Virkt aðhald skapar traust

Lovísa Jónsdóttir

Lovísa Jónsdóttir

Það er vinsæll frasi að tala um bætta, opna og gagnsæja stjórnsýslu í aðdraganda kosninga. Allir geta tekið undir en sjaldnast fylgja frekari skýringar eða útfærslur. Það er einna helst þegar fólk rekst á „computer says no“ vegginn að það minnist þessara óljósu loforða.
Lítt skiljanlegar og órökstuddar ákvarðanir eru teknar í stjórnsýslunni sem við íbúarnir, og ekki síður starfsfólkið sem þarf að svara fyrir málin, eigum bara að sætta okkur við. „Svona eru reglurnar bara, því miður“ eða „nei, því miður þetta fellur ekki innan þess sem við getum aðstoðað þig með“ og eftir sitjum við engu nær um úrlausn okkar mála en óljósar minningar um kosningaloforðin góðu.
Hér er tvennt í stöðunni, að sætta sig við orðinn hlut eða ráðast til atlögu við kerfið með öllu sem því fylgir. Það er hins vegar hægara sagt en gert og hætt við því að fólk treysti sér einfaldlega ekki til þess vegna kostnaðar og þess að baka sér óvild þeirra sem í hlut eiga.

Við í Viðreisn meinum það sem við segjum um að bæta stjórnsýslu í Mosfellsbæ. Við viljum setja á fót embætti umboðsmanns bæjarbúa að fyrirmynd umboðsmanns borgarbúa í Reykjavík. Hlutverk umboðsmanns er þríþætt. Í fyrsta lagi að liðsinna þeim einstaklingum og fyrirtækjum sem telja á rétti sínum brotið af hendi bæjarfélagsins, í öðru lagi að taka á móti ábendingum frá starfsfólki bæjarins og í þriðja lagi að rannasaka að eigin frumkvæði hvort bæjarfélagið uppfylli skyldur sínar samkvæmt lögum. Þessu til viðbótar getur umboðsmaður einnig sinnt ýmis konar fræðslu um þau mál sem falla undir verksvið hans.
Umboðsmaður bæjarbúa, sem væri óháður stjórnsýslunni, er þannig lögfræðilegur ráðgjafi sem getur aðstoðað bæjarbúa í samskiptum sínum við stjórnsýsluna, hvort sem það er með óháðri ráðgjöf eða með því að leiðbeina og aðstoða íbúa við beiðnir eða kærur. Þá getur umboðsmaður komið að málum sem sáttamiðlari ef hann metur málið þannig að mögulegt sé að leysa úr ágreiningi milli íbúa og bæjar með þeim hætti.
Annað mikilvægt hlutverk umboðsmanns er að starfsfólk bæjarins getur leitað til hans og komið á framfæri í fullum trúnaði upplýsingum um óeðlileg afskipti kjörinna fulltrúa af einstökum málum eða ábendingum um vanrækslu bæjarins eða starfsmanna hans. Þannig verður umboðsmaður mikilvægur hlekkur í því að sporna við spillingu innan stjórnsýslunnar. Hann er óháður regluvörður í þjónustu bæjarbúa.
Okkur í Viðreisn finnst sjálfsagt og eðlilegt að veita virkt aðhald og opna raunhæfar leiðir til þess. Forsenda farsæls og góðs samfélags er traust og vissa fyrir því að allir sitji við sama borð. Það viljum við í Viðreisn tryggja.

Lovísa Jónsdóttir er viðskiptalögfræðingur
og skipar 2. sæti á lista Viðreisnar.