Ringófjör fyrir 60+

Ringó hefur verið stundað hjá eldri borgurum í Mosfellsbæ í nokkur ár.
Æfingar fara fram í íþróttahúsinu að Varmá á þriðjudögum kl. 12:10-13:10 og á fimmtudögum kl. 11:30-12:30.
Það er íþróttanefnd FaMos sem stendur fyrir þessum æfingum tvisvar í viku. Vel er tekið á móti nýju fólki og er nóg að mæta bara á staðinn og taka þátt.
Hópurinn hefur farið á þónokkur mót en Borgarnes, Hvolsvöllur, Kópavogur og Mosfellsbær hafa skipst á að halda þau. Síðasta var haldið mót hér í Mosfellsbæ í nóvember.
Mikil aukning hefur verið í allri hreyfingu eldri borgara og er ringó ein af íþróttunum sem í boði er.
Ringó er skemmtileg íþrótt sem hentar flestum og svipar til blaks. Í stað bolta eru notaðir tveir gúmmíhringir, sem liðin kasta yfir net og reyna að koma í gólf hjá andstæðingnum. Aðeins má grípa hringina með annarri hendi og þar sem tveir hringir eru á lofti í einu verður oft æði mikið líf og fjör á vellinum.