Við munum þekkja okkar vitjunartíma

Stefán Ómar Jónsson

Stefán Ómar Jónsson

Nú líður senn að því að Mosfellingar ganga að kjörborðinu og velja sér nýja bæjarstjórn.

Vinir Mosfellsbæjar bjóða fram krafta sína til starfa í bæjarstjórn Mosfellsbæjar og sækja fram undir leiðarljósum heiðarleika, þekkingar, lýðræðis og gagnsæis.
Í fyrsta lagi munum við gera þetta með því að handleika öll mál af heiðarleika gagnvart íbúum, öðrum bæjarfulltrúum og starfsmönnum bæjarins.
Í öðru lagi munum við leita þekkingar við alla ákvarðanatöku, búum við ekki yfir henni frá fyrstu hendi.
Í þriðja lagi munum við ástunda lýðræðislega umræðu þar sem við munum bera virðingu fyrir skoðunum íbúa, annarra bæjarfulltrúa og starfsmanna bæjarins.
Í fjórða lagi munum við beita okkur fyrir að fullkomið gagnsæi ríki í allri meðferð ákvarðana og við það beita heiðarleikanum, þekkingunni og lýðræðinu eins og því er lýst hér að framan.

Vinir Mosfellsbæjar setja fjölmörg mál á oddinn en þessi eru okkur ekki hvað síst hugleikin. Við viljum ráðast í að móta nýja skóla- og menntastefnu, ekki af því að engin stefna ríki, heldur af því að í tækniheimi nútímans breytast aðstæður hratt og því þarf sífellt að bregðast við breyttum aðstæðum.
Við viljum sýna festu í deiliskipulagsmálum og draga úr eftir á breytingum nema ríkir hagsmunir standi til annars. Þetta sé gert af virðingu fyrir þeim sem hafa fest sér kaup á eign í góðri trú um gildandi skipulag. Við viljum standa þétt við bakið á íþrótta- og æskulýðsfélögunum sem drifin eru áfram af sjálfboðaliðum sem leggja vinnu sína og þrótt fram til almannaheilla.
Við viljum virkja reynslu eldri borgara og kraft unga fólksins, njóta af viskubrunni þeirra eldri og virkja kraft þeirra sem taka eiga við keflinu. Við viljum síðast en ekki síst hlusta. Hlusta á samfélagið og leita þar þekkingar og ábendinga til gagns fyrir alla.

Vinir Mosfellsbæjar munu ekki gleyma því fyrir hverja þeir vinna, við eigum ekkert og það er ekkert gefið. Við munum þekkja okkar vitjunartíma og glaðir rétta keflið til komandi kynslóðar.

Ég vil að síðustu hvetja þig, ágæti Mosfellingur, til þess að nýta atkvæðisrétt þinn í þessum kosningum lýðræðinu til heilla.

Stefán Ómar Jónsson
skipar 1. sæti á lista Vina Mosfellsbæjar.