Við elskum að vera á jaðrinum

Fríður Esther Pétursdóttir eigandi verslunarinnar kinky.is selur unaðsvörur ástarlífsins og undirföt fyrir konur.

Fríður Esther fékk þá hugmynd í ársbyrjun 2019 að opna vefverslun með undirföt en henni fannst vanta á markaðinn ódýr en vönduð föt í öllum stærðum og gerðum. Salan hefur farið langt fram úr væntingum og í dag hefur Fríður opnað verslun við Laugaveg og hefur aukið vöruúrvalið til muna.
Fríður hefur einnig hug á að þjónusta landsbyggðina betur og hefur keypt litla rútu til að keyra á milli staða. Þetta yrði nýjung á Íslandi og hún er spennt að sjá hvernig móttökurnar koma til með að verða.
Fríður Esther er fædd á Selfossi 19. júlí 1975. Foreldrar hennar eru Elísa Elísdóttir fyrrv. kaupmaður og Pétur Hjaltason fyrrv. sparisjóðsstjóri á Selfossi.
Fríður Ester á tvö systkini, Anton f. 1972 og Guðbjörgu Gínu f. 1978.

Kom heim með mús í vasanum
„Ég er fædd og uppalin á Selfossi og átti yndislega æsku á þessum fallega stað þar sem allir þekktu alla. Fyrstu fimm árin mín bjuggum við í eldri hluta bæjarins en fluttum svo í nýja hlutann í hús sem foreldrar mínir byggðu. Ég minnist þess að búa innan um hálfkláruð hús með móann í bakgarðinum með tilheyrandi ævintýrum.
Ég elskaði öll dýr og á góðar minningar um kisuna mína, hundinn minn og páfagaukinn. Eitt sinn kom ég heim með hagamús í vasanum, mömmu og vinkonum hennar til lítillar gleði,“ segir Fríður Esther og hlær.
„Foreldrar mínir voru vinamörg og ég minnist dásamlegra ferðalaga en farið var í Galtalæk öll sumur. Þar var tjaldað og grillað og oft var haldið þar upp á afmælið mitt sem mér fannst æðislegt.“

Fer lítið fyrir saumaskap
„Ég gekk í barna- og gagnfræðaskóla á Selfossi og var heppin að vera með sömu krökkunum í bekk allan þennan tíma. Bekkurinn minn heldur enn hópinn og við stelpurnar hittumst reglulega í saumaklúbb þótt lítið fari fyrir saumaskapnum. Ég á bara hlýjar og góðar minningar frá skólaárunum.
Á sumrin var ég í sveit hjá afa og ömmu í Laugarási í Biskupstungum. Afi var garðyrkjubóndi og ég fékk að skottast um í gróðurhúsunum með honum. Það hefur örugglega samt verið meiri vinna fyrir hann að hafa mig heldur en fyrir hann að fá hjálp frá mér,“ segir Fríður Esther og brosir.
„Ég byrjaði í Fjölbrautaskóla Suðurlands en varð svo ófrísk af tvíburum þegar ég var 18 ára svo það varð lítið úr skólagöngu eftir það. Ég fór síðar á alls konar námskeið og styttra nám tengt störfum mínum.“

Vil hvergi annars staðar eiga heima
Eiginmaður Fríðar Estherar heitir Þorsteinn Magnús Guðmundsson en hann er uppalinn í Mosfellsbæ. Börn þeirra eru Jóhanna Ýr og Þórunn Petra f. 1993, Elís Aron f. 2001 og Aríella og Adríana f. 2011. Barnabarnið Vilhjálmur Þór er eins árs.
„Við fluttum í Mosfellsbæ 2008 og búum í húsi sem tengdaforeldrar mínir byggðu í Arkarholtinu. Hér er alveg hreint frábært að búa og ég vil hvergi annars staðar vera. Við hjónin höfum frá árinu 2013 tekið að okkur fósturbörn sem hafa komið og verið hjá okkur í mislangan tíma sem okkur þykir ofurvænt um.
Við fjölskyldan eigum sumarbústað í Kerhrauni í Grímsnesinu sem við erum að gera upp svo við reynum að vera þar eins mikið og við getum, sérstaklega á sumrin. Ég elska að skoða heiminn og hef verið dugleg að draga fjölskylduna í ferðalög. Við erum líka heilmikil sófafjölskylda, elskum að hafa kósýkvöld og horfa á góða mynd.“

Hefur ræktað hunda í tuttugu ár
„Ég hef nánast alla tíð unnið einhvers konar verslunarstörf, var deildarstjóri í Kaupfélaginu á Selfossi og verslunarstjóri hjá 10-11. Þegar við fluttum í Mosfellsbæ þá rak ég verslunina Hundaheim en ég seldi hana þegar ég tók við sem framkvæmdastjóri Hundaræktarfélags Íslands en þar starfaði ég í nokkur ár.
Ég hef verið að rækta hunda í yfir 20 ár bæði á Íslandi og í Póllandi í samstarfi með góðu fólki en ég á nokkra hunda líka í Póllandi. Hundaræktun á Íslandi getur verið mjög krefjandi vegna erfiðra innflutningsreglna. Ég ferðast mikið á hundasýningar erlendis og á orðið góða vini út um allan heim tengt þessu áhugamáli mínu sem ég er svo þakklát fyrir að geta stundað.“

Löngu hætt að vera gæluverkefni
Fríður Esther stofnaði vefverslunina kinky.is í ársbyrjun 2019 en hugmyndin kviknaði þegar henni fannst vanta á markaðinn ódýr en vönduð falleg undirföt í öllum stærðum og gerðum. Hún fann góðan framleiðanda og flytur vörurnar inn milliliðalaust.
„Ég var heimavinnandi á þessum tíma og ákvað að slá til og opna vefverslun og sé alls ekki eftir því. Ég byrjaði afar rólega og hef hægt og bítandi verið að auka vöruúrvalið og í dag er þetta löngu hætt að vera lítið gæluverkefni. Ég opnaði verslun á Laugaveginum í kjölfarið og jók úrvalið á kynlífstækjunum sem hefur fallið í góðan jarðveg.
Elstu dætur mínar hafa hjálpað mér heilmikið við reksturinn og sjá meðal annars um samfélagsmiðlana.“

Þetta yrði nýjung á Íslandi
„Ferðamenn hér á landi eru duglegir að koma til okkar í búðina og Íslendingar auðvitað líka og við eigum orðið okkar föstu viðskiptavini sem koma hingað aftur og aftur. Við elskum að vera á jaðrinum og gera eitthvað nýtt fyrir okkar viðskiptavini, þeir hafa líka verið duglegir að hafa samband og óska eftir sérpöntunum. Í versluninni bjóðum við einnig upp á vörur fyrir þá allra hörðustu ef við getum orðað það svo,” segir Fríður og brosir og bendir á vörurnar í hillunum.
Hugmyndin er líka sú að útbúa færanlega verslun, við keyptum litla rútu sem við höfum nefnt Kónginn. Okkur langar til að þjónusta landsbyggðina betur og fara með rútuna út á land. Þar gæti fólk komið og skoðað og jafnvel sótt pantanir sem keyptar hafa verið á netinu. Þetta yrði nýjung á Íslandi og ég er mjög spennt að sjá hvernig fólk mun taka á móti okkur.“
Ég spyr Fríði út í nafnið, kinky.is? „Já það er nú bara þannig að það sem einhverjum finnst óhefðbundið getur verið fullkomlega eðlilegt fyrir aðra svo mér fannst þetta bara passa ansi vel, lénið var laust svo ég kýldi bara á þetta,“ segir Fríður Esther að lokum er við kveðjumst.