Eflum kynja- og jafnréttisfræðslu

Björk Ingadóttir

Björk Ingadóttir

Kynjafræði ætti að vera skyldufag á öllum skólastigum. Almennur hluti Aðalnámskrár kveður á um að jafnréttismenntun skuli sinnt á öllum skólastigum til að fá nemendur til að horfa gagnrýnum augum á viðteknar venjur í samfélaginu.
Allir nemendur, hvort sem þeir eru leik-, grunn- eða framhaldsskólanemar, eiga að hafa rödd í kennslustofunni. Kennarar eiga að leitast við að skapa andrúmsloft þar sem nemendur þora að spyrja óheft og leiða svo samtalið í átt til skilnings.
Kennarar eiga að vera upplýstar fyrirmyndir. Þetta er mikið og flókið ábyrgðarhlutverk og í dag er boðið upp á ýmis konar valnámskeið í kynja- og jafnréttisfræðum í kennaranámi hérlendis – sem er gott! Enn betra væri þó ef þessi námskeið væru skylda í kennaranáminu, því annars fer stór hluti kennara á mis við þessa fræðslu. Þróunin ætti að vera í þá átt að kynja-og jafnréttisfræði verði skyldufag í kennaranámi og sjálfsagður hluti endurmenntunar.
Femínísku byltingarnar #freethenipple og #metoo vöktu samfélagið og sýndu okkur að betur má ef duga skal, líka í skólakerfinu. Það sem meira er þá sýndu þessar byltingar okkur að samfélagið er vel fært um að rífa sig úr hlekkjum hugarfarsins. Samfélagið endurmenntaði sig og er í sífelldri endurmenntun. Kennarar eru upp til hópa víðsýnar manneskjur sem þora að rýna í baksýnisspegilinn og taka kennslu sína til endurskoðunar. Við spyrjum okkur í þessu tilliti: tölum við eins við alla í kennslustofunni? Höfum við nógu mikla þekkingu til að skilja hversu gríðarlega margbreytilegir nemendur eru? Er námsefnið okkar fjölbreytt og höfundar alls konar? Höfum við rými í skipulaginu til að ræða mál sem koma upp eða er dagskráin svo þéttskipuð að við klippum á umræður til þess að geta haldið áfram að fara

Valgarð Már Jakobsson

Valgarð Már Jakobsson

yfir grískar rætur orða? Kunnum við að ræða við nemendur um málefni á þann hátt að samtalið leiði til skilnings og umburðarlyndis? Er þekking okkar í kynja- og jafnréttisfræðum nógu sterk til að geta tæklað allt sem upp getur komið í kennslustofunni?
Í kjarasamningum kennara er gert ráð fyrir árlegri endurmenntun en hvernig kennarar kjósa að endurmennta sig ár hvert er þeim í sjálfsvald sett. Sveitafélögin ættu að styðja við kennara með því að skapa aðstæður þar sem auðvelt er að sækja sér formlega og reglulega endurmenntun á sviði kynja- og jafnréttisfræða.
Sveitafélögin eiga svo sannarlega að sjá til þess að hlúð sé að kynjafræðikennslu í leik- og grunnskólum. Jafnrétti og gagnrýnin hugsun á jú að vera rauði þráðurinn í öllu skólastarfi, í öllum kennslustofum, öllum stundum. Pössum upp á að svo sé og gerum kynjafræði að skyldufagi í framhaldsskólum, kennaranámi og í endurmenntun.

Björk Ingadóttir og Valgarð Már Jakobsson.
Höfundar eru kennarar í FMos og frambjóðendur Vinstri grænna í Mosfellsbæ.