Halda stórtónleika í Lundi

Stórsveit Íslands blæs til mosfellskrar veislu á miðvikudaginn.

Miðvikudaginn 22. febrúar blæs Stórsveit Íslands til tónleika í Lundi í Mosfellsdal.
Þar munu mosfellskir stórsöngvarar, þau Sigrún Hjálmtýsdóttir, Sigurður Hansson, Birgir Haraldsson, Stefanía Svavarsdóttir og Davíð Ólafsson, syngja með hljómsveitinni.
Stórsveit Íslands var upphaflega stofnuð árið 2009 af félögum í FÍH sem voru atvinnutónlistarmenn en flestir voru komnir á aldur og vildu halda áfram að spila tónlist saman. Einn upphafsmaðurinn að hugmyndinni að stofna slíkt band var Þórir Þórisson tónlistarmaður og stjórnandi. Hópurinn kallaði sig Öðlingana og hljómsveitin kallaðist Stórsveit Öðlinga.
Með tímanum urðu mannabreytingar og nýir stjórnendur tóku við. Daði Þór Einarsson er núverandi stjórnandi sveitarinnar og var nafnið Stórsveit Íslands tekið upp árið 2018.

Blanda atvinnu- og áhugamanna
Í hljómsveitinni eru 20 hljóðfæraleikarar, blanda atvinnu- og áhugamanna og er æft einu sinni í viku. Ýmsir söngvarar hafa sungið með bandinu í gegnum tíðina og má þar nefna Hjördísi Geirsdóttur, Pál Óskar, Ara Jónsson, Davíð Ólafsson og Viggu Ásgeirsdóttur og Völu Guðnadóttur.
Árið 2019 var ráðist í að útsetja fyrir sveitina ýmis lög eftir Sigfús Halldórsson og Oddgeir Kristjánsson. Þá hefur sveitin einnig staðið fyrir stóru verkefni sem bar nafnið Keflvíska bítlið frá 1967-1977 og voru þá 12 lög útsett af því tilefni.
Tónleikarnir þann 22. febrúar hefjast kl. 20:00 og verður hægt að kaupa aðgöngumiða við innganginn, 1.500 kr. Tónleikarnir fara fram í Lundi í Mosfellsdal, höfuðstöðvum Lambhaga.
Á efnisskránni eru 20 lög og má þar nefna: Fyrsti kossinn, Alveg ær, Ég vil að þú komir, Jarðarfarardagur og Crazy Little Thing Called Love.