Frelsið í æsku mótaði mig

Jóhannes Vandill Oddsson átti sér alltaf draum um að verða bóndi en áhugi hans á bústörfum, hestamennsku og fiskeldi kviknaði á æskuárum hans í Mosfellssveitinni. Hann naut þá leiðsagnar reynslumikilla manna og lagði þar með drög að lífsbók sinni enda hafa dýrin aldrei verið langt undan.
Í dag dvelur Jói löngum stundum ásamt fjölskyldu sinni að Grenjum við Langá í Borgarfirði en þar hafa þau gert upp eyðibýli og stunda nú frístundabúskap með hesta og kindur.

Jóhannes Vandill Oddsson er fæddur á Reykjalundi 12. júní 1956. Foreldrar hans eru þau Ragnheiður Jóhannesdóttir hárgreiðslumeistari og Oddur Ólafsson yfirlæknir á Reykjalundi og alþingismaður en þau eru bæði látin.
Jóhannes er yngstur sex systkina, Vífill f. 1937, Ketill f. 1941, Þengill f. 1944, Ólafur Hergill f. 1946 og Guðríður Steinunn f. 1948.

Alinn upp á Reykjalundi
„Ég var alinn upp á Reykjalundi þar sem faðir minn var yfirlæknir. Það var mjög líflegt og skemmtilegt að alast þar upp umkringdur sjúklingum og fjölskyldum starfsmanna. Í þá daga var engin leikskóli heldur léku börn sér saman á svæðinu alla daga.
Jólin á Reykjalundi eru mér eftirminnileg, þá borðuðu allir saman, sjúklingar, starfsmenn og fjölskyldur, svo var sungið, spilað og dansað í kringum jólatréð.
Tengslin og samskiptin við sjúklinga á Reykjalundi voru mikil og lærdómsrík.“

Alltaf nóg að gera í bústörfunum
„Ég var mjög fjörugur sem barn og unglingur og var oft óþolinmóður, átti það til að taka sprettinn heim úr skólanum í stað þess að bíða eftir skólabílnum.
Ég hafði snemma áhuga á dýrum og sótti mikið á Reyki til Jóns bónda. Það var alltaf gaman að koma þangað og nóg að gera í bústörfunum. Ég tók ungur þátt í að slátra ásamt Binna vinnumanni, sjálfur hafði ég ekki áhuga á slátruninni, vildi heldur flýta fyrir þannig að við kæmumst í hesthúsið og í útreiðartúr,“ segir Jói og brosir. „Þarna kviknaði áhuginn minn á bústörfum og hestamennsku.“

Hef alltaf verið framkvæmdaglaður
„Við félagarnir fórum oft hjólandi upp að Hafravatni og veiddum þar í vatninu. Eitt sinn veiddum við bleikjur og bárum í fötu yfir í Skammadal ofan Reykjalundar og slepptum þeim þar í litla á. Þarna kviknaði áhugi minn á ræktun á fiski.
Það má segja að uppvöxturinn og frelsið í barnæsku hafi mótað mig talsvert, ég hef alltaf verið framkvæmdaglaður og verið óhræddur við að fara mínar eigin leiðir í lífinu.
Foreldrar mínir ferðuðust mikið og á meðan bjó Eva föðursystir mín á heimili okkar og hugsaði afar vel um mig alla barnæskuna. Hún las mikið fyrir mig og sérstaklega er mér minnisstæð bókin um Óla Alexander.“

Hafði taugar til Hafna
„Sumrin á Vopnafirði voru líka skemmtileg en þar dvaldi ég með fjölskyldunni meðal annars þegar sprengt var fyrir laxastiga í Selá og seiði flutt milli landshluta á vörubíl. Þar með var lagður grunnur að einni bestu og fallegustu laxveiðiá landsins en á framkvæmdatímanum bjuggum við m.a. í sundlauginni í Selárdal.
Faðir minn hafði miklar taugar til Hafna þar sem hann var fæddur og uppalinn. Það voru ófáar ferðirnar sem við fórum þangað til að heimsækja fólk, taka á móti bátum á leið í land og njóta náttúrunnar.“

Stofnaði eigið fyrirtæki
Jóhannes gekk í Varmárskóla og Brúarlandsskóla sem barn og síðar í Lindargötuskóla og lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum við Hamrahlíð.
„Mér líkaði almennt vel á skólagöngu minni og eignaðist marga góða vini og félaga. Stundaði íþróttir af kappi, m.a. knattspyrnu, fimleika og hóf síðar hestamennsku.
Ég stofnaði snemma mitt eigið fyrirtæki, Hafnarsand s.f. sem ég hef starfrækt í áratugi. Sinnti þar verkefnum í sandsölu, vegagerð og við nýbyggingar. Ég sérhæfði mig í gerð keppnisvalla og vann við lagningu yfirborðsefnis í reiðhallir. Ég hef sinnt verkefnum um allt land en þó mestmegnis á höfuðborgarsvæðinu.“

Fluttu í Hamraborgina
Eiginkona Jóhannesar er Þóra Arnheiður Sigmundsdóttir fyrrv. bankastarfsmaður. Þau eiga tvær dætur, Ragnheiði f. 1975, maki hennar er Sigurjón Gunnlaugsson, þau eiga tvö börn, Þóru Maríu og Sindra. Hrafnhildur f. 1982, maki hennar er Jógvan Hansen, þau eiga tvö börn, Jóhannes Ara og Ásu Maríu.
„Við Þóra byggðum okkar fyrsta húsnæði í smáíbúðahverfinu í Reykjavík og svo hesthús í Mosfellssveit en byggðum síðan á kunnuglegum slóðum í Grenibyggð, nálægt Reykjalundi. Árið 1996 fluttum við svo í Hamraborgina, hús foreldra minna sem þau byggðu á sínum tíma og þar búum við enn. Í kringum Hamraborgina gróðursettum við pabbi fjölda trjáa sem standa enn í dag. Hér er alveg dásamlegt að vera,“ segir Jói um leið og hann sýnir mér allan gróðurinn í kringum húsið.

Farið víða á hestbaki
„Við fjölskyldan höfum verið dugleg að ferðast saman bæði hérlendis og erlendis, fara í hestaferðir og stunda laxveiðar. Við höfum ferðast mikið á hestbaki með góðu fólki vítt og breitt um Ísland ásamt því að fara í hestaferð á Ítalíu.
Ógleymanlegar eru trússferðir án vélknúinna ökutækja á hálendi Íslands, í kringum jökla og óbyggðir á Vestfjörðum. Á sumrin stundum við laxveiðar við Langá og Selá, þar sem fjölskyldan á íverustaði. Í gegnum tíðina hef ég haft áhuga á og prófað ýmis konar ræktun m.a. kálfa-, anda-, fjár- og hrossaræktun.“

Bústörfin veita mér ómælda gleði
„Í 20 ár hef ég starfað við veiðivörslu við Langá í Borgarfirði á sumrin en það hentaði vel með vinnu, frístundabúskap, hrossaræktun og áhugamálum okkar.
Okkar annað heimili er Grenjar við Langá í Borgarfirði, í dag er ég frístundabóndi með 20 hesta og um 100 kindur og líkar það vel, við dveljum þarna löngum stundum. Við gerðum upp gamlan bæ sem var kominn í eyði og höfum nýlega lokið við að byggja skemmu. Bústörfin taka mikinn tíma en þau veita mér ómælda gleði ásamt samveru með fjölskyldu og vinum.
Ég horfi bjartsýnn og jákvæður til ársins 2022, þrátt fyrir Covid-ástandið. Næg eru verkefnin í sveitinni og við Hamraborgina en mitt stærsta verkefni akkúrat núna er að ná betri heilsu en ég hef barist við krabbamein síðastliðin 5 ár með hléum. Við skulum vona að þetta sé allt á uppleið, við krossum fingur alla vega,“ segir Jói og brosir er við kveðjumst.

Þorrablótsnefndin með plan A, B, C og D

Ásgeir og Rúnar Bragi fara fyrir þorrablótsnefd Aftureldingar líkt og síðastliðin 13 ár.

Þorrablót Aftureldingar hefur verið stærsti viðburður í skemmtana- og menningarlífi Mosfellinga mörg undanfarin ár. Mikil stemming hefur skapast fyrir blótinu og fólk skemmt sér konunglega og ávallt mikil eftirvænting í loftinu þegar þorrinn nálgast.
Á síðasta ári féll þorrablótið niður og nú er spurning hver staðan er. Rúnar Bragi Guðlaugsson og Ásgeir Sveinsson hafa verið forseti og varaforseti þorrablótsnefndar Aftureldingar undanfarin 13 ár, og hafa þeir ásamt hópi af öflugu fólki í þorrablótsnefnd skipulagt þennan vinsæla viðburð allan þann tíma.

Fleiri plön á teikniborðinu
„Það var mjög leiðinlegt að þurfa að sleppa blótinu í fyrra og því miður eru blikur á lofti aftur í ár með þorrablótið,“ segja þeir félagar. „Upphaflegt plan var að halda þorrablót 22. janúar en nú er útséð með að það gangi vegna sóttvarnartakmarkana.
Við í nefndinni viljum samt gera allt til þess að þorrablót verði haldið með einhverju sniði og við erum með plan B, C og D tilbúið eftir því hvernig staðan í faraldrinum þróast.
Plan B er að halda þorrablótið laugardaginn 19. febrúar sem er síðasti laugardagur í þorra og yrði það þá með hefðbundu sniði.
Plan C er að halda viðburð 26. mars sem yrði með sams konar sniði og þorrablót, en öðruvísi mat og þema.
Plan D er að halda viðburð 30. apríl með sama sniði og hefði verið haldið 26. mars.

Ein stærsta fjáröflun Aftureldingar
„Við finnum fyrir mkilli stemningu fyrir því að halda lífi í þessum viðburði þó svo að það þurfi að fresta honum eitthvað fram á vor og með þessu plani er nefndin að hugsa í lausnum og koma til móts við þær fjölmörgu óskir um að halda stóran styrktarviðburð fyrir Aftureldingu um leið og færi gefst.
Mosfellingar eru orðnir spenntir fyrir því að komast á stórt og skemmtilegt djamm, og svo má ekki gleyma því að þetta er ein stærsta fjáröflun Aftureldingar á hverju ári og því mjög slæmt ef þetta fellur niður annað árið í röð.
Við verðum bara að vona það besta og við sjálfboðaliðarnir í nefndinni og þeir fjölmörgu aðrir velunnarar Aftureldingar sem koma að þessu á hverju ári verðum tilbúin að setja þetta í gang þegar og ef aðstæður leyfa.“

Fyrsti Mosfellingur ársins

Fyrsti Mosfellingur ársins 2022 er drengur sem fæddist í Björkinni þann 6. janúar kl. 00:33, fimm dögum fyrir settan dag. Hann var 14 merkur og 51 cm og foreldrar hans eru Hrafnhildur Eva Guðmundsdóttir og Hjalti Andrés Sigurbjörnsson.
„Fæðingin gekk eins og í sögu og allt ferlið tók tæpar 6 klukkustundir. Hann fæddist í vatni og synti beint í fangið á pabba sínum sem sat við laugina að styðja mömmuna,“ segja foreldrarnir.
Drengurinn er annað barn foreldranna en fyrir eiga þau dótturina Heiðu Margréti Hjaltadóttur sem verður fjögurra ára þann 15. febrúar 2022.

Í fjölskylduvænu umhverfi í nálægð við náttúruna
„Við hlökkum til að ala hann ásamt systur hans upp í Mosfellsbæ. Við fluttum í Tröllateig fyrir rúmu ári því okkur langaði til þess að búa í fjölskylduvænu samfélagi í nágrenni við náttúruna og fjöllin en ég, Hjalti Andrés, er frá Kiðafelli í Kjós og Hrafnhildur Eva ólst upp í Grafarvogi.
Hér er notalegt að búa, við höfum gott útsýni yfir Esjuna og mikið af gönguleiðum þar sem við erum líka með íslenska fjárhundinn hana Heklu og göngum mikið,“ segir Hjalti Andrés.

Elva Björg Mosfellingur ársins 2021

Mosfellingur ársins 2021 er Elva Björg Pálsdóttir forstöðumaður félagsstarfs eldri borgara í Mosfellsbæ. Elva Björg er tómstunda- og félagsmálafræðingur og hóf störf sem leiðbeinandi í handavinnu árið 2010 og tók svo við starfi forstöðumanns 2013 hjá Mosfellsbæ.
„Ég er bara mjög snortin, ég átti alls ekki von á þessu,“ segir Elva Björg þegar við tilkynnum henni um nafnbótina.
„Ég er fyrst og fremst þakklát og þið eruð að koma mér rosalega á óvart. Þetta er mjög skemmtileg byrjun á árinu og gaman að fá klapp á bakið. Ég vil auðvitað tileinka öllum eldri borgurum í Mosfellsbæ þessa viðurkenningu,“ bætir hún við þegar hún fréttir að undirskriftalistar hafi gengið manna á milli með áskorun um að velja hana Mosfelling ársins. Eldri borgarar eru greinilega mjög ánægðir með hennar störf.

Mikilvægt að halda úti starfseminni
„Ég finn fyrir þakklæti í mínu starfi á hverjum degi og það eru sannkölluð forréttindi að vinna með eldri borgurum. Hjá okkur er gleði alla daga og á bakvið hvert andlit býr svo mikil saga sem gaman að er að fræðast um. Það er ekki sjálfgefið að vinna við það sem gefur manni svona mikið í lífinu.
Mitt starf er fólgið í því að vera eldra fólkinu innan handar enda er ég fyrst og fremst að vinna fyrir þau. Þau eiga jafnan frumkvæðið að því sem þau vilja gera og í sameiningu setjum við upp skemmtilega dagskrá.
Það er auðvitað krefjandi á tímum Covid að halda starfseminni gangandi en við höfum náð að halda okkar striki ótrúlega vel í gegnum þetta allt saman. Stjórnvöld eru líka búin að greina það að mikilvægara sé að halda úti starfsemi þessa aldurshóps en að setja á frost.
Tómstundir eru ekki bara fyrir fólk sem vill sitja og prjóna. Það er svo margt hægt að gera og öll viljum við verða gömul og búa okkur vel í haginn.“

Mest stækkandi hópur í heiminum
„Við erum með góða aðstöðu hér á Eirhömrum og hefur sveitarfélagið verið okkur hliðhollt. Öryggisíbúðirnar hér eru vinsælar og fólk flyst hingað til að minnka við sig. Gjarnan flyst hingað líka fólk utan af landi.
Eldri borgurum fer alltaf fjölgandi og er mest stækkandi hópur í heiminum. Það er og verður því áskorun að láta þjónustuna fylgja með.
Starfsemi okkar nær líka langt út fyrir okkar húsakynni því um alla sveit er eldra fólk að hreyfa sig eða stunda einhverja afþreyingu á vegum félagsstarfsins og félags eldri borgara í Mosfellsbæ og nágrenni.
Það eru t.d. hópar í World Class í Lágafellslaug, að Varmá, Karlar í skúrum og útifjör víðsvegar svo eitthvað sé nefnt.
Hreyfing er það langvinsælasta hjá eldra fólkinu í dag enda kynslóðirnar að breytast, fjölbreytnin að aukast og kröfurnar í takt við tímann.“

Skemmtilegt að tilheyra hópi
Elva segir mjög mikilvægt að taka vel á móti nýju fólki. „Ég held að það séu 90% líkur á að fólk komi aftur eftir að það kemur til okkar í fyrsta skipti. Ég geri engan mannamun og ég trúi því að það sé ágætis kostur sem hjálpi mér í starfi.
Samkvæmt skilgreiningunni er félagsstarfið miðað við 67 ára og eldri en öllum er tekið fagnandi og Mosfellingar hafa alltaf forgang.
Fókinu finnst skemmtilegt að tilheyra einhverjum hópi í staðinn fyrir að gera ekki neitt. Starfið hérna er mjög vel sótt og sýnilegt öllum sem vilja vera með. Það er auðvitað leiðinlegt að þurfa banna hitt og þetta vegna samkomutakmarkana en það birtir til um síðir.
Þegar ástandið í þjóðfélaginu var hvað verst hringdum við í alla til að taka stöðuna. Mér finnst þau ekkert hafa stórkostlegar áhyggjur enda öll bólusett og flott.
Eldri borgarar í Mosfellsbæ eru bara algjörir snillingar,“ segir Elva Björg að lokum.
Mosfellingar geta greinilega hlakkað til að eldast og taka þátt í fjölbreyttu starfi eldri borgara í Mosfellsbæ.

Gunnar Pétur býður sig fram í 5. sæti

Gunnar Pétur Haraldsson býður sig fram í 5. sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Mosfellsbæ sem fram fer 5. febrúar.

„Mosfellsbær er í mikilli uppbyggingu, og því fylgja mörg mismunandi verkefni og áskoranir og langar mig að leggja mitt af mörkum til þess að leysa þau verkefni sem fram undan eru. Ég hef gríðarlega mikinn metnað og áhuga á félags- og tómstundamálum en ég vil t.d. sjá Mosfellsbæ vera með eina bestu íþróttaaðstöðu landsins. Ég tel mjög mikilvægt að unga fólkið í bænum hafi skoðun og rödd þeirra heyrist en einnig þarf að passa upp á það að í Mosó verði áfram best að búa!“

Takk og 20 mínútur

Það er margt í kollinum núna. Þakklæti til dæmis. Hitti góðan mann í síðustu viku sem vann fyrir íþróttafélag í fimm ár, en er nú kominn í nýtt starf. Hann sagðist hafa saknað þess að hafa ekki heyrt oftar frá fólki á jákvæðum nótum, fólk var duglegt að hringja þegar eitthvað var að, en nánast aldrei til að hrósa. Þetta er jákvæður og hress náungi og þetta er hárrétt hjá honum, það verður að muna að hrósa og sýna þakklæti fyrir það sem vel er gert. Ég gríp boltann og segi stórt takk til allra ykkar starfsmanna og sjálfboðaliða hjá íþróttafélögum Mosfellsbæjar. Ég veit að það er margt á ykkar könnu og að þið gerið ykkar besta.

Ég er líka að velta fyrir mér áherslum frambjóðenda og flokka, sérstaklega á sviði íþrótta og heilsueflingar. Það eru margir góðir í framboði og ég er bjartsýnn á framtíð Mosfellsbæjar. Ég er óflokksbundinn og verð það áfram, en ég lofa hér með atkvæði á þá sem vilja og ætla hugsa stórt og byggja Íþróttaþorp á Varmársvæðinu. Íþróttaþorp með aðstöðu fyrir íþróttamenn og almenning til að æfa, borða, setjast niður og ræða málin, horfa á beinar útsendingar, fara í nudd, fá sjúkraþjálfun, og svo framvegis. Allt á einum stað. Íþróttahjarta Mosfellsbæjar. Hugsanlega þarf að fórna einhverju svo þetta geti orðið og endurmeta þörf og áhuga íbúa á aðstöðu og íþróttagreinum, núna og til framtíðar. Ekki festast í halda í aðstöðu og byggingar bara af því að þær stóðu einu sinni fyrir sínu og voru vel nýttar. Hvað er til dæmis oft (full)setið í stúkunni við aðalvöllinn okkar?

Svo er hér æfingaáskorun fyrir þá sem eru að byggja sig upp fyrir fella- og fjallgöngur í sumar. 20 mínútur, framstigsganga og jafnfætis stökk til skiptist. Utanvegar, helst eitthvað upp í móti. Njótið!

Heilsumolar Gaua
Mosfellingur 13. janúar 2022

Loftgæðamælingar hefjast hjá Mosfellsbæ

Á fundi umhverfisnefndar Mosfellsbæjar hinn 24. júní 2021 var lögð fram tillaga um uppsetningu loftgæðamælanets í Mosfellsbæ sem yrði hluti heildarnets sem til stendur að koma upp á öllu höfuðborgarsvæðinu. Umhverfisnefndin sammæltist um að koma uppsetningu loftgæðamælanets í framkvæmd enda samræmdist það vel megináherslum í umhverfisstefnu Mosfellsbæjar.
Í kjölfarið heimilaði bæjarráð gerð samnings við Resource International um uppsetningu loftgæðamælakerfis í Mosfellsbæ.
Fyrirtækið mun halda utan um loftgæðamælingar í Mosfellsbæ og víðar á höfuðborgarsvæðinu. Verkefnið er unnið í samvinnu við Heilbrigðiseftirlit Kjósarsvæðis þar sem eftirlit með loftgæðum er á þeirra verksviði. Gert er ráð fyrir að í Mosfellsbæ verði að minnsta kosti þrír mælar á mismunandi stöðum innan bæjarins með sérstaka áherslu á að mæla loftgæði við útisvæði skóla.

Viljum búa yfir bestu upplýsingum á hverjum tíma
„Við Mosfellingar erum stolt af okkar fallega og góða umhverfi og viljum búa yfir bestu upplýsingum á hverjum tíma til að vernda loftgæði og þar með lífsgæði íbúa. Reglubundnar loftgæðamælingar eru ein af þeim aðgerðum sem lagðar voru til í málefnasamningi V- og D-lista í bæjarstjórn Mosfellsbæjar og kemst nú til framkvæmdar með þessum farsæla og hagkvæma hætti,“ segir Haraldur Sverrisson, bæjarstjóri.

Útilistaverk reist á Kjarnatorgi

Tölvugerð mynd af nýju listaverki.

Menningar- og nýsköpunarnefnd hefur samþykkt að útilistaverk Elísabetar Hugrúnar Georgsdóttur arkitekts verði reist á Kjarnatorgi.
Tillaga hennar hlaut viðurkenningu dómnefndar í hugmyndasamkeppni um aðkomutákn sem Mosfellsbær efndi til árið 2018. Verkið er nú í hönnun og markmiðið er að reisa verkið í mars á næsta ári.
Meginmarkmið menningarstefnu Mosfellsbæjar eru að móta áherslur í menningarmálum, efla og styðja við fjölbreytta menningu í bænum, auka aðgengi íbúa að menningu og stuðla að virkri þátttöku þeirra. Ein af þeim aðgerðum sem leiða af stefnunni er að auka vægi listar í opinberu rými með því að fjölga umhverfislistaverkum á lykilsvæðum í bænum. Með framkvæmd þessa verkefnis menningar- og nýsköpunarnefndar fjölgar umhverfislistaverkum í bænum um eitt.
Meðfylgjandi er tölvugerð mynd sem sýnir afstöðu verksins í nýja miðbænum.

Synir mínir björguðu lífi mínu

Guðrún Jónsdóttir sérfræðingur í heimilislækningum fékk heilablóðfall árið 2017 á heimili sínu í Svíþjóð

Líf Guðrúnar Jónsdóttur breyttist á örskotsstundu árið 2017 er hún fékk heilablóðfall á heimili sínu í Skåne í Svíþjóð. Hún var meðvitundarlaus í þrjár vikur, dvaldi á spítala í nokkra mánuði og glímir í dag við alvarlega fylgikvilla áfallsins eins og málstol og heilaþreytu.
Í einlægu viðtali við Ruth Örnólfsdóttur­ ræðir Guðrún um æskuárin, dvölina í Svíþjóð og hvernig fjölskyldan hefur tekist á við þessar breyttu og erfiðu aðstæður eftir að hún veiktist.

Guðrún eða Rúna eins og hún er ávallt kölluð fæddist í Reykjavík 19. mars 1978. Foreldrar hennar eru þau Steinunn Skúladóttir og Jón Gunnar Kristinsson starfsmaður Norðuráls á Grundartanga.
Guðrún er elst fjögurra systkina, Kristinn Svanur er fæddur 1979, Kolbrún Ósk er fædd 1981 og Þórey 1983.

Amma bjó í næsta húsi
„Ég ólst upp í Laugarneshverfinu og það var gott að alast þar upp. Ég á góðar minningar úr Laugarnesskóla og á yndislegar æskuvinkonur. Það voru ákveðin forréttindi að amma mín heitin, Þórey, átti heima við hliðina á okkur og heimili hennar var okkar annað heimili.
Við krakkarnir í hverfinu vorum heimaln­ingar í Laugardalslaug, fórum stundum þrisvar sinnum á dag, skruppum bara rétt heim til að borða,“ segir Rúna og brosir.

Fór sem skiptinemi til Bandaríkjanna
„Fjölskyldan flutti í Mosfellssveit árið 1991, að yfirgefa Reykjavík og flytja í sveit var smá sjokk en ég áttaði mig fljótlega á því að hérna vildi ég búa.
Ég fór í Gaggó Mos og svo í Menntaskólann í Reykjavík. Að loknu fyrsta ári fór ég sem skiptinemi til Bandaríkjanna en hélt svo náminu áfram þegar ég kom heim og útskrifaðist 1999.
Með skólagöngunni starfaði ég á hinum ýmsu stöðum, vann út á Granda, í Nóatúni og svo kenndi ég spinning í World Class. Af og til vann ég líka í Dónald, sjoppu foreldra minna og eitt sumar vann ég á hóteli í Noregi.“

Gengur vikulega á Esjuna
Rúna hitti eiginmann sinn, Gunnar Davíð Gunnarsson Logistics Director hjá Controlant, á Sálarballi í Ingólfskaffi á gamlárskvöld 1997. Hún segir það hafa verið ást við fyrstu sýn en þau hafa verið saman síðan. Þau giftu sig í Laugarneskirkju 2007. Þau eiga þrjú börn, Steinunni Erlu f. 2006, Gunnar Darra f. 2009 og Guðmund Nóa f. 2011, sem öll eru í Lágafellsskóla.
„Áhugamál okkar fjölskyldunnar er einhvers konar útivist og hreyfing og einnig garðrækt. Við förum oft saman í fjallgöngur og svo skreppum við hjónin reglulega í göngutúra á kvöldin. Ég fer svo í ræktina í World Class og á hverjum sunnudagsmorgni fer ég og geng á Esjuna mína,“ segir Rúna og brosir.

Ákveðin í að verða læknir
Rúna var ung að árum þegar hún tók þá ákvörðum að verða læknir. Hún var alltaf forvitin um sjúkdóma og um líkamann að utan sem innan. Rúna er líka mikil félagsvera og elskar fjölbreytt og náin samskipti við fólk. Henni gekk alltaf vel í skóla svo það voru engir þröskuldar þar.
„Haustið 1999 elti ég æskudrauminn og hóf nám í læknisfræði og mér gekk vel í náminu. Á þriðja árinu fór ég í skiptinám til Danmerkur sem var mjög góð reynsla fyrir mig.
Ég átti góð ár í Háskóla Íslands og fékk lækningaleyfi árið 2007.“

Eftir hálft maraþon í Gautaborg 2015.

Fluttu til Svíþjóðar
Rúna ákvað að fara í sérnám í heimilis­lækningum, kláraði tvö ár hér heima en ákvað að taka seinni árin í Svíþjóð. Fjölskyldan flutti því búferlum árið 2012. Rúna útskrifaðist sem sérfræðingur árið 2014.
„Við bjuggum úti í átta ár, nánar tiltekið í Åhus á Skåne sem er tíu þúsund manna strandbær. Upphaflega stóð nú ekki til að vera svona lengi en við ílengdumst því þarna var gott að vera. Svíarnir eru samt töluvert ólíkir okkur, þeir ræða málin alltaf í þaula á meðan við Íslendingar erum minna fyrir málalengingar en meira fyrir að klára málin, það er heilmikill munur á þessu,“ segir Rúna og hlær.

Strákarnir mínir björguðu mér
Árið 2017 fékk Rúna alvarlega heilablæðingu sem umturnaði lífi hennar og hennar nánustu en áfallið varð heima hjá henni í Svíþjóð í lok vinnudags.
„Ég fann fyrir höfuðverk og sagði við strákana mína sem þá voru 6 og 8 ára að ég ætlaði að leggja mig. Það leið ekki langur tími þar til þeir komu inn í svefnherbergi og vildu fá leyfi til að horfa á sjónvarpið en þeir náðu ekki sambandi við mig. Bræðurnir sóttu aðstoð til nágranna okkar sem var góðvinur okkar og læknir, þeir hreinlega björguðu mömmu sinni. Ég var svo lánsöm að sjúkrabíllinn kom fljótt á svæðið og ég var flutt fyrst til Kristianstad en síðan áfram til Lundar.“

Höfuðkúpan var sett í djúpfrystingu
„Ég var meðvitundarlaus í þrjár vikur og lá á spítala í nokkra mánuði. Ég fór í óteljandi aðgerðir, röntgen og fékk marga lyfjakokteila. Fyrsta aðgerðin fólst í að þræða æðarnar frá nára upp í heila til að komast að æðagúlpinum sem hafði sprungið og valdið blæðingu.
Þræðingin tókst en næstu daga var ég í lífshættu vegna mikils þrýstings. Þess vegna var stór hluti af vinstri helmingi höfuðkúpunnar tekinn af í annarri aðgerð í Lundi. Höfuðkúpan var sett í djúpfrystingu og í staðinn notaði ég hjálm til að hlífa heilanum. Það var erfitt að sofa með hann en það gekk. Eftir 5 mánuði var beininu loksins komið fyrir á sinn stað aftur. Ég var með lömun í hægri hlið líkamans um tíma og þurfti að notast við hjólastól í tvo mánuði.
Mitt í öllum þessum látum fékk eiginmaður minn alvarlega botnlangabólgu og var sendur í bráðaaðgerð á sjúkrahúsið í Kristianstad. Það má sannarlega segja að einhver hafi viljað láta reyna á stoðir fjölskyldunnar en við getum þakkað fyrir að sú aðgerð gekk vel.“

Fékk alvarlegt málstol
„Við eigum ótrúlega mikið af góðum ættingjum og vinum sem studdu við okkur í þessu ferli, eitthvað sem við verðum ævinlega þakklát fyrir. Foreldrar mínir og tengdaforeldrar hjálpuðu okkur mjög mikið.
Ég fékk alvarlegt málstol í kjölfar heilablæðingarinnar. Flestum þykir sjálfsagt að geta talað og tjáð sig og flestir hafa þörf fyrir samskipti við aðra. Fólk með málstol þarf að glíma við erfiðleika í tjáningu, skrift og lestri á hverjum degi en þetta hefur samt ekki áhrif á greind eða persónuleika fólks. Margir einangrast, forðast fólk og eru með kvíða og þunglyndi, þeir finna fyrir skömm og eiga erfitt með að tala í margmenni. Ég tengi við margt af þessu.“

Ég var reið út í kerfið
„Þegar læknirinn breytist í sjúkling þá þarf hann oft að taka á honum stóra sínum. Ég var skelfilegur sjúklingur, ég reif slönguna úr hálsinum nokkrum sinnum, reyndi að strjúka í hjólastól og var bara brjáluð í skapinu. Mínir nánustu ættingjar fengu alveg að finna fyrir því að ég var ekki sátt við málin.
Ég var reið út í spítalann, út í kerfið og aðgerðaleysið en það var enginn sem skildi mig. Það að hafa málstol var eitt og sér nógu erfitt en að vera með málstol án tungumáls var hræðilegt. Sem læknir þá réð ég öllu og skipaði öllum fyrir með sjálfstraustið í botni, sem sjúklingur var ég ósjálfbjarga, í raun einskis verð og með lélegt sjálfstraust.
Það var erfitt að sætta sig við orðinn hlut, það tók mig langan tíma en þegar ég var búin að sætta mig við örlögin þá varð ég betri sjúklingur, fór að treysta öðrum og þiggja aðstoð.“

Ég fékk aldrei séns í Svíþjóð
„Bráðaþjónustan í Lundi var rosalega góð, þar er mesta læknaþekking sem til er í heiminum. Þar starfar ung íslensk kona sem heilataugaskurðlæknir og það var hún sem skar mig upp.
Það sama er ekki hægt að segja um þjónustuna í endurhæfingunni í Skåne því hún var afar takmörkuð. Ég hitti t.d ekki talmeinafræðing fyrr en eftir þrjá mánuði og var útskrifuð of snemma úr sjúkraþjálfun, þeim þótti bara nóg að ég gæti gengið.
Sjúkratryggingakerfið samþykkti ekki að ég ætti rétt á að fá ákafa talþjálfun á móðurmáli mínu. Hreint út sagt má segja að ég hafi lent í ákveðnum fordómum hjá Tryggingastofnun í Svíþjóð þrátt fyrir að vera sænskur ríkisborgari. Ég fékk ekki að fara í ökupróf og þurfti að koma til Íslands á Grensásdeild til þess að fá það í gegn.
Ég fékk aldrei séns í Svíþjóð hvað endurhæfingu varðar og mér leið eins og ég væri í fangelsi.“

Skilningur og skipulag á öðru stigi
„Við fluttum til Íslands 2019 og ég var rosalega þakklát fyrir að vera komin heim. Viðmótið sem ég fékk á Tröppu, Grensás og Reykjalundi var frábært, skilningur og skipulag á allt öðru stigi en ég hafði áður kynnst. Ég var 10 vikur í talþjálfun á Grensás og eitt ár í endurhæfingu á Reykjalundi. Ég er endalaust þakklát fyrir það góða starfsfólk sem þar starfar.“

Heilinn getur aðlagast
Flestir einstaklingar með heilaskaða eru með heilaþreytu sem er ósýnileg fötlun, hún er alvarlegur fylgikvilli eftir áföll. Mjög skert lífsgæði í einkalífi sem og í starfi.
Fólk þreytist óeðlilega hratt, stundum af litlu tilefni og það á erfitt með að vera í hávaða, mikilli birtu og að viðhalda athygli og einbeitingu. Heilaþreytan er breytileg og er oft betri að morgni en verri þegar líða tekur á daginn.
„Heilaþreytan pirrar mig mjög mikið, ég þarf að hvíla mig tvisvar til þrisvar á dag, mikilvægt er að ofreyna sig ekki og finna jafnvægi milli virkni og hvíldar,“ segir Rúna alvarleg á svip. „Ég hélt að heilinn hjá fullorðnum væri fullmótaður og að ekki væri til meðferð við skemmdu svæði í heila en í dag veit ég betur. Heilinn getur aðlagast því hann finnur leið fram hjá færnisskerðingu sinni. Því miður er ekki til nein töfralausn en með réttri og ákafri þjálfun verða framfarir.
Þegar ég var í læknanámi þá áttaði ég mig strax á hvað lífið er oft ósanngjarnt. Mér er oft hugsað til sjúklinganna minna hvernig þeir tóku á hlutunum með æðruleysi og jákvæðu hugarfari, oft á tíðum við ómögulegar aðstæður. Þetta hjálpar mér í dag því ég á enn langt í land.“

Hann talaði fyrir mig í tvö ár
„Krakkarnir okkar eru búnir að vera rosalega duglegir í veikindunum, við vorum með gott net ættingja og vina sem hélt þétt utan um þau á erfiðustu stundunum. Það besta var að láta þau halda áfram að fara í skólann, sinna tómstundum og hitta vini sína.
Yngri strákurinn fékk áfallastreituröskun því hann kom ásamt bróður sínum að mér meðvitundarlausri. Hann vaknaði oft með martraðir, fékk ofsakvíða þegar hann sá sjúkrabíl og var alltaf að leita að mér og spyrja hvort allt væri ekki örugglega í lagi. Það gekk betur með þann eldri, því þeir eru svo ólíkir.
Ást og umhyggja, gott spjall, samvera og mikið knús bjargaði krökkunum. Þetta var líka mikið áfall fyrir Gunna minn, hann hefur staðið sig eins og hetja, hann er kletturinn minn. Hann talaði fyrir mig í tvö ár í Svíþjóð því sænskan mín var horfin.
Stærsta verkefnið okkar er að rækta fjölskylduna og mæta áskorunum í lífinu eins og þær bera að, við ætlum að takast á við þetta saman.“

Ég er mjög sátt í dag
Ég spyr Rúnu hvernig hún horfi til framtíðar? „Líf mitt tók stóra U-beygju og kastaði mér í djúpu laugina, ég hef náð að komast upp á yfirborðið á ný með hjálp margra, einnig með hreyfingu, hollu mataræði og góðum svefni. Nú er bara að synda í átt að bakkanum, gefast aldrei upp og vera með í lífinu, láta engan segja sér annað.
Ég er mjög sátt í dag og afar þakklát fyrir að hafa getað byrjað að vinna aftur sem læknir, fyrir mér er það mesti sigurinn. Mér líður hreinlega eins og ég hafi klifið Mount Everest í hjólastjól, slík hefur brekkan verið. Ég byrjaði mjög rólega en hef smátt og smátt aukið við mig eins og orkan leyfir og það hefur gengið vel.
Það eru forréttindi að starfa með góðu starfsfólki á Heilsugæslunni í Árbæ, ég hlakka alltaf til að komast í vinnuna,“ segir Rúna og brosir er við kveðjumst.

Hver er Mosfellingur ársins 2021?

mosfellingurársinshomepage

Val á Mosfellingi ársins 2021 stendur nú yfir. Lesendum gefst kostur á að tilnefna þá sem þeim þykja verðugir að bera nafnbótina. Öllum er frjálst að senda inn tilnefningar í gegnum heimasíðu blaðsins www.mosfellingur.is. Þetta er í sautjánda sinn sem valið fer fram á vegum bæjarblaðsins Mosfellings. Íbúar eru hvattir til að taka virkan þátt og senda inn tilnefningar. Gjarnan má fylgja með stuttur rökstuðningur fyrir tilnefningunni og hvað viðkomandi hefur lagt til samfélagsins.

Áður hafa þessi hlotið nafnbótina: Sigsteinn Pálsson, Hjalti Úrsus Árnason, Jóhann Ingi Guðbergsson, Albert Rútsson, Embla­ Ágústsdóttir, Steindi Jr., Hanna Símonardóttir, Greta Salóme, Kaleo, Jóhanna Elísa Engelhartsdóttir, Sigrún Þ. Geirsdóttir, Guðni Valur Guðnason, Jón Kalman Stefánsson, Óskar Vídalín Kristjánsson, Hilmar Elísson og Sigmar Vilhjálmsson. Útnefningin verður kunngjörð í fyrsta blaði ársins 2022, fimmtudaginn 13. janúar.

Kerti og spil

Staðan er ekki flókin. Jólin eru rétt handan við hornið og þau verða öðruvísi í ár. Það er bara þannig og það þýðir ekkert að æsa sig yfir þessu. Það sem við gerum núna er að finna leiðir til þess að gera jólin eins góð og gefandi fyrir okkur sjálf og okkar fólk og við getum. Við finnum hluti til að gera innan þeirra ramma sem við höfum.

Það má eiginlega segja að það sé verið að færa okkur aftur í tímann. Leyfa okkur að upplifa á eigin skinni aðstæður sem forfeður okkar og mæður bjuggu við. Og við þurfum ekki að fara aftur á steinöld. Segjum að árið sé 1971 og við búum á sveitabæ í Húnvatnssýslu. Eða í Strandasýslu. Þetta er fyrir tíma internetsins, farsíma og sjónvarpsrása. Það var ein sjónvarpsrás til að horfa á, ríkisrásin, ef fólk átti sjónvarpstæki (svarthvítt), það er að segja. Dagskráin þriðjudaginn 21. desember, nákvæmlega 50 árum áður en þessi pistill er skrifaður, byrjaði kl. 20.00 á fréttum. Svo kom veður og auglýsingar. Þáttur um Kildare lækni var næstur á dagskrá áður en sovésk teiknimynd um tískuna gladdi landsmenn. Umræðuþátturinn Sjónarhorn var næst síðastur á dagskrá og frönskukennsla með Vigdísi Finnbogadóttur lokaði dagskránni rúmlega hálf ellefu. Það var ein útvarpsrás á Íslandi á þessum tíma. Dagskrá þess byrjaði kl.13.15 á húsmæðraþættinum.

Hvað gerði fólk í sveitum landsins á jólunum fyrir 50 árum? Það kveikti á kertum, las, spilaði, talaði saman, hreyfði sig, borðaði betri/öðruvísi mat en venjulega og gaf hvert öðru einfaldar gjafir. Auðvitað var meira í gangi í þéttbýlinu á þessum tíma, en mér finnst á einhvern hátt róandi og notalegt að hugsa til baka til þess tíma og aðstæðna sem foreldrar mínir ólust upp við og bera það saman við nútímann. Kerti og spil er málið í ár, njótum!

Heilsumolar Gaua
Mosfellingur 23. desember 2021

Helga gefur kost á sér í 2. sæti

Helga Jóhannesdóttir býður sig fram í 2. sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksin sem fer fram 5. febrúar. Helga er nefndarmaður í skipulagsnefnd, hún hefur verið varabæjarfulltrúi tvö kjörtímabil, setið í fræðslu­nefnd og verið varamaður í fjölskyldu­­nefnd. Helga er viðskipta­fræðingur að mennt, hún er með meistargráðu í stjórnun og stefnumörkun og með meistargráður í opinberri stjórnsýslu. Helga hefur búið í Mosfellsbæ frá árinu 2002.

„Síðustu árin hafa verið settar stefnur í hinum ýmsu málaflokkum bæjarins í samvinnu við bæjarbúa og það er okkar að fylgja stefnumálum eftir og breyta og bæta þegar þess er þörf. Og að sjálfsögðu þarf að forgangsraða fjármagni rétt til framkvæmda og rekstrar bæjarins. Mikilvægt er nú sem fyrr að hlusta á og taka mið af bæjarbúum, ábendingum þeirra og athugasemdum. Það er mjög gott að búa í Mosfellsbæ en við getum ávallt gert betur.“

Hilmar Stefánsson sækist eftir 6. sæti

Hilmar Stefánsson býður sig fram í 6. sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Mosfellsbæ sem fram fer 5. febrúar 2022. Hilmar starfar sem framkvæmdastjóri MHG Verslunar.

„Ég flutti í Mosfellsbæinn 1998 til að spila handbolta með Aftureldingu. Upphaflega átti það að vera eitt ár en hér líður mér vel og árin orðin 23. Ég hef alltaf haft mikinn áhuga á bæjarmálunum og því sem fram fer í sveitarfélaginu. Ég sat í skipulagsnefnd Mosfellsbæjar árin 2012-2014 og í menningarmálanefnd 2006-2010. Þá var ég formaður Viljans, félags ungra sjálfstæðismanna í Mosfellsbæ 2006-2009.

Síðast en ekki síst er ég formaður Fálkanna sem er virðulegur lífsstílsklúbbur hér í bæ og brýni raust mína með Karlakór Kjalnesinga. Ég óska eftir stuðningi í 6. sætið og hlakka til að takast á við þær áskoranir sem við Mosfellingar stöndum frammi fyrir á komandi árum.

Ragnar Bjarni gefur kost á sér í 4. sæti

Ragnar Bjarni Zoëga Hreiðarsson gefur kost á sér í 4. sætið í prófkjöri Sjálfstæðismanna í Mosfellsbæ þann 5. febrúar næstkomandi.

„Ástæðan fyrir ákvörðun minni er að mér hefur fundist vanta að rödd unga fólksins heyrist í málum bæjarins þegar horft er til framtíðar. Ég vil leggja mitt af mörkum til að gera Mosfellsbæ að enn betri bæ en eins og allir vita er best að búa í Mosfellsbæ. Með framboði mínu vil ég einnig hvetja ungt fólk til ábyrgðar í bæjarmálum og láta rödd unga fólksins heyrast.“

Efnt til hugmyndasamkeppni um miðbæjargarð

Tölvugerð skissa af miðbæjarsvæðinu.

Mosfellsbær hefur ákveðið að efna til hugmyndasamkeppni um miðbæjargarð við Bjarkarholt. Gerður verður samningur við Miðstöð hönnunar og arkitektúrs um að halda utan um undirbúning og framkvæmd hugmyndasamkeppninnar.
Í deiliskipulagi fyrir miðbæ Mosfellsbæjar er gert ráð fyrir miðbæjargarði við Bjarkarholt. Svæðið er um hálfur hektari að stærð og tillaga um garðinn byggist meðal annars á áliti rýnihópa íbúa sem lögðu áherslu á græna ásýnd miðbæjarins.
Skipuð verður fimm manna dómnefnd þar sem verða tveir fulltrúar bæjarstjórnar, skipulagsfulltrúi Mosfellsbæjar auk tveggja fagaðila sem Miðstöð hönnunar og arkitektúrs tilnefnir. Helstu tímasetningar eru þannig að verkefnalýsing og kynningarefni verði tilbúið til auglýsingar 6. janúar 2022, samkeppnin verði auglýst opinberlega og kynningarfundur haldinn 10. janúar 2022, skilafrestur tillagna verði til miðnættis 21. mars 2022. Að þessu loknu taki við vinna dómnefndar og niðurstaða samkeppninnar verði kynnt sumardaginn fyrsta sem verður 21. apríl 2022

Lunga nýja miðbæjarins
„Ég bind miklar vonir við þessa hugmyndasamkeppni og sé fyrir mér að miðbæjargarðurinn geti orðið eins konar lunga nýja miðbæjarins þar sem íbúar geti notið fallegs umhverfis, gróðurs, veitinga og stundað einfaldari íþróttir með börnum, vinum og fjölskyldu,“ segir Haraldur Sverrisson, bæjarstjóri Mosfellsbæjar.
„Miðbæjargarðurinn hefur alltaf verið hugsaður sem miðja svæðisins og mikilvægt er að nýta tækifærið til að þróa miðbæinn okkar saman sem stað þar sem við komum saman, njótum lífsins og sinnum heilsueflingu,“ segir Haraldur.