Allir þurfa einhvern tilgang í lífið

Þríþraut er íþrótt sem reynir sérstaklega mikið á þol keppenda en keppt er í sundi, hjólreiðum og kapphlaupi. Þekktasta langþríþrautarkeppnin er Járnkarlinn sem hófst á Hawaii árið 1977.
Einar Sigurjónsson sjúkraþjálfari hefur tekið þátt í fimm járnkörlum víða um heim og er hvergi hættur. Hann segir að hver keppni gefi sér góðar minningar og hann vonast til að geta keppt svo lengi sem heilsan leyfir.

Einar er fæddur í Reykjavík 12. október 1980. Foreldrar hans eru Helga Einarsdóttir hjúkrunarfræðingur og Sigurjón Eiríksson rafvirki. Einar á tvö systkini, Arnar f. 1981 og Kristrúnu f. 1985.

Fóru á skíði í Kerlingarfjöll
„Ég er alinn upp í Mosfellsbæ og átti heima fyrstu árin mín í Grundartanga en svo fluttum við fjölskyldan í Leirutangann, í húsið sem foreldrar mínir byggðu. Það var barnmargt í götunni og ég var svo heppinn að minn besti vinur og frændi, Grétar Þór, bjó í parhúsi við hliðina á okkur.
Foreldrar mínir voru mjög natnir að fara með okkur systkinin í ferðalög um landið og frá þeim tíma á ég góðar minningar, sérstaklega þegar við fórum í Kerlingarfjöll á skíði í kringum 1990.“

Árið sem stendur upp úr
„Sú minning sem stendur upp úr frá æskuárunum er árið sem við bjuggum í Danmörku 1992-1993 en við fluttum þangað því foreldra mína langaði í tilbreytingu. Þetta var viðburðaríkt og skemmtilegt ár og þarna lærði ég dönsku.
Dag einn vorum við stödd á Bellavue-ströndinni í Danmörku þegar pabbi sendi okkur krakkana til að sækja íspinna á útvarpsstöð sem var að senda út á ströndinni. Íspinnarnir voru ekki íspinnar heldur bananasmokkar, þarna eignaðist ég mína fyrstu 30 smokka, 12 ára gamall,“ segir Einar og hlær.

Hún uppskar mikla virðingu
„Ég gekk í Varmárskóla og svo í Gagnfræðaskólann í Mosfellsbæ. Kynntist þar Ragnheiði Ríkharðsdóttur sem var kjarnorkukona, hún var skólastjóri árin mín í gaggó. Árið 1995 voru öll kennsluborð og sæti í kennslustofunum endurnýjuð. Tveir nemendur ákváðu að skera nöfn sín í nýju borðin og það var því ekki erfitt að finna út hverjir þessir nemendur voru. Ragnheiður tæklaði þetta mjög vel og uppskar mikla virðingu en drengirnir tveir sátu með sín gömlu borð út önnina.
Eftir útskrift úr gagnfræðaskólanum lá leiðin í Menntaskólann við Sund þaðan sem ég lauk stúdentsprófi árið 2000 af náttúrufræðibraut. Á sumrin vann ég við leikjanámskeið ÍTÓM, íþrótta- og tómstundaskóla Mosfellsbæjar með Hlyni Guðmundssyni og á veturna í Íþróttaskóla barnanna með Svövu Ýri og Höllu Karen.“

Spennandi tímar fram undan
„Eftir útskrift fór ég að starfa sem aðstoðarmaður sjúkraþjálfara á Landspítalanum við Hringbraut. Ég fór síðan í Háskóla Íslands til að læra sjúkraþjálfun og útskrifast þaðan árið 2005.
Ég hef starfað í 17 ár á MT-stofunni í Síðumúla sem sjúkraþjálfari en nú eru blikur á lofti því ég er að fara að opna stofu með tveimur öðrum sjúkraþjálfurum í Ártúni í sumar svo það eru virkilega spennandi tímar fram undan.“

Afslappandi að fara í sveitina
Einar giftist eiginkonu sinni, Birnu Maríu Karlsdóttur, 9. júní 2012 en hún er ættuð úr Öxarfirði í Þingeyjarsýslu. Þau kynntust í námi sínu í sjúkraþjálfun og tóku saman 2005. Birna starfar á Landspítalanum Hringbraut á hjartasviði. Þau eiga saman tvö börn, Helgu Laufeyju f. 2008 og Snorra Stein f. 2010.
„Við fjölskyldan njótum þess að fara í ferðalög innanlands og utan. Okkur finnst gaman að fara með fellihýsið okkar og taka frisbígolfið með. Oftast förum við í sveitina rétt hjá Ásbyrgi til tengdapabba en hann er sauðfjárbóndi þar ásamt mági mínum, Bjarka Fannari. Að komast í sveitina þar sem mikið er af kindum, hestum og hænum er gríðarlega afslappandi og skemmtilegt fyrir börnin. Þar er tekið í sveitastörfin ásamt því að njóta náttúrunnar.“

Gerðu það sem gleður þig
Einar fer hjólandi í vinnuna allt árið um kring en aðaláhugamál hans er hreyfing og þá sérstaklega þríþraut. Árið 2015 dró frændi hans Jens Ingvarsson hann með sér í WOW Cyclothon sem samanstóð af 10 manna liði sem hjólaði hringinn í kringum Ísland. Eftir þessa ferð var ekki aftur snúið, Einar fann þarna ástríðu sína.
„Mín lífsspeki er þessi, allir þurfa einhvern tilgang í lífið. Gera eitthvað sem er skemmtilegt og gleður mann. Best er ef það er hreyfing í einhverri mynd. Gott er að setja sér markmið og jafnvel fara út fyrir þægindarammann. Ef þú sinnir sjálfum þér aukast líkurnar á að þér líði betur og þú sinnir fjölskyldu, vinum og vinnu mun betur.
Það gefur mér tilgang á hverjum einasta degi að fá hreyfiskammtinn minn ásamt þeim gleðihormónum sem því fylgja.“

Með góðu skipulagi er allt hægt
Járnkarl eða Ironman samanstendur af 3,8 km sundi, 180 km hjólreiðum og 42,2 km maraþonhlaupi. Klára þarf keppnina á 16 klukkustundum en góður íþróttamaður er um 10 klukkustundir að klára.
„Ég fór í minn fyrsta járnkarl í Barcelona árið 2017 og síðan þá hef ég farið á hverju ári. Ég keppi núna í sjötta sinn í Svíþjóð í sumar og fjölskylda mín kemur með mér sem stuðningsmannalið. Ég æfi 12 klukkustundir á viku allar vikur ársins og með góðu skipulagi og frábærri eiginkonu er allt gerlegt,“ segir Einar og brosir.

Langþráðu markmiði náð
„Árið 2021 náði ég langþráðu markmiði þegar ég kláraði Ironman á Ítalíu á 9 klukkustundum og 39 mínútum. Það var búið að vera þráhyggja í nokkur ár að brjóta 10 klukkustunda múrinn sem er ákveðinn tímamótaárangur hvers íþróttamanns í þríþrautarheiminum, þá var grátið af gleði.
Líkaminn er gjörsamlega hamraður í nokkra daga eftir svona keppni og miklir strengir í fótleggjum. Ég man þegar ég kláraði Ironman í Austurríki 2019 þá þurfti ég að fara á klósettið. Þegar ég ætlaði að standa upp þá fékk ég svo mikinn krampa í fæturna að ég gat ekki staðið upp svo ég þurfti bara að sitja í dágóðan tíma á meðan ég jafnaði mig, ég gat ekki annað en hlegið að þessum aðstæðum.
En það eru ekki bara keppnirnar sem maður sækir í heldur líka ferðalögin, allar æfingarnar og félagsskapurinn. Það er líka lífsnauðsynlegt að eiga góðan maka sem styður mann og elskar.
Hver keppni gefur mér svo góðar minningar, ég vona að ég geti keppt eins lengi og heilsan leyfir. Langtímamarkmið mitt er að komast á heimsmeistaramótið sem haldið er ár hvert á Hawaii, nú er bara að krossa fingur,“ segir Einar og brosir er við kveðjumst.

Ný þjónustubygging rís við íþróttamiðstöðina að Varmá

Á grunni þarfagreiningar er búið að hanna nýja þjónustubyggingu við íþróttamiðstöðina að Varmá og er áætlað að stærð byggingarinnar verði um 1.177 m2.
Miðað er við að framkvæmdir geti hafist í sumar.
Á fyrstu hæð verður ný afgreiðsla og góð aðstaða fyrir gesti hússins. Í kjallaranum verða fjórir nýir búningsklefar sem mæta þeim kröfum sem gerðar eru í dag til búningsaðstöðu liða í efstu deild. Á annarri hæð verður fundarsalur sem hægt er að skipta upp í smærri rými.
Með tilkomu þjónustuhússins mun félagsaðstaða Aftureldingar og annarra gesta hússins verða gjörbreytt. Fundarsalurinn á efri hæðinni mun tengjast íþróttasölum og verða nýtanlegur þegar keppni eða aðrir viðburðir fara fram í húsinu. Með hönnun þjónustubyggingar verður aðkoma og aðgengi tryggt fyrir alla gesti hússins.

Mikilvægi leiðtoga

Ég hef verið stuðningsmaður Nottingham Forest síðan ég man eftir mér. Það er búið að vera sérstaklega áhugavert að fylgjast með liðinu á núverandi tímabili en liðið spilar í næstefstu deild á Englandi. Eftir fyrstu 7 umferðirnar var liðið með 1 stig í neðsta sæti. Þáverandi knattspyrnustjóri var varfærinn og varnarsinnaður og liðið lagði mesta áherslu á að reyna að tapa ekki (sem það gerði samt) og að fá ekki á sig mörk (sem það gerði). Hann breytti aldrei um aðferð, sama hvað illa gekk og á endanum fengu eigendur félagsins nóg, ráku hann og fengu Steve nokkurn Cooper til að taka við.

Aðdáendur liðsins voru himinlifandi að losna við áhættufælna knattspyrnustjórann en flestir vildu fá reynslumeiri og þekktari stjóra en Steve Cooper. Staðan í dag, þegar örfáar umferðir eru eftir af deildinni, er sú að Forest er í toppbaráttu. Liðið er öruggt um sæti í úrslitakeppni um að komast upp í úrvalsdeildina og á, þegar þetta er skrifað, möguleika á því að enda í öðru sæti deildarinnar og komast þar með beint upp.

Viðsnúningurinn hefur verið ótrúlegur frá því að varfærni stjórinn sem engu vildi breyta kvaddi klúbbinn. Í dag ríkir bjartsýni og gleði. Menn þora, trúa og framkvæma samkvæmt því. Samstaða innan liðs og utan er mögnuð, allir stefna í sömu átt. Leikmenn njóta þess að spila jákvæðan fótbolta og að vera hluti af öflugri liðsheild. Og þetta smitar, Nottingham er eins og Akranes, þegar vel gengur í boltanum eru allir brosandi og kátir. Allt verður auðveldara og einfaldara.

Steve Cooper fær fólk til að trúa, til að vinna saman, til að vera stolt af fortíðinni og til að gera nútíð og framtíð betri. Hann tengir við leikmenn, stjórnarmenn, eigendur og stuðningsmenn. Allir skipta máli hjá honum.

Það er stutt í kosningar. Það skiptir máli hver stjórnar.

Heilsumolar Gaua
Mosfellingur 28. apríl 2022

Hreyfing í vatni er góð þjálfun fyrir alla

Elísa Berglind Sigurjónsdóttir hefur kennt konum vatnsleikfimi í Lágafellslaug síðan haustið 2014 og hafa tímarnir notið mikilla vinsælda.
Til að byrja með var boðið upp að tíma tvisvar í viku en nú eru tímarnir orðnir fimm í viku hverri. Mosfellingur tók Elísu tali um starfið vítt og breytt.

„Leikfimin er mjög fjölbreytt og engir tveir tímar eins, segir Elísa. Notast er við ýmis hjálpartæki eins og núðlur, handlóð, ketilbjöllur, teygjurenninga og ýmislegt annað. Tónlist er mjög mikilvægur partur af tímunum hjá mér.
Það eru svokallaðir mjúkir morguntímar tvisvar í viku þar sem áhersla er lögð á mjúkar hreyfingar, léttar þolæfingar, styrktaræfingar, teygjur og yoga. Kvöldtímarnir sem eru þrisvar í viku eru aðeins kraftmeiri, þá erum við með stöðvaþjálfun, tabata, Aqua Zumba, þol- og styrktaræfingar svo eitthvað sé nefnt.”

Iðkendum fjölgar ört
„Þegar ég byrjaði renndi ég svolítið blint í sjóinn. Ég var að byrja í nýrri sundlaug í nýju bæjarfélagi og vissi ekkert hvernig þetta myndi fara eða þróast. Það var ekki nema ár síðan ég fékk réttindi til að kenna Zumba í vatni og það form líkamsræktar var ekki þekkt hér á landi. Tímarnir fóru frekar hægt af stað en á fyrsta námskeiðinu skráðu sig fimmtán konur.
Þetta var þó fljótt að spyrjast út og núna eru iðkendur í kringum sjötíu, þó ekki allir ofan í í einu. Ennþá hef ég einskorðað tímana við konur en dauðlangar að prófa að hafa tíma fyrir karla. Ég legg mikla áherslu á að hver og ein kona í lauginni mæti á sínum forsendum og geri nákvæmlega það sem hennar líkami ræður við á sínum hraða. Ég vil ekki að nein ofgeri sér.”

Zumba er góð spennulosun
„Þjálfun í vatni er stórkostlegt æfingaform sem hentar flest öllum, ekki bara eldra fólki og ófrískum konum. Ávinningur fyrir líkamann við þjálfun í vatni er mikill, álag á liðamót nánast ekkert og meiðsli eru nánast óþekkt í vatnsþjálfun. Í vatni getum við hreyft okkur á margan hátt sem við gætum annars ekki.
Hreyfing í vatni er ótrúlega góð fyrir stoðkerfi og liði, er nánast meiðslalaus, hefur mýkjandi áhrif á líkamann og losar um spennu. Þetta er aðeins brot af þeim góðu áhrifum sem þjálfun í vatni hefur á líkama okkar.”

Rósirnar
„Hópurinn, sem ég hef kallað Rósirnar, er einstakur og í gegnum árin höfum við haldið að minnsta kosti tvo viðburði á ári utan sundlaugarinnar. Stundum er farið létt út að borða eftir tíma og við höfum farið tvisvar sinnum saman til Spánar í slökunar- og hreyfiferð, við förum í þriðja skiptið núna í júní.”

Mosfellingur þakkar Elísu Berglindi spjallið og fylgja hér í lokin nokkrar umsagnir frá hennar ánægðu Rósum.

• Það er svo nærandi kærleikur í öllum þínum tímum yndislega Elísa Berglind

• Það er ekkert mál að falla strax inn í hópinn. Elísa Berglind heldur sérstaklega vel utan um okkur, jákvæð og hvetjandi, en allt á okkar forsendum þar sem engar tvær eru staddar á sama stað í getu.

• Hreyfing og æfingar í vatni er dásemd og hefur bjargað mér bæði líkamlega og andlega því hópurinn er svo dásamlega samheldinn

• Ég kom fyrst í Aqua Zumba til Elísu Berglindar 2015 og hef verið næstum óslitið síðan. Í fyrsta skipti sem ég finn heilsurækt sem ég fer í full af tilhlökkun og kem alltaf glaðari og hressari upp úr lauginni. Hef auk þess kynnst mörgum skemmtilegum konum í sundinu og Elísa Berglind er gefandi, faglegur og jákvæður leiðbeinandi sem leggur allt sitt í að tímarnir séu góðir og skemmtilegir.

• Mæli eindregið með. Tímarnir í Lágafells­laug hjá Elísu Berglindi eru mitt “happy place”, alltaf gaman, núvitund og gleði í eigin líkama. Finn mikinn mun á styrk og þoli auk þess sem það er einfaldlega gaman. Velvilji, samkennd og jákvæðni er einkennandi fyrir hópinn og hana Elísu Berglindi sem leiðir okkur áfram

• Ég er ný í hópnum og leið strax eins og heima hjá mér. Glaður og vinalegur hópur, kennarinn fyrsta flokks og tónlistin frábær. Góð og styrkjandi hreyfing í vatni og ekki síst mjög skemmtileg.

KYNNING

Íþróttaskóli barnanna í 30 ár

Íþróttaskóli barnanna hefur verið starfræktur síðan 1992. Svava Ýr Baldvinsdóttir hefur stjórnað skólanum frá upphafi og er því að ljúka sínu 30 starfsári.
Íþróttaskólinn hefur verið mjög vinsæll í gegnum árin og fjöldi barna, á aldrinum 3ja til 5 ára, hefur fengið sína fyrstu kynningu af íþróttum í Íþróttaskólanum.
Mikil almenn ánægja hefur verið með þetta merka starf Svövu Ýrar allt frá upphafi.
Mosfellingur tók Svövu Ýr tali, gefum henni orðið.

„Í Íþróttaskólanum er lögð áhersla á fjölbreytta hreyfingu, þar sem áhersla er lögð á að efla þroska barnanna með fjölbreyttu og markvissu hreyfinámi. Tekið er mið af þroska barnanna þar sem verið er að efla hreyfiþroska, vitsmunaþroska og félagsþroska, svo eitthvað sé nefnt. Markvist er unnið að því að efla m.a. þor barnanna, styrk, fín- og grófhreyfingar, fimi, jafnvægi og taka tillit til náungans.“

Umfram allt að það sé gaman
„Markmiðunum er náð í gegnum leik. Mjög mikilvægt er að börnin finni þörf fyrir að hreyfa sig og hafi umfram allt gaman af. Foreldrar taka virkan þátt í tímunum enda er það eitt af lykilmarkmiðum skólans, að börn og foreldrar leiki sér saman og eigi fallega gæðastund í vinalegu umhverfi. Kærkominn samverutími í annars hröðu samfélagi nútímans.”

Fjölbreytt æfingaval
„Mjög mikilvægt er að börnunum líði vel í íþróttasalnum og reynum við að hafa andann léttan og skemmtilegan þar sem notast er við fjölbreytt æfingaval. Rannsóknir hafa sýnt fram á að góð grunnþjálfun, þar sem áhersla er lögð á alhliða líkams- og hreyfiþroska og jákvætt umhverfi, hefur mjög mikla og jákvæða þýðingu fyrir einstaklinginn þegar fram í sækir.
Íþróttaskólinn leggur metnað sinn í að kynna flestar þær íþróttagreinar sem Afturelding býður upp á. Þau kynnast boltagreinum, spaðagreinum, fimleikum, hreyfingu með tónlist og margt margt fleira. Það má því búast við að líkur aukist á að barnið velji sér hreyfingu við hæfi hjá einni eða fleiri deildum félagsins.“

Börnin eru vel undirbúin þegar kemur að skólaíþróttum
„Í Íþróttaskólanum kynnast börn og foreldrar húsnæði íþróttamiðstöðvarinnar og síðast en ekki síst reglum og aga í íþróttasalnum og klefum. Börnin eru því vel undirbúin þegar kemur að skólaíþróttum,“ segir Svava Ýr að lokum.
Rétt er að benda á að síðasti tími þessa námskeiðs er laugardaginn 9. apríl en nýtt 5 tíma námskeið hefst laugardaginn 23. apríl. Börn fædd 2019-2016 eru velkomin á það námskeið. Skólinn er á laugardagsmorgnum og hver aldurshópur er 55 mínútur í sal.
Allar upplýsingar birtast á Fésbókarsíðu Íþróttaskólans. Einnig er hægt að senda fyrirspurnir á netfangið ithrottaskólinn@gmail.com.

KYNNING

Fagna afmæli Sölku Völku og 120 ára afmæli Laxness

Guðný Dóra safnstjóri á Gljúfrasteini.

Það er margt fram undan á Gljúfrasteini en hefðbundin dagskrá er að fara aftur í gang eftir takmarkanir vegna faraldursins.
„Nú er allt að verða bjartara og sólin farin að skína. Þann 23. apríl verða 120 ár liðin frá fæðingu nóbelskáldsins og á þeim degi ætlum við að opna litla sýningu hér á Gljúfrasteini um Sölku Völku. Hún verður níræð á þessu ári, en Salka Valka er ein af fyrstu stóru bókum Halldórs Laxness,“ segir Guðný Dóra Gestsdóttir safnstjóri.

Salka Valka 90 ára
Salka Valka kom út í tvennu lagi 1931 og 1932. „Við ætlum að vekja athygli á Sölku með sýningunni og svo fleiri viðburðum út þetta ár. Bókin var líka að koma út í nýrri enskri þýðingu, sem eru ákveðin tímamót því sagan hefur mikið verið stúderuð af bókmenntafræðingum og almenningi um allan heim. Sagan hefur bæði verið kvikmynduð og sett á svið í hinum ýmsu leikhúsum.
Það eru margir sem eiga Sölku Völku sem sína uppáhalds bók og er það mál manna að það sé í raun ótrúlegt hvað Halldór gat sett sig vel inn í hugarheim ungra kvenna á þessum árum.“

Ganga á afmælisdegi skáldsins þann 23. apríl
Á afmælisdegi Halldórs Laxness þann 23. apríl verður almenningi boðið upp á gönguferð frá Mosfellskirkju að Gljúfrasteini undir leiðsögn Bjarka Bjarnasonar.
„Þessi ganga er í samstarfi við stofnun Árna Magnússonar sem heldur utan um kennslu á íslensku fyrir útlendinga í Evrópu. Í fyrra höfðu nokkrir íslenskukennarar við erlenda háskóla frumkvæðið að bókmennta- og heilsuátakinu Laxness119, en þá voru nemendur hvattir til að stunda hreyfingu. Átakið stóð yfir frá 8. febrúar, sem var dánardagur Halldórs til afmælisdags hans þann 23. apríl.
Ákveðið var að endurtaka þetta í ár og fólk út um alla Evrópu hefur tekið þátt og deilt sinni þátttöku á samfélagsmiðlum undir myllumerkinu #laxness120.
Átakinu líkur með göngunni frá Mosfellskirkju og verðum við með útsendingu héðan til þeirra sem hafa verið að taka þátt úti í heimi,“ segir Guðný Dóra en tekur fram að gangan er öllum opin og hvetur hún Mosfellinga sem og aðra til að mæta og njóta.

Styrkur minn efldist til muna

Anna Olsen formaður Karatedeildar Aftureldingar hvetur alla til þess að læra sjálfsvörn.

Alþjóðlega karatesambandið viðurkennir fjóra mismunandi karatestíla í keppni, Shito Ryu, Goju Ryu, Shotokan og Wado Ryu. Þrír af þessum stílum eru iðkaðir á Íslandi og er Shito Ryu stíllinn kenndur hjá Karatedeild Aftureldingar. Þrátt fyrir mismunandi áherslur og stíla er karateiðkun alltaf skipt í þrjá hluta, kata, kihon, kumite.
Karate hentar iðkendum á öllum aldri og er í senn bardagaíþrótt, líkamsrækt, sjálfsvörn og lífsstíll. Anna Olsen var 48 ára gömul er hún fór á sína fyrstu karate­æfingu. Í dag er hún komin með svarta beltið, dómararéttindi og svo kennir hún bæði byrjendum og framhaldshópum. Hún segir karate íþróttina gefa sér mikið en hún eyðir fimm dögum vikunnar í íþróttahúsinu að Varmá.

Anna fæddist í heimahúsi í Vesturbæ Reykjavíkur 15. desember 1964. Foreldrar hennar eru þau Anna Jóhannesdóttir og Karl Hinrik Olsen en þau eru bæði látin.
Anna á þrjú alsystkini, Hinrik f. 1952, Sigurbjörg f. 1954, Jóhannes f. 1958 d. 1980. Þrjú hálfsystkini, Ágústa f. 1943, Valdimar f. 1948 og Soffía f. 1954 og einn fósturbróður, Anton f. 1961.

Setti spritt á sárin
„Ég er alin upp á Meistaravöllum í Reykjavík. Á flestum heimilum í kring voru 3-4 börn svo það var ávallt líf og fjör og nóg af leikfélögum. Við lékum okkur oftast úti og það skipti ekki máli hvort þú varst 8 ára eða 15 ára, allir léku saman.
Óbyggða svæðið sem síðar var byggður Flyðrugrandi var heillandi staður. Þar var starfandi starfsvöllur á sumrin og margir fallegir hlutir búnir til. Margir kofarnir voru smíðaðir og því fylgdi óhjákvæmilega að stígið var á naglaspítur, maður var orðin ansi lunkinn við að kippa nöglunum úr og setja spritt á sárin.”

Mamma sat uppi við alla nóttina
„Ferðalögin með fjölskyldunni eru ofarlega í huga frá æskuárunum. Farið var á rauðu Volkswagen bjöllunni, öllu pakkað á toppinn, okkur systkinunum troðið aftur í og svo var ekið af stað. Foreldrar mínir reyktu bæði og það var reykt í bílnum eins og tíðkaðist í denn. Það fór illa í mig og ég varð oft bílveik, yfirleitt var ég búin að æla áður en Ártúnsbrekkunni var náð.
Það var farið víða um land og hvíta tjaldinu tjaldað. Mamma var mjög hrædd við pöddur og hún sat oftast uppi við alla nóttina með kveikt á vasaljósinu til að fylgjast með hvort það væru einhverjar köngulær inn í tjaldinu,” segir Anna og brosir.”

Vorum heppin með kennara
„Melaskóli og Hagaskóli voru mínir skólar. Melaskóli þessi stóri skóli, man hvað manni fannst maður orðin stór þegar maður byrjaði þar. Við vorum heppin með kennara, Ástríði Guðmundsdóttur en hún kenndi okkur allan barnaskólann. Hún var dugleg að fara með okkur á skauta á Melavöllinn, æfingar hjá Sinfóníuhljómsveitinni í Háskólabíói og í fjöruferðir.
Hagaskóli var gagnfræðaskólinn, lauk þar 9. bekk sem þá var efsta stigið. Haldin voru regluleg skólaböll og aðrar skemmtanir sem voru vel sóttar.”

Tóku þátt í húsverkum og heyskap
Anna var 15 ára að klára Hagaskóla þegar hún kynntist manni sínum, Árna Jóhannessyni. Hann var úr sveit svo sumarið eftir gagnfræðaskóla lá leiðin í Húnavatnssýsluna. Þar brettu þau upp ermar og tóku þátt í sauðburði, húsverkum og heyskap.
„Eftir dásamlegan tíma í sveitinni hafði ég hugsað mér að fara í fatasaum í Iðnskólann í Reykjavík, ég sótti um en komst ekki inn. Ég fór því að vinna á saumastofunni í Karnabæ, taldi það koma sér vel, en þar fann ég út að mig langaði bara alls ekki að vinna við þetta. Það varð því ekkert af framhaldsskólagöngu hjá mér.”

Fjölbreyttur og farsæll ferill
„Árið 1983 keyptum við Árni okkar fyrstu íbúð, það sama ár var ég ráðin til starfa hjá Landsbankanum. Ég átti þar fjölbreyttan og farsælan feril í 37 ár og fór í gegnum ýmiskonar nám. Störfin í bankanum voru töluvert öðruvísi þá miðað við sem þekkist í dag, margt fólk á hverri vinnustöð og mörg handtökin. Það var mikil breyting þegar tölvuvæðingin hóf innreið sína, ég tók þátt í að innleiða og kenna á gjaldkerakerfin sem tekin voru upp ásamt því að fara á milli fyrirtækja og kenna á netbankann þegar hann kom.
Að vera starfsmaður í bankanum þegar hann var ríkisbanki, einkabanki og svo aftur ríkisbanki var töluverð reynsla og fylgdu því miklar breytingar. Að fá að þróast í starfi frá því að vera almennur starfsmaður að selja tékkhefti í að vera staðgengill útibússtjóra með þeirri ábyrgð sem því fylgdi var líka mikil reynsla.
Ég er lánsöm að hafa kynnst góðu fólki í gegnum tíðina hjá bankanum. Nú hafa tímarnir breyst, ég missti vinnuna s.l. haust og er því Landsbankahjartað mitt svolítið brotið en ég er hokin af reynslu.”

Dundum okkur saman í garðinum
Anna og Árni slitu samvistum árið 2019. Þau eiga saman dótturina, Valdísi Ósk f. 2000.
„Við mæðgur erum duglegar að dunda okkur saman í garðinum og gróðurhúsinu og svo förum við í gönguferðir með hundinn. Erum svo lánsamar að búa á dásamlegum stað þar sem stutt er í náttúruna. Við höfum einnig verið duglegar að ferðast um landið.”

Ég gjörsamlega heillaðist
„Árið 2011 byrjaði Valdís Ósk mín að æfa karate og ég hafði gaman af að fylgjast með úr fjarlægð. Mér leið vel með að vita að hún gæti varið sig ef eitthvað kæmi upp á, ég myndi gjarnan vilja sjá fleiri feta þennan veg. Fljótt fór ég að vera með puttana í ýmis­konar málum, fór í stjórn félagsins og hef verið formaður frá 2015.
Það varð svo úr að ég fór að mæta á fullorðins æfingar, orðin 48 ára gömul,” segir Anna og brosir. Æfingarnar voru skemmtilegar og það ríkti mikil virðing milli æfingafélaganna. Ég gjörsamlega heillaðist og hef nú mætt að jafnaði þrisvar sinnum í viku á æfingar frá því að ég byrjaði. Ég vissi ekki alveg hvort þetta myndi ganga hjá mér því ég hef átt við bakvandamál að stríða en styrkur minn hefur eflst til muna.
Nú er ég komin með svarta beltið 2. Dan og með dómararéttindi í Kata, hver veit nema ég reyni við 3. Dan eftir 3 ár. Undanfarin ár hef ég einnig verið að kenna bæði byrjendum og framhaldshópum sem gefur mér mikið, ég er því í íþróttahúsinu fimm daga vikunnar, bæði við æfingar og kennslu.
Það er svo gaman að taka á móti krökkunum á haustin og sjá hvað þau hafa þroskast í sumarfríinu og svo auðvitað að bjóða nýja iðkendur velkomna,” segir Anna að lokum er við kveðjumst.

Frjálslyndi og jafnrétti er leiðarstef okkar

Aftari röð: Sigurberg, Ölvir, Hrafnhildur, Reynir, Rúnar, Guðrún. Þórarinn. Fremri röð: Atlas, Lovísa, Valdimar, Elín, Hildur.

Framboðslisti Viðreisnar fyrir sveitarstjórnarkosningar sem fara fram 14. maí var samþykktur á fjölmennum félagsfundi.
„Við bjóðum fram öflugan og fjölbreyttan lista fólks sem mun vinna af krafti til þess að bæta bæinn okkar. Frjálslyndi og jafnrétti er leiðarstef okkar og með þessi gildi að leiðarljósi viljum við tryggja að Mosfellsbær verði framúrskarandi samfélag þar sem lífsgæði og jöfn tækifæri íbúa eru í fyrirrúmi.
Listinn samanstendur af 11 konum, 10 körlum og 1 kvár. Meðalaldur er 43,9 ár, elsti frambjóðandinn er 69 ára en yngsti 19 ára.


Lovísa Jónsdóttir

Hlökkum til að takast á við mikilvæg verkefni
Lovísa Jónsdóttir, hugverkalögfræðingur og varabæjarfulltrúi er nýr oddviti Viðreisnar en haldin var skoðanakönnun um uppröðun á meðal félagsmanna.
„Það er margt sem þarf að huga að en það er skýr sýn okkar að Mosfellsbær á að vera leiðandi í umhverfismálum og þjónustu við fatlað fólk, börn og eldri borgara þannig að allir fái notið sín í bænum. Skipulagsmál hafa verið og eru stór áskorun í ört vaxandi bæjarfélagi. Við leggjum áherslu á ábyrga fjármálastjórn og uppbyggingu kröftugs atvinnulífs. Eins viljum við einfalda íbúum lífið í bænum með því að bæta stafræna þjónustu bæjarins og tryggja gagnsæja stjórnsýslu. Við hlökkum til að takast á við þessi mikilvægu verkefni og leggja okkar af mörkum til að gera bæinn betri,“ segir Lovísa.


Valdimar Birgisson

Það er kominn tími til breytinga í Mosfellsbæ
Fyrir fjórum árum buðum við í Viðreisn fram í Mosfellsbæ í fyrsta skiptið og náðum því að vera næst stærsta framboðið. Fólki hugnaðist sú framtíðarsýn sem við settum fram um breytt vinnubrögð. Mörg af þeim loforðum sem við settum fram hafa verið framkvæmd og við teljum að við höfum haft áhrif til góðs á sundurlausa bæjarstjórn Mosfellsbæjar. Fyrst og fremst sögðumst við opna stjórnkerfið og auka aðkomu íbúa að ákvörðunum. Það stendur óbreytt komumst við í meirihluta á næsta kjörtímabili munum við efna það loforð. Það er kominn tími til breytinga í Mosfellsbæ og við í Viðreisn erum tilbúin að leiða þær breytingar.


Framboðslisti Viðreisnar

1. Lovísa Jónsdóttir, hugverkalögfræðingur og varabæjarfulltrúi
2. Valdimar Birgisson, auglýsingastjóri og bæjarfulltrúi
3. Elín Anna Gísladóttir, verkfræðingur og varaþingmaður
4. Ölvir Karlsson, lögfræðingur
5. Olga Kristrún Ingólfsdóttir, viðskiptafræðingur og verkefnastjóri
6. Atlas Hendrik Ósk Dagbjarts, framhaldsskólanemi
7. Ágústa Fanney Snorradóttir, framleiðandi og kvikmyndagerðarkona
8. Rúnar Már Jónatansson, rekstrarstjóri
9. Guðrún Þórarinsdóttir, viðurkenndur bókari
10. Þórarinn Helgason, nemi
11. Gréta Jóhanna Ingólfsdóttir, skrifstofufulltrúi
12. Jón Örn Jónsson, verkefnastjóri
13. Emilía Mlynska, mannfræðingur og náms- og starfsráðgjafi
14. Kjartan Jóhannes Hauksson, sölu- og þjónustufulltrúi
15. Hrafnhildur Jónsdóttir, öryrki
16. Reynir Matthíasson, framkvæmdastjóri
17. Ólöf Guðmundsdóttir, kennari
18. Magnús Sverrir Ingibergsson, húsasmíðameistari
19. Ásta Lilja Maack Sigurðardóttir, leiðbeinandi á leikskóla
20. Sigurberg Guðbrandsson, rafvirki
21. Hildur Björg Bæringsdóttir, verkefnastjóri
22. Bolli Valgarðsson, ráðgjafi

Fyrsta áfanga endurgerðar á Hlégarði lokið

Vinna við heildstæða endurgerð fyrstu hæðar Hlégarðs lauk á dögunum og verður húsið opið fyrir bæjarbúa sunnudaginn 10. apríl frá kl. 13 til 16..
Í fyrsta áfanga var fyrsta hæð endurgerð, skipt var um öll gólfefni, lagnir endurnýjaðar, salerni endurnýjuð og hæðin öll innréttuð á ný með ljósri eik til samræmis við upphaflegt útlit hússins.
Hlégarður er teiknaður af Gísla Halldórssyni arkitekt og var þess sérstaklega gætt að halda heildaryfirbragði hússins í samhengi við höfundareinkenni byggingarinnar og sögu þess. Samhliða var það að markmiði að breytingarnar yrðu til þess að auka notagildi hússins.

Nýttu myndir frá fyrr tíð
„Hlégarður er okkur Mosfellingum mjög mikilvægt hús og það hefur verið gaman að fylgjast með þeirri umbreytingu á aðstöðu til viðburðarhalds sem endurgerður Hlégarður felur í sér. Við fórum þá leið að skoða hönnun og sögu hússins, nýttum myndir frá fyrri tíð sem geymdar eru á Héraðsskjalasafninu,“ segir Haraldur Sverrisson bæjarstjóri.
„Þannig verður héðan í frá unnt að halda tvo til þrjá viðburði á sama tíma með bættri lokun milli rýma. Hin hliðin á þeim þætti er síðan að unnt verður að opna betur á milli rýma þegar aðstæður kalla á það.“

Opið hús fyrir bæjarbúa
„Í upphafi stóð til að fara eingöngu í fyrsta áfanga endurgerðar Hlégarðs en ákveðið var að flýta nokkrum verkþáttum sem tengjast öðrum áfanga sem er endurgerð annarrar hæðar og við því komin á rekspöl í öðrum áfanga.
Ég vil nota þetta tækifæri til þess að hvetja íbúa til að mæta í opið hús næsta sunnudag milli kl. 13 og 16,“ segir Haraldur.

Miðflokkurinn setur börn og barnafólk í forgrunn

Lára, Magnús, Helga Diljá, Kristján, Sara, Sveinn Óskar, Linda Björk, Örlygur Þór, Ingrid Lín, Bjarki Þór og Margrét.

Miðflokkurinn býður fram lista fyrir sveitarstjórnarkosningar í vor með yfirskriftinni „Miðflokkurinn – Fyrir lifandi bæ“.
Sveinn Óskar Sigurðsson leiðir listann. Á eftir honum kemur Örlygur Þór Helgason kennari og varabæjarfulltrúi í annað sæti og Sara Hafbergsdóttir rekstrarstjóri situr í því þriðja.
Á síðasta deildarfundi félagsins var kynnt stefna sem byggir á eftirfarandi: (1) Börn og barnafólk í forgrunn. Stórefla á mennta- og íþróttamál í bænum. (2) Fólk í forgang, ekki á biðlista. Unnið verður að raunverulegri farsæld og velferð fyrir öll börn, fatlaða, öryrkja og eldri borgara. (3) Sundabraut í forgang. (4) Skipulagsmál og stjórnsýsla gerð skilvirk. (5) Urðun hætt í Álfsnesi. (6) Fjármál sveitarfélagsins tekin til skoðunar. (7) Þéttingastefnan endurskoðuð. (8) Öryggi bæjarbúa eflt og umhverfið sett í öndvegi.
Flokkurinn náði 9% fylgi í síðustu sveitarstjórnarkosningum og einum manni inn í bæjarstjórn.


Sveinn Óskar Sigurðsson

Kjósendur geta trest Miðflokknum
Sveinn Óskar Sigurðsson framkvæmdastjóri og núverandi bæjarfulltrúi leiðir áfram lista Miðflokksins.
„Ég hef lagt mikla áherslu á að fjármál bæjarins verði endurskoðuð en skuldir bæjarins aukast nú ár frá ári sem hlutfall af tekjum bæjarins. Án hagkvæms rekstrar bæjarins er ekki hægt að koma til móts við bæjarbúa og tryggja betri þjónustu. Ég vil benda á að bæjarbúar hafa horft upp á að viðhaldi skólabygginga hefur verið ábótavant og ábendingar mínar um slíkt komu fram strax í upphafi kjörtímabilsins. Hefði ekki verið ýtt hressilega við meirihlutanum hefði lítið sem ekkert gerst og verkinu er ekki lokið.“
Miðflokkurinn er heilsteyptur flokkur og stendur við gefin fyrirheit. Lista flokksins fyrir næstkomandi sveitastjórnarkosningar skipar vel meinandi og heilsteyptur hópur fólks á öllum aldri. Meðalaldur listans er 53 ár, sá yngsti á listanum og skipar 5. sæti er 19 ára og sá elsti 77 ára. Konur skipa 45% af listanum, karlar 55%.


Helga Diljá Jóhannsdóttir

Vill taka þátt í samfélaginu í Mosfellsbæ
Helga Diljá Jóhannsdóttir, dýralæknir, skipar 4. sæti á lista Miðflokksins í Mosfellsbæ
Með þátttöku minni í framboði Miðflokksins vil ég taka þátt í samfélaginu í Mosfellsbæ, tryggja faglega umræðu og virðingu fyrir bæjarbúum, þörfum þeirra, væntingum og velferð. Ég mun leggja áherslu á að ungt fólk fái notið sín í samfélaginu okkar, að eldra fólki sé tryggð velferð og að skólarnir, bæði leik- og grunnskólar verði enn betri en í dag. Fræðslumál þurfa í meira mæli að snúa um tækifæri ungs fólks og hæfni þeirra til að koma sér fyrir í flóknum heimi. Því verðum við að styrkja skóla og þær stofnanir sem æska landsins byggir velferð sína á.


Listi Miðflokksins í Mosfellsbæ

1. Sveinn Óskar Sigurðsson Framkvæmdastjóri, bæjarfulltrúi
2. Örlygur Þór Helgason Kennari, varabæjarfulltrúi
3. Sara Hafbergsdóttir Rekstrarstjóri
4. Helga Diljá Jóhannsdóttir Dýralæknir
5. Ingrid Lín Chan Óskarsdóttir Menntaskóla- og flugnemi
6. Linda Björk Stefánsdóttir Matráður
7. Lára Þorgeirsdóttir Kennari
8. Þorleifur Andri Harðarson Flotastjóri
9. Jón Pétursson Skipstjóri
10. Kristján Þórarinsson Fv. ráðherrabílstjóri og eftirlaunaþegi
11. Friðbert Bragason Viðskiptafræðingur
12. Þorlákur Ásgeir Pétursson Bóndi
13. Þórunn Magnea Jónsdóttir Viðskiptafræðingur
14. Herdís Kristín Sigurðardóttir Hrossaræktandi
15. Bjarki Þór Þórisson Nemandi
16. Jón Þór Ólafsson Bifreiðastjóri
17. Jón Richard Sigmundsson Verkfræðingur
18. Ólöf Högnadóttir Snyrtifræðingur
19. Margrét Jakobína Ólafsdóttir Félagsliði
20. Hlynur Hilmarsson Bifreiðastjóri
21. Magnús Jósefsson Verktaki
22. Sigurrós Indriðadóttir Bóndi

GDRN gerir styrktarsamning við Aftureldingu

Mynd/RaggiÓla

Mosfellska söngkonan GDRN og meistaraflokkur kvenna í knattspyrnu hafa gert með sér þriggja ára samning. Söngkonan verður styrktaraðili stelpnanna og mun prýða æfingafatnað liðsins.

Sjálf sleit Guðrún Ýr hér barnskónum og lék með yngri flokkum félagsins og sýnir hér í verki hollustu sína við félagið. Hún á nokkra meistaraflokksleiki með Aftureldingu áður en hún lenti í slæmum meiðslum og lagði skóna á hilluna. Þegar einar dyr lokast, opnast aðrar og Guðrún Ýr hefur náð langt í tónlistinni og gefur til baka með þessum tímamóta samningi. Um leið verður Afturelding eitt af fyrstu liðunum á Íslandi til að flagga stórum styrktaraðila á æfingasetti liðsins en það þekkist nánast eingöngu í stórum deildum erlendis.

Hugmyndin að samstarfinu kemur í kjölfar samnings Aftureldingar við hljómsveitina Kaleo. „Við erum óendanlega þakklát okkar frábæra tónlistarfóki sem er tilbúið að vinna með okkur. Við þökkum GDRN kærlega fyrir stuðninginn og hlökkum til samstarfsins,“ segir Sigurbjartur Sigurjónsson formaður meistaraflokksráðs. Afturelding leikur í Bestu deild kvenna í sumar. 

Kynslóðaskipti í forystusveit Vina Mosfellsbæjar

Vinirnir: Kristján Erling, Úlfhildur, Vilhelmína, Sandra, Rakel, Katarzyna, Olga, Óskar, Stefán Ómar, Guðmundur, Dagný, Lárus, Kristín Rós, Michele, Sigurður Eggert, Kristinn Breki.

Vinir Mosfellsbæjar er óháð framboð, skipað íbúum sem vilja bænum sínum allt það besta. Fólkið sem skipar listann kemur úr ýmsum áttum, það er með margvíslega reynslu og menntun.
„Við eigum það sameiginlegt að vilja styrkja samfélagið og innviði stjórnsýslunnar og starfa í þágu bæjarbúa. Leiðarljós okkar eru að handleika mál af heiðarleika, leita þekkingar í allri ákvarðanatöku og ástunda lýðræðislega umræðu og gagnsæi.“
Kynslóðaskipti verða í forrystusveit Vina Mosfellsbæjar þar sem Stefán Ómar Jónsson, oddviti listans síðustu fjögur ár, færir sig lítið eitt aftar á framboðslistanum að eigin ósk. „Reynsla mín í sveitarstjórnarmálum hverfur ekki á braut heldur mun ég veita nýjum frambjóðendum stuðning og tryggja yfirfærslu þekkingar,“ segir Stefán Ómar. „Vinir Mosfellsbæjar ganga til kosninga með sterkan og endurnýjaðan lista. Við munum kappkosta að reka baráttuna nú sem fyrr af heiðarleika þar sem farið verður í boltann en ekki manninn.


Dagný Kristinsdóttir

Tilbúin að leggja mitt af mörkum
Dagný Kristinsdóttir tekur við af Stefáni Ómari í forystu Vina Mosfellsbæjar. Dagný hefur búið í Mosfellsbæ síðan 2004, gift Hauki Erni Harðarsyni og eiga þau þrjú börn.
„Ég er menntaður grunnskólakennari, með meistarapróf í Forystu og stjórnun og viðbótar diplómu í Opinberri stjórnsýslu. Ég hef starfað innan skólakerfisins síðan árið 2007 en í dag starfa ég sem skólastjóri Hvassaleitisskóla í Reykjavík, það er krefjandi en um leið afskaplega skemmtilegt og gefandi starf.“
„Í rúman áratug hef ég haft það að leiðarljósi að stíga út fyrir þægindarammann og segja já við áskorunum. Það hefur leitt mig á nýjar slóðir, eins og þær sem ég feta nú. Góður maður sagði að það væri gott að búa í Kópavogi – en það er líka gott að búa í Mosfellsbæ. Ég er tilbúin að leggja mitt af mörkum til að bæta samfélagið og gera bæinn okkar enn betri til að búa í.“


Guðmundur Hreinsson

Erum við ekki öll vinir Mosfellsbæjar?
Guðmundur Hreinsson skipar annað sæti listans.
„Ég er menntaður byggingafræðingur og húsasmíðameistari ásamt því að vera með kennaramenntun frá HÍ. Ég er giftur Jónu Maríu Kristjónsdóttur og eigum við þrjú börn. Við erum búsett í Mosfellsdal ásamt einu barni okkar en tvö börn okkar eru flutt að heiman og búa í Helgafellshverfi.“
Ég starfa sem kennari við Fjölbrautaskólann í Breiðholti, er stundakennari við Háskólann í Reykjavík auk þess sem ég rek litla byggingafræðiþjónustu.
Mín helstu áherslumál í sveitarstjórnarmálum eru umhverfis- og skipulagsmál ásamt menningarmálum. Ég hef mjög gaman af því að ganga og á fjöll auk þess sem ég sinni tónlistargyðjunni með ýmsum hætti.
Erum við ekki öll Vinir?


Framboðslisti Vina Mosfellsbæjar

1. Dagný Kristinsdóttir
2. Guðmundur Hreinsson
3. Katarzyna Krystyna Krolikowska
4. Michele Rebora
5. Kristín Nanna Vilhelmsdóttir
6. Stefán Ómar Jónsson
7. Kristján Erling Jónsson
8. Ásgerður Inga Stefánsdóttir
9. Óskar Einarsson
10. Rakel Baldursdóttir
11. Kristinn Breki Hauksson
12. Vilhelmína Eva Vilhjálmsdóttir
13. Sigurður Eggert Halldóruson
14. Olga Jóhanna Stefánsdóttir
15. Lárus Arnar Sölvason
16. Jógvan Hansen
17. Sandra Rut Falk
18. Björn Óskar Björgvinsson
19. Andri Gunnarsson
20. Kristín Rós Guðmundsdóttir
21. Þórunn Ísfeld Þorsteinsdóttir
22. Úlfhildur Geirsdóttir

Hlaupagleði

Ég fór út að hlaupa í gær. Er farinn að hafa gaman af því að hlaupa (án bolta), nokkuð sem ég hélt að myndi aldrei gerast. Ég man mjög vel eftir því að hlaupa Stífluhringinn fræga í Árbænum á undirbúningstímabilinu fyrir fótboltann. Það var aldrei gaman. Ég man líka eftir því að hlaupa hálfmaraþon í Reykjavíkurmaraþoninu. Það var hugsanlega eitt það leiðinlegasta sem ég hef nokkurn tíma gert á ævinni. Og ég hef aldrei gert það aftur.

Leiðinlegast fannst mér þegar hópur eldri kvenna (ég var sjálfur um þrítugt) hljóp brosandi og hlæjandi fram úr mér – þær svifu hreinlega yfir malbikinu af hlaupaorku og lífsgleði. Ég hló ekki með þeim, var mjög langt frá því hamrandi grjóthart malbikið á Sæbrautinni með lúnum löppum.

En svo lenti ég í því að melda mig í 21km þrautahlaup sem verður í júní og ákvað að undirbúa mig betur en fyrir hálfmaraþonið forðum. Ég hef verið í hlaupaprógrammi frá Polar sem er sniðið að mér og mínum markmiðum. Það hefur verið hressandi að fara út að hlaupa í vetrartíðinni og enn meira hressandi núna þegar það er að byrja að vora. Ég hljóp fyrst í snjónum – ekki annað í boði – en er núna byrjaður að þræða alla malarstígana okkar hér í nánasta umhverfi Mosfellsbæjar. Það er af mörgu að taka og gaman að prófa nýjar leiðir.

Ígær fór ég til dæmis upp í Skammadal og þræddi hann áður en ég hljóp niður með Varmánni að Álafosskvosinni þar sem ég sneri við. Ég heyrði í fuglunum og ánni, sá rjúpur, lenti í allskonar undirlagsævintýrum á leiðinni – sökk sumstaðar vel yfir ökkla, fann lyktina af vorinu og upplifði mikla ánægju við það að vera hlaupandi úti í ferskri náttúrunni. Gott ef mér varð ekki hugsað til eldri kvennanna sem hlupu brosandi fram úr mér forðum. Áfram veginn!

Heilsumolar Gaua
Mosfellingur 7. apríl 2022

Vatnsleikfimi nýtur sívaxandi vinsælda

Um árabil hefur hópur fólks stundað vatnsleikfimi í Lágafellslaug og nú er ásóknin orðin slík að ákveðið hefur verið að bæta við aukatímum á þriðjudögum og fimmtudögum frá 19-20 bæði kvöldin.
Undanfarin tíu ár hefur Sigrún Másdóttir leitt starfið en hún er menntaður íþróttafræðingur með mastersgráðu í heilsuþjálfun og kennslu frá Háskólanum í Reykjavík. Mosfellingur tók Sigrúnu tali um starfið.
„Ég tók við vatnsleikfimihópnum árið 2012 og þá hafði hópurinn verið starfræktur í nokkur ár. Hópurinn samanstendur af konum á besta aldri sem líður vel í vatni í skemmtilegum félagsskap og stór hluti af hópnum hefur verið frá upphafi. Hópurinn er í Lágafellslaug alla mánudaga og miðvikudaga, eina klst. í senn. Lágafellslaug hentar einstaklega vel fyrir kennsluna þar sem færanlegur botn er til staðar”

Frábær kostur fyrir hjarta- og æðakerfi
Sigrún segir tengslin mikil á milli kvennanna, bæði systur, mágkonur og vinkonur stormi saman í laugina og hópurinn hafa stækkað jafnt og þétt í gegnum árin.
„Námskeiðin hafa verið þéttsetin síðastliðin ár þar sem áherslan er ekki einungis á fjölbreytta og áhrifaríka hreyfingu heldur ekki síður til að upplifa ánægju og gleði í góðum félagsskap.
Þjálfun í vatni er frábær kostur fyrir hjarta- og æðakerfi og blóðþrýstingur rís ekki hátt undir álagi, einnig eru litlar líkur á meiðslum.
Vatnsleikfimi hentar því flestum þar sem auðveldara er að framkvæma æfingar í vatninu en á þurru landi, líkaminn verður léttari og því minna álag á vöðva og liðamót. Fyrir þá sem glíma t.d. við gigt eða stoðkerfisvandamál er vatnsleikfimi kjörin.“

Hver og einn framkvæmir æfingar á sinni eigin getu
Sigrún þjálfaði mest handbolta á árum áður en þegar hún tók að sér hópinn í Lágafellslaug sótti hún sér innblástur og hugmyndir víðsvegar á heilsustofnunum og sundlaugum landsins þar sem vatnsleikfimi er starfrækt.
„Ég held að einhvers konar vatnsleikfimi sé nú í boði í flestum sundlaugum landsins.
Fyrir nokkrum árum kenndi ég eldri borgurum hér í Mosfellsbæ og þekki því nokkuð vel til. Ég reyni að byggja námskeiðin upp á fjölbreyttri þolþjálfun og styrktaræfingum með margs konar hjálpartækjum, þar sem hver og einn framkvæmir æfingarnar á sinni eigin getu og forsendum,“ sagði Sigrún að lokum.

KYNNING

Fjör að Varmá

Fjölskyldutímar Mosfellsbæjar hófu göngu sína haustið 2015 og eru því á sjöunda starfsári. Markmið Mosfellsbæjar með tímunum er að sinna hlutverki sínu sem lýðheilsusamfélag og eru tímarnir frábær viðbót við mörg önnur lýðheilsuverkefni bæjarins.
Hjónin Þorbjörg Sólbjartsdóttir íþróttafræðingur og Árni Freyr Einarsson tóku að sér að sjá um tímana fyrsta starfsárið en þar sem tímarnir nutu mikilla vinsælda strax fyrsta starfsárið var þörf á að bæta við fleiri leiðbeinendum og bættust þá hjónin Íris Dögg og Ólafur Snorri Rafnsson íþróttakennari í hópinn. Mosfellingur tók Ólaf Snorra tali um starfið.
„Markmið tímans er að búa til aðstæður þar sem fjölskyldan, mamma, pabbi, afi, amma, börn og unglingar geta komið saman og leikið sér í íþróttum af öllu tagi, bolta­íþróttum, spaðaíþróttum og fimleikum svo eitthvað sé nefnt.
Fjölskyldurnar eiga dýrmæta og skemmti­lega samverustund saman í íþróttasalnum og allir njóta sín.“

Almenn ánægja og ásókn mikil
„Aðókn í tímann hefur verið vonum framar og eru Mosfellingar greinilega ánægðir með þennan möguleika að koma í íþróttahúsið og eiga þar góðar stundir. Tímarnir hafa vakið athygli út fyrir okkar bæjarmörk og hafa önnur sveitarfélög spurst fyrir um verkefnið, einnig var var fjallað um það í málgagni UMFÍ á dögunum.
Stemningin er alltaf góð í tímunum og mikil gleði allsráðandi. Jólasveinar hafa komið í heimsókn fyrir jólin og í kringum hrekkjavöku hefur verið hrekkjavökuþema og gestir komið í búningum. Þegar við förum í sumarfrí þá höfum við grillað pylsur eftir tímann og einu sinni var hoppukastali í lokatímanum.
Uppbrotsdagar falla í góðan jarðveg hjá gestum fjölskyldutímans. Fyrsta veturinn fengu gestir fjölskyldutímans skíðapassa í Skálafelli einn sunnudag og voru margir sem nýttu sér það og skíðuðu saman.
Eins er frítt í Varmárlaugina eftir tímann og þar eru stundum heitir sunnudagar í lauginni. Þá er hitastig sundlaugarinnar hækkað örlítið og þá gefst gestum sá möguleiki að slaka vel á í lauginni eftir tímann.

Oft fyrsta skref í ástundun á skipulögðu íþróttastarfi
„Við erum virkilega ánægð með þessar viðtökur og það er greinilega grundvöllur fyrir tíma sem þessa. Fleiri heimsóknir í Varmá eru líka góð auglýsing fyrir Aftureldingu þar sem margir sjá auglýsingar hjá deildum Aftureldingar og þar af leiðandi getur þetta verið fyrsta skref í ástundun á skipulögðu íþróttastarfi þegar áhugi vaknar að prófa íþróttir hjá Aftureldingu í framhaldinu.
Meðan ánægjan með fjölskyldutímann meðal bæjarbúa er svona mikil og aðsóknin góð í tímana höldum við ótrauð áfram á þessari braut og höldum áfram að hafa gaman saman á sunnudagsmorgnum að Varmá,“ sagði Ólafur Snorri að lokum.

KYNNING