Mosfellsbær í öðru sæti á landsvísu

Gallup kannar árlega þjónustu sveitarfélaga og mælir viðhorf íbúa til þjónustu í 20 stærstu sveitarfélögum landsins.
Könnunin hefur verið framkvæmd samfellt frá árinu 2008 og veitir yfirlit yfir þróun afstöðu íbúa til einstaka málaflokka yfir tíma og stöðu Mosfellsbæjar gagnvart öðrum sveitarfélögum.
Á árinu 2022 reyndust 92% aðspurðra frekar eða mjög ánægðir með sveitarfélagið sem stað til að búa á og hækkaði úr 89% frá fyrra ári og er Mosfellsbær í öðru sæti á landsvísu í þessari spurningu. Mosfellsbær var á síðasta ári fyrir ofan meðaltal sveitarfélaganna í níu spurningum af tólf. Þjónusta grunnskóla og þjónusta við fatlað fólk er hins vegar undir landsmeðaltalinu sem kallar á umbótavinnu næstu misserin og er sú vinna hafin.

Ánægja eykst með skipulagsmál
Ánægja íbúa eykst milli ára í sex spurningum og má þar auk ofangreindrar spurningar nefna ánægju með skipulagsmál þar sem skorið hækkar um eitt stig og óánægðum fækkar um 6%. Þar hækkar Mosfellsbær um tvö sæti milli ára í samanburði sveitarfélaganna. Það sama á við um afstöðuna til gæða umhverfisins þar sem ánægja eykst og Mosfellsbær ferðast upp töfluna.
Afstaða íbúa til þjónustu við barnafjölskyldur stendur í stað en þar sem meðaltalseinkunn annarra sveitarfélaga lækkar þá færist Mosfellsbær upp töfluna og sama hreyfing á sér stað milli ára í afstöðunni til þjónustu leikskóla sveitarfélagsins. Þar er Mosfellsbær í fjórða sæti á landsvísu og þeir sem njóta þjónustunnar gefa sveitarfélaginu einkunnina 4,4 á 5 punkta skala.

Hástökkvarar ársins í menningarmálum
Ánægja íbúa með aðstöðu til íþróttaiðkunar í Mosfellsbæ eykst milli ára og færist bærinn upp um tvö sæti á síðasta ári. Hástökkvarar ársins eru menningarmálin og þjónusta sveitarfélagsins á heildina litið þar sem ánægjan eykst og sveitarfélagið hækkar í báðum tilvikum um fimm sæti.
Verulegt tækifæri er hins vegar til umbóta þegar kemur að afstöðu íbúa til þess hvernig starfsfólk Mosfellsbæjar hefur leyst úr erindum þeirra þar sem skorið var 3,5 árið 2021 en lækkaði í 3,4 árið 2022.

Almenn vísbendingu um stöðu mála
Könnun Gallup á þjónustu Mosfellsbæjar hefur verið kynnt í bæjarráði. „Það er mjög gleðilegt að bæjarfélagið hefur hækkað á milli ára þegar kemur að lykilspurningunni um þjónustu bæjarfélagsins þegar á heildina er litið og deilir öðru sætinu á landsvísu með nokkrum öðrum sveitarfélögum,“ segir Regína Ásvaldsdóttir bæjarstjóri.
„Mikilvægt er að hafa í huga að könnunin veitir almenna vísbendingu um stöðu mála í einstaka málaflokkum og er hluti þeirra gagna sem nýtt eru til að þróa þjónustu Mosfellsbæjar. Það sem er gott við að fá reglulega mælingu á þjónustu bæjarins er að finna þá þætti sem þarfnast helst úrbóta.“

Viljum laga það sem þarfnast úrbóta
„Því miður er það þjónusta við fatlaða einstaklinga í ár eins og undanfarin ár og þar þurfum við einfaldlega að gera betur. Málaflokkurinn fékk aukið framlag í fjárhagsáætlun 2023 og við vonum svo sannarlega að þeir fjármunir skili sér í ánægðari þjónustuþegum og aðstandendum.
Það sama á við um málefni grunnskólans og við bindum miklar vonir við að aukin sérfræðiþjónusta í grunnskólum og vinna við innleiðingu farsældarhringsins verði til þess að styrkja þjónustuna og laga það sem þarfnast úrbóta.
Mosfellsbær vinnur nú að verkefnum til að hraða vinnu við stafræna þróun sveitarfélagsins. Hluti af þeirri vinnu mun fela í sér innleiðingu stafrænna lausna til að auka skilvirkni í svörun erinda og halda utan um samskipti bæjarins við íbúa,“ segir Regína Ásvaldsdóttir, bæjarstjóri.