Málefni aldraðra í Mosfellsbæ og EIR málið

Sveinn Óskar Sigurðsson

Sveinn Óskar Sigurðsson

Miðflokkurinn leggur ríka áherslu á að þeir sem fyrir hann starfa vilji vinna með fólki en ekki brjóta sjálfsmynd fólks niður. Við sem skipum lista Miðflokksins í Mosfellsbæ komum úr öllum áttum og fjölmargt sem sameinar okkur.

Við erum eins og þið
Í einhverjum tilvikum virðist sem stjórnmálamenn hafi farið svo út fyrir getu sína og mörk að tíðindum sæti. Við, sem skipum lista Miðflokksins, erum vinnandi fólk á öllum aldri. Við erum viðskiptafræðingar, einn er lögreglumaður, þar má finna einstæðar mæður, fólk sem hefur þurft að berjast fyrir hverri krónu, sumir eru vörubílstjórar, aðrir námsmenn. Við höfum marga fjöruna sopið og erum hokin af reynslu.

EIR málið verður rannsakað
Miðflokkurinn lofar því að EIR málið verði rannsakað, mál sem er eina einstaka hrunmálið sem ekki hefur verið rannsakað. Þar glötuðust 8 milljarðar og þar af 2 af lífeyri eldri borgara, þeirra sem treystu og trúðu þáverandi stjórnarmönnum EIRAR. Þeir hafa ekki þurft að sæta ábyrgð. Ekki má gleyma þaulsetnasta flokksins í bæjarstjórn.

Margrét Jakobína Ólafsdóttir

Margrét Jakobína Ólafsdóttir

Eigum við að gleyma þessu EIR máli?
Getum við, í hvaða flokki sem er, látið undir höfuð leggjast að kalla til ábyrgðar þá sem gættu ekki hagsmuna eldri borgara í þessu bannsetta EIR máli? Í stjórn var fólk með menntun frá verkfræðingi til lögfræðings og gætti ekki þess einfalda og sjálfsagða hlutar að þinglýsa beinum eða óbeinum eignarréttindum gamla fólksins. Hvaða opinber embættismaður, lögmaður eða fasteignasali sem er hefði misst öll sín réttindi og starf vegna aðgerðarleysis af þessum toga.
Getum við, sem samfélag, haldið vegferð okkar áfram inn í lífið og út úr því án þess að þetta mál verði krufið? Við í Miðflokknum segjum nei!
Það er tími til kominn að meirihlutinn í Mosfellsbæ, þ.e. þeir sem þar enn sitja í fleti, fái úttekt á því hvernig fulltrúar þeirra fóru með fjármuni eldri borgara í framangreindu EIR máli.

Miðflokkurinn vill persónulega þjónustu og skilvirkar lausnir fyrir aldraða
Miðflokkurinn leggur áherslu á að gæta að persónulegri þjónustu við aldraða inn í framtíðina. Tími ópersónulegrar símsvörunar og kröfu um fyrirspurnir í gegnum netheima Mosfellsbæjar er runninn upp. Miðflokkurinn mun tryggja aðrar leiðir og persónulegri fyrir eldri borgara í Mosfellsbæ þar sem tryggt verði aðgengi beint að bæjarstjóra fyrir hvern einasta einstakling.
Við munum tryggja gjaldfrjálsar almenningssamgöngur fyrir aldraða og aðgengi að þjónustu þótt búið sé að loka Heilsugæslunni um kvöldin og helgar auk þess að síðasti bankinn lokaði skyndilega. Miðflokkurinn vill rjúfa einangrun eldri borgara og auka virkni þeirra.
Miðflokkurinn mun ekki gera aldraða að e.k. féþúfu eins og virðist gilda um meirihlutann í Mosfellsbæ og EIR. Þarna er gott að vera en það er dýrt. Verðlag leigu og þjónustu er tilkomið m.a. vegna óráðsíu og þessa umtalað EIR máls. Þaðan sprettur þessi vandi og honum hefur verið velt yfir á eldri borgara. Miðflokkurinn mun leitast við að vinda ofan af þessu viljaverki.

Sveinn Óskar Sigurðsson er viðskiptafræðingur og skipar 1. sæti á lista Miðflokksins í Mosfellsbæ.
Margrét Jakobína Ólafsdóttir er félagsliði og skipar 6. sæti á lista Miðflokksins í Mosfellsbæ.