Nafninu breytt í Bankinn Bistro

Karen Arnardóttir bankastjóri í Þverholti 1.

„Við erum búin að breyta nafninu á staðnum okkar hér í Þverholtinu í Bankinn Bistro, en hér var fyrst opnað í lok árs 2019,“ segir Karen Arnardóttir rekstrarstjóri og nú bankastjóri.
„Staðurinn hét áður Barion og við munum að sjálfsögðu bjóða upp á sömu góðu þjónustuna áfram enda sami góði hverfisstaðurinn í Mosó. Sömu eigendur og sama kennitala en nú færum við okkur nær upprunanum, enda var hér starfræktur banki í fjöldamörg ár, bæði Búnaðarbankinn og síðar Arion banki. Nú verðum við hins vegar eini bankinn í bæjarfélaginu, eins skrýtið og það hljómar. Það verður bara aðeins meiri gleði í okkar banka.“
Í Bankanum er hægt að setjast niður í mat og drykk t.d. í gömlu bankahvelfinguna frá fyrri tíð en hún var flóknasta framkvæmdin á sínum tíma þegar húsnæðinu var breytt í veitingastað.
Bankinn Bistro er veitingastaður, hverfis­bar, sportbar og félagsheimili fullorðna fólksins í Mosfellsbæ.

Öll verð vaxtalaus og óverðtryggð
„Við erum alltaf að betrumbæta matseðilinn okkar og reyna að höfða til sem til flestra. Við bjóðum upp á ýmsar nýjungar og höfum líka náð að lækka verð á einhverju.
Þá erum við komin með pizzur á matseðil sem hafa farið mjög vel af stað en þær eru í boði á kvöldin og um helgar. Í hádeginu alla virka daga bjóðum við svo upp á heitan mat, það hefur mælst einkar vel fyrir og fjöldinn allur af fastaviðskiptavinum sem koma dag eftir dag.
Á föstudögum ætlum við að byrja að bjóða upp á hlaðborð með lambakjöti og meðlæti en ætlunin er að gestir geti tekið hraustlega til matar um leið og þeir koma inn fyrir dyrnar.
Þá verða gerðar einhverjar breytingar hér innanhúss á næstunni og staðurinn fær andlitslyftingu í takt við nýtt nafn.“

Viðburðir í hverri viku
„Viðburðirnir okkar verða einnig á sínum stað áfram en hér eru haldin bingó, pubquiz, prjónakvöld, skákmót, krakkabíó og tónleikar svo eitthvað sé nefnt. Fótbolta­áhugafólk horfir hér líka á helstu kappleiki. Við erum alltaf opin fyrir hugmyndum og hægt er að senda okkur póst á bankinn@bankinnbistro.is.
Hugmyndin að nýja nafninu hefur verið í deiglunni í þónokkurn tíma og verður vel tekið á móti Mosfellingum sem og að sjálfsögðu öllum viðskiptavinum nú sem fyrr í Bankanum,“ segir Karen.