Heilsueflandi göngur

Katrín Sigurðardóttir

Katrín Sigurðardóttir

Enginn efast lengur um að hreyfing sé mikilvæg og hafi góð áhrif á heilsuna. Fjöldinn allur af rannsóknum liggja fyrir sem sýna fram á það. Rannsóknir staðfesta einnig að hreyfing þarf ekki að vera svo mikil til að skila bættri heilsu.
Annað sem rannsóknir sýna er að félagsskapur er líka mjög mikilvægur góðri heilsu, það er að vera í sambandi við aðra og fara út á meðal fólks. Til að viðhalda góðri heilsu þarf ástundun að vera reglubundin og allt árið um kring.
Allt of algengt er að fólk taki sig til og ákveði að fara í ýmis konar átök í alls kyns hreyfingu. Farið er bratt af stað en svo einhvern veginn endist maður ekki í þessu og fer aftur í sama farið. Slíkar skorpur eru ekki til þess fallnar að auka heilbrigði eða verða að lífstíl sem hægt er að tileinka sér í langan tíma.
Rauði krossinn í Mosfellsbæ stofnaði á sínum tíma gönguhóp sem við köllum Gönguvini. Markmiðið með hópnum er að ganga saman til heilsubótar og er gönguhópurinn fyrir alla sem sem vilja koma út á meðal fólks og hreyfa sig á sínum forsendum, á sínum hraða og í góðum félagsskap.

Gengið er tvisvar í viku í um það bil klukkustund á hraða sem hentar hverjum og einum. Ekki er verið að keppa við aðra eða klukkuna, heldur er það hverjum og einum í sjálfsvald sett hversu langt hann gengur og hversu hratt hann fer. Til þess að það sé hægt er valin gönguleið með mögleika á að snúa til baka eftir mislanga göngu. Þetta er kjörið tækifæri fyrir þá sem ekki treysta sér einir út að ganga af einhverjum ástæðum því Gönguvinir aðstoða hver annan ef á þarf að halda. Áherslan er á að ganga með hópnum á fyrirfram ákveðum tíma en það gerir það mun líklegra að maður drífi sig í af stað og haldi út að ganga reglulega til lengri tíma og geri gönguna að lífsstíl.

Nú er veturinn farinn að gera vart við sig með alls konar veðrum sem oft eru ekki hagstæð þeim sem vilja stunda göngur allt árið um kring. Margir hætta þá en dæmigert er að fólk taki sig til á vorin og byrji að stunda göngur en hætti svo aftur og ekki síst þegar vetur konungur gerir vart við sig. Þá er maður kominn í hið dæmigerða mynstur þar sem ekki er stunduð reglubundin hreyfing árið um kring. Til að gera okkur kleift að stunda göngur allt árið hafa Gönguvinir fengið leyfi til að ganga inni í fótboltahúsi Egilshallar á sínum reglubundna tíma þegar veður er óhagstætt. Þannig komust við hjá að berjast við veður og vinda eða leggja okkur í hættu í hálku og ófærð.
Gengið er á mánudögum og fimmtudögum klukkan 16.30 frá Rauða kross húsinu að Þverholti 7 Mosfellsbæ. Allir eru velkomnir þeim að kostnaðarlaus.

Katrín Sigurðardóttir
Ritari stjórnar Rauða krossins
í Mosfellsbæ og hópstjóri Gönguvina.

Við getum gert miklu betur

Rósa Björk Brynjólfsdóttir

Rósa Björk Brynjólfsdóttir

Það eru sannarlega óvenjulegir tímar í stjórnmálum. Við göngum aftur til þingkosninga, í annað sinn á einu ári.
Tímarnir eru ekki óvenjulegir af því að ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokk innanborðs sprakk í þriðja skiptið í röð, það virðist orðið að venju í íslensku samfélagi að ríkisstjórnir sem Sjálfstæðisflokkurinn er í forsvari fyrir eða sitji í, springi og skapi óreiðuna sem formanni Sjálfstæðisflokksins er tíðrætt um og óttast hvað mest.
Nei, tímarnir eru óvenjulegir því að efnahagslegar ástæður eru ekki ástæða þess að ríkisstjórn Sjálfstæðisflokksins hélt ekki velli núna, heldur femínísku baráttu-bylgjurnar gegn kynjaofbeldi og kynferðisafbrotum gegn börnum. Leyndarhyggjan og samtryggingin var skoruð á hólm. Þolendur hryllilegra kynferðisafbrota sýndu ótrúlegt hugrekki og þrautseigju. Stigu fram og neituðu að gefast upp fyrir þöggun og leynd. Þau, ásamt fjölmiðlum, héldu áfram að krefjast upplýsinga og gagnsæis. Kröfðust þess að hlustað sé á þau á æðstu stöðum íslensks stjórnkerfis. Fólk hafði hátt.
Fyrir þetta hugrekki og magnaða þrautseigju þolenda kynferðisofbeldis nú og áður, ber okkur að þakka margfalt fyrir.
Við í Vinstri hreyfingunni grænu framboði styðjum femíníska baráttu, enda erum við kvenfrelsisflokkur sem frá stofnun hefur barist fyrir því að útrýma kynbundnu ofbeldi í hvívetna, viljum styrkja réttarstöðu þolenda kynferðisofbeldis og barist fyrir jafnrétti kynjanna á öllum sviðum samfélagsins og efla fræðslu um jafnréttismál. Þeirri baráttu munum við í Vinstri grænum halda áfram að leggja lið af krafti.

Við erum líka grænn flokkur og teljum að íslenskt samfélag þurfi að leggja miklu meiri þunga en nú á umhverfismálin. Ísland á að verða kolefnishlutlaust 2040, hverfa frá áformum um olíuvinnslu og strika frekari áform um mengandi stóriðju út af borðinu. Ísland á að beita sér á alþjóðavettvangi fyrir því að halda hlýnun jarðar undir 1,5°C.
Tryggja þarf umhverfisákvæði í stjórnarskrá, að náttúruauðlindir séu í þjóðareign og nýting þeirra sé í sátt við umhverfi og náttúru. Efla þarf almenningssamgöngur – á borð við Borgarlínu sem þarf að halda áfram vinnu við – sem og fleiri græn mál.
Umhverfisvernd og virðing fyrir náttúrunni á að vera í öllum ákvarðanatökum enda mál framtíðarinnar og komandi kynslóða.

Við í Vinstri grænum viljum leiða ríkisstjórn þar sem forgangsröðun opinberra fjármuna er sanngjarnari. Við viljum efla heilbrigðisþjónustuna af alvöru og styðja betur við menntun. Velferðin á Íslandi á að jafnast á við það besta á Norðurlöndum og vera fyrir okkur öll, óháð efnahag. Gerum skattkerfið réttlátara, léttum skattbyrðinni af þeim tekjulægstu og þau sem eru mest aflögufær greiði sanngjarnari hluta til samfélagsins. Hækkum lægstu laun og styttum vinnuvikuna án launaskerðingar. Setjum strax meira fjármagn í háskólana og heilbrigðisþjónustuna, gerum betur við eldri borgara og hækkum frítekjumarkið. Hlúum að ungum fjölskyldum með raunverulegu vali á húsnæði og lengjum fæðingarorlofið.
Við getum þetta allt. Þetta er bara spurning um pólitískan vilja.

Við stöndum frammi fyrir nýjum tímum. Það er ákall í samfélaginu um meiri heiðarleika og traust í stjórnmálum. Við í VG hlýðum því ákalli og trúum að hægt sé að gera miklu betur í íslensku samfélagi.

Rósa Björk Brynjólfsdóttir,
oddviti VG í Suðvesturkjördæmi.

Hvað í fjandanum á ég að kjósa?

Tamar Klara Lipka Þormarsdóttir

Tamar Klara Lipka Þormarsdóttir

Lengi vel skildi ég ekki stjórnmál. Fyrir mér voru þau veruleiki fyrir miðaldra punga sem lifðu fyrir völdin ein. Eftir menntaskólagönguna tók ég mig til og kynnti mér stefnur flokkanna. Þær reyndust afar svipaðar, allir vildu betra samfélag. Hins vegar voru áherslurnar á hvað fælist í betra samfélagi ekki alltaf þær sömu.
Sem ungur kjósandi legg ég áherslu á jöfn tækifæri í samfélagi, stöðugt gengi, lægri vexti og þar af leiðandi betri kjör í húsnæðismálum. Menntamálin eru mér einnig afar hugleikin.
Það var ekki fyrr en fyrir tveimur árum sem ég gat loksins sagt að ég væri sammála stefnu flokks. Sá flokkur heitir Viðreisn, en Viðreisn er fyrsti frjálslyndi flokkurinn á Íslandi síðan 1929. Ég velti lengi fyrir mér hvers vegna frjálslyndi skipti mig svona miklu máli og af hverju ég væri svona sammála stefnu Viðreisnar.
Ég komst að því að flokkur sem er reiðubúinn að halda huganum opnum fyrir hugmyndum sem fælust í breytingum á núverandi ástandi í samfélaginu. Það skiptir mig miklu máli, enda tel ég liggja í augum uppi að margt mætti bæta til hins betra. Viðreisn er flokkur sem berst fyrir jöfnum tækifærum, stöðugleika og betri kjörum allra stétta. Flokkur sem berst fyrir kerfisbreytingum og sátt í samfélaginu. Flokkur sem leggur áherslu á jöfn tækifæri, þar sem allir standa jafnfætis í samfélaginu.
Eitt helsta stefnumál Viðreisnar er gjaldeyrismálið en það felst í því að taka upp evruna eða tryggja stöðugt gengi með myntráði. Þar af leiðandi yrðu vextir á húsnæðislánum ekki 7-8% heldur um 2%. Sem ungur kjósandi skiptir það mig miklu máli að ég geti keypt íbúð á svipuðum kjörum og í nágrannalöndunum.
Viðreisn samanstendur af virkilega öflugu og kláru fólki. Flokkur sem nýtir stöðu sína til verka en ekki valda. Þetta eru breytt stjórnmál og er ég virkilega ánægð að loksins sé kominn flokkur sem talar ekki aðeins um breytingar heldur fer í þær kerfisbreytingar er þörf er á.

Tamar Klara Lipka Þormarsdóttir;
laganemi, lögreglumaður og skipar 9. sæti
í Suðvesturkjördæmi fyrir hönd Viðreisnar.

Heilbrigt atvinnulíf

Guðmundur Andri Thorsson

Guðmundur Andri Thorsson

Jafnaðarmenn eru ekki á móti því að fólk verði auðugt af dugnaði sínum og útsjónarsemi. Öðru nær.
Um að gera – það á að greiða götu lítilla og meðalstórra fyrirtækja svo að þau vaxi og dafni, eigendum sínum, starfsfólki og samfélaginu öllu til hagsbóta. Þess vegna viljum við meðal annars lækka tryggingargjald.

Það er hins vegar ekki hugsjónamál okkar jafnaðarmanna að menn geti orðið­ ­auðugir hvað sem það kostar öll hin.

Okkur finnst ekki rétt fólk hagnist á því að vera í einokunarstöðu við að selja okkur varning sem við verðum að kaupa. Okkur finnst ekki sanngjarnt að menn fái úthlutað ókeypis einkaaðgangi að sameiginlegum auðlindum og fari svo að selja öðrum aðgang að þessum einkarétti – jafnvel að veðsetja hann fyrir gríðarlegar fjárhæðir sem eru svo faldar í skattaskjólum. Við erum ekki hrifin af skattaskjólum. Við erum ekki hrifin af kúlulánakapítalisma.
Við erum ekki hrifin af gervivaxtarbólum sem springa fyrr en varir með hörmulegum afleiðingum fyrir aðra en þá sem blésu út bólurnar. Við erum ekki hrifin af því að fólk raki saman auði á því að hagnast á veikindum annarra, eða hinu að kenna forréttindabörnum forréttindafræði á meðan hið almenna kerfi sé fjársvelt.

Fólk á að njóta sín
Okkur dreymir um heilbrigt atvinnulíf þar sem sníkjulífsóværan nær ekki að þrífast og reglugerðir koma í veg fyrir einokun og fjárryksugur. Við viljum að dafni bílaverkstæði og bókaútgáfur, forritun, ferðaþjónusta og matvælagerð, blómabúðir, álfaleiðsögn og stjörnuskoðun – og yfirleitt hvað það sem fólki hugkvæmist að nota hæfileika sína í. Því að hugsjón jafnaðarmanna er sú að fólk njóti sín.

Velferðarkerfið og vanrækta innviði ætlum við að fjármagna með auðlindagjöldum, að norskri fyrirmynd. Við ætlum að hækka skatta á stóreignafólk en lækka þá á venjulegt launafólk. Um þetta meðal annars snýst pólitík: hvernig við skiptum gæðunum.

Guðmundur Andri Thorsson
oddviti Samfylkingarinnar í SV kjördæmi

Forvarnir eru svarið

Willum Þór Þórsson

Willum Þór Þórsson

Mosfellsbær er heilsueflandi samfélag. Nálægðin við náttúruna skapar umgjörð fyrir hvers konar íþróttaiðkun og útivist hvort sem það er að taka þátt í hlaupahópnum í bænum, stunda hestamennsku, fara í sundlaugarnar, ganga á Úlfarsfellið eða annað. Þátttaka í íþróttum og frístundastarfi hefur ótvírætt forvarnargildi.

Rannsóknir benda til að fyrstu 1000 dagarnir í lífi barna hafi áhrif á framtíðarheilbrigði þeirra. Því er mikilvægt að styðja við foreldra ungra barna. Framsókn ætlar að lengja fæðingarorlofið í 12 mánuði og leggja áherslu á styttingu vinnuvikunnar. Auk þess þarf að styðja við foreldra sem eiga við geðrænan vanda að stríða.

Endurskipuleggja þarf geðheilbrigðiskerfið og auka aðgengi að sálfræðimeðferð. Við ætlum að efla heilsugæsluna frekar þannig að þar starfi saman fleiri fagstéttir. Við ætlum einnig að niðurgreiða sálfræðiþjónustu. Ráðast þarf í þjóðarátak gegn sjálfsvígum.
Efla þarf löggæslu til að lögreglan hafi burði til þess að takast á við breyttan veruleika og geti tryggt öryggi okkar sem allra best.

Kristbjörg Þórisdóttir

Kristbjörg Þórisdóttir

Hvetja þarf til aukinnar hreyfingar með því að veita hreyfistyrk árlega. Einnig þarf að veita stuðning við uppbyggingu íþróttamannvirkja til að viðhalda og bæta enn frekar aðstöðu til íþróttaiðkunar barna og unglinga. Lækka þarf verð á ávöxtum, grænmeti og annarri matvöru sem skilgreind er sem hollustuvara.

Við þekkjum það úr störfum okkar hversu miklu máli forvarnir skipta, hvort sem þær snúa að fjölskyldunni, geðheilbrigðismálum, löggæslu eða hreyfingu og heilbrigðum lífsstíl. Við viljum setja þessi málefni fremst í forgangsröðina. Þess vegna erum við í stjórnmálum.

Willum Þór Þórsson skipar 1. sæti á lista Framsóknar í Suðvesturkjördæmi
Kristbjörg Þórisdóttir skipar 2. sæti á lista Framsóknar í Suðvesturkjördæmi

Andlegt ferðalag

vinur

Í lífi manna gengur mismikið á en hjá flestum safnast upp með tímanum atvik og tilfinningar sem erfitt getur verið að vinna úr. Sumt er meðvitað en annað ómeðvitað og því oft mjög erfitt að átta sig á því.
Ég er þarna engin undantekning og eftir því sem leið á, fann ég að eitthvað var ekki eins og það átti að vera. Eitthvað hafði slökknað innra með mér. Ég hélt samt áfram því ég þurfti að sjá fyrir mér og mínum! Það kom svo að því að ég varð algerlega uppgefinn. Ég var orðinn ómeðvitaður um eigin tilfinningar og þarfir, mér leið eins og ég væri tilfinningalaus! Gleðin var horfin úr lífi mínu og ég vissi ekki hvað ég vildi eða þurfti. Mér fannst fólk ráðskast með mig, bæði persónulega og í vinnu. Þó ég hefði einhverjar skoðanir stóð ég ekki á þeim heldur flaut bara með. Ég hafði lítið sjálfsálit og dæmdi mig hart ef eitthvað gekk ekki eins og ég vildi. Mér leið ekki vel og einangraði mig og sinnti í engu mínum eigin þörfum. Mér fannst ég hafa misst stjórnina á lífinu.
Dag einn hitti ég gamlan vin sem greinilega tók eftir breytingu á mér og kannaðist við ástandið því hann fór að segja mér frá hvernig hann hafði endurskoðað líf sitt með aðferðum 12 sporanna. Með því hafði hann náð tökum á lífi sínu á ný. Hann lýsti því hvernig það að skoða líf sitt á þennan hátt fékk hann til að koma auga á ýmislegt sem betur mátti fara og að á einum vetri hefði hann náð góðum tökum á lífi sínu á ný. Hann hafði tileinkaði sér nýjan lífsstíl þar sem hann notar aðferðir 12 sporanna til að tækla lífið og tilveruna. Með því var hann nú orðinn sáttur við líf sitt, sig og sína.
Vinur minn hvatti mig til að koma með sér á sporafund hjá Vinum í bata og athuga hvort ég finndi þar leið út úr mínum ógöngum. Ég varð hissa því ég hélt að 12 sporin væru eingöngu fyrir þá sem ættu við áfengis- eða fíkniefnavanda að stríða.
Það er skemmst frá því að segja að ég sló til og fór í 12 sporin og get nú ekki hugsað mér lífið án þeirra. Með hjálp sporanna tileinkaði ég mér nýjan lífstíl sem gerði mér kleift að ná tökum á lífinu, finna gleðina á ný og lifa í sátt við sjálfan mig og aðra.

Vinir í bata er hópur karla og kvenna á öllum aldri sem hafa tileinkað sér Tólf sporin til að vinna úr sínum málum hvort sem er úr fortíð eða í nútíð.

Hefur þú einhvern tímann velt fyrir þér að skoða líf þitt og vinna úr því sem safnast hefur upp á lífsleiðinni eða einfaldlega bæta samskipti við annað fólk? Þá ætti þú að kynna þér 12 sporin hjá Vinum í bata.

Síðasti kynningarfundurinn í vetur verður í safnaðarheimili Lágafellskirkju að Þverholti 3, miðvikudagskvöldið 25. október­ kl. 18:30. Það er síðasta tækifærið til að slást í hópinn þennan veturinn því eftir það er hópum lokað og hin eiginlega 12 spora vinna hefst.

Bestu kveðjur,
Vinur í bata.

Þegar stórt er spurt

Margrét Tryggvadóttir

Margrét Tryggvadóttir

Í kosningabaráttu þeytast frambjóðendur um og reyna að kynna sig, flokkinn sinn, hugsjónirnar og hugmyndafræðina.
Ólíkt því sem ætla mætti af umræðunni taka flestir þátt í stjórnmálastarfi af hugsjón. Þeir vilja bæta samfélagið og trúa því að sú hugmyndafræði sem þeirra flokkur byggi á muni gera það betra. Og því trúi ég einmitt. Ég er handviss um að jafnaðarstefnan er svarið við því hvernig við getum byggt upp betra og heilbrigðara samfélag til framtíðar. Við höfum hreinlega sannanir fyrir því.
Á hinum Norðurlöndunum hefur hún orðið ofan á og það er sama hvar okkur ber niður – allar alþjóðlegar mælingar sýna að hinum norrænu þjóðunum vegnar best. Það er sama hvort litið er til jafnréttis kynjanna, hagsældar, velmegunar, heilbrigðis, lífslíkna eða frelsis í viðskiptum. Norræna leiðin hefur reynst best. Þar er velferðarkerfið sterkast og best hlúð að fólki á öllum aldri.

Nýlega var ég í framhaldsskóla að kynna málefni Samfylkingarinnar fyrir áhugasömum nemendum. Krakkarnir færðu sig á milli borða en við frambjóðendurnir sátum kyrrir og höfðum fimm mínútur til að kynna hverjum nemendahóp stefnu okkar og hugsjónir.
Þegar viðburðurinn var að klárast kom til mín strákur sem hafði verið með þeim fyrstu sem við ræddum við. „Ég er með spurningu,“ sagði hann. „Ég var nefnilega að hugsa. Mér leist svo rosalega vel á allt hjá ykkur. Hver eru eiginlega gildi þeirra sem eru á móti ykkar stefnu?“

Þegar stórt er spurt, er oft fátt um svör. Flokkurinn minn berst meðal annars fyrir jöfnuði, mannréttindum og mannúð, réttlátari skiptingu gæðanna, betra heilbrigðiskerfi, auknu aðgengi að sálfræðingum, sókn í menntamálum, umhverfismálum og síðast en ekki síst nýrri stjórnarskrá sem tryggir að arðurinn af auðlindunum renni til þjóðarinnar. Hver gæti svo sem verið á móti því?

Margrét Tryggvadóttir
Skipar 2. sæti á lista Samfylkingarinnar í SV kjördæmi

Velkominn Arnarskóli í Mosfellsbæ

Hulda Margrét Eggertsdóttir

Hulda Margrét Eggertsdóttir

Mig langar að byrja á því að bjóða þennan skóla velkominn í bæjarfélagið okkar og vekja athygli á því við nærsveitarmenn, og þá sérstaklega bæjaryfirvöld, hvers skonar fengur er þarna á ferð fyrir okkar bæjarfélag.
Ég er svo heppin að hafa notið þjónustu atferlisfræðinga sem þarna starfa. Þarna er verið að setja á fót skóla sem virkileg þörf er á á Íslandi, því þó að skóli án aðgreiningar sé fallegt hugtak og eigi að vera markmiðið fyrir alla, þá eru alltaf einhverjir sem þurfa meiri aðstoð og athygli en hægt er að veita í dag til þess að geta fengið að blómstra og njóta sín.
Eins og kemur fram á facebook-síðunni er Arnarskóli grunnskóli sem stefnt er að að verði stofnaður í síðasta lagi haustið 2017. Skólinn mun bjóða heildstæða þjónustu fyrir fötluð börn með fjölþættar þarfir byggða á aðferðum hagnýtrar atferlisgreiningar. Við viljum starfa eftir hugmyndafræði um skóla án aðgreiningar og sjáum fyrir okkur að skólinn verði staðsettur í almennum grunnskóla með eins miklu samstarfi við þann skóla og mögulegt er. Skólinn yrði þó rekinn af sjálfseignarstofnun svo bjóða megi upp á þann sveigjanleika og sérþekkingu sem þarf til að koma til móts við þær þarfir sem væntanlegir nemendur okkar munu hafa.
Ég veit að það flotta fólk sem að þessum skóla stendur er að vinna dagsdaglega að ráðgjöf fatlaðra barna meðal annars hjá Greiningarstöð ríkisins og frábært hjá þeim að fara af stað og stofna skólann. Þörfin er mikil. Álag á fjölskyldur fatlaðra barna eins og til dæmis með einhverfu er mikið, ekki síst á barnið sjálft.
Vetrarfrí og sumarfrí eru erfið. Að púsla saman skóla, frístund, stuðningsfjölskyldum, liðveislu, talþjálfun, sjúkraþjálfun, iðjuþjálfun, atferlisþjálfun… á ég að halda áfram? Þetta er bara toppurinn á ísjakanum. Þarna er verið að bjóða upp á heildstæða þjónustu þannig að það sé samfella og föst rútína allan ársins hring. Atferlisþjálfun er mjög markviss aðferð sem reynist mjög vel að kenna fötluðum eins og til dæmis einhverfum sem eru kvíðnir eða með mótþróa.
Ég veit að lengi var leitað að heppilegu húsnæði undir skólann í öllum sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu. Því kom skemmtilega á óvart að hann skyldi vera stofnaður hér í þessum frábæra bæ Mosfellsbæ. Þar sem framtíðarmarkmiðið er að starfa við hlið almenns grunnskóla skora ég á bæjaryfirvöld að finna stað fyrir þennan skóla innan skólakerfis Mosfellsbæjar.
Eins og ég sagði í byrjun þá er mikill fengur fyrir okkur sem samfélag að fá þennan flotta skóla og mikla þekkingu inn í bæjarfélagið.

Hulda Margrét Eggertsdóttir

Bætt lífskjör almennings og kosningar

Bryndís Haraldsdóttir

Bryndís Haraldsdóttir

Það er óhætt að segja að okkur vegni vel hér á landi þegar litið er til efnahags og lífskjara almennings.
Skuldastaða íslenska ríkisins hefur batnað hratt og hefur ekki verið lægri frá hruni. Sjálfstæðisflokkurinn hefur lagt áherslu á að skuldirnar lækki enn meira enda er það besta leiðin til að geta ráðstafað auknu fé í velferðarmála, heilbrigðismál og samgöngumál.
Atvinnuleysi er hér mjög lágt og verðbólgan hefur haldist lág þrátt fyrir mikinn hagvöxt síðustu ára. Eða eins og seðlabankastjóri sagði í sumar „líklega hefur staða efnahagsmála aldrei verið betri í Íslandssögunni“. En þrátt fyrir það horfum við fram á enn aðrar kosningarnar. Ótrúlegt að okkur gangi ekki að halda meiri stjórnmálalegum stöðuleika, sérstaklega þegar horft er til þess sögulega árangurs sem náðst hefur í efnahagsmálum.
Auðvitað er það þannig að góð staða efnahagsmála þýðir ekki endilega aukna hamingju og lífsgæði almennings. En staðan hér er nú samt þannig að við erum með hamingjusömustu þjóðum og hér er jöfnuður hvað mestur.
Við Sjálfstæðismenn göngum keikir til kosninga og leggjum á borðið fyrir kjósendur grunnstefnu flokksins. Frelsi til orðs og athafna, allir eiga að hafa tækifæri til að láta drauma sína rætast.
Allir eiga að hafa jöfn tækifæri til menntunar og jafnan aðgang að heilbrigðiskerfinu. Við treystum best hinum vinnandi manni fyrir tekjum sínum og stefnum ávallt að því að halda skattaálögum í lágmarki.
Þrátt fyrir að mikið sé lagt á kjósendur að ganga til kosninga nú þegar aðeins er liðið ár frá síðustu alþingiskosningum vil ég þó leggja áherslu á að almenningur missi ekki trúna á stjórnmálunum.
Lýðræðið er ekki fullkomið en þó besti kosturinn. Kosningar eru hluti af lýðræðinu og því er það ekki bara æskilegt heldur skylda almennings að taka sér tíma til að kynna sér málefni framboðanna, mynda sér afstöðu og mæta á kjörstað 28. október næstkomandi.
Fyrir ári síðan gaf ég kost á mér til þingsetu og stóð í þeirri meiningu að það gerði ég til næstu fjögurra ára. Ég átti ekki von á kosningum ári seinna en það er staðan í dag. Ég er tilbúin að halda áfram að vinna með Sjálfstæðisflokknum að því að tryggja hér áframhaldandi lífsgæði almennings og mun því aftur bjóða fram krafta mína í komandi kosningum.

Bryndís Haraldsdóttir
Þingmaður Sjálfstæðisflokksins

35 ár frá stofnun Rauða­krossdeildar í bænum

Hulda Margrét Rútsdóttir

Hulda Margrét Rútsdóttir

Þann 6. október næstkomandi verða liðin 35 ár frá því stofnfundur Rauðakrossdeildar Kjósarsýslu var haldinn í Hlégarði.
Á fundinn mættu 42 aðilar sem samþykktu samhljóða tillögu Hilmars Sigurðssonar og Árna Pálssonar um stofnun Rauðakrossdeildar „fyrir Mosfellssveit, Kjalarnes- og Kjósarhreppa.“ Fyrstu stjórnina skipuðu þau Úlfur Þór Ragnarsson, Valgerður Sigurðardóttir (formaður), Sigríður Jóna Friðriksdóttir, Magnús Leópoldsson og Gísli Jónsson.
Á þessum 35 árum hafa verkefnin verið margvísleg og tekið mið af tíðarandanum hverju sinni en alltaf er leitast við að standa vörð um mannréttindi og virðingu einstaklinga. Á 30 ára afmæli deildarinnar árið 2012 breyttist nafn Kjósarsýsludeildar í Rauði krossinn í Mosfellsbæ en starfssvæði og starfsemi deildarinnar er það sama þótt nafninu hafi verið breytt.
Rauði kross Íslands er aðili að Alþjóðahreyfingu Rauða krossins og Rauða hálfmánans sem er stærsta mannúðarhreyfing veraldar. Hreyfingin byggir allt sitt starf á sameiginlegum grundvallarmarkmiðum um mannúð, hlutleysi, óhlutdrægni, sjálfstæði, einingu, sjálfboðið starf og alheimshreyfingu.
Meginhlutverk hreyfingarinnar er að bregðast við hvers konar neyð hvort heldur er af náttúru- eða mannavöldum og standa vörð um og aðstoða einstaklinga eða hópa sem verst eru staddir.
Rauði krossinn byggir að stærstum hluta á sjálfboðnu starfi og ber öllum sjálfboðaliðum og starfsmönnum að starfa í samræmi við markmið hreyfingarinnar. Rauði krossinn í Mosfellsbæ er ein af 42 Rauðakrossdeildum sem starfandi eru víðsvegar um landið.
Öflugt net sjálfboðaliða er styrkur félagsins. Rauði krossinn hefur langa reynslu af neyðaraðstoð jafnt innan lands sem utan og er mikilvægur hlekkur í almannavörnum Íslands. Félagið vinnur með íslenskum stjórnvöldum að mannúðarmálum og fylgir eftir grundvallaratriðum Genfarsamninganna gagnvart þeim. Rauði krossinn kannar reglulega hvaða þjóðfélagshópar eru verst staddir í íslensku samfélagi og bregst við niðurstöðunum með breyttum áherslum í starfinu.
Sunnudaginn 1. október frá klukkan 12-14 verður opið hús og kynning á starfi Rauða krossins í Mosfellsbæ í húsnæði deildarinnar, Þverholti 7. Það verður súpa og brauð á boðstólum og heitt á könnunni. Þar gefst upplagt tækifæri til þess að kynna sér verkefnin okkar og spjalla við sjálfboðaliða, stjórnarmeðlimi og starfsmann. Allir velkomnir.

Hulda Margrét Rútsdóttir
Verkefnastjóri hjá Rauða krossinum í Mosfellsbæ

Hjólum til framtíðar

Úrsúla Jünemann

Úrsúla Jünemann

Evrópska samgönguvika var eins og venjulega í september, nánar tiltekið dagana 16. – 22. septem­ber. Þetta er árlegur viðburður þar sem allir eru hvattir til að huga að vistvænum samgöngum.
Fastur liður í þessari viku er málþingið „Hjólum til framtíðar“ og er það samstarfsverkefni sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu. Mosfellsbær var gestgjafi á síðasta ári og tókst það vel. Á næsta ári verður það Seltjarnarnes. Í ár var málþingið haldið í Hafnarfirði undir yfirskriftinni „Ánægja og öryggi“.
Mikið var um góð og fróðleg erindi, bæði frá erlendum og innlendum fyrirlesurum. Hápunkturinn var tvímælalaust þegar forseti vor kom sæll og rjóður í kinnum inn í sal og skellti hjólreiðahjálminum sínum út í horn eftir að hafa hjólað frá Bessastöðum í Hafnarfjörðinn. Hans hlutverk var að afhenda Hjólaskálina sem er viðurkenning fyrir stofnanir og fyrirtækin sem hafa haft sig í frammi við að efla hjólreiðarmenninguna á einhvern hátt. Í þetta skipti var það Isavía sem hlaut þennan heiður. Mig minnir að Reykjalundur hér í bænum hafi áður fengið þessa viðurkenningu.
Ég kom heim eftir að dagskránni lauk, full af gleði yfir öllu sem var gert og er að gerast í þágu hjólreiða síðustu árin. Enda eru hjólreiðar ákaflega skemmtilegur samgöngumáti sem er bæði holl hreyfing, vistvænn og dregur úr umferðaþunga og þörf fyrir bílastæði. Ég hef stundað hjólreiðar frá því að ég flutti í Mósó fyrir meira en 30 árum og var ein þeirra sem var álitin stórskrítin af því að ég átti ekki bíl. Þá voru varla til hjólreiðastígar og eina leiðin til Reykjavíkur var meðfram Vesturlandsveginum.
Nú eigum við hér í bænum fullt af skemmtilegum hjólreiðaleiðum. En betur má ef duga skal. Mér detta strax nokkur atriði í hug. Með því að menn nota hjólin ekki einungis yfir hábjart sumarið eykst þörfin fyrir góða lýsingu á leiðunum.
Á stígnum fyrir neðan Holtahverfið til dæmis er allt of langt milli ljósastauranna og niðdimmt þar á milli. Huga þarf einnig að því í hönnun stíga að á þeim myndist ekki pollar sem verða svo að klaka í frosti og setja hjólreiðamenn í hættu. Loks get ég ekki skilið hvað kemur í veg fyrir að við veginn upp að Reykjalundi sé lagður stígur fyrir gangandi og hjólandi vegfarendur. Oft er þörf en þarna er nauðsyn.
Ég óska öllum góðs göngu- og hjólreiðaárs og hvet menn að láta í sér heyra ef þeim finnst eitthvað ekki nógu gott.

Úrsúla Jünemann.
Höfundur er starfandi fyrir Íbúahreyfingu í umhverfisnefnd.

Neytendur, frjálslyndi og kerfið

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir

Það hefur löngum legið ljóst fyrir að það er ekki alltaf vinsælt að stokka upp í stöðnuðum kerfum. Ekki vegna þess að almenningur vilji ekki sjá fram á eðlilegar breytingar heldur fer kerfið sjálft og sterkir hagsmunaðilar því tengdir upp á afturlappirnar.
Neytendur hafa ekki verið sjálfsögð breyta hjá hugmyndasmiðum núverandi landbúnaðarkerfis. Árum saman hefur varðstaða verið uppi um óbreytt landbúnaðarkerfi. Samt koma sömu viðfangsefnin endurtekið upp líkt og í sauðfjárrækt. Bændur standa enn og aftur hjálparlausir frammi fyrir því að afurðarstöðvarnar lækka verðin til þeirra og verðlækkun til neytenda er ekki í myndinni. Samt má ekki hrófla við kerfinu né taka raunverulega á vandanum.
Lausnir gömlu flokkana felast í kyrrstöðu um kerfið. Og að venju borga neytendur og skattgreiðendur brúsann. Það sem verra er, lausnirnar gagnast bændum lítið til lengri tíma litið.
Kröfur um umfangsmikil birgðakaup og útflutningsskyldu sem heldur uppi verði til íslenskra neytenda hafa endurtekið verið settar fram af þingmönnnum Framsóknar, VG og Sjálfstæðisflokks í stað þess að ráðast að rót vandans. Það er óskiljanlegt og óverjanlegt fyrir neytendur.
Svipuð staða er uppi þegar litið er til mjólkurframleiðslunnar en hún er undanþegin samkeppnislögum. Eins og búið var að kynna í sumar á vef ráðuneytisins átti að afnema á þessu þingi undanþágu Mjólkursamsölunnar enda þarf að útskýra það sérstaklega af hverju sérlög eigi að gilda um fyrirtækið en ekki almenn lög. Lítil og meðalstór fyrirtæki í mjólkuriðnaði eiga einnig erfitt með að festa sig í sessi í þessu umhverfi með tilheyrandi tjóni fyrir neytendur. Mótspyrnan var hins vegar mikil frá sérhagsmunaaðilum og gömlu flokkunum. Nú eru breyttar aðstæður og kosningar fram undan. Mikilvægt er að frjálslynd sjónarmið eigi sér áfram talsmenn á þingi sem þora, þrátt fyrir mikla tregðu, að hreyfa við úreltum kerfum. Eðlilegar umbætur í takti við nútímann eru nauðsynlegar en þær koma ekki af sjálfu sér, hvað þá að kerfið sjálft hafi frumkvæði að þeim. Því þarf að breyta.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir
Höfundur er sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og þingmaður Viðreisnar.

Kvenfélag Mosfellsbæjar

Vilborg Eiríksdóttir

Vilborg Eiríksdóttir

Kvenfélagið er nú að hefja sitt 109. starfsár og mun vera eitt af elstu starfandi félögum í Mosfellsbæ.
Félagið hefur starfað óslitið frá árinu 1909, fyrst undir nafninu Kvenfélag Kjalarnesþings. Stuttu seinna, eða 1910, var nafninu breytt í Kvenfélag Lágafellssóknar og bar félagið það nafn í rúm 100 ár en þá var samþykkt að breyta yfir í núverandi nafn. Kvenfélagið hefur frá upphafi haft að leiðarljósi að aðstoða með ýmsum hætti þar sem þörf er á, sérstakleg þó í nærumhverfinu.
Ekkert er félagskonum í raun óviðkomandi og í tímans rás hefur félagið komið að ótal mörgum góðum og þörfum verkefnum og tekið virkan þátt í uppbyggingu og framþróun sveitarfélagsins okkar. Kvenfélagið fundar einu sinni í mánuði yfir vetrartímann og gestir eru hjartanlega velkomnir.
Næsti fundur verður mánudagskvöld 2. október 2017 kl. 20:00 í Safnaðarheimili Lágafellssóknar, Þverholti 3, annarri hæð. Hvernig væri að slást í hópinn og taka þátt í gefandi og skemmtilegu starfi?

Vilborg Eiríksdóttir formaður KM

Gleði í kortunum

Ólöf Kristín Sívertsen

Ólöf Kristín Sívertsen

Vonandi hafa allir notið sumarsins og bæjarhátíðarinnar í faðmi fjölskyldu og/eða vina og náð að hlaða sig orku og jákvæðni fyrir veturinn. Við í Heilsueflandi samfélagi ætlum að halda áfram uppteknum hætti og munu haustið og veturinn bera ýmislegt spennandi og skemmtilegt í skauti sér.

Göngum í skólann
Að velja virkan ferðamáta, s.s. göngu, hjólreiðar, hlaup, línuskauta og/eða hjólabretti er ein einfaldasta leiðin til að auka hreyfingu í daglegu lífi. Ávinningurinn er ekki eingöngu bundinn við andlega og líkamlega vellíðan heldur er þetta einnig hagkvæm og umhverfisvæn leið til að komast á milli staða. Markmið verkefnisins Göngum í skólann er einmitt að hvetja börn til að tileinka sér virkan ferðamáta í og úr skóla og auka færni þeirra til að ferðast á öruggan hátt í umferðinni. Verkefnið stendur yfir frá 6. september til 4. október nk.

Endurskinsvesti fyrir 1. og 2. bekk
Það er löngu sannað að hreyfing hefur góð áhrif á heilbrigði, líðan og lífsgæði. Heilsueflandi samfélag hvetur alla Mosfellinga til að velja sér virkan ferðamáta og til að stuðla sérstaklega að öryggi yngstu grunnskólanemenda Mosfellsbæjar hafa Heilsuvin og Mosfellsbær í samvinnu við TM fært öllum nemendum í 1. og 2. bekk endurskinsvesti til eignar í tengslum við verkefnið Göngum í skólann. Við biðjum foreldra að hvetja börnin sín til að ganga í skólann, finna með þeim öruggustu leiðina og hjálpa þeim að muna að nota vestið til að auka öryggi þeirra.

Lýðheilsugöngur Ferðafélags Íslands
Ferðafélags Íslands stendur fyrir lýðheilsugöngum í flestum sveitarfélögum á landinu nú í september sem eru einn af hápunktunum í 90 ára afmælisdagskrá félagsins. Göngurnar munu fara fram alla miðvikudaga í september kl. 18:00. Þetta eru fjölskylduvænar göngur sem taka u.þ.b. 60-90 mínútur og er tilgangur þeirra að hvetja fólk til útivistar og hreyfingar í góðum félagsskap og efla þar með heilsu sína og lífsgæði.
Allar upplýsingar um göngustaði vítt og breitt um landið má nálgast á heimasíðunni www.fi.is­/lydheilsa en hér í Mosfellsbæ verða göngur annars vegar úr Álafosskvos og hins vegar upp á Úlfarsfell (úr Skógræktinni v/Vesturlandsveg) alla miðvikudaga í september kl. 18:00. Komið endilega með okkur, bjóðið fjölskyldu og vinum með og njótum þess að hreyfa okkur saman í fallega bænum okkar. Þátttaka er ókeypis og allir hjartanlega velkomnir.
Það er sem sagt nóg um að vera og hvetjum við ykkur sem fyrr til að taka þátt. Hlúum að okkur sjálfum og því sem okkur þykir vænt um – verum til fyrirmyndar!

Ólöf Kristín Sívertsen, lýðheilsufræðingur og
verkefnisstjóri Heilsueflandi samfélags í Mosfellsbæ

Körfubolti í Mosfellsbæ – að sumri og vetri

Ingvar Ormarsson

Ingvar Ormarsson

Í Mosfellsbæ hefur verið rekin körfuboltadeild innan Aftureldingar um árabil. Starfið hefur í gegnum árin átt sínar hæðir og lægðir. Síðustu tvö ár hefur verið lagður talsverður metnaður í að reka deildina og hefur það skilað sér í fjölgun iðkenda.
Markmiðið með starfinu er að börn í Mosfellsbæ hafi aðgang að fjölbreyttu úrvali tómstunda. Flestir eiga að geta fundið eitthvað við sitt hæfi og iðkendur körfunnar hafa fæstir verið að koma úr öðrum deildum eða íþróttafélögum heldur eru þetta börn sem hafa ekki fundið sig annars staðar.
Síðustu tvö sumur hefur verið boðið upp á sumaræfingar þar sem þátttakendur hafa fengið að leika sér í körfu úti og inni og allir hafa fengið bolta að gjöf frá Körfuknattleikssambandi Íslands. Framtakinu hefur verið vel tekið og mjög góð þátttaka. Menntaðir og reynslumiklir þjálfarar af báðum kynjum hafa leitt starfið og áhersla hefur verið lögð á að bjóða upp á góða og faglega þjálfun.
Í haust bætist við flokkur og þá verða í boði æfingar fyrir krakka í 1. til 7. bekk. Mikill uppgangur hefur verið í íþróttinni síðustu misseri og það hefur bein áhrif á starf í svona deild. Önnur íþróttafélög hafa boðið Aftureldingu sérstaklega velkomna í körfu og okkur hefur verið vel tekið.
Í haust verður iðkendum sem fæddir eru 2008 boðið að æfa frítt fram að áramótum. Æfingatímar eru tilbúnir og þjálfarar klárir og við hlökkum til að hefja starfið og bjóðum alla velkomna að koma og prófa að spila körfu. Áfram Afturelding!

Ingvar Ormarsson.
Formaður körfuknattleiksdeildar Aftureldingar.