Frískápur nú aðgengilegur í Mosfellsbæ

Gerður og Marco við frískápinn við Kjarna.

Komið hefur verið upp frískáp í Mosfellsbæ þar sem bæjarbúar geta skipst á mat. Góð leið til til að sporna við matarsóun, bæði hægt að deila mat og bjarga mat.
„Ég var búin að sjá svona útfærslu í Reykjavík og hef lengi verið hugsa um hvernig við gætum komið upp slíkum skáp hér í Mosó,“ segir Gerður Pálsdóttir. „Mér áskotnaðist ísskápur og gat ekki hugsað mér að henda honum. Mér var þá bent á hann Marco sem vinnur hjá Mosfellsbæ og hefur einmitt komið á laggirnar svona verkefni í Reykjavík. Hann tók dáldið við keflinu og hefur leitt þetta áfram.“

Treysta á náungakærleika í verki
„Það er t.d. tilvalið að setja hér inn afganga eftir veislu eða frá fyrirtækjum, það getur hjálpað öðrum. Við munum svo skiptast á að hafa eftirlit með skápnum og treystum á náungakærleikann,“ segir Marco Pizzolato.
Góðir vinir komu að því að byggja í kringum skápinn svo hann ætti að geta staðið úti allan ársins hring. Þá hefur Mosfellsbær aðstoðað við staðsetningu og fleira. Sérstakar þakkir fær Byko fyrir byggingarefnið, Krzystof Pakosz og Ania Szymkowiak fyrir uppsetninguna og Birgir Grímsson og Guðmundur Sverrisson fyrir hjálp og flutninga.
Frískápurinn er tilraunaverkefni til næstu sex mánaða og verður spennandi að sjá hvernig Mosfellingar taka þessari nýjung.
Hægt er að fylgjast með stöðunni á frískápnum á Facebook. Skápurinn er staðsettur fyrir neðan Kjarna þar sem Bónus var áður til húsa og var með vöruafgreiðslu.

 


Frískápur er deiliskápur sem hefur það að markmiði að minnka matarsóun með því að deila neysluhæfum mat milli fólks. Öllum er frjálst að setja og taka úr skápnum hvenær sem þeim hentar og nýta þar með matvæli sem annars yrði hent.