Erfðamál koma okkur öllum við

Margrét Guðjónsdóttir var orðin fimmtug er hún hóf nám í lagadeild Háskóla Íslands. Hún hafði starfað til fjölda ára á lögmannsstofum áður en hún hóf námið og þekkti því vel til hinna ýmsu sviða lögfræðinnar.
Árið 2016 stofnaði hún eigin lögfræðistofu og fasteignasölu en Margrét er einnig löggiltur fasteignasali. Hún hefur sérstakan áhuga á erfða- og hjúskaparrétti og hefur verið dugleg að hvetja fólk til að vera betur meðvitað um rétt sinn.

Margrét er fædd á Hvolsvelli 30. október 1956. Foreldrar hennar eru Kristbjörg Lilja Árnadóttir húsmóðir og Guðjón Jónsson fv. frystihússtjóri á Hvolsvelli en þau eru bæði látin.
Margrét á þrjú systkini, Rúnar f. 1940, Inga f. 1943 d. 2022 og Ernu Hönnu f. 1952.

Þetta var nafli alheimsins
„Ég er alin upp á Hvolsvelli, yndislegt þorp þar sem allir þekktu alla og allir voru sem einn ef eitthvað bjátaði á. Á mínum uppvaxtarárum voru íbúarnir hundrað og sextíu en í mínum huga var þetta nafli alheimsins.
Foreldrar mínir voru ein af frumbyggjum Hvolsvallar, afi og amma og tvö systkini mömmu áttu heima þarna líka svo þetta var sannkallaður fjölskyldureitur. Ég var svo heppin að róló var á bak við húsið mitt svo það var ekki langt að fara til að leika.
Foreldrar mínir voru mjög dugleg að fara í tjaldferðalög um landið og ég á margar góðar minningar úr þeim ferðum. Allar sundlaugar voru leitaðar uppi og það fannst mér mikið sport.“

Ekki amalegt að komast á böllin
„Ég gekk í Hvolsskóla og fannst það mjög gaman, stúdentinn kláraði ég svo frá Fjölbrautaskólanum í Breiðholti. Ég byrjaði ung að vinna og sumarið eftir fermingu hóf ég störf í félagsheimilinu Hvolnum sem þá var eina hótelið á Hvolsvelli. Hvollinn var vel þekktur fyrir sín sveitaböll og það var ekki amalegt að komast svona ung inn á þau.
Eftir að ég flutti til Reykjavíkur þá var ég svo heppin að fá skrifstofustarf hjá Toyota-umboðinu. Það var einstaklega gott að starfa fyrir þau hjónin Pál og Elínu enda frábærir félagar starfsmanna sinna. Ég hóf síðar störf á lögmannsstofu og starfaði þar sem framkvæmdastjóri í mörg ár.“

Sælureitur við Silungatjörn
Margrét giftist Kjartani Óskarssyni í Hlégarði 1994. Rúnar bróðir Margrétar var á þessum tíma starfandi sýslumaður í Reykjavík og gat því gefið þau saman.
Kjartan er menntaður garðyrkjufræðingur en starfar í dag í Íþróttamiðstöðinni að Varmá. Þau hjónin eiga tvö börn, Lilju f. 1988 og Kolfinn Erni f. 1999 en fyrir átti Kjartan Karen f. 1988.
„Við fjölskyldan eldum mikið saman, það eru gæðastundir þegar allir gera saman pizzu á föstudagskvöldum, þessi hefð hefur verið alveg frá því börnin voru ung. Okkur finnst líka gaman að ferðast, hvort sem er að fara í stuttar borgarferðir eða á sólarströnd.
Við hjónin erum búin að gera okkur sælureit við Silungatjörn sem er yndislegur staður. Hlökkum til að eyða þar meiri tíma í framtíðinni,“ segir Margrét og brosir.

Hófu nám á sama tíma
„Mig hafði lengi langað að læra lögfræði en þegar ég var farin að vinna og komin með fjölskyldu þá miklaði ég það fyrir mér. Ég var orðin fimmtug þegar ég ákvað að skoða þann möguleika að fara í þetta nám með vinnu. Ég skráði mig í lagadeild Háskóla Íslands og sé ekki eftir því, í kjölfarið aflaði ég mér málflutningsréttinda en það er nauðsynlegt ef maður ætlar að geta flutt mál fyrir dómstólum.
Við mæðgur hófum nám á sama tíma en Lilja mín fór í verkfræði. Ég lofaði henni að ég skyldi ekkert vera að heilsa henni á göngunum en við höfðum báðar mjög gaman af þessu,“ segir Margrét og hlær.

Mikil vanþekking í gangi
Margrét stofnaði sína eigin lögmannsstofu MG Lögmenn árið 2016 með aðsetur í Mosfellsbæ. Hún er líka löggiltur fasteignasali og hefur verið að sinna því starfi töluvert samhliða lögmannsstörfunum.
Margrét hefur komið að hinum ýmsu sviðum lögfræðinnar en hún hefur sérstakan áhuga á erfða- og hjúskaparrétti. Hún telur að að það sé töluverður misskilningur og vanþekking í gangi hjá fólki varðandi þau mál og hún vill hvetja fólk til að vera betur meðvitað um rétt sinn.
„Hjúskaparlögin gilda aðeins um hjúskap tveggja einstaklinga eins og segir í 1. gr þeirra. Þar er sérstaklega tekið fram að þau taki ekki til óvígðrar sambúðar. Enginn lögerfðaréttur er milli sambúðaraðila í óvígðri sambúð, skiptir þá engu hvort aðilar hafi skráð sambúðina, hvað hún hafi staðið lengi eða hvort þeir eigi börn saman.“

Ég óska fólki til hamingju
„Ástæða þess að hjón gera oft kaupmála um að eign sé séreign er sú að hún komi ekki til skipta við skilnað eða andlát. Þá þarf að gæta að því, ef vilji er til, að tiltaka að eignin verði hjúskapareign að því hjóna látnu, því annars þarf að skipta búi hins látna og jafnframt að greiða erfðafjárskatt af eigninni sem getur verið töluverð fjárhæð.
Sambúðarfólk óskar oft eftir því að gera slíkt hið sama þ.e.a.s. að gera kaupmála og vill tryggja sig eins og fólk í hjúskap en það er ekki hægt. Það getur gert erfðaskrá þar sem kveðið er á um að hinn sambúðaraðilinn skuli taka arf eftir þá en eigi það barn, hvort sem þau eru sameiginleg eða ekki þá getur það aðeins ráðstafað 1/3 af arfi sínum á þennan hátt. Réttur til að sitja í óskiptu búi er heldur ekki í boði. Mögulega er hægt að gera yfirlýsingu um vilja fólks en það skjal er hvergi hægt að skrá.
Ég óska fólki til hamingju þegar það hefur gert erfðaskrá, það er nefnilega oft þannig að fólk ætlar sér að ganga frá erfðaskrá við tækifæri en svo verður það of seint. Það skiptir líka máli að hún sé gerð meðan fólk er heilt heilsu.“

Ræktin er mín slökun
Ég spyr Margréti að lokum út í áhugamálin? „Vinnan mín er klárlega aðal­áhugamál mitt, mér finnst mjög gaman að stúdera hinar ýmsu hliðar lögfræðinnar og les mikið um allt sem henni tengist. Mér finnst mjög gott að fara í ræktina en það er mín slökun.
Ég er líka í Rótarýklúbbi Mosfellssveitar sem er mjög áhugaverður og skemmtilegur félagsskapur og ég er forseti klúbbsins þetta starfsárið. Það er alltaf eitthvað skemmtilegt og fróðlegt í gangi hjá okkur allt árið um kring,“ segir Margrét brosandi er við kveðjumst.