Þetta krefst samvinnu og virðingar

Fríða Rut Heimisdóttir eigandi Regalo segir markaðinn alltaf tilbúinn í eitthvað nýtt og ferskt.

Í ársbyrjun 2003 stofnuðu hjónin Fríða Rut Heimisdóttir og Vilhjálmur Hreinsson fyrirtæki undir nafninu Regalo. Þau flytja inn hár- og snyrtivörur fyrir fagfólk og hafa verið óhrædd við að fara ótroðnar slóðir enda með ein bestu vörumerki á markaðnum í dag.
Fyrirtækið hefur vaxið og dafnað og starfsemin orðið sífellt fjölbreyttari, starfsmennirnir eru 15 talsins, þéttur hópur fagfólks.

Fríða Rut er fædd í Reykjavík 14. janúar 1978. Foreldrar hennar eru Þuríður Bryndís Guðmundsdóttir, ávallt kölluð Lilla, og Heimir Guðbjörnsson skipstjóri.
Fríða Rut á tvo bræður, Ívar f. 1983 og Elvar f. 1990

Hafði mikil áhrif á líf mitt
„Ég er uppalin í Reykjavík og gekk alla mína skólagöngu í Breiðholtsskóla. Ég hafði brennandi áhuga á dansi og keppti lengi í samkvæmisdönsum, rokki og stundaði alla tískudansa sem komu í Dansskóla Auðar Haralds. Samhliða að vera sjálf að dansa þá var ég aðstoðarkennari til margra ára hjá Auði í barna- og hjónahópum og kenndi svo sjálf hjónum til ársins 2002.
Ég skíðaði líka mikið sem krakki og hefur það verið mín slökun og hamingja að komast í fjöllin. Mínar bestu minningar á ég með afa mínum heitnum á skíðum. Ég var nú ekki alltaf ánægð sem unglingur þegar ég vildi fá að sofa út og hann var mættur til að draga mig fram úr helgi eftir helgi til að fara á skíði en er þakklát í dag fyrir þau áhrif sem hann hafði á líf mitt. Eftir að afi kvaddi þennan heim þá varð ég fyrir svo miklu áfalli að ég hætti að skíða.
Fyrir sex árum kynntist ég góðum vinum sem eru mikið skíðafólk, þau drifu mig af stað aftur í fjöllin og það var ekki aftur snúið, ég bætti meira að segja við fjallaskíðum,“ segir Fríða Rut og brosir.

Útskrifaðist sem hárgreiðslumeistari
„Áhugasvið mitt lá alltaf í sálfræði og ég ætlaði mér alltaf að verða sálfræðingur og hóf nám í þeirri grein. En svo fer lífið stundum með mann aðrar leiðir og mér datt í hug einn daginn að sækja um sumarvinnu á hárgreiðslustofu svona til að hjálpa til. Ég gjörsamlega féll fyrir greininni, skellti mér í nám og útskrifaðist sem hárgreiðslumeistari árið 2002.
Samhliða náminu þá starfaði ég í hárgreiðsludeild Þjóðleikhússins sem var ótrúlega gaman enda mitt fólk stundum sagt að það skilji ekki að ég hafi ekki orðið leikari því ég hef svo gaman af öllum skrípaleik. Það er svo gott að fíflast smá og hlæja samhliða öllum þessum hraða og streitu sem við búum við.“

Við vorum ekki að fara að flytja
Fríða Rut er gift Vilhjálmi Hreinssyni, þau eiga þrjú börn. Heimi Snæ f. 2002, Bryndísi Evu f. 2006 og Hilmar Davíð f. 2013.
„Við vorum lokkuð hingað í Mosfellsbæ,“ segir Fríða Rut og brosir. „Við vorum í heimsókn hjá Lilju frænku minni sem býr hér og hún tjáði okkur hjónunum að hún væri búin að finna draumahúsið handa okkur. Við vorum ekkert á þeim buxunum að fara að flytja enda leið okkur vel þar sem við bjuggum en hún gaf sig ekki og hringdi í eigandann. Frænka hafði sannarlega rétt fyrir sér því við kolféllum fyrir húsinu og fluttum inn stuttu síðar. Hér finnst okkur alveg hreint frábært að vera.“

Stór ákvörðun að taka
„Villi minn hefur alltaf haft brennandi áhuga á að starfa sjálfstætt enda starfað þannig til margra ára. Í miðju fæðingarorlofi fær hann þá hugdettu að kaupa litla heildverslun í gjafavörubransanum. Þetta var stór ákvörðun fyrir mig að taka þar sem ég var harðákveðin í að stofna flotta hárgreiðslustofu með vinkonu minni og þetta þýddi að ég þyrfti að kveðja þann draum, sem ég gerði.
Í smá geðshræringu stödd inn í sýningar­sal með blómapottum, styttum og vösum fórum við að skellihlæja og hugsuðum hvað við værum eiginlega að spá. Þetta var árið 2003 og þannig byrjaði okkar ævintýri,“ segir Fríða Rut og hlær.

Þetta hefur verið ævintýri líkast
Árið 2005 ákváðu Fríða Rut og Villi að bæta við nýjum vörum í fyrirtækið sem stæðu Fríðu aðeins nær eins og hárvörum. Þau byrjuðu með breska hárvörumerkið TIGI/Bed Head og árið 2012 bættust við Miðjarðarhafshárvörurnar frá Moroccanoil sem er frumkvöðull í hárvörum með argan-olíu. Árið 2017 hófu þau síðan sölu á bandaríska hárvítamíninu Sugarbear Hair og að síðustu bættust við vistvænu hárvörurnar frá Maria Nila, Kérastase, Redken, Koico, L´Oréal, Joico og Lycon. Regalo er einnig umboðsaðili fyrir raftæki eins og hitatæki fyrir hár.
„Við flytjum inn hár- og snyrtivörur fyrir fagfólk, þessar vörur fóru svo vel af stað hjá okkur að við ákváðum að selja gjafavörurnar út úr fyrirtækinu og fórum á flug að sinna hárvörunum enda vinsælar og markaðurinn alltaf tilbúinn í eitthvað nýtt og ferskt. Ég ferðaðist mikið til London með íslensku fagfólki þar sem við sóttum listræn námskeið og eins tók ég litakennarapróf í London og Berlín sem var mjög skemmtilegt. Síðustu ár hef ég aðallega einbeitt mér að markaðssetningu.
Þann 2. mars síðastliðinn varð fyrirtækið 20 ára og við erum ótrúlega þakklát fyrir þessi ár og stolt af Regalo, þetta hefur verið ævintýri líkast skal ég segja þér,“ segir Fríða Rut og brosir. „Hjá okkur starfar frábært fagfólk og er samvinna og teymisvinna okkur mikilvæg.“

Við höfum alltaf virt hvort annað
„Við hjónin erum oft spurð að því hvernig í ósköpunum við getum unnið saman alla daga. Það er mikil tækni og krefst samvinnu og virðingar, við höfum alltaf virt hvort annað og náum að aðskilja vinnu og heimilislíf. Við þrætum til niðurstöðu, ekki til vandamála sem hefur reynst okkur vel enda frábærir vinir og samstarfsfélagar.
Við erum ótrúlega heppin bæði að eiga góðar fjölskyldur sem hafa aðstoðað okkur á ýmsan hátt. Móðir mín hún Lilla er algjör stjarna, hún hefur gert okkur kleift að ferðast erlendis í vinnuferðir, hún kemur til okkar og passar börnin á meðan og hundinn okkar, hana Ronju.“

Tónlist í miklu uppáhaldi
Ég spyr Fríðu Rut að lokum hvað hún geri til að hlúa að sjálfri sér? „Mér finnst mjög gott að fara út úr bænum og slappa af í sveitinni okkar, finna kyrrðina. Góð hugleiðsla eða að hlusta á góða tónlist er líka í miklu uppáhaldi og svo er alltaf gott að hitta góðar vinkonur og eiga gott spjall, það nærir sálina,“ segir Fríða Rut og brosir er við kveðjumst.