Menntamál eru forgangsmál

sammosKæru frambjóðendur!
SAMMOS eru samtök foreldrafélaga gunnskóla í Mosfellsbæ. Hlutverk samtakanna er að stuðla að velferð grunnskólabarna, sameina krafta foreldrafélaga í bænum til góðra verka í skólamálum og vera fræðslunefnd og bæjaryfirvöldum til ráðgjafar varðandi velferð grunnskólabarna. Samtökin vilja með öðrum orðum styðja við og stuðla að uppbyggingu framúrskarandi skóla- og lærdómssamfélags fyrir alla hér í Mosfellsbæ.

Mennt er máttur
Menntun stuðlar að aukinni þekkingu, kunnáttu og færni einstaklinga þannig að þeir búi yfir hæfni til að takast á við áskoranir daglegs lífs á tímum hraðra samfélagsbreytinga. Menntun er þannig lykilþáttur þegar kemur að framþróun samfélaga og því áríðandi að tryggja aðgengi allra að menntun við hæfi og að hún fari fram við viðunandi aðstæður þar sem hlúð er að styrkleikum hvers og eins. Jafnframt er mikilvægt að horfa til fjölbreyttra kennsluhátta, snemmtækrar íhlutunar, gagnreyndra aðferða og faglegrar skólaþróunar til að renna styrkum stoðum undir framúrskarandi skóla- og lærdómssamfélag.

Vellíðan nemenda mikilvæg
Menntun er mikilvæg forsenda heilbrigðis en vellíðan nemenda er að sama skapi mikilvæg forsenda náms og góðs námsárangurs. Af þeim sökum eru heilbrigði og vellíðan einmitt skilgreind sem einn af grunnþáttum menntunar sem allir skólar eiga að hafa að leiðarljósi í starfi sínu. Okkur þykir mikilvægt að skólasamfélagið allt taki höndum saman um skapa jákvæðan skólabrag og umhverfi þar sem markvisst er stuðlað að þroska og andlegri, líkamlegri og félagslegri vellíðan barnanna okkar.

Sameinum kraftana
Markmið SAMMOS er að tryggja virka, jákvæða og uppbyggjandi samvinnu við þá hagsmunaaðila er koma að velferð grunnskólabarna í bæjarfélaginu. Það er einfaldlega hagur okkar allra að standa vörð um menntun og vellíðan barnanna sem hér búa og tryggja skýra framtíðarsýn í menntamálum.

SAMMOS skorar á frambjóðendur að setja menntamál á oddinn og tryggja þannig velferð grunnskólabarna hér í Mosfellsbæ því menntamál eru sannarlega forgangsmál.

F.h. SAMMOS: Ágúst Leó Ólafsson, formaður Foreldrafélags Krikaskóla, Helga Magnúsdóttir, formaður Foreldrafélags Varmárskóla, Ólöf Kristín Sívertsen, formaður Foreldrafélags Lágafellsskóla