Ekki síst eldra fólk þarf á bankanum sínum í heimabyggð að halda og margt fólk er hætt að keyra bíl. Hinir eru þó væntanlega fleiri sem nota mikið heimabankann sinn (netbanka) og fara lítið í banka. En hvað um gjaldeyrisviðskipti og lánveitingar? Varla dugar þar einu sinni heimabanki.
Arion banki býður fólki í Mosfellsbæ af miklum þægilegheitum að flytja sín viðskipti í næsta bankaútibú sitt niður á Höfða. Ekki er víst að allir sem hafa aðstöðu til þess að velja, hafi áhuga á þeim stað. Ekki fer milli mála að breytingin er ekki gerð með hagsmuni viðskiptavina fyrir augum. Hver er þá staða bankans fyrir utan það að valda starfsfólki sínu í Mosfellsbæ ómældum óþægindum? Eitthvað kemur þetta inn á það hver stefna ríkisins er í bankamálum þar sem ríkið hefur verið aðal eignaraðili stóru íslensku bankanna. Á þeim bæ virðist áherslan vera á því að þessir bankar skili sem mestum arði og séu nokkurs konar skattheimutæki í staðinn fyrir að bankarnir veiti sómasamlega þjónustu og greiði viðunandi vexti af innlánum viðskiptamanna.
Ef til vill þarf Arion banki að gera eitthvað róttækt eftir ævintýri sitt í Helguvík eins og að sameina bankaútibú. Ekki finnst mér þó að Mosfellsbær hafi þurft að koma við sögu með þessum hætti vitandi það að hér eru rúmlega 10 þúsund íbúar og staðurinn í örum vexti. Þetta eru einfaldlega mistök sem erfitt er að útskýra. Ráðamenn Mosfellsbæjar þurfa sannarlega að láta í sér heyra þegar vegið er að þjónustu við bæjarbúa eins og hér hefur verið lýst.

Sigurður Kristjánsson
(Í stjórn Framsóknarfélags Mosfellsbæjar)

Ársreikningur og forgangsröðun

Anna Sigríður Guðnadóttir

Anna Sigríður Guðnadóttir

Ársreikningur síðasta árs var samþykktur í bæjarstjórn þann 4. apríl síðastliðinn. Niðurstaða hans var góð og allra lykiltölur jákvæðar. Rekstrarniðurstaðan var um 400 milljónum hærri en fjárhagsáætlun ársins með viðaukum gerði ráð fyrir.
Fjárhagsáætlun sveitarfélagsins er sá rammi sem bæjarstjórn ákveður að setja utan um starfsemi bæjarins. Fjárhagsáætlun er ekki til viðmiðunar í rekstri heldur skal starfsemi bæjarins rekin innan þess ramma Ef einhverjar þær aðstæður koma upp sem valda auknum útgjöldum er lögboðið að gera s.k. viðauka við fjárhagsáætlun sem bæjarstjórn þarf að samþykkja. Ársreikningur bæjarins sýnir hvernig til tókst að halda rekstri innan þessa ramma.

Hærra útsvar og lægri vextir
Ágæt rekstrarniðurstaða Mosfellsbæjar árið 2017 skýrist ekki af rekstrarsnilld sjálfstæðismanna og félaga þeirra í Vinstri grænum. Hún skýrist af hagstæðum ytri aðstæðum í rekstrarumhverfi sveitarfélaga í landinu. Skýringin felst aðallega í tveimur atriðum. Annars vegar í geysilegri íbúafjölgun í bænum á árinu, eða um 8%, og hins vegar af umtalsvert lægri fjármagnsgjöldum en fjárhagsáætlun gerði ráð fyrir.
Íbúafjölgunin leiðir eðlilega af sér hærri útsvarstekjur. Fjármagnsgjöldin eru um 50% lægri en áætlað var, eða 326 milljónir í stað áætlaðra 652 milljóna. Meginástæða þessara lægri fjármagnsgjalda er lægri verðbólga en reiknað var með í fjárhagsáætlun bæjarins fyrir árið 2017. Þess má geta að við umræðu um fjárhagsáætlun ársins 2017 bentu bæjarfulltrúar Samfylkingarinnar á að sú hækkun verðlags, verðbólguspá, sem lögð var til grundvallar áætluninni væri talsvert hærri en þjóðhagsspá gerði ráð fyrir á þeim tíma.

Ólafur Ingi Óskarsson

Ólafur Ingi Óskarsson

Forgangsröðun
Bærinn okkar er að ganga í gegnum mikið og hratt vaxtarskeið, íbúum fjölgaði um 8% árið 2017 eins og áður segir og gert er ráð fyrir að íbúum fjölgi um 5-6% á yfirstandandi ári. Aðalhlutverk sveitarfélagsins er að veita íbúum þjónustu og til þess nýtum við útsvarið. Sú fjölgun íbúa sem við verðum vitni að þessi árin, sem og aðhald undanfarinna ára í rekstri og viðhaldi, hlýtur að kalla á innspýtingu í þjónustu bæjarins.
Það þarf að efla skólana, leik- og grunnskóla, félagsþjónustan þarf sitt, tómstundastarf í vaxandi heilsueflandi samfélagi þarf stuðning svo ekki sé minnst á fráveitumál, viðhald gatna og mannvirkja svo eitthvað sé nefnt af þeirri þjónustustarfsemi og innviðum sem bærinn rekur fyrir íbúana. Sú aukna þörf fyrir þjónustu og uppbyggingu innviða sem slík íbúafjölgun kallar á hlýtur að koma í ljós í fjárhagsáætlunum næstu ára. Það hvernig fjármunum bæjarsjóðs verður forgangsraðað mun byggjast á því hvaða stjórnmálaflokkar mynda meirihluta bæjarstjórnar Mosfellsbæjar á næsta kjörtímabili.

Anna Sigríður Guðnadóttir og Ólafur Ingi Óskarsson,
bæjarfulltrúar Samfylkingarinnar.

Mosfellsbær, bærinn okkar

Haraldur Sverrisson

Haraldur Sverrisson

Um þessar mundir á sér stað mikil uppbygging í Mosfellsbæ á öllum sviðum. Fordæmalaus fjölgun varð í bæjarfélaginu á síðasta ári en þá fjölgaði bæjabúum um 8,2%.
Þetta er langmesta fjölgun á höfuðborgarsvæðinu og ein sú mesta á landinu. Ástæður þessarar miklu fjölgunar eru einkum tvær. Í fyrsta lagi er skortur á íbúðarhúsnæði á höfuðborgarsvæðinu. Í Mosfellsbæ hafa bæjaryfirvöld brugðist við því með miklu lóðaframboði í nýjum uppbyggingarhverfum bæjarins, Helgafelli og Leirvogstungu.
Í Helgafellshverfi einu og sér hafa t.d. verið byggðar rúmlega 600 nýjar íbúðir á undarförnum árum. Við Sjálfstæðisfólk í Mosfellsbæ höfum staðið vaktina og séð til þess að það hefur verið nægt lóðaframboð í Mosfellsbæ.

Rúmlega 300 umsóknir um 31 lóð
Önnur ástæða þess að svo mikil uppbygging er í Mosfellsbæ er að bærinn er vinsælt sveitarfélag til búsetu. Í þjónustukönnunum Gallup sem gerðar eru meðal 19 stærstu sveitarfélaganna ár hvert hefur Mosfellsbær ávallt verið í 1. eða 2. sæti á undanförnum árum þegar ánægja íbúanna er mæld.
Þetta endurspeglast í því að nýlega voru auglýstar rúmlega 30 lóðir lausar til umsóknar. Alls bárust rúmlega 300 umsóknir um þessa 31 lóð eða um 10 umsóknir á hverja lóð. Þessu til viðbótar er að fara af stað verkefni í miðbænum sem felur í sér um 250 nýjar íbúðir ásamt verslunarhúsnæði. Það mun setja nýjan svip á miðbæinn okkar og gera hann mun samkeppnishæfari um verslun, þjónustu og menningu ýmis konar. Það er vinsælt að vera Mosfellingur.

Aukin þjónusta og lægri álögur í stækkandi bæ
Svona mikil uppbygging kallar á fjárfestingar í innviðum. Helgafellsskóli er nú í byggingu og er gert ráð fyrir að fyrsti áfangi hans verði tekinn í notkun um næstu áramót. Fullbyggður mun skólinn hýsa 6-800 nemendur og kosta um 3,7 milljarða króna. Önnur stór framkvæmd sem ráðist verður í á árinu 2018 er bygging knatthúss að Varmá og verður það um 3.800 fm að stærð. Auk knattspyrnuvallar verður í húsinu hlaupabraut ásamt göngubraut, áhorfendaaðstaða og snyrtiaðstaða. Húsið verður án alls efa bylting fyrir íþróttafólk, sérstaklega knattspyrnufólk, í Mosfellsbæ.
Samfara þessu hafa álögur lækkað í Mosfellsbæ. Verð á heitu vatn er nú um fjórðungi lægra en á þjónustusvæði Veitna, álagningahlutföll fasteignagjalda hafa lækkað verulega á síðustu tveimur árum.
Leikskólagjöld hafa lækkað, jafnframt því að leikskólaaldurinn hefur verið færður niður í 13 mánaða aldur, frístundaávísun hækkað um rúm 280% á kjörtímabilinu og stórátak gert í upplýsingatæknimálum skólanna svo eitthvað sé nefnt.
Þrátt fyrir þetta er rekstrarafkoma sveitarfélagsins góð en samkvæmt ársreikningi fyrir árið 2017 var rekstrarafkoman jákvæð um 560 mkr og skuldahlutfall fer lækkandi. Fjölgun íbúa ásamt traustum og ábyrgum rekstri gerir það að verkum að svona er hægt að standa að málum hjá Mosfellsbæ.

Framtíðin er björt í Mosfellsbæ og með gildin okkar góðu VIRÐINGU – JÁKVÆÐNI – FRAMSÆKNI og UMHYGGJU að leiðarljósi eru okkur Mosfellingum allir vegir færir.
Við Sjálfstæðisfólk höfum verið við stjórnvölinn í Mosfellsbæ síðan árið 2002. Á þeim tíma hefur þjónusta og rekstur sveitarfélagsins tekið stakkaskiptum. Við ætlum að halda áfram á sömu braut og gera enn betur og sjá til þess að áfram sé best að búa í Mosfellsbæ, fáum við til þess umboð í kosningunum 26. maí.

Haraldur Sverrisson, bæjarstjóri og oddviti Sjálfstæðisfólks í Mosfellsbæ

Loftgæðamælingar löngu tímabærar í Mosfellsbæ

Sigrún H. Pálsdóttir

Sigrún H. Pálsdóttir

Mengun í andrúmslofti á höfuðborgarsvæðinu hefur verið í kastljósi fjölmiðla á undanförnum árum og hafa sveitarfélögin brugðist við með því að setja upp stöðvar til að mæla loftgæði.
Engin slík stöð er í Mosfellsbæ og hefur Íbúahreyfingin nú lagt til í bæjarstjórn að úr því verði bætt. Tillagan felur í sér að stöðinni verði komið fyrir í grennd við Vesturlandsveg við Varmá en þar er líklegt að þörfin á mælingum sé brýnust.

Öryggismál að gera íbúum viðvart
Tillaga Íbúahreyfingarinnar miðar að því að tryggja öryggi íbúa. Tveir skólar og íþróttaæfingasvæði Mosfellinga að Varmá eru í kvosinni sem Vesturlandsvegurinn liggur um og því fyllsta ástæða til að hefja þar loftgæðamælingar.
Mikil fjölgun ferðamanna og uppgangur í byggingarframkvæmdum hafa haft í för með sér umtalsverða aukingu umferðar stórra ökutækja um Mosfellsbæ. Því fylgir útblásturs- og svifryksmengun.

Upplýsing er til alls fyrst. Sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu nota niðurstöður loftgæðamælinga til að gera íbúum sínum viðvart þegar mengun fer yfir heilsuverndarmörk og er hægt að fylgjast með mælingum í rauntíma á vef Umhverfisstofnunar og víðar. Fólk með öndunarfærasjúkdóma er sérstaklega viðkvæmt fyrir loftmengun og sömuleiðis börn og ungmenni sem enn eru að taka út vöxt. Útblásturs- og svifryksmengun er auk þess talin vera krabbameinsvaldandi.

Heilsueflandi samfélag
Mosfellsbær tekur þátt í verkefni landlæknisembættisins um heilsueflandi samfélag. Í ljósi þess er viðeigandi að afla upplýsinga um þætti sem hafa áhrif á heilsu íbúa og birta niðurstöður í rauntíma á vef Mosfellsbæjar eins og nágrannasveitarfélögin gera.

Áður á dagskrá
Bæjarfulltrúi Íbúahreyfingarinnar hefur áður óskað eftir loftgæðamælingum í Mosfellsbæ og leiddi það til þess að sett var upp svokölluð farstöð á áhaldahús Mosfellsbæjar sem vaktaði um nokkurra vikna skeið brennisteinsmengun frá jarðhitavirkjunum á Hellisheiði og Nesjavöllum. Minni þörf er á því nú þar sem Orkuveitan hefur hafið hreinsun á útblæstri frá Hellisheiðarvirkjun.
Loftgæða- og hávaðamælingar voru einnig á dagskrá að frumkvæði Íbúahreyfingarinnar þegar ákveðið var að hefja aftur skólahald í Brúarlandi við Vesturlandsveg og var hvorutveggja þá kortlagt en sá hængur var á að niðurstöður studdust ekki við mælingar, heldur einungis staðlaða útreikninga.

Vísað til fjárhagsáætlunar 2019
Á fundi bæjarstjórnar í vikunni vísuðu fulltrúar D-, S- og V-lista tillögu Íbúahreyfingarinnar til fjárhagsáætlunargerðar 2019 en hún verður afgreidd þegar nær dregur jólum 2018. Fulltrúi Íbúahreyfingarinnar greiddi þeirri tillögu ekki atkvæði sitt. Ástæðan er sú að mengun í andrúmslofti mælist mest í vetrarstillum og snemma vors eða frá nóvember til apríl.
Ef við bíðum með að taka ákvörðun til áramóta hefjast loftgæðamælingar ekki í Mosfellsbæ fyrr en vetri er að mestu lokið 2019 sem þýðir að verkefnið gæti frestast til þarnæsta vetrar.

Sigrún H. Pálsdóttir
bæjarfulltrúi Íbúahreyfingarinnar

Gas- og jarðgerðarstöð rís á Álfsnesi – Urðun verður hætt

Kolbrún G. Þorsteinsdóttir

Kolbrún G. Þorsteinsdóttir

Urðunarstaðurinn á Álfsnesi hefur verið okkur Mosfellingum þyrnir í augum. Lyktarmengun hefur verið frá staðnum og kvartanir borist frá íbúum. Við það var auðvitað ekki unað.
Nú hefur verið skrifað undir samning við danska fyrirtækið Aikan um að reisa gas– og jarðgerðarstöð og er áætlað að hún taki til starfa árið 2019. Jafnframt verður urðun hætt í Álfsnesi í framhaldinu. Útboðsferli er nú að ljúka og ráðgert er að framkvæmdir hefjist í sumar.

Samkomulag gert að frumkvæði Mosfellsbæjar
Árið 2013 gerðu sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu, að frumkvæði Mosfellsbæjar, eigendasamkomulag um að reisa gas- og jarðgerðarstöðina og að urðun yrði hætt í Álfsnesi. Jafnframt hefur verið gert samkomulag við Suðurland og Reykjanes um samvinnu og heildarlausn um meðhöndlun úrgangs.

Stórt skref í umhverfismálum – urðun hætt
Mosfellsbær hefur lagt sig fram við að gæta hagsmuna íbúa gagnvart málefnum Sorpu bs. allt frá því að Reykjavíkurborg ákvað að leggja niður urðunarstaðinn í Gufunesi og finna honum nýjan stað á Álfsnesi á Kjalarnesi. Bygging gas– og jarðgerðarstöðvar er stórt skref í umhverfismálum á höfuðborgarsvæðinu en með tilkomu hennar verður hætt að urða heimilisúrgang en í stað þess verðmæt gas- og jarðgerðarefni unnin úr honum.

Kristín Ýr Pálmarsdóttir

Kristín Ýr Pálmarsdóttir

Stefnt er að því að yfir 95% af heimilissorpi verði endurunnið þegar stöðin er komin í gagnið. Um 70% af því sem fer í venjulega heimilistunnu í dag er lífrænt efni sem nýtist til framleiðslu metans og jarðvegsbætis. Stjórn SORPU hefur ákveðið að urðun skuli hætt í Álfsnesi í lok árs 2020.

Kostir gas– og jarðgerðarstöðvar
Gas- og jarðgerðarstöðin mun geta tekið við um 35 þúsund tonnum af blönduðum heimilisúrgangi á ári og verður hægt að stækka stöðina ef þörf krefur. Stefnt er að því að auka endurvinnsluhlutfall þessa hluta úrgangs enn meira. Samkvæmt Landsáætlun er stefnt að því að árið 2020 verði einungis 15% af þessum úrgangi urðaður, árið 2021 verður ekki lengur mögulegt að urða lífrænan og/eða brennanlegan úrgang og árið 2025 er markmiðið að undir 5% af öllum úrgangi sem berst SORPU verði ekki endurnýttur.
Meginástæða fyrir byggingu stöðvarinnar er að:
• endurnýta lífrænan úrgang.
• koma í veg fyrir lyktarmengun.
• minnka urðun á blönduðum heimilisúrgangi.
• nýta innlenda orku í stað innflutts eldsneytis.
• minnka sótspor íbúa með því að nýta metanið sem ökutækjaeldsneyti.

Betri tímar
Með nýju gas- og jarðgerðarstöð SORPU verður nánast allur lífrænn úrgangur sem til fellur frá heimilum á svæðinu endurunninn. Hér er því um mjög metnaðarfullt verkefni að ræða sem mun gjörbylta vinnslu úrgangs hérlendis og stuðla að aukinni endurvinnslu á öðrum tegundum úrgangs.
Jafnframt þessu er nú unnið að samkomulagi við Sunnlendinga um að opna nýjan urðunarstað fyrir óvirkan úrgang. Við Mosfellingar megum því eiga von á betri tímum og njóta sumars án lyktar og tilheyrandi leiðinda.

Kolbrún G. Þorsteinsdóttir er í 3. sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í Mosfellsbæ
og Kristín Ýr Pálmarsdóttir er í 8. sæti listans.

Mistök eru grunnurinn að námi

Valgarð Már Jakobsson

Valgarð Már Jakobsson

Menntun í heiminum stendur á tímamótum vegna örrar þróunar í rannsóknum á heilanum.
Heilinn er ótrúlegt líffæri sem kemur okkur stöðugt á óvart. Eitt af því sem við erum að átta okkur betur á er hvað gerist þegar við lærum eitthvað nýtt. Í hvert skipti sem börn gera mistök fer heilinn á fulla ferð við að leiðrétta mistökin og til verða nýjar taugabrautir í heilanum. Þetta er hreinlega hægt að sjá með því að skanna heilann meðan unnin eru verkefni.

Á meðan við gerum ekki mistök sem við leiðréttum, á nám sér ekki stað. Ef við hræðumst mistök „frýs“ heilinn þegar mistök eru gerð og ekkert gerist í heilanum, engar nýjar taugabrautir myndast og nemendur styrkjast í þeirri trú að þeir séu bara vitlausir.
Þetta er byggt á rannsóknum taugasálfræðingsins Carol Dweck hjá Stanford háskóla í Bandaríkjunum. Hún hefur unnið með stærðfræðimenntunarsérfræðingnum Jo Boaler sem hefur sett upp námskeið um hvernig þetta birtist í stærðfræðikennslu. Nokkrir kennarar úr Varmárskóla, Lágafellsskóla og Framhaldsskóla Mosfellsbæjar eru búnir að vera að taka þetta námskeið saman með stuðningi frá Mosfellsbæ.
Þegar viðfangsefnin í skóla eru ekki krefjandi og nemendur leysa þau fyrirhafnarlaust þá eru þeir ekki að læra. Flest skólakerfi í dag eru enn byggð upp með þeim hætti að allt skal vera mælanlegt. Þetta þýðir því miður oft það sem flestir nemendur hræðast, skrifleg tímamæld próf. Hefðbundin próf refsa nemendum fyrir að gera mistök. Dregið er niður fyrir hverja villu í prófi og verðlaunað er fyrir að gera allt „rétt“. Þetta á líka við um vinnu verkefna og umræður í tímum.
Þegar börn komast á unglingsár hefur oft byggst upp hræðsla við að gera sig að fífli og að koma upp um vanmátt sinn. Þau þora ekki að svara spurningum af hræðslu við að verða að athlægi. Þetta á líka við um „kláru krakkana“, sem hræðast fátt meira en að gera mistök sem ýta þeim niður af „klára“ stallinum.

Það er stórhættulegt að segja við nemendur að þeir séu klárir þegar þeir hafa leyst verkefni. Verðlaunum þau frekar fyrir hugrekki og þor til að reyna við verkefni. Langflest okkar getum sagt frá vanmætti og jafnvel niðurlægingu sem við höfum orðið fyrir í skóla. Þetta er sérstaklega algengt í stærðfræði og margir nemendur fara að sjálfgreina sig með stærðfræðiblindu og foreldrar ýta jafnvel undir þetta með því að segja að þau hafi nú sjálf verið léleg í stærðfræði. Hættum því.

Hættum að refsa fyrir mistök. Hættum að afsaka börnin okkar til að vernda þau. Hvetjum þau til að þora og reyna, hvetjum þau til að reyna aftur og aftur, eins og þau gera í tölvuleikjunum sínum. Ef þau reyna og mistekst þá eigum við að hvetja þau og hrósa fyrir kjarkinn.
Skólar bæjarins eru uppfullir af frábærum sérfræðingum, kennurum, sem geta metið getu nemenda með því að kynnast þeim og vinna með þeim. Treystum þeim til þess að vinna sitt starf og verum ekki alltaf að gera kröfur að sanna sig með prófum sem aldrei geta mælt hæfni og leikni sem framtíðin gerir kröfur um.

Valgarð Már Jakobsson
Höfundur er stærðfræðikennari í FMOS og skipar 3. sæti á lista VG í Mosfellsbæ.

Grunnskóli framtíðarinnar

Bryndís Brynjarsdóttir

Bryndís Brynjarsdóttir

Fræðslumál eru í dag og verða á komandi árum í brennidepli enda að mörgu að hyggja í þessum málaflokki.
Samfélagslegar breytingar af ýmsum toga speglast í skólum landsins sem er skylt að bregðast við. Þessi stutti pistill fjallar um einn þátt skólasamfélagsins sem snýr að innflytjendum í grunnskólum.
Öll tilheyrum við fjölmenningu sama hvaðan við komum og hafa flest nútímasamfélög aðlagað sig að þeim veruleika. Það er staðreynd sem verður ekki horft fram hjá að aukin hnattvæðing auðveldar flutning fólks á milli landa. Sá veruleiki krefst nú sem endranær að menntakerfið sé í stakk búið að bregðast við þeim áskorunum sem upp koma.
Menntakerfið á að vera fyrsta flokks og fyrir alla. Einn sá veruleiki sem við grunnskólunum blasir er aukinn fjöldi innflytjenda sem mun vissulega þurfa á aðlögun að halda. Meta þarf námslega stöðu þeirra, tryggja að úrræði og úrvalskennsluefni sé tiltækt fyrir kennara. Ef það er ekki tekið föstum tökum þá mun börnunum vera gert erfitt um vik að fóta sig í samfélaginu.
Grunnskólarnir takast á við margvíslegar áskoranir á hverjum degi og horfa til framtíðar við menntun allra nemenda. Kennarar eru sérfræðingar sem hugsa í lausnum og þurfa að vera fljótir að bregðast við hinu síkvika lærdómsumhverfi sem grunnskólinn er. Ýmis sóknarfæri hvað varðar breytta kennsluhætti eru í notkun upplýsingatækni í skólastarfi. Upplýsingatækni í kennslu hefur ekki hvað síst gagnast þeim nemendum sem glíma við sértæka námsörðugleika.
Fjölbreyttir kennsluhættir gera kennurum kleift að mæta mismunandi þörfum nemenda. Vinstri græn leggja ríka áherslu á að standa vörð um velferðarkerfið í heild sinni, það mun skila heilsteyptu og öflugu samfélagi til komandi kynslóða.

Bryndís Brynjarsdóttir, grunnskólakennari
og varaformaður fræðslunefndar fyrir Vinstri græn í Mosfellsbæ.
Hún skipar annað sætið
á lista VG í komandi kosningum.

Börnin í fyrsta sæti

Anna Sigríður Guðnadóttir

Anna Sigríður Guðnadóttir

Undanfarin misseri hafa málefni barnafjölskyldna komist ofarlega í umræðuna. Fæðingarorlof, dagvistun og vinnutími barna og foreldra er meðal þess sem rætt hefur verið.
Aðbúnaður barnafjölskyldna er sameiginleg ábyrgð okkar allra, ríkisvaldsins og sveitarfélaganna sem og atvinnulífsins, og það er alveg ljóst að gera þarf betur. Fæðingarorlofið er allt of stutt og mjög mikilvægt að lengja það. Fyrir Alþingi liggur nú lagafrumvarp frá þingmönnum Samfylkingar um að fæðingar- og foreldraorlof lengist í 12 mánuði og hefur núverandi ríkisstjórn haft uppi orð um að lengja orlofið. Vonandi gerist það sem allra fyrst.
Fjölmargar rannsóknir hafa sýnt að fyrstu mánuðir og ár barnsins eru mjög mikilvæg fyrir þroska heilans. Barn fæðist ekki með fullþroskaðan heila og taugabrautir eru ómótaðar. Á vef Miðstöðvar foreldra og barna kemur m.a. fram að á fyrstu mánuðum og árum barnsins er heilinn auðmótanlegur og að jákvæð samskipti og vellíðan barns stuðli að tengingum á milli taugafruma í þeim hluta heilans sem sér um getu barnsins til sjálfstjórnar og flókinna félagslegra samskipta þegar fram líða stundir. Auðvitað geta aðrir en foreldrar veitt börnum ást, örvun og umhyggju, en þar sem foreldrar eru þeir sem elska og þekkja börnin sín mest og best hlýtur það að vera öllum í hag að gera þeim kleift að vera með börnum sínum, a.m.k. fyrsta aldursárið.

Dagvistun
Margir foreldrar þekkja óvissuna sem fylgir því að leita að góðri dagvistun fyrir börn að loknu fæðingarorlofi. Þegar fæðingarorlofi lýkur verður samfélagið að bjóða upp á örugga og faglega dagvistun fyrir börnin á viðráðanlegu verði. Samfélagið þarf á vinnukrafti, sérþekkingu og færni allra þessara foreldra að halda til að standa undir velferðarkerfinu og til að halda hjólum atvinnulífsins gangandi. Við, sem sitjum í bæjarstjórn Mosfellsbæjar, höfum tekið markviss skref í uppbyggingu ungbarnaleikskóla á kjörtímabilinu og ný bæjarstjórn sem tekur við eftir kosningar í maí á að halda áfram á þeirri braut og gera enn betur. Þá þarf að gæta þess að gjöld fyrir leikskóla verði áfram sambærileg við nágrannasveitarfélögin en bæjarfulltrúar Samfylkingarinnar náðu fram þeirri lækkun við gerð síðustu fjárhagsáætlunar.

Fullur vinnudagur?
Samfélagið gerir ráð fyrir því að fullfrískt fólk vinni fullan vinnudag eða meira. Fullur vinnudagur leikskólabarns er þá a.m.k. 8,5 klukkustundir. En þarf fullur vinnudagur að vera 8 klukkustundir á dag? Við getum litið til nágrannalanda okkar og séð að styttri vinnuvika kollvarpar ekki atvinnulífinu. Við getum líka horft til Reykjavíkur sem hefur verið með tilraunaverkefni í gangi sem gengið hefur vonum framar: Meiri framleiðni, færri veikindadagar og betri almenn líðan starfsfólks. Svo ekki sé minnst á þá staðreynd að styttri vinnudagar þýða einnig fleiri samverustundir með fjölskyldunni. Fleiri samverustundir barna með því fólki sem þeim er kærast. Eigum við ekki sem samfélag að skoða þetta alvarlega?
Samfélagið á mikið undir því að börn njóti sem bests atlætis í æsku og það er skylda okkar að koma málum þannig fyrir að svo megi verða. Það þarf nefnilega þorp til að ala upp barn.

Anna Sigríður Guðnadóttir
bæjarfulltrúi og oddviti framboðslista
Samfylkingarinnar

Betri stjórnmál og Borgarlína

Ólafur Óskarsson

Ólafur Óskarsson

Í grein sem ég ritaði í síðasta tölublað Mosfellings fjallaði ég m.a. um nokkur góð mál sem við bæjarfulltrúar Samfylkingarinnar í Mosfellsbæ höfum lagt fram í bæjarstjórn á þessu kjörtímabili og hlotið hafa brautargengi.
Eitt er það mál sem mér er afar kært að hafa komið að og er mjög gott dæmi um árangursríkt samstarf þvert á flokka og sveitarfélagamörk. Þar er ég að tala um svokallaða Borgarlínu.
Borgarlínan er hluti af nýju svæðisskipulagi höfuðborgarsvæðisins til ársins 2040. Í svæðisskipulagsnefnd höfuðborgarsvæðisins sitja 2 fulltrúar frá hverju sveitarfélagi á höfuðborgarsvæðinu. Á þessu kjörtímabili hef ég verið annar tveggja fulltrúa bæjarstjórnar Mosfellsbæjar, en hinn fulltrúinn hefur verið Bryndís Haraldsdóttir, eins og kjörtímabilið á undan.
Samstarf okkar hefur verið einstaklega gott og lítið borið á ágreiningi, enda bæði að gæta hagsmuna Mosfellsbæjar. Svipaða sögu má einnig segja af öðrum fulltrúum í svæðisskipulagsnefndinni. Þeir eru fulltrúar stjórnmálaflokka með ólíkar stefnur og sveitarfélaga með mismunandi hagsmuni.
Nefndin fjallar um mál sem gætu haft áhrif á svæðisskipulagið og/eða úrskurðar um hvort þau samrýmist því. Einnig annast nefndin reglubundna heildarendurskoðun og vinnur nýtt svæðisskipulag fyrir höfuðborgarsvæðið í samræmi við ákvæði skipulagslaga.
Að mínu mati er þar unnið málefnalega og kallað er eftir faglegri aðstoð þegar það á við, svo sem frá fagráði svæðisskipulagsins eða öðrum sem sérfræðiþekkingu hafa á viðfangsefninu hverju sinni. Í nær öllum tilfellum hefur verið einhugur um niðurstöðurnar. Þannig hefur það líka verið með Borgarlínuna, sem hefur verið eitt af stóru verkefnum nefndarinnar.

Lukkuriddarar
Eftir að hafa setið í svæðisskipulagsnefnd og unnið að málum með þeim hætti sem lýst er hér að ofan er það því með ólíkindum að fylgjast með því nú, rétt fyrir kosningar, þegar nokkrir lukkuriddarar skjóta upp kollinum, einkum í Reykjavík, sem finna Borgarlínunni flest til foráttu. Telja að Borgarlínan sé ekki skynsamleg sem hluti lausnar á þeim umferðarvanda sem aukinn íbúafjöldi á höfuðborgarsvæðinu mun hafa í för með sér á næstu árum. Íbúafjölda sem mun aukast um 70.000 fram til ársins 2040 og síaukinni fjölgun ferðamanna, sem mun þýða að ferðatími muni aukast um 65%.
Tvennt hefur mér fundist einkenna þessa lukkuriddara. Annars vegar einkennist málflutningur þeirra margra af því að þeir virðast ekki hafa kynnt sér þær rannsóknir sem liggja að baki þessu verkefni. Hins vegar draga þeir hreinlega niðurstöður þessara rannsókna í efa út frá eigin tilfinningum eða skoðunum. Í umræðu sem þessari á ekki við að beita tilfinningarökum þegar staðreyndir og rannsóknarniðurstöður liggja fyrir.
Nú veit ég ekkert um skoðanir þeirra sem hyggjast gefa kost á sér í næstu bæjarstjórn Mosfellsbæjar, enda ekki enn að fullu ljóst hverjir það verða. Hins vegar vona ég að þeir sem ná kjöri víki ekki frá þeirri samstöðu sem verið hefur um málið í bæjarstjórn.
Að lokum vil ég hvetja alla sem ekki hafa þegar kynnt sér verkefnið um Borgarlínu að gera það hið fyrsta því það er mín reynsla að þeir sem leggja í þá vinnu átta sig fljótlega á hve brýnt og gott verkefni þar er á ferðinni.

Ólafur Ingi Óskarsson,
bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar í Mosfellsbæ.

Lyftum lærdómssamfélaginu

Kolbrún G. Þorsteinsdóttir

Kolbrún G. Þorsteinsdóttir

Skólamál eru og eiga að vera í stöðugri umræðu og endurskoðun. Skólar og nám barna skipta allar fjölskyldur miklu máli. Kennarinn spilar stórt hlutverk í lífi barna og foreldrar óska sér einskis annars en að börnum þeirra líði sem best og gangi sem best í skólanum.
Miklar breytingar hafa átt sér stað í grunnskólum síðasta áratug í kjölfar aukinna væntinga samfélagsins til skóla og um leið eru stöðugar breytingar á þörfum nemenda.

Skólastefnan
Skólastefna Mosfellsbæjar var unnin af mörgum aðilum og sett fram undir heitinu Heildstæð skólastefna. Þar koma fram markmið og leiðir sveitarfélagsins fyrir þær stofnanir sem saman mynda skólasamfélag Mosfellsbæjar. Þar stendur „Kjarni Skólastefnu Mosfellsbæjar er að setja einstaklinginn í öndvegi. Skólastarf á að taka mið af þörfum hans, félagslegum aðstæðum og umhverfi“. Áhersla var lögð á að raddir bæjarbúa og þá sérstaklega raddir barna kæmu fram.

Vegvísir – brugðist við kröfum kennara
Í síðustu kjarasamningum kennara var sett fram bókun um að betur yrði komið til móts við kröfur og þarfir kennara. Í bókuninni stendur: „Markmið er að bæta framkvæmdina þar sem þörf er á og ná sátt um starfsumhverfið. Beina skal sjónum að innra starfi skóla og þeim verkefnum sem grunnskólinn sinnir, tryggja að kennsla og undirbúningur séu forgangsverkefni í skólastarfi og létta álagi af kennurum þar sem við á.“ Flest sveitarfélög hafa brugðist við þessari bókun og skoðað hvað má gera betur.

Haraldur Sverrisson

Haraldur Sverrisson

Fræðslusvið Mosfellsbæjar hóf ítarlega vinnu með kennurum og skólastjórnendum sem varð Vegvísir í þeirri umbótavinnu sem nú er unnið að. Markmiðið var að leita leiða til að bæta aðstæður í innra starfi skóla, styðja við kennara og minnka álag. Fræðsluyfirvöld vilja bæta framkvæmd skólastarfs og að kennarar nái sátt um starfsumhverfi sitt. Það er þekkt að mikil streita og neikvæðni hefur slæm áhrif á starfsanda og líðan starfsfólks á vinnustað. Það er okkar von og vilji að þær úrbætur sem unnið er að verði til að bæta starfsánægju og líðan á vinnustað kennara og nemenda.

Gott lærdómssamfélag – góður bær
Rannsóknir sýna að sterkt lærdómssamfélag þróast best með góðu og faglegu sjálfstrausti kennara og stutt sé við starfsánægju starfsfólks. Allt tengist menningu og andrúmslofti skólanna.
Þegar fjölskylda flytur sig um set er horft til gæða skóla, líkt og hverfa. Allir hafa skoðanir á skólunum og þannig á það að vera. Við bregðumst við óskum og eflum lærdómssamfélagið. Svo lærdómssamfélag eflist þurfa allir hlekkir í keðjunni að virka. Kröfur eru settar fram og vinnan er hafin. Það eru gömul sannindi og ný að skóli er ekki bara hús, ekki eingöngu kennslustofan eða skólahúsnæðið. Skólinn er staður þar sem börn eiga að blómstra og kennarar að njóta sín faglega. Mikilvægt að er samfélagið taki höndum saman og lyfti lærdómsamfélaginu svo allir njóti og séu stoltir af sínum skóla.
Undanfarin ár hefur Mosfellsbær verið leiðandi á mörgum sviðum skólamála og verið óhræddur við að fara nýjar slóðir svo eftir er tekið. Á næsta kjörtímabili munum við sjálfstæðisfólk halda áfram á braut þróunar og framfara. Skólaþróun er sífella og í góðum bæ eru góðir skólar.

Kolbrún G. Þorsteinsdóttir formaður fræðslunefndar
og Haraldur Sverrisson, bæjarstjóri

Dýravernd og dýraveiðar

Guðjón Jensson

Guðjón Jensson

Dýravernd er mjög mikilvæg í nútímasamfélagi. Því miður hefur ekki alltaf verið hugsað vel um dýr, hvorki heimilisdýr, búfé og þaðan af síst um villt dýr. Er það til mikils vansa.

Þó svo að mjög skýr fyrirmæli séu í landslögum um dýravernd og veiðar á villtum dýrum er ekki alltaf farið eftir þeim. Mjög ákveðin fyrirmæli eru um veiðar villtra dýra. Aflífun dýra skal fara fram á skjótan og öruggan hátt. Þau eru samt oft elt uppi með byssum, hundum og jafnvel eitri og öðrum ófögnuði. Dýrabogar eru skelfilegt fyrirbæri og um þá eru mjög skýr ákvæði í lögum og notkun þeirra háð mjög ströngum skilyrðum. Þá má t.d. einungis nota þegar veiða þarf minka og refi ef ekki næst að skjóta þá. Og veiðmaður verður að vera með veiðistað í sjónfæri og fylgjast með.

Fyrir nokkru gekk ég fram á dýraboga við mynni Úlfarsár og fastur í honum var dragúldinn minkur. Veiðimaður hafði sýnt af sér óvenjumikið kæruleysi og léttúð. Þarna skammt frá er vinsæl gönguleið út í Blikastaðanesið örfáum metrum frá fundarstað. Hversu lengi minkurinn hefur barist fyrir lífi sínu á kvalafullan hátt veit sjálfsagt enginn. Ég hef áður gengið fram á dýraboga innan lögsagnarumdæmis Mosfellsbæjar. Í það skiptið rakst ég á tvo opna boga nálægt alþekktu refagreni nálægt Mosfelli þar sem hallar mót norðri niður að Leirvogsá.

Í bæði skiptin hef ég tilkynnt um fund minn. Í fyrra skiptið hafði dýr ekki orðið fyrir skaða en í síðara skiptið núna á dögunum var greinilegt að veiðimaður hafði þverbrotið allar reglur og lagafyrirmæli með því að yfirgefa veiðislóð og vitja ekki lengur um gildruna. Tilkynnti ég fund minn til Náttúrufræðistofnunar sem vísaði málinu áfram til Umhverfisstofnunar. Einnig til formanns Umhverfisnefndar Mosfellsbæjar og heilbrigðisfulltrúa Mosfellsbæjar þar eð ég taldi að málið varðar málefni á vegum Mosfellsbæjar. Hann vísaði málinu áfram til Matvælastofnunar sem er ein furðulegasta stofnun landsins. Hún virðist ekki ráða við nema lítið brot af þeim lögbundnu verkefnum sem henni eru falin, m.a. eftirliti með velferð dýra og veiðum villtra dýra.

Ég vænti þess að heilbrigðisfulltrúinn sem nú fyrir skemmstu reyndi að láta fjarlægja vel haldna hana í Mosfellsbæ, léti fjarlæga hræið af minknum og taka dýrabogann í sína vörslu sem mikilsvert sönnunargagn ef til opinberrar rannsóknar kemur. En það er enn einn höfuðverkurinn því lögreglan getur ekki sökum fjárskorts og manneklu sinnt öllum málum eins og þörf væri á. Dýravernd og velferð dýra er ekki framarlega á forgangslista yfir verkefni lögreglunnar.

Dýravernd á að setja mun ofar á forgangslista þeirra aðila sem eiga að hafa eftirlit með að landslög séu haldin.

Þeir sem vilja kynna sér betur réttarheimildir þá má finna þær á heimasíðu Alþingis: www.althingi.is

Lög um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum nr. 64/1994

Lög um dýravernd nr. 15/1994

Reglugerð um refa- og minkaveiðar 437/1995

Guðjón Jensson,
eldri borgari í Mosfellsbæ.

Varmárósar

Úrsúla Jünemann

Úrsúla Jünemann

Varmárósar í Mosfellsbæ er elsta friðlandið í okkar bæjarfélagi. Það var friðlýst 1980 og 17.9. 2012 var friðlýsingin endurskoðað.
Samningurinn um umsjón og rekstur friðlandsins við Varmárósa í Mosfellsbæ má skoða undir:
http://www.ust.is/library/Skrar/Einstaklingar/Fridlyst-svaedi/Auglysingar/Varmarosar_samningur.pdf Mosfellsbær skuldbindur sig þar að hafa daglega umsjón með svæðinu og sjá til þess að ásýnd svæðisins verði sem best.
Nú sl. haust hafa hestamenn í Herði búið til heybaggageymslu alveg við mörkin á friðlandinu sem veldur töluverðri sjónmengun. Plasttægjur hafa fokið frá böggunum og rusl, m.a. álpappírsleifar hefur safnast þarna fyrir. Mér er óskiljanlegt að menn hafa fengið leyfi til að vera með heybaggageymslu á þessum stað.
Nú tel ég hestamenn upp til hópa vera ábyrga útivistarmenn og náttúruunnendur. Þannig að þeir munu vonandi kippa þessu í lag og hreinsa til.
Það stendur til að setja upp fræðsluskilti um fuglalíf í Leiruvoginum og eitt af 4 skiltum á einmitt að vera við mörk Varmárósa. Það mun vonandi hvetja fleiri bæjarbúa til að leggja leið sína þangað, skoða, njóta og fá fræðslu um leið. Við eigum jú svo stórkostleg útivistarsvæði í bæjarlandinu og eigum að fara vel með þau.

Úrsúla Jünemann, náttúruvinur