Síðsumarhreyfing

Ég er bæði frí-maður og rútínu-maður. Finnst gott að breyta til, ferðast, fara á nýja staði, upplifa nýja hluti og gera aðra hluti en venjulega. En mér finnst yfirleitt mjög gott að koma til baka úr fríi og stíga aftur inn í rútínu. En ekki endilega sömu rútínu og síðast.

Mér til mikillar lukku fann ég róðrarvél í æfingasalnum okkar þegar við komum heim úr sumarfríinu. Forláta gripur sem vinir okkar eiga. Þau voru að flytja og fundu ekki góðan stað fyrir róðrarvélina þannig að hún er komin í pössun til okkar. Ég ákvað að bæta róðri inn í morgunrútínuna og tek þægilega lotu á græjunni góðu þrjá morgna í viku. Ég vona að að hún verði sem lengst í pössun hjá okkur.

Ég er líka byrjaður að æfa reglulega hjá sjálfum mér. Eða hjá æfingaklúbbnum okkar Völu öllu heldur. Ég ákvað að breyta til hjá mér í haust, hætta að þjálfa aðra og einbeita mér að öðrum verkefnum. Ég sé ekki eftir þeirri ákvörðun, en ég sakna æfingahópsins og fólksins, og ákvað því að byrja að mæta sjálfur á æfingar til þess að hitta þau reglulega. Er búinn að mæta vel síðustu tvær vikur og ætla að halda áfram að gera það. Mér finnst þetta virkilega gott, að vera æfingafélagi í stað þess að vera þjálfari.
Fyrir utan róðurinn og æfingarnar reglulegu er ég með á vikuprógramminu eina fellagöngu. Fellin okkar eru bara best.

En lífið er ekki bara hreyfing. Gatan okkar þjófstartaði og hélt götugrill um síðustu helgi. Það er ótrúlega gaman að hitta nágrannana í afslöppuðum aðstæðum þar sem enginn er að flýta sér. Við erum mjög heppin með nágranna, gatan okkar er stútfull af skemmtilegu fólki sem gaman er að spjalla við og kynnast betur. Golfmót götunnar kom til umræðu, ég bíð spenntur eftir því!

Heilsumolar Gaua
Mosfellingur 23. ágúst 2022

Regína Ásvalsdóttir verður næsti bæjarstjóri

Regína Ásvaldsdóttir verðandi bæjarstjóri Mosfellsbæjar og Halla Karen Kristjánsdóttir formaður bæjarráðs undirrita samninga. 

Ákveð­ið hef­ur ver­ið að Regína Ás­valds­dótt­ir gegni starfi bæj­ar­stjóra í Mos­fells­bæ kjör­tíma­bil­ið 2022-2026.

Regína hef­ur ára­langa far­sæla reynslu af stjórn­un og rekstri á vett­vangi sveit­ar­fé­laga. Hún er sviðs­stjóri vel­ferð­ar­sviðs Reykja­vík­ur­borg­ar og hef­ur gegnt því starfi síð­ast­lið­in fimm ár. Áður gegndi hún stöðu bæj­ar­stjóra Akra­nes­kaup­stað­ar árin 2013-2017. Þá hef­ur hún starf­að sem fram­kvæmda­stjóri Festu, fé­lags um sam­fé­lags­lega ábyrgð fyr­ir­tækja, ver­ið skrif­stofu­stjóri á skrif­stofu borg­ar­stjóra og sviðs­stjóri þjón­ustu- og rekstr­ar­sviðs Reykja­vík­ur­borg­ar.

Regína er með meist­ara­próf í hag­fræði frá Há­skól­an­um í Aber­deen, diplóma í op­in­berri stjórn­sýslu og cand. mag. í fé­lags­ráð­gjöf frá Há­skól­an­um í Osló. Á ferli sín­um hef­ur Regína átt sæti í fjöl­mörg­um stjórn­um og starfs­hóp­um, nú síð­ast starfs­hópi sem skil­aði til­lög­um um hús­næð­is­mál til þjóð­hags­ráðs í maí síð­ast­liðn­um. Regína hef­ur mark­tæka reynslu af stefnu­mót­un og breyt­inga­stjórn­un og hef­ur leitt vinnu við stefnu­mót­un á sviði vel­ferð­ar­mála og at­vinnu­mála. Vel­ferð­ar­svið hef­ur enn­frem­ur ver­ið leið­andi svið hjá Reykja­vík­ur­borg þeg­ar kem­ur að sta­f­rænni þró­un og áherslu á þjón­ust­u­stjórn­un.

Áætl­að er að Regína hefji störf í byrj­un sept­em­ber en ráðn­ing­ar­samn­ing­ur­inn tek­ur form­lega gildi þeg­ar hann hef­ur ver­ið stað­fest­ur af bæj­ar­ráði fimmtu­dag­inn 14. júlí og birt­ur op­in­ber­lega í kjöl­far­ið.

Halla Karen Kristjánsdóttir, formaður bæjarráðs:
„Við erum lán­söm hér í Mos­fells­bæ að ganga til sam­starfs við svona reynslu­mik­inn stjórn­anda eins og Regína er. Framund­an eru stór verk­efni, með­al ann­ars í upp­bygg­ingu og áfram­hald­andi fjölg­un íbúa og stefnu­mót­un til fram­tíð­ar. Þessi verk­efni fela í sér fjöl­breytt­ar áskor­an­ir og því mik­il­vægt að við fáum til liðs við okk­ur ein­stak­ling með mikla og far­sæla reynslu, stór­an skammt af al­mennri skyn­semi, þjón­ustu­lund og brenn­andi áhuga á mál­efn­um sveit­ar­fé­lags­ins. Við bjóð­um Regínu vel­komna í Mos­fells­bæ og hlökk­um til sam­starfs­ins.“

Regína Ásvalsdóttir, verðandi bæjarstjóri:
„Ég þakka kær­lega fyr­ir það traust í minn garð sem mér er sýnt með ráðn­ing­unni. Mos­fells­bær er gott og fjöl­skyldu­vænt sam­fé­lag í örum vexti og hér eru mörg tæki­færi þeg­ar til fram­tíð­ar er lit­ið. Ég hlakka til að starfa með öfl­ug­um bæj­ar­full­trú­um og góðu starfs­fólki Mos­fells­bæj­ar að þeim mik­il­vægu verk­efn­um sem eru framund­an.“

Umsækjendur um stöðu bæjarstjóra

Eft­ir­far­andi að­il­ar sóttu um stöðu bæj­ar­stjóra í Mos­fells­bæ. Alls sóttu 30 að­il­ar um stöð­una en 5 drógu um­sókn­ir sín­ar til baka.

  • Árni Jóns­son – For­stöðu­mað­ur
  • Gísli Hall­dór Hall­dórs­son – Fyrrv. bæj­ar­stjóri
  • Glúm­ur Bald­vins­son – Leið­sögu­mað­ur
  • Gunn­ar Hinrik Haf­steins­son – Meist­ara­nemi
  • Gunn­laug­ur Sig­hvats­son – Ráð­gjafi
  • Gylfi Þór Þor­steins­son – Að­gerða­stjóri
  • Helga Ing­ólfs­dótt­ir – Bæj­ar­full­trúi
  • Ingólf­ur Guð­munds­son – For­stjóri
  • Jón Eggert Guð­munds­son – Kerf­is­stjóri
  • Jóna Guð­rún Krist­ins­dótt­ir – Verk­efna­stjóri
  • Karl Ótt­ar Pét­urs­son – Lög­mað­ur
  • Krist­inn Óð­ins­son – Fjár­mála­stjóri
  • Kristján Sturlu­son – Sveitarstjóri
  • Kristján Þór Magnús­son – Fyrrv. sveit­ar­stjóri
  • Lína Björg Tryggva­dótt­ir – Skrif­stofu­stjóri
  • Matt­hild­ur Ásmund­ar­dótt­ir – Fyrrv. sveit­ar­stjóri
  • Ólaf­ur Dan Snorra­son – Rekstr­ar- og starfs­manna­stjóri
  • Ósk­ar Örn Ág­ústs­son – Fjár­mála­stjóri
  • Regína Ás­valds­dótt­ir – Sviðs­stjóri
  • Sig­urð­ur Erl­ings­son – Stjórn­ar­formað­ur
  • Sig­urð­ur Ragn­ars­son – Fram­kvæmda­stjóri
  • Sig­ur­jón Nói Rík­harðs­son – Nemi
  • Þor­steinn Þor­steins­son – Deild­ar­stjóri
  • Þór­dís Sif Sig­urð­ar­dótt­ir – Lög­fræð­ing­ur
  • Þór­dís Sveins­dótt­ir – Lána­stjóri

Leitin að hæsta tré bæjarins

Skógræktarfélag Mosfellsbæjar og bæjarblaðið Mosfellingur leita nú að hæsta trénu í Mosfellsbæ.
Síðastliðin 20 ár hefur verið mikill trjávöxtur á landinu og er staðfest að innan innan þessa sveitarfélags er að finna tré sem komin eru yfir 20 metra.
„Við viljum endilega sjá hvort við eigum ekki tré sem er farið að nálgast 25 metra eða jafnvel 30 metra sem samsvarar hæsta mælda tré á Íslandi en það er sitkagrenitré sem gróðursett var á Kirkjubæjarklaustri árið 1949,“ segir Björn Traustason formaður Skógræktarfélags Mosfellsbæjar.
Gætum við jafnvel átt hæsta tré á Íslandi hér í Mosfellsbæ?

Bæjarbúar taki þátt við leitina
Til að finna hæsta tréð eru bæjarbúar beðnir um að senda Skógræktarfélaginu tilnefningar í sumar. Takið myndir af trjám sem þið teljið líklega kandídata og er mikilvægt að einhver standi við tréð þannig að hægt sé að meta út frá ljósmyndinni hversu hátt það er.
Það getur auðvitað verið erfitt að taka mynd í þéttum skógarlundi en þið gerið ykkar besta. Mikilvægt er að tilgreina staðsetningu á trénu og gaman væri að fá upplýsingar um trjátegund, hvenær það var gróðursett, af hverjum og af hvaða tilefni.
Hæstu 10 trén verða metin og í kjölfarið mæld með nákvæmum hætti af skógmælingafólki frá Skógræktinni. Sett verður upp merki við hæsta tréð og sagt frá verðlaunatrénu í Mosfellingi.

Myndir og upplýsingar um tré er hægt að senda á netfangið skogmos@skogmos.is til 10. ágúst.

Skólar eru skemmtilegir staðir

Hlín Magnúsdóttir Njarðvík hefur starfað mjög lengi með börnum, í dag stýrir hún stoðþjónustu þar sem hún leggur mikla áherslu á fjölbreytt og áhugahvetjandi námsefni ásamt því að flétta daglegt líf inn í nám barnanna að mestu leyti.
Hlín heldur einnig úti námssamfélaginu Fjölbreyttar kennsluaðferðir fyrir fjöruga krakka en þar deilir hún bæði hugmyndum og námsefni sem hún hannar sjálf til annarra kennara og foreldra.

Hlín Magnúsdóttir Njarðvík er fædd í Reykjavík 17. apríl 1986. Foreldrar hennar eru Stefanía Anna Árnadóttir leikskólastarfsmaður og Magnús Steinn Loftsson leikari.
Hlín á fjögur systkini, Ingibjörgu f. 1980, Árna Dag f. 1989, Ástu f. 1994 og Katrínu f. 1994.

Kósý kvöldin standa upp úr
„Ég ólst upp í Vesturbænum í Reykjavík og það var alveg dásamlegt að alast þar upp. Stutt í skólann, stutt í vinina og hverfissjoppan stóð alltaf fyrir sínu, það var alltaf líf og fjör. Mínar dýrmætustu æskuminningar eru augnablikin þar sem ég var að leika við systkini mín á hverfisrólónum, leigja vídeóspólu með pabba og borða sveittan hamborgara frá Hróa Hetti með mömmu.
Systkinahópurinn er stór svo það var alltaf líf og fjör á heimilinu, foreldrar okkar lögðu alltaf mikið upp úr kósýkvöldum og hjá okkur var alltaf mikil tilhlökkun. Þetta er til dæmis eitt af því sem ég hef tekið með mér í uppeldi barnanna minna,“ segir Hlín og brosir.

Gaman að gleyma sér í gleðinni
„Ég gekk í Melaskóla og Hagaskóla og hef alltaf haft gaman af því að vera í skóla. Það er nefnilega alltaf gaman að læra eitthvað nýtt og það er kannski ástæðan fyrir því að ég endaði í skóla á fullorðinsárum, skólar eru skemmtilegir staðir.
Á skólaárunum var maður alltaf að bralla eitthvað sniðugt með vinunum, hvort sem það var að stofna hljómsveit og rappa á Gauki á Stöng fyrir framan öll átrúnaðargoðin á þeim tíma eða að fara saman á tónleika. Vinahópurinn hefur haldið sambandi í gegnum öll þessi blessuðu ár og það er alltaf jafn gaman að gleyma sér í gleðinni með þeim.
Ég fór síðan í Menntaskólann við Hamrahlíð á félagsfræðibraut þar sem ég féll fyrir sálfræðinni, þar tók ég eins marga sálfræði­áfanga og ég gat og naut þess í botn.“

Dýrmæt augnablik í hinu daglega lífi
Hlín er gift Gunnari Lár Gunnarssyni framkvæmdastjóra og eiganda viðburðafyrirtækisins Manhattan Events. Þau eiga þrjú börn, Hlyn Lár f. 2010, Anítu Björk f. 2014 og Jökul Lár f. 2019.
„Við fjölskyldan erum mjög samrýmd og ótrúlega heimakær, við erum með kósý­kvöld í hverri viku, horfum saman á bíómyndir og förum í heita pottinn. Við höfum líka gaman af að ferðast og sjá nýja staði saman.
Annars eru það dýrmætu augnablikin í hinu daglega lífi sem gefa okkur mest, spjallið eftir skóladaginn, hláturinn við matarborðið, kvöldröltið og svo spjallið sem á sér stað akkúrat þegar þau eru að fara að sofa.“

Áherslurnar eru mismunandi
Síðustu ár hefur Hlín starfað í skólum, fyrst sem kennari á Stuðlum í eitt ár og svo sérkennari í Norðlingaskóla í fimm ár. Núna starfar hún sem deildarstjóri stoðþjónustu í leik- og grunnskólanum Helgafellsskóla og er að klára sitt annað ár í því starfi.
Hún er með meistaragráðu í uppeldis-og menntunarfræðum ásamt BA-gráðu í sálfræði og diplomagráðu í kennslufræðum, málþroska og læsi.
„Starfið mitt felst aðallega í því að þróa og styðja við alla stoðþjónustu í skólanum í samvinnu við starfsfólkið. Þetta er stuðningskerfi við almenna kennslu en áherslurnar eru mismunandi og fara eftir þörfum einstaklingsins. Ég er svo heppin að vera með virkilega flott fólk í mínu stoðteymi, sérkennara, iðjuþjálfa, námsráðgjafa og þroskaþjálfa, allir með það að leiðarljósi að leyfa styrkleikum og áhugasviði barnanna að njóta sín.
Dagarnir í vinnunni er misjafnir en allir snúast þeir um nemendur og hvernig hægt er að aðlaga skólastarfið að þeirra þörfum.“

Verkefnamiðað nám
Hlín sinnir fjölbreyttum verkefnum daglega, finnur námsefni við hæfi með aðstoð sérkennara, sinnir foreldrasamskiptum, leitar til annarra fagaðila t.d sálfræðings eða talmeinafræðings til að fá ráðgjöf, skimar fyrir lestrarvanda og heldur utan um aðrar skimanir, fundarhöld ásamt því að spjalla við börnin sjálf.
„Í Helgafellsskóla vinnum við mikið með verkefnamiðað nám, við reynum að flétta daglegt líf inn í nám barnanna að sem mestu leyti. Fókusinn minn er alltaf hvaða verkfæri þurfa börnin að hafa til þess að geta tekist á við áskoranir og hvernig við getum gert námið forvitnilegt og áhugavert, til þess að vita það þá er langbest að spjalla við börnin. Við stjórnendur leggjum líka mikið upp úr því að þau geti alltaf komið til okkar ef þeim liggur eitthvað á hjarta.“

Vinnum að sama markmiði
„Stoðþjónustan er samvinna milli skóla, foreldra og nemenda m.a. á þann hátt að skólinn þekkir bekkjarnámskrána og hæfniviðmiðin ásamt því að þekkja fjölbreytt úrræði, foreldrar geta stutt við námið heima og nemandinn nýtir sína styrkleika og áhugasvið til að læra nýja þekkingu.
Ég hef alltaf haft það sem markmið bæði sem foreldri og starfsmaður í skóla að hafa samskiptin milli heimilis og skóla sem best, að þau einkennist af trausti, virðingu og samvinnu. Að barnið finni að það eigi bandamenn á báðum stöðum og verið sé að vinna að sama markmiðinu, að barninu líði vel og það fái tækifæri til að blómstra í lífinu.“

Fjölbreyttar kennsluaðferðir
„Ég er líka með „smá“ aukavinnu, en ég held úti litlu námssamfélagi sem ég kalla Fjölbreyttar kennsluaðferðir fyrir fjöruga krakka. Ég deili námsefni, hugmyndum og ráðgjöf á samfélagsmiðlum og hef haldið fyrirlestra, allt í nafni Fjölbreyttrar kennslu.
Það er alveg dásamlegt að vinna þessa vinnu svona á kantinum, það gefur mér mikið að búa til námsefni á kvöldin þegar börnin mín eru sofnuð.
Mitt helsta áhugamál er nám og kennsla, ég ver miklum tíma í að kynna mér hvort tveggja, hvort sem það er að lesa greinar, skoða námsefni eða kynna mér hvað aðrir skólar eru að gera, bæði hér heima og erlendis. Ég sæki mikið ráðstefnur og námskeið og svo hef ég ansi gaman af því að mennta mig sjálf,“ segir Hlín og brosir.

Ég held ótrauð áfram
„Ég tel mig vera í einstakri stöðu þar sem ég fæ tækifæri til að ná bæði til foreldra og fagfólks með fróðleik og námsefni bæði í gegnum starf mitt og í gegnum Fjölbreyttar kennsluaðferðir fyrir fjöruga krakka.
Ég held ótrauð áfram að leggja mitt af mörkum svo að brúin milli heimilis og skóla sé stutt, stöðug og sterk.“

Skipað í nefndir og ráð

Nýr meirihluti Framsóknar, Samfylkingar og Viðreisnar hefur tekið til starfa og fór fyrsti fundur nýrrar bæjarstjórnar fram 1. júní.
Þessa dagana er verið að auglýsa eftir bæjarstjóra en leitað er að metnaðarfullum og drífandi einstaklingi með farsæla reynslu af stjórnun og rekstri.
Á fyrsta fundi var Anna Sigríður Guðnadóttir kjörin forseti bæjarstjórnar til eins árs, 1. varaforseti Lovísa Jónsdóttir (C), 2. varaforseti Aldís Stefánsdóttir (B). 

Kosið var í nefndir og ráð á vegum bæjarins og skipast þannig:

Bæjarráð
Halla Karen Kristjánsdóttir (B) formaður
Lovísa Jónsdóttir (C) varaformaður
Anna Sigríður Guðnadóttir (S)
Ásgeir Sveinsson (D)
Jana Katrín Knútsdóttir (D)

Áheyrnarfulltrúi: Dagný Kristinsdóttir (L).
Varamenn: Aldís Stefánsdóttir (B), Valdimar Birgisson (C), Ólafur Ingi Óskarsson (S), Rúnar Bragi Guðlaugsson (D) og Helga Jóhannesdóttir (D).
Varaáheyrnarfulltrúi: Guðmundur Hreinsson (L).

Fjölskyldunefnd
Ólafur Ingi Óskarsson (S) formaður
Sigríður Dóra Sigtryggsdóttir (B) varaformaður
Halla Karen Kristjánsdóttir (B)
Jana Katrín Knútsdóttir (D)
Hilmar Stefánsson (D)

Áheyrnarfulltrúar: Ölvir Karlsson (C) og Dagný Kristinsdóttir (L).
Varamenn: Anna Sigríður Guðnadóttir (S), Bjarni Ingimarsson (B), Örvar Jóhannsson (B), Rúnar Bragi Guðlaugsson (D), Alfa Regína Jóhannsdóttir (D). 
Varaáheyrnarfulltrúar: Lovísa Jónsdóttir (C) og Olga Stefánsdóttir (L).

Fræðslunefnd
Aldís Stefánsdóttir (B) formaður
Sævar Birgisson (B) varaformaður
Elín Árnadóttir (S)
Elín María Jónsdóttir (D)
Hjörtur Örn Arnarson (D)

Áheyrnarfulltrúar: Elín Anna Gísladóttir (C) og Dagný Kristinsdóttir (L). 
Varamenn: Ólöf Sivertsen (B), Hilmar Tómas Guðmundsson (B), Elín Eiríksdóttir (S), Arna Björk Hagalínsdóttir (D) og Jana Katrín Knútsdóttir (D).
Varaáheyrnarfulltrúar: Valdimar Birgisson (C) og Olga Stefánsdóttir (L).

Íþrótta- og tómstundanefnd
Erla Edvardsdóttir (B) formaður
Leifur Ingi Eysteinsson (B) varaformaður
Atlas Hendrik Ósk Dagbjarts (C)
Rúnar Bragi Guðlaugsson (D)
Arna Björk Hagalínsdóttir (D)

Áheyrnarfulltrúar: Sunna Arnardóttir (S) og Katarzyna Krystyna Krolikowska (L).
Varamenn: Þorbjörg Sólbjartsdóttir (B), Grétar Strange (B), Kjartan Jóhannes Hauksson (C), Ásgeir Sveinsson (D) og Hilmar Stefánsson (D).
Varaáheyrnarfulltrúar: Margrét Gróa Björnsdóttir (S) og Lárus Arnar Sölvason (L).

Lýðræðis- og mannréttindanefnd
Sævar Birgisson (B) formaður
Aldís Stefánsdóttir (B) varaformaður
Rúnar Már Jónatansson (C)
Brynja Hlíf Hjaltadóttir (D)
Gunnar Pétur Haraldsson (D)

Áheyrnarfulltrúar: Ólafur Ingi Óskarsson (S) og Kristín Nanna Vilhelmsdóttir (L). 
Varamenn: Rúnar Þór Guðbrandsson (B), Hrafnhildur Gísladóttir (B), Guðrún Þórarinsdóttir (C), Davíð Örn Guðnason (D) og Helga Möller (D).
Varaáheyrnarfulltrúar: Anna Sigríður Guðnadóttir (S) og Kristján Erling Jónsson (L).

Menningar- og nýsköpunarnefnd
Hrafnhildur Gísladóttir (B) formaður
Hilmar Tómas Guðmundsson (B) varaformaður
Jakob Smári Magnússon (S)
Helga Möller (D)
Franklin Ernir Kristjánsson (D)

Áheyrnarfulltrúar: Guðrún Þórarinsdóttir (C) og Kristján Erling Jónsson (L). 
Varamenn: Leifur Ingi Eysteinsson (B), Þorbjörg Sólbjartsdóttir (B), Þórarinn Snorri Sigurgeirsson (S), Helga Jóhannesdóttir (D) og Davíð Ólafsson (D).
Varaáheyrnarfulltrúar: Elín Anna Gísladóttir (C) og Kristín Nanna Vilhelmsdóttir (L).

Skipulagsnefnd
Valdimar Birgisson (C) formaður
Aldís Stefánsdóttir (B) varaformaður
Ómar Ingþórsson (S)
Ásgeir Sveinsson (D)
Helga Jóhannesdóttir (D)

Áheyrnarfulltrúi: Stefán Ómar Jónsson (L).
Varamenn: Lovísa Jósndóttir (C) og Rúnar Þór Guðbrandsson (B).
Varaáheyrnarfulltrúi: Haukur Örn Harðarson (L).

Umhverfisnefnd
Örvar Jóhannsson (B) formaður
Þorbjörg Sólbjartsdóttir (B) varaformaður
Jón Örn Jónsson (C)
Ragnar Bjarni Zoega Hreiðarsson (D)
Þóra Björg Ingimundardóttir (D)

Áheyrnarfulltrúar: Ómar Ingþórsson (S) og Michele Rebora (L).
Varamenn: Hörður Hafberg Gunnlaugsson (B), Rúnar Þór Guðbrandsson (B), Ölvir Karlsson (C), Jana Katrín Knútsdóttir (D) og Ari Hermann Oddsson (D).
Varaáheyrnarfulltrúar: Anna Sigríður Guðnadóttir (S) og Lárus Arnar Sölvason (L).

 

Fastefli og BL kaupa athafnasvæði við Tungumela

Íris Ansnes framkvæmdastjóri hjá BL og Óli Valur Steindórsson framkvæmdastjóri Fasteflis undirrita. Fyrir aftan: Jón Þór Gunnarsson og Erna Gísladóttir eigendur BL og Ellert Jón Björnsson fjármálastjóri Fasteflis.

Á dögunum hittust forsvarsmenn Fasteflis og BL á Barion Mosó og undirrituðu samstarfssamning um kaup og þróun á rúmlega 38 hektara landsvæði við Tungumela í Mosfellsbæ. Svæðið er ætlað fyrir fjölbreytta athafnastarfsemi.
Aðspurður sagði Mosfellingurinn Óli Valur Steindórsson framkvæmdastjóri Fasteflis um verkefnið: „Á mýmörgum fundum sjálfboðaliða Aftureldingar var og er mikð rætt um þörfina að fjölga styrktaraðilum en góður fjöldi vel rekinna fyrirtækja er grundvöllur þess.
Það hafa verið viss vonbrigði með fyrsta hluta uppbyggingar Tungumela hversu fá fyrirtæki hafa lagt leið sína þangað en mikill hluti svæðisins hefur verið nýttur undir byggingu á geymslum. Það er því kærkomið tækifæri sem okkur hefur nú fallið í skaut, að leiða og þróa uppbyggingu á þessu svæði og taka þátt í að auðga flóru fyrirtækja í bæjarfélaginu en það er vonandi að við fáum góðan stuðning og samstarf frá bæjaryfirvöldum við það,“ segir Óli Valur.

Spennandi framtíðarstaðsetning fyrir BL
Íris Ansnes framkvæmdastjóri hjá BL bætti jafnframt við að Tungumelar væri spennandi svæði til framtíðar fyrir BL en félagið væri að skoða mögulega framtíðarstaðsetningu fyrir starfsstöðvar félagsins. „Að því sögðu býður verkefnið sem slíkt upp á gríðarmikla möguleika fyrir fyrirtæki sem eru að huga að og þurfa að færa sína starfsemi úr Reykjavík í náinni framtíð og eru Tungumelar góður kostur ef vel er á málum haldið,“ segir Íris Ansnes.
Áhugavert verður að fylgjast með þessu verkefni.


Fastefli er móðurfélag Upprisu og Hlöllabáta (Barion).
BL er rótgróið bílaumboð sem varð til við sameiningu Ingvars Helgasonar og B&L árið 2011.

Breytingar

Það er hollt að breyta, hætta að gera eitthvað sem maður hefur gert lengi og gera eitthvað annað í staðinn. Það er ekki auðvelt að hætta, sérstaklega ekki einhverju sem maður hefur haft ánægju af lengi, en mín skoðun og reynsla er að það sé betra að hætta á meðan það er enn gaman. Ég er í hætta-ferli núna, er að hætta með ýmislegt sem ég hef gert eða tekið þátt í lengi. Af hverju er ég að hætta? Af því að mig langar að gera aðra hluti og til þess að geta gert þá vel, þarf ég að hafa góðan tíma og mikla orku.

Ég er samt ekki að loka dyrum eða skella hurðum á eftir mér. Mér finnst best að hætta þannig að ég eigi möguleika á að taka aftur upp þráðinn seinna. Kannski miklu seinna, kannski aldrei, en ég vil halda endurkomumöguleikum opnum, maður veit aldrei hvernig lífið þróast.

Um leið og það er erfitt að hætta, fylgir því mikil tilhlökkun að búa sér til rými til að takast á við nýja hluti og verkefni.

Fyrir mér er heimurinn stór og lítill á sama tíma. Það er allt hægt, ef maður trúir og virkilega vill. Og það er gaman að horfa fram á veg og reyna við hluti sem virðast óraunhæfir og ómögulegir. Ég hlustaði á dögunum á viðtal við Guðmund Guðmundsson, landsliðsþjálfara karlalandsliðsins okkar í handbolta. Mér fannst bæði áhugavert og hvetjandi að heyra hann tala um verkefnin sem hann sem hefur tekið að sér í gegnum tíðina og hvernig hann hefur brugðist við þeim tilboðum sem hann hefur fengið. Áskoranir og erfið verkefni voru hæst á hans óskalista, hvort sem það var að koma Aftureldingu upp í efstu deild í fyrsta sinn í sögu félagsins eða að gera Dani að Ólympíumeisturum í fyrsta sinn. Áfram veginn!

Heilsumolar Gaua
Mosfellingur 23. júní 2022

Mikil og lífleg starfsemi í Bólinu

Félagsmiðstöðin Ból er búin að vera með starfsemi í þremur félagsmiðstöðvum í vetur enda er Mosfellsbær ört stækkandi bæjarfélag og mikill ávinningur að gera sem best fyrir unga fólkið okkar.
Mosfellingur tók Guðrúnu Helgadóttur forstöðukonu Bólsins tali, gefum henni orðið.

Metþátttaka í alla viðburði
„Þrátt fyrir að fyrri hluti vetrar hafi aðeins verið undir áhrifum frá Covid þá náum við að ljúka þessum skólavetri með magnaðri dagskrá og metþátttöku á alla okkar viðburði.
Það er ekki séns að fara yfir allt það sem er búið að vera í gangi en þrír stærstu viðburðirnir voru núna í lok apríl og maí og það má hrósa unga fólkinu okkar fyrir að vera almennt til fyrirmyndar í öllu því sem þau gera og hér kemur smá upptalning á því sem við m.a. gerðum.“

Samfestingurinn Hann var haldinn dagana 29.–30 apríl. Hann samanstendur af balli þar sem 4.500 unglingar koma saman og skemmta sér og svo er söngkeppni seinni daginn.
Í söngkeppninni keppa unglingar af öllu landinu. Í ár var Samfestingurinn haldinn á Ásvöllum í Hafnarfirði og við fórum með tvær fullar rútur af frábærum unglingum á þennan geggjaða viðburð.
Sundpartý Í samstarfi við starfsmenn Lágafellslaugar var Félagsmiðstöðin Ból með sundpartý fyrir 5.–7. bekk og svo annað daginn eftir fyrir 8.–10. bekk. Þar vorum við með mismunandi skemmtun víðsvegar um laugina eins og t.d. zumba í útilauginni og wipe-out braut í innilauginni.
Tvö hundruð og sextíu börn og unglingar mættu og skemmtu sér saman. Það náðist upp svo mikil stemning að aðrir sundgestir voru farnir að taka þátt. Að loknu partýi fengu svo allir ís.

Rave ball Loksins náðum við að halda aftur ball í Hlégarði, sem var langþráð. Við ákváðum að fara bara „all in“ og leigðum flottan ljósabúnað, fengum góða skemmtikrafta en best var sennilega að unglingarnir fengu tækifæri til að vera DJ í byrjun og keyra ballið í gang.
Tæplega 300 unglingar mættu á ballið og dönsuðu í 150 mínútur samfleytt. Það var alveg magnað að vera þarna og upplifa stemninguna. Margir voru búin að undirbúa sig dagana fyrir ballið því það var hægt að koma til okkar í Bólið og mála með neonlitum á hvíta boli. Þetta gerði það að verkum að það náðist upp stemning strax tveim dögum fyrir ball.

Pop-up félagsmiðstöð í sumar
Því miður er víst komið að því að Bólið fari formlega í sumarfrí. Við erum samt ekki alveg til í sleppa unglingunum okkar þannig að við ætlum að vera með pop-up félagsmiðstöð í sumar í samstarfi við Vinnuskóla Mosfellsbæjar.
Við munum auglýsa á Instagram hvað er á dagskrá og hvar og hvenær við munum hittast. Við ætlum að nýta okkur útivistarsvæðin í Mosfellsbæ. Þannig að ég mæli með að foreldrar fylgi okkur líka á Insta @Bolid270 þannig að þetta fari ekki fram hjá neinum.
Einnig verða fimm námskeið í boði fyrir yngri hópinn okkar. Námskeiðin eru eftir hádegi og hvert námskeið stendur yfir í fjóra daga. Skráning á námskeiðin er í gegnum Sportabler en allar upplýsingar eru á bolid.is.

Opið alla daga
„Opnunartíminn hjá okkur yfir veturinn er alla virka daga frá 9–16 og svo er opið öll virk kvöld, mismunandi kvöld eftir félagsmiðstöðvum, þannig að unglingarnir hafa alltaf samastað. Bólið býður einnig upp á starfsemi fyrir 10-12 ára en allar upplýsingar um starfið er að finna á heimasíðu Bólsins bolid.is.
Í Bólinu starfa 17 starfsmenn sem allir eru frábærir á sínu sviði. Það er mjög lítil starfsmannavelta þannig að börnin og unglingarnir þekkja vel mitt fólk sem er alveg ómetanlegt því þá myndast þetta traust sem er svo mikilvægt í félagsmiðstöðvarstarfi.
Í lokin þá mæli ég með að allir reyni að vera besta útgáfan af sjálfum sér. Ef við komum fram við hvert annað af virðingu, óháð aldri, þá verður sumarið algjör snilld. Svo ef eitthvað er, þá geta unglingarnir alltaf sent á okkur skilaboð á Insta eða leitað til Bólstarfsmanna sem eru í Vinnuskólanum,“ sagði Guðrún að lokum.

KYNNING

Flipp flopp í skapandi skólastarfi

Sævaldur Bjarnason kennari í Kvíslarskóla.

Flipp flopp í skapandi skólastarfi er heiti á nýju þróunarverkefni sem hefur verið unnið að í Kvíslarskóla í vetur.
Sævaldur Bjarnason, kennari í Kvíslarskóla, kom með hugmyndina að verkefninu og vann í að koma því á laggirnar ásamt hópi kennara í skólanum. Flipp flopp dagar hafa verið mánaðarlega næstum allt skólaárið við frábærar undirtektir nemenda og kennara.

Hvernig varð hugmyndin að Flipp flopp til?
Hún varð fyrst til eftir að það kom gagnrýni frá Menntamálastofnun að kennsluhættir væru heldur einhæfir í skólanum. Stjórnendur skólans sáu tækifæri í þessu og þegar ákveðið var að skipta skólanum upp í tvo skóla ákváðu þeir að láta á þetta reyna, prófa verkefnið og sjá hversu langt við kæmumst með að breyta kennsluháttum og reyna að búa til fleiri verkefni sem nemendur tengdu meira við með fjölbreyttara námsmati. Þá tók ég við boltanum og úr varð þessi hugmynd.
Húsnæði skólans býður ekki upp á mikla möguleika á teymiskennslu en okkur langaði til að prófa okkur áfram með okkar útgáfu af því. Þegar skólinn fór frá því að vera Varmárskóli – eldri deild yfir í Kvíslarskóla þá ákváðum við að nýta tækifærið og endurskoða kennsluna og skólabraginn og gera tilraun með að gera endurbætur til að efla nýjan unglingaskóla í bænum.
Kennararnir tóku vel í þessar pælingar og höfðu mikinn áhuga á að færa sig frá hefðbundinni bókarkennslu yfir í nútímalegri kennsluhætti með fjölbreyttum verkefnum og verkefnaskilum. Aðalnámskrá var nýtt í öll verkefnin og lykilhæfni grunnskólanna. Hvert Flipp flopp þurfti þannig að hafa markmið sem tengdist lykilhæfni grunnskólanna.

Hvaðan kemur nafnið Flipp flopp?
Við vildum hvorki kalla þetta þemadaga né verkefnadaga. Það er náttúrulega fullt af svipuðum verkefnum í gangi í öðrum skólum eins og sprellifix, uglur og smiðjur. Við erum með teymi utan um þetta nokkrir kennarar. Við veltum upp hugmyndum í kringum þetta, okkur fannst þetta frekar flippað allt saman að fara af stað með eitthvað svona og einhvernvegin varð þetta nafn til Flipp flopp.

Hversu oft eru Flipp flopp dagar í skólanum?
Tveir Flipp flopp dagar eru haldnir mánaðarlega og snúa að vinnulagi þar sem nokkrar námsgreinar eru samþættar að hverju sinni. Áhersla er lögð á nýstárleg vinnubrögð af hálfu nemenda og kennara auk samspils upplýsingatækni og kennslufræðilegra hugmynda í námi, hugmynda á borð við verkefnamiðað nám, þemanám, þrautalausnanám, hönnunarmiðað nám og samvinnunám.

Hvernig hafa nemendur og kennarar tekið dögunum?
Flestum nemendum hefur þótt þetta mjög skemmtilegt, það er svo gaman að brjóta aðeins upp hversdagsleikann og hafa kennsluna öðruvísi. Við leggjum mikla áherslu á hópefli, reynum að þétta hópinn og gera eitthvað saman. Að mínu mati er miklu betri og skemmtilegri stemmning í skólanum síðan við byrjuðum með þetta.
Kennararnir hafa almennt verið mjög jákvæðir en þetta krefst þess að maður þarf að undirbúa sig öðruvísi en fyrir venjulega kennslu og oftast í öðrum fögum en maður ert vanur að kenna.

Myndiru vilja breyta einhverju á næsta ári?
Nei, bara fínpússa verkefnin og lagfæra þessa hnökra sem við urðum vör við. Sum verkefnin litu kannski vel út á blaði en heppnuðust svo ekki nóg vel í framkvæmd.
Við erum því bara spennt að takast á við nýtt skólaár með alls konar Flipp flopp dögum og að gera enn betur en í fyrra.

 

Sundnámskeið Tobbu vinsæl

Þorbjörg Sólbjartsdóttir útskrifast úr Háskóla Íslands árið 2012 sem íþrótta- og heilsufræðingur og kennir í Helgafellsskóla, þar vinnur hún sem umsjón­ar­kennari, sundkennari og er með sérkennslu í sundi og íþróttum.
Mosfellingur tók Þorbjörgu tali um sundkennslustarfið með börnunum og gefum henni nú orðið.

„Ég byrjaði að kenna sund með náminu mínu árið 2009, datt í raun í afleysingu sem varð lengri en ég átti von á. Ég átti ekki von á því þegar ég fór í námið að ég myndi sérhæfa mig eitthvað sérstaklega í sundi, enda hef ég engan afburðagrunn í því.
Þetta hefur líka kennt mér að það þarf ekki alltaf Íslandsmeistaratitil til að gera eitthvað vel. Ég á auðvelt með að ná til þessa aldurshóps og mér finnst það afskaplega gaman þar sem ég nýt þess að kenna börnum og þessi aldur 3-6 ára er alveg dásamlegur.“

Mikilvægt að börnin fái jákvæða upplifun í sundi
„Ég er með tvo hópa og kenni á fimmtudögum, hver hópur fær 30 mínútur í kennslu en ég skipti því þannig að þriggja og fjögurra ára börn eru saman og fimm og sex ára. Yngri hópurinn er með foreldra sína með sér ofan í lauginni en eldri börnin koma ein í laugina með mér.
Námskeiðin mín eru yfirleitt í átta vikur í senn en ég byrja á haustin þegar skólarnir byrja og kenni fram í byrjun júní. Það er svo mikilvægt að börn fái jákvæða upplifun í sundi en það getur verið stressvaldur hjá börnum að vera í vatni.“

Fyrstu skrefin í gegnum leik og söng
„Ég byrja alltaf námskeiðin mín á því að vinna með vatnsaðlögun en það geri ég í gegnum leiki og söng, svo bæti ég inn sundtökunum en ég styðst við fyrsta ­stig í sundi hjá eldri hópnum. Þau þjálfast líka í því að fara í gegnum búningsklefann en það getur verið svolítið mikið stökk fyrir þau að hafa ekki foreldra sína til að aðstoða sig þegar þau eru komin í fyrsta bekk.
Það er svo mikið öryggisatriði að geta lært að bjarga sér í vatni og því oftar sem börn fara í sund því meiri grunni byggja þau á til að geta bjargað sér ef þau lenda í erfiðum aðstæðum í vatni.“

Gott að hafa foreldrana með
„Ég reyni að gera upplifun þeirra eins jákvæða og ég mögulega get og styrki þau ef þau lenda í því að fá vatn ofan í sig eða í nefið sem þeim finnst auðvitað óþægilegt.
Ég kenni þeim að fylla lungun af lofti áður en þau kafa og nota orð eins og að fylla blöðruna sína (lungun), einnig nota ég orð eins og að róa með fótunum þegar ég kenni þeim bringusund og að láta hælana kyssast þegar þau eru að kreppa.
Ég man sjálf þegar ég byrjaði í sundkennslu, þá í fyrsta bekk, að ég skildi ekki hvað var að kreppa! Svona næ ég að umorða hlutina og gefa aðra merkingu svo að þau skilja hvað þau eiga að gera.
Ég hef virkilega gaman af því að sjá framfarirnar sem geta verið fljótar að koma, sérstaklega ef foreldrar eru duglegir að fara í sund samhliða námskeiðinu til að byggja á þekkingunni,“ sagði Þorbjörg að lokum.
Fjórar vikur eru eftir af námskeiðinu sem nú er í gangi og segist Þorbjörg taka glöð við nýjum börnum næsta haust en hún er með tvö námskeið fyrir áramót og tvö eftir áramótin. Skráningar á námskeiðin fara fram á facebook-síðunni hennar „Sundskóli Tobbu“.

KYNNING

Lalli ljóshraði undirbýr jólabókaflóðið

Lárus okkar Jónsson, Lalli Ljóshraði, leikari og Mosfellingur númer 1, ætlar að taka slaginn í næsta jólabókaflóði ásamt félaga sínum, Guðjóni Inga Eiríkssyni. Bókin mun heita Jólasveinarnir í Esjunni og byggir á hugmynd Lalla sem hann viðraði við Guðjón fyrir um 30 árum síðan.
Guðjón gleymdi aldrei hugmynd Lalla og á vordögum 2021 fór hann að setja efnið saman í barnabók, án þess þó að Lalli vissi af. Þegar allt var orðið klappað og klárt fékk Lalli loksins að vita af þessu og datt þá andlitið bókstaflega af kappanum.
En hvað heitir bókin og um hvað er hún? Hún heitir Jólasveinarnir í Esjunni og fjallar um fótboltastrák, sem auðvitað heitir Lalli. Hann fer nauðugur með foreldrum sínum í göngu á Esjuna, dauðþreyttur eftir hörkuleik. Já, hann er bókstaflega með hangandi haus, en uppi við Stein, þar sem hann hvílir lúin bein, gerast ævintýrin og það svo um munar.
Meira verður ekki sagt hér og nú, en á Karolina Fund geta þeir sem vilja styrkja þetta bráðskemmtilega verkefni og eignast bókina stutt við það. Slóðin er: www.karolinafund.com/project/view/3891
Það eru Bossa Blossar sem hafa sett söfnunina af stað en þeir eru gamlir félagar úr fótboltanum í Aftureldingu á 9. áratugnum.

Mikil þróun í hreyfingu á síðustu árum

Ólafur Ágúst Gíslason hefur starfað við íþróttakennslu nær óslitið frá árinu 1978. Hann hefur einnig starfrækt íþrótta- og leikjanámskeið, fótboltaþjálfun og kennt ungbarnasund og líkamsrækt í áratugi.
Hann segir þróunina í hreyfingu fyrir alla aldurshópa hafa verið öra síðustu ár en Ólafur hefur fylgst vel með á þeim sviðum með því að sækja ýmis námskeið bæði hér heima og erlendis.

Ólafur Ágúst er fæddur í Reykjavík, á degi íslenskrar tungu, 16. nóvember 1952. Foreldrar hans eru Erla Haraldsdóttir húsmóðir og Gísli Ólafsson læknir en þau eru bæði látin.
Ólafur á tvær systur, Arndísi f. 1946 og Hildi f. 1951.

Minn stærsti leikvöllur alla tíð
„Ég ólst upp í Laugarneshverfinu í Reykjavík til 25 ára aldurs. Gamli Ármannsvöllurinn var rétt við heimili mitt og hann var minn stærsti leikvöllur alla tíð. Þar var farið í fótbolta, handbolta og stundaðar frjálsar á leikja- og íþróttanámskeiðum á sumrin, jafnvel spilað golf þegar best lét.
Ýmislegt var brallað úti í kálgörðunum sem voru handan við Laugarnesveginn. Þá voru þar engar byggingar en Sjálfsbjargarhúsin og Grand Hótel hafa nú risið á þessu svæði.“

Lærði ungur að spila golf
„Æskuminningarnar eru bundnar við alls konar leiki sem við krakkarnir fórum í. Við vorum langt fram á kvöld í fallin spýta, hlaupa í skarðið og hark og púkk með fimm aura peningum.
Ég lærði snemma að spila golf með pabba sem var fyrsti Íslandsmeistarinn í golfi árið 1940. Við fórum oft á gamla GR golfvöllinn í Öskjuhlíð en það var ekki mikið um að börn væru að spila golf á þessum tíma eða í kringum 1960.
Við systkinin fórum einnig mikið á skíði með foreldrum okkar í Úlfarsfell og Skíðaskálann í Hveradölum. Einnig eru góðar minningar bundnar við sumarbústað sem afi minn, Haraldur Árnason stórkaupmaður, byggði í Heiðarbæjarlandi á Þingvöllum. Við systkinin ásamt öðrum frændsystkinum dvöldum þar oft á sumrin með mæðrum okkar á meðan pabbi keyrði til vinnu í Reykjavík.“

Ævintýri út af fyrir sig
„Ég gekk í Laugarnesskólann, bæði í barna-og unglingadeild, og var með frábæran umsjónarkennara, Gróu Kristjánsdóttur. Mér þótti alltaf gaman að fara í skólann og hitta skólafélagana. Það var alltaf morgunsöngur í sal og maður lærði mörg lögin þar. Sundkennslan var í gömlu sundlaugunum sem voru alveg ævintýri út af fyrir sig, við vinirnir fórum oft í laugarnar.
Ég lauk gagnfræðaprófi frá Lindargötuskóla og fór þaðan í Verzlunarskóla Íslands. Á sumrin starfaði ég hjá skrúðgarðyrkjumeistara við að standsetja lóðir og fleira.“

Fór til Noregs í nám
Ólafur hóf störf hjá herrafataversluninni, Andersen&Lauth á Laugavegi árið 1970 og starfaði þar í þrjú ár. Þaðan fór hann til Noregs í lýðháskóla, Gauldal Folkehaugsskola í Melhus og var þar á íþróttabraut. Það var þar sem hann uppgötvaði hvað hann vildi starfa við í framtíðinni en það var að verða íþróttakennari.
Eftir að heim var komið þá fór hann aftur í Lindargötuskólann í uppeldis- og hjúkrunarnám en árið 1976 lá leiðin í Íþróttakennaraskóla Íslands á Laugarvatni.

Góðir tímar á Laugarvatni
„Ég átti dásamlegan tíma á Laugarvatni en þar kynntist ég konunni minni, Guðríði Ernu Jónsdóttur frá Patreksfirði en við útskrifuðumst bæði sem íþróttakennarar árið 1978. Við fluttum til Fáskrúðsfjarðar sama ár og kenndum þar í tvö ár. Við fluttum síðan í bæinn og ég hóf störf sem íþróttakennari í Garðaskóla í Garðabæ og kenndi þar nánast óslitið til 2018 eða í 38 ár. Erna byrjaði á sama tíma í Gagnfræðaskóla Mosfellsbæjar og Varmárskóla og kenndi til 2021.
Ég hef einnig verið fótboltaþjálfari á sumrin á nokkrum stöðum úti á landi. Á árunum 1984-1990 sá ég um íþrótta-og leikjanámskeið í Mosfellsbæ ásamt Ölfu Regínu og svo var ég með Íþróttaskóla Stjörnunnar frá 1991-1994. Í Garðaskóla hafði ég umsjón með Skíðaklúbbi Garðalundar ásamt öðrum í yfir 30 ár. Frá 1989 hef ég starfað með líkamsrækt fyrir karla í Garðabæ, líkamsrækt B&Ó, og er enn að. Allt að 60 þátttakendur koma saman tvisvar í viku í hreyfingu og í körfubolta.
Hreyfing og alhliða líkamsþjálfun er nauðsynleg hverjum manni og þróunin í hreyfingu fyrir alla aldurshópa hefur verið ör síðustu árin. Ég hef reynt eftir fremsta megni að fylgjast vel með á þeim sviðum með því að sækja ýmis námskeið bæði hér heima og erlendis.“

Það gafst meiri tími með þeim þar
Óli og Erna eiga saman þrjú börn, Brynju Rós f. 1987 stöðvarstjóra hjá Íslandspósti, Þórdísi f. 1989 sjúkraþjálfara og Gísla f. 1994 viðskiptafræðing en þau búa öll í Mosfellsbæ. Barnabörnin eru tvö.
Árið 1998 skelltum við Erna okkur í nám í Osló í íþróttaháskólann þar. Ég segi alltaf að þar hafi ég kynnst börnunum mínum betur því það gafst meiri tími með þeim þar heldur en hér heima, vegna vinnu, þetta var ótrúlega skemmtilegur tími.
Við fjölskyldan reynum að hittast sem oftast, förum í ferðalög, útilegur, sumarbústaðaferðir og skíðaferðir erlendis.“

Hættir eftir frábær ár á Reykjalundi
„Áður en við fórum frá Noregi skellti ég mér í ungbarnasundkennslu og var þar með námskeið um vorið. Árið 2001 byrjaði ég svo með ungbarnasund á Reykjalundi sem er ætlað fyrir börn frá 3 mánaða aldri til 2 ára og nú er ég að hætta á þeim starfsvettvangi eftir 22 ár. Þarna hef ég haft frábæra aðstöðu í gegnum árin.
Að kenna ungbarnasund hefur verið mjög gefandi, frábær samvera bæði með foreldrum og ekki síst litlu krílunum sem eru orðin allt að fimm þúsund í gegnum tíðina. Það eru mikil forréttindi að fá að vinna með börnum og fyrir það er ég þakklátur.
En er Óli búinn að finna arftaka? „Já, hann heitir Fabio La Marca og hann kemur til með að halda áfram með námskeiðin. Ég er ótrúlega ánægður með að fá hann Fabio því ég treysti honum til allra góðra verka,“ segir Óli og brosir.

Ætla að njóta lífsins
Ég spyr Óla að lokum hvað hann ætli að fara að taka sér fyrir hendur? „Nú ætla ég hreinlega að njóta lífsins og sinna áhugamálunum, fara í líkamsrækt, hjóla, fara í fjallgöngur og göngutúra og svo ætla ég að snúa mér meira að golfinu með konunni sem er að byrja fyrir alvöru.
Markmið mitt er að njóta þess að vera hraustur, hafa gaman af hlutunum og verja sem mest af tímanum með fjölskyldunni minni og vinum.“ Með þeim orðum kvöddumst við.

Nýr meirihluti – málefnasamningur í höfn

Oddvitarnir Anna Sigríður, Halla Karen og Lovísa handsala samstarfið.           Mynd/Hilmar

Í sveitarstjórnarkosningunum þann 14. maí fengu Framsókn, Samfylkingin og Viðreisn sex kjörna fulltrúa af ellefu og tóku flokkarnir ákvörðun um það að vel ígrunduðu máli að hefja meirihlutasamstarf enda mikill málefnalegur samhljómur með þessum þremur flokkum.
Oddvitar þessara þriggja flokka eru konur og þetta er í fyrsta sinn sem fjölflokka meirihluti í Mosfellsbæ er einungis leiddur af konum.

Áherslur þræddar inn í öll störf
Lýðheilsa, lýðræði, umhverfismál og nýsköpun eru leiðarstef í nýjum málefnasamningi og verða þessar áherslur ofnar inn í samþykkktir allra nefnda. Með þessu vill nýr meirihluti tryggja að þessi áhersluatriði verði ávallt í forgrunni í nefndarstarfi.
Nýr meirihluti ætlar sér líka að efla allt nefndarstarf og tryggja að lýðræðisleg umræða eigi sér stað inni í nefndunum. Þá verða unnar mun ítarlegri starfsáætlanir fyrir hverja nefnd en hingað til hefur tíðkast þar sem skilgreind verða þau sérstöku verkefni í málefnasáttmálanum sem hverri nefnd er ætlað að vinna að.

Framtíðarsýn fyrir bæjarfélagið í heild
Næstu fjögur árin verður unnið að því byggja upp framtíðarsýn fyrir bæjarfélagið í heild. Áhersla verður lögð á langtímaáætlanir, traust og uppbyggileg samskipti.
Það er leiðarljós nýs meirihluta í bæjarstjórn að leita breiðrar sáttar og samvinnu þvert á alla flokka í vinnu sinni fyrir Mosfellsbæ.
Það eru stór verkefni fram undan í Mosfellsbæ í flestum málaflokkum og leggur nýr meirihluti mikla áherslu á ábyrgan rekstur og gæði þeirrar þjónustu sem Mosfellsbær veitir. Stærsta uppbyggingarverkefni á höfuðborgarsvæðinu er í undirbúningi og að mörgu að hyggja hvað það varðar.
Umhverfis- og loftslagsmál eru mikilvægir málaflokkar hér eins og annars staðar. Nauðsynlegt er að Mosfellsbær sé framsækið sveitarfélag sem setur sér metnaðarfull markmið þegar kemur að því að efna skuldbindingar Íslands um kolefnishlutleysi og sjálfbærni.

Jöfn tækifæri og aukin þjónusta
Í málefnasamningnum er einnig að finna áætlanir um að skólar Mosfellsbæjar séu eftirsóttir til að læra og starfa í. Til þess þurfi meðal annars að styrkja stoðþjónustu skólanna og efla sjálfstæði skólastofnana. Skólahúsnæði sé heilsusamlegt og í gangi sé viðhaldsáætlun fyrir allar fasteignir í eigu bæjarins.
Rík áhersla verður lögð á að efla Mosfellsbæ sem heilsueflandi samfélag. Unnin verður heildstæð langtíma uppbyggingar- og viðhaldsáætlun fyrir Varmársvæðið svo það standist nútímakröfur.
Nýr meirihluti ætlar sér að ljúka innleiðingu Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna á kjörtímabilinu og vill að farið sé að samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Eins verður unnin aðgerðaráætlun varðandi uppbyggingu sértækra búsetuúrræða. Þá verður lögð áhersla á áframhaldandi uppbyggingu faglegs starfs sem stuðlar að líkamlegri, andlegri og félagslegri heilsu eldri Mosfellinga.
Lengri opnunartímar sundlauga, fjölgun nemenda í tónlistarnámi, fjölgun grenndarstöðva og endurskoðun á rekstrar­fyrir­komulagi Hlégarðs eru fleiri dæmi um aðgerðir í málefnasamningnum og stefnt er að því að leysa aðstöðumál leikfélagsins til lengri tíma.

Stuðla að fjölbreyttu atvinnulífi
Atvinnumálum verður gert hærra undir höfði í nefndarstarfi bæjarins enda skiptir öflugt atvinnulíf miklu máli í hverju samfélagi. Meirihlutinn ætlar sér þess vegna að vinna atvinnustefnu fyrir bæjarfélagið á kjörtímabilinu og verður unnið markvisst að því að laða fleiri og fjölbreyttari fyrirtæki til bæjarins.
Mikilvægt er að skipulag stuðli að öflugu og fjölbreyttu atvinnulífi og til staðar sé miðbæjarskipulag sem laðar að sér verslun og þjónustu sem leggur grunn að kraftmiklu mannlífi.


Góður samhljómur Anna Sigríður Guðnadóttir oddviti Samfylkingarinnar
Fyrst vil ég þakka þeim kjósendum sem treystu Samfylkingunni fyrir atkvæði sínu. Ég er full tilhlökkunar og auðmýktar yfir þessu nýja hlutverki í meirihluta og ég veit að allt það góða fólk sem kemur að þessum meirihluta mun vanda sig í öllum sínum störfum og vinna vel saman enda mikill samhljómur á milli okkar. Þá viljum við sem meirihluti vinna að góðu samstarfi innan bæjarstjórnar allrar. Við munum taka til hendinni!


Munum vinna af heilindumHalla Karen Kristjánsdóttir oddviti Framsóknar

Ég vil byrja á því að þakka íbúum Mosfellsbæjar fyrir stuðninginn og það mikla traust sem þið sýnduð okkur í Framsókn. Það fylgir því mikil ábyrgð að vera komin í þessa stöðu og munum við leggja allt okkar í að standa undir henni. Ég bind miklar vonir við vinnu okkar í þessu meirihlutasamstarfi með Samfylkingu og Viðreisn auk samstarfsins í bæjarstjórninni í heild. Ég veit að við munum öll vinna af heilindum og metnaði fyrir ykkur bæjarbúa og bæinn í heild sinni. Rauði þráðurinn í gegnum allar nefndir verður lýðheilsa, lýðræði, nýsköpun og umhverfismál. Við þrjár ásamt okkar góða fólki tökum við keflinu full tilhlökkunar og ætlum að vanda okkur.


Nýir tímar fram undan – Lovísa Jónsdóttir oddviti Viðreisnar

Ég persónulega er mjög stolt af því að vera hluti af þessu nýja þríeyki og hlakka til samvinnunnar. Á heildina litið þá líst okkur mjög vel á samstarfið enda hefur það farið mjög vel af stað. Það er góð samvinna í hópnum og gleði og ég tel að bæjarbúar muni strax verða varir við nýjar áherslur. Við teljum það mikilvægt hvernig megináherslurnar í samstarfinu verða ofnar inn í allt starfið og þar með vonumst við til þess að geta innleitt meiri samvinnu milli nefnda.


Bæjarstjórn Mosfellsbæjar skipa:
Halla Karen Kristjánsdóttir (B)
Ásgeir Sveinsson (D)
Aldís Stefánsdóttir (B)
Jana Katrín Knútsdóttir (D)
Dagný Kristinsdóttir (L)
Sævar Birgisson (B)
Rúnar Bragi Guðlaugsson (D)
Anna Sigríður Guðnadóttir (S)
Örvar Jóhannsson (B)
Lovísa Jónsdóttir (C)
Helga Jóhannesdóttir (D)

Helstu nefndir og ráð:
Formaður bæjarráðs: Halla Karen Kristjánsdóttir (B)
Forseti bæjarstjórnar: Anna Sigríður Guðnadóttir (S)
Formaður fjölskyldunefndar: Ólafur Ingi Óskarsson (S)
Formaður fræðslunefndar: Aldís Stefánsdóttir (B)
Formaður íþrótta og tómstundanefndar: Erla Edvardsdóttir (B)
Formaður lýðræðis- og mannréttindanefndar: Sævar Birgisson (B)
Formaður menningar- og nýsköpunarnefndar: Hrafnhildur Gísladóttir (B)
Formaður skipulagsnefndar: Valdimar Birgisson (C)
Formaður umhverfisnefndar: Örvar Jóhannsson (B)
Stjórn Sorpu bs.: Aldís Stefánsdóttir (B)
Stjórn Strætó: Lovísa Jónsdóttir (C)
Heilbrigðisnefnd: Bjarni Ingimarsson (B)

 

 

 

Eins og barðir hundar

Nottingham Forest komst upp í efstu deild á Englandi um síðustu helgi eftir að hafa reynt það í 23 ár. Þrautsegja og þolinmæði, takk fyrir. Hinn ungi fyrirliði Joe Worrall talaði um í viðtali strax eftir úrslitaleikinn við Huddersfield á Wembley að ástæðan fyrir þessum árangri væri fyrst og fremst knattspyrnustjórinn, Steve Cooper, en hann tók við liðinu 21. september 2021, þá sigurlausu í neðsta sæti næstefstu deildar.
„Við vorum eins og barðir hundar áður en hann tók við liðinu,“ sagði Worrall. „Hans aðferðafræði og nálgun er allt önnur en við höfum kynnst hjá öðrum stjórum. Hann gaf okkur trú á sjálfa okkur og gerir allt sem hann getur til þess að láta okkur líða vel, sem leikmönnum og manneskjum.“

Ég hef aldrei skilið hina leiðina, að stjórna með yfirgangi og látum, að skamma fólk endalaust fyrir að gera mistök, láta það stöðugt vita hvað það getur ekki gert og þannig draga úr því kraft, vilja og orku.

Ég hef kynnst þannig þjálfurum, kennurum og leiðbeinendum og enginn þeirra gerði mikið fyrir mig. Frekar öfugt. Ég man miklu meira eftir þeim sem litu jákvæðum augum á lífið og létu mann vita að það væri eitthvað í mann spunnið. Alveg eins og Steve Cooper er að gera með Forest í dag. Ég man eftir nafna mínum Eiríkssyni sem var flokksstjórinn minn í unglingavinnunni. Hann var hress, hvetjandi, jákvæður og hélt góðum aga á okkur letidýrunum með húmor og jákvæðri ákveðni. Hann fékk mig síðan seinna til að koma og æfa með Aftureldingu, ég man enn eftir mjög uppbyggilegu símtali frá honum sem mér þótti vænt um. Ég man líka eftir Ruth umsjónarkennara í Árbæjarskóla sem var hvetjandi og ströng á jákvæðan hátt. Hún var elskuð og virt af öllum bekknum og lifir alltaf í minningunni.

Njótum ferðalagsins!

Heilsumolar Gaua
Mosfellingur 2. júní 2022