Blakið að Varmá – glæsileg viðbót!

Gunna Stína Einarsdóttir

Gunna Stína Einarsdóttir

Frá því að blakdeild Aftureldingar tefldi fram liði í efstu deild á Íslandi hefur Afturelding ávallt verið í keppni um efstu sætin í úrvalsdeild kvenna.
Í haust var ákveðið að spila á ungu og reynsluminna liði bæði í meistaraflokki karla og kvenna með aðstoð frá eldri og reyndari leikmönnum. Markmiðið var og er að spila á heimafólki. Kvennaliðið situr nú í 4. sæti deildarinnar og karlaliðið í 3. sæti þegar nokkrar umferðr eru eftir.
Leikmenn og stjórn blakdeildar hafa lengi beðið eftir því að gólfið í sal 3, gamla salnum að Varmá, yrði endurnýjað og rættist draumurinn um jól og áramót þegar Mosfellsbær í samstarfi við Aftureldingu settu á glæsilegt gólf og eru leikmenn ákaflega ánægðir með undirlagið og ekki síður yfir því hversu birtan í salnum eykst og umgjörðin svo miklu betri og flottari.
Snemma var farið að ræða það að gera eins og gert er víða erlendis, að hafa myndir af leikmönnum hangandi í salnum þar sem blakið æfir og keppir og fóru leikmenn meistaraflokkanna í fjáröflun til að fjármagna það verkefni. Blakdeildin hefur nú látið útbúa fána með myndum af öllum leikmönnum okkar í efstu deildum, bæði karla og kvenna. Jakob Jóhannson grafískur hönnuður sá um alla vinnu og hönnun á fánunum og má sjá afraksturinn í opnu blaðsins í dag þar sem við erum með kynningu á leikmönnum okkar.
Við erum ákaflega ánægð með útkomuna og vonumst við til þess að fá að setja fánana upp í salinn þar sem við æfum og keppum, bæði til að hafa fyrirmyndir okkar sýnilegar yngri iðkendum en einnig myndi það að okkar áliti gera salinn enn flottari og heimavöllinn okkar svo sannarlega að Aftureldingargryfju.
Bæði karla- og kvennaliðið eru komin áfram í 8-liða úrslit Kjörísbikarsins og eiga þau bæði leik í vikunni. Karlaliðið á útileik við lið Álftaness í kvöld (fimmtudag) kl. 19:00 og á sunnudaginn fær kvennaliðið HK í heimsókn og hefst leikurinn kl. 15:00 að Varmá.
Við hvetjum Mosfellinga til að mæta á leikina og hvetja okkar lið því sigur í þessum leikjum gefur miða í „Final 4“ helgina sem spiluð verður í Digranesi 22.-24.mars nk. svo það er til mikils að vinna.
Þjálfari kvennaliðs Aftureldingar í blaki er Piotr Poskrobko og þjálfari karlaliðsins er Piotr Kempisty sem spilar einnig með liðinu og er númer 15 á mynd með karlaliðinu.
Áfram Afturelding!

Gunna Stína Einarsdóttir
Formaður blakdeildar Aftureldingar

Eitt hundrað og þrjátíu ára afmæli!

Sr. Ragnheiður Jónsdóttir

Sr. Ragnheiður Jónsdóttir

Næstkomandi sunnudag, 24. febrúar kl. 11, höldum við upp á 130 ára afmæli Lágafellskirkju með guðsþjónustu í kirkjunni og bjóðum í kirkjukaffi að athöfn lokinni í Safnaðarheimili Mosfellsprestakalls að Þverholti 3.
Frá þessum kristna helgistað verður af þessu tilefni horft til framtíðar. Hjá prédik­ara dagsins, Arnfríði Guðmundsdóttur prófessor í guðfræði, verða umhverfismál í öndvegi og framtíð okkar og komandi kynslóða. Diddú syngur ásamt kórnum okkar og Íris Torfadóttir og Selma Elísa Ólafsdóttir spila á fiðlu. Prestar og djákni safnaðarins, sr. Ragnheiður Jónsdóttir og sr. Arndís Linn Bernhardsdóttir og Rut G. Magnúsdóttir, þjóna fyrir altari og Þórður Sigurðarson organisti stjórnar söng og spilar undir. Komdu fagnandi!

Lágafellskirkja er að stofni til elsta hús í Mosfellsbæ. Þegar Mosfells- og Gufunessóknir voru sameinaðar 1888 var ákveðið að reisa kirkju á Lágafelli og taka niður kirkjurnar að Gufunesi og Mosfelli. Skáldsaga nóbelsskáldsins Halldórs Laxness, Innansveitakrónika, er skemmtileg lesning þar sem meðal annars er fjallað um þau átök sem áttu sér stað þegar þessi breyting var gerð.
Þegar Lágafellskirkja var vígð á konudegi 24. febrúar árið 1889 voru íbúar sóknarinnar 403. Sóknarmörk voru Elliðaár í suðri en Kollafjarðarkleifar í norðri, að austan réðu sýslumörk Kjósasýslu. Mikið vatn er runnið til sjávar frá þeim tíma. Sóknarbörnum hefur fjölgað margfalt og sóknarmörkin færð, svo eitthvað sé nefnt.
Um sögu Lágafellskirkju, bygginguna og breytingarnar sem hún hefur gengið í gegnum í áranna rás má m.a. lesa í „Kirkjur Íslands“, safn bóka gefið út af Þjóðminjasafni Íslands. Sagan væri engin ef ekki væri fólkið sem hefur verið og er til frásagnar. Lágafellskirkja, hús Guðs, hefur verið og er rammi utan um stærstu gleði- og hátíðastundir í lífi fólks og einnig sárustu sorgarstundir. Hér er nýju lífi fagnað og annað kvatt, Guð lofsunginn og færðar þakkir fyrir allt líf lifanda og liðinna. Lágafellskirkja er vegvísir í huga margra þar sem hún stendur á fellinu og minnir á það sem er stærra og meira en maðurinn sjálfur. Hún er skjólið og staðarprýðin fagra í Mosfellsbæ, ramminn utan um lifandi kirkjulíf.

Til hamingju kæru sóknarbörn með kirkjuna, Lágafellskirkju!
Fögnum og verum glöð!

Sr. Ragnheiður Jónsdóttir, sóknarprestur.

Sjálfsumhyggja

Berta Þórhalladóttir

Berta Þórhalladóttir

Stundum við nægja sjálfsumhyggju? Ég velti þessu fyrir mér þegar fyrirsagnir helstu fréttamiðla sýna að annar hver maður er í hættu á að kulna í starfi. Þá spyr maður hvað er eiginlega að gerast í samfélaginu.
Eru kröfunar of miklar í vinnunni, heima og eða á öllum vígstöðum sem okkur er ætlað að vera á? Eða erum við ef til vill sjálf að setja þessa pressu á okkur, að vera 100 prósent alls staðar? Hraðinn í samfélaginu er gífurlegur sérstaklega hérna á Íslandi, við erum miklar keppnismanneskjur, við viljum vel, erum hörkudugleg og ætlum oft á tíðum að sigra heiminn. Getur verið að við gleymum að gera það sem nærir okkur þegar við erum undir miklu álagi og höldum áfram á sjálfstýringunni þar til við brennum út? Hvað gerir þú til að næra þig andlega og líkamlega?
Mig langar að koma með nokkur einföld ráð sem geta verið gagnleg til að næra sjálfið.
1. Svefn, svefn og aftur svefn. Sefur þú nóg? Þá er ég að tala um 7–8 tíma á sólahring. Svefn er einn af grunnþáttum okkar. Ef við erum svefnvana í margar nætur þá hefur það ósjálfrátt áhrif á líkamlega og andlega heilsu. Við sækjum meira í einföld kolvetni og koffín og úr því getur orðið svefnvana vítahringur.
2. Hlustar þú á hvernig þú talar við sjálfan þig? Talar þú til þín með jákvæðri rödd eða neikvæðri? Ef þú talar með neikvæðri reyndu þá að sýna þér mildi og svara sjálfum þér með jákvæðum tón til baka.
3. Skrifaðu niður þrjá hluti daglega sem þú ert þakklátur fyrir. Rannsóknir hafa sýnt að það að æfa þakklæti í nokkrar mínútur á dag hefur jákvæð áhrif á geðheilsuna.
4. Hugleiða – Gefðu þér 5 mínútur til að anda inn og út. Auðvelt er að ná sér í app í símann og þar er hægt að velja sér hugleiðslu með eða án leiðsagnar.
5. Finndu þér hreyfingu sem gefur þér orku – dansaðu, farðu í göngutúr eða í ræktina með góðum félögum.
Fyrir suma getur þetta hljómað mjög væmið og ef til vill asnalegt. En ég get þó sagt af eigin reynslu að ef þið tileinkið ykkur eitthvað af þessu hér að ofan þá mun það veita ykkur meiri vellíðan í lífi ykkar. Að lokum langaði mig til þess að segja ykkur frá því að ég er að fara taka við Súperform námskeiðinu í World Class Mosó og hefst það 4. mars.
Kærleikskveðjur.

Berta Þórhalladóttir
Kennir Tabata í World Class Mosó á þriðjudögum og fimmtudögum kl: 18:20

Til hamingju með Helgafellsskóla

Kolbrún G. Þorsteinsdóttir

Kolbrún G. Þorsteinsdóttir

Það er ávallt gleðiefni þegar nýr grunnskóli opnar í hverju sveitarfélagi. Það ber merki fjölgunar og blómstrandi mannlífs í nýjum hverfum. Það er sannarlega staðreynd hér í Mosfellsbæ. Helgafellsskóli í Helgafellshverfi sem vígður var 8. janúar síðast liðinn hefur nú bæst í raðir okkar góðu skóla í Mosfellsbæ.

1.-5. bekkur byrjar
Margt fólk kom að hönnun og undirbúningi Helgafellsskóla. Settur var saman rýnihópur úr röðum foreldra, kennara, leikskólakennara, íbúa í Helgafelli og sérfræðinga í kennslufræðum. Hugað var vel að öllum þáttum og þá helst hvernig mæta má ólíkum þörfum barna í nútímasamfélagi. Skóli dagsins í dag er ekki sá sami og hann var fyrir áratugum því tímarnir breytast og mennirnir með. Í Helgafellsskóla munu nemendur fá að vaxa og skapa á öllum sviðum bæði innan dyra og utan. Nú er 1.–5. bekkur að hefja nám við skólann og í febrúar opnar leikskóladeildin. Byggingu skólans er ekki lokið. Næsti áfangi verður tekinn í notkun í haust og í vor verða svo boðnar út framkvæmdir við 3. og 4. áfanga skólans.
Helgafellsskóli og sú hugmyndfræði sem byggt er á mun veita nemendum tækifæri til að efla styrkleika sína og þar með trú á eigin getu. Í rýmunum fá kennarar tækifæri til að spreyta sig á fjölbreyttum kennsluháttum. Rýmin eða svæðin eins og skólastofurnar heita núna verða vinnustöðvar kennara og nemenda. Þar munu fjölbreyttir kennsluhættir blómstra í fjölbreytileika hússins. Þá er hugað að nýbreytni og gæðum í þjónustu fyrir leik- og grunnskólabörn. Skólarnir okkar eru fjölbreyttir en lykilatriði er þó alltaf sá mannauður sem í skólunum starfar.

Hjörtun slá í skólunum
Í skólunum slá hjörtun í Mosfellsbæ og skólarnir, bæði leik- og grunnskólar, skipta allar fjölskyldur mestu máli. Bæjarstjórn leggur allan sinn metnað við að veita fjölskyldum sem besta þjónustu. Í skólunum á gleðin að óma og börnin að njóta trausts og virðingar, þar má gera mistök og fá leiðbeinandi faðmlag fullorðinna sem aðstoða litlar manneskjur að verða góðar og gildar manneskjur í samfélagi framtíðarinnar. Það er hlutverk allra skóla.
Til hamingju með Helgafellsskóla og megi þar ávallt ríkja hugarfar umburðarlyndis, umhyggju, velvilja og virðingar líkt og í öllum okkar skólum.

Kolbrún G. Þorsteinsdóttir
bæjarfulltrúi og formaður fræðslunefndar

Gaman saman

Birna Kristín Jónsdóttir

Birna Kristín Jónsdóttir

Nú þegar þorrablótshelgin er nýafstaðin er mér þakklæti efst í huga. Fyrst og fremst til þessa frábæra hóps sem skipar Þorrablótsnefndina, þessi hópur hefur nú starfað lengi saman með valinn mann í hverju rúmi og viðburðurinn gengur eins og smurð vél.
Það er ómetanlegt að öllu leyti fyrir félag eins og Aftureldingu að hafa svo öfluga sjálfboðaliða í okkar röðum. Ég held að það sé ekki hægt að hrósa þeim nóg, sem og öðrum sjálfboðaliðum í félaginu en þorrablótið er stærsta fjáröflun barna- og unglingastarfs handknattleiks- og knattspyrnudeildar Aftureldingar.
Í öðru lagi er svona samkoma mjög mikilvæg félagslega fyrir bæjarfélag eins og Mosfellsbæ, vinnustaðir, vinahópar, foreldrahópar, stjórnir og nágrannar sameinast á borðum. Það er fundað um hvernig skal skreyta og svo er hitað upp fyrir blótið sjálft, þetta er hópefli í lagi.
Nú fer í hönd sá tími þar sem deildir Aftureldingar halda sína aðalfundi, nú er tækifæri til að bjóða sig fram í stjórnir deilda og ráða. Ég tala af eigin reynslu að þó að það sé oft mikið að gera þá er sjálfboðaliðastarfið gríðarlega gefandi og svo kynnist maður mikið af góðu fólki og innviðum félagsins, svo er auðveldara að hafa áhrif á það sem er að gerast. Mig langar að hvetja ykkur kæru félagar til að mæta á þessa aðalfundi og taka þátt, það munar um alla og margar hendur vinna létt verk. Það er mikil fjölgun í iðkendafjölda Aftureldingar á sl. ári og ætti að vera auðsótt að fá nýja foreldra með.
Fram undan eru spennandi tímar, íþróttafólkið okkar er að skara fram úr hvert á sínu sviði með þátttöku í landsliðsverkefnum. Ég er ótrúlega stolt af iðkendum okkar og fékk gleðitár í augun þegar Andri Freyr og María Guðrún voru einnig valin íþróttafólk Mosfellsbæjar. Það er heiður fyrir okkur að eiga svona flottar fyrirmyndir fyrir yngri iðkendur.
Mig langar að lokum að hvetja fólk til að kíkja inn á síðuna okkar www.afturelding.is og skoða viðburðadagatalið og skora á ykkur að mæta á kappleiki. Það er nóg pláss og það er svo hvetjandi og gaman fyrir keppnisfólkið okkar að finna stuðning okkar allra.
Áfram Afturelding!

Birna Kristín Jónsdóttir,
formaður Aftureldingar.

Umhverfisvænna og manneskjuvænna nýtt ár

Rósa Björk Brynjólfsdóttir

Rósa Björk Brynjólfsdóttir

Um áramót lítum við flest um öxl og förum yfir hvað var gott á árinu og hvað var síðra. En með reynslu nýliðins árs í farteskinu er líka tilvalið að velta fyrir sér hvað við viljum sjá gerast á nýju ári.
Mig langar að tæpa á tveimur málaflokkum sem mér standa nærri þótt fleiri málaflokkar skipti mig miklu máli.
Ein af helstu samfélagslegu áskorunum árið 2019 og áranna fram undan eru umhverfismálin. Að við leggjumst öll á eitt til að sporna með öllum ráðum gegn helstu ógn nútímans; loftlagsbreytingum. Í þeim efnum eru næg verkefni. Aðgerðaáætlun í loftlagsmálum sem umhverfisráðherra kynnti á haustþingi er fyrsta skrefið, ekki endastöð en afar mikilvæg verkfærakista. Nauðsynlegt er að verkfærunum sé fjölgað í þágu loftlags og umhverfisins og að stjórnvöld leiði þá vinnu og að við öll komum með í þá vegferð.
Ein af helstu áskorunum í loftlagsmálum er efling almenningssamgangna. Skriður mun loks komast á í þeim efnum með nýgerðu samkomulagi milli ríkisins og sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu um að tryggja fjármagn í undirbúningsvinnu fyrir Borgarlínu árið 2019. Það er mikið fagnaðarefni og mun vonandi takast vel til. Samgönguáætlun verður lögð fram á árinu og afskaplega brýnt er hún verði með eins grænum formerkjum og hægt er og í takti við skuldbindingar okkar í Parísarsamkomulaginu. Að sérstök almenningssamgangnastefna verði útbúin sem fyrst, eins og kveðið er á um í aðgerðaáætlun í loftlagsmálum. Stór verkefni í að sporna gegn loftlagsbreytingunum er að draga úr útblæstri og mengun, búa til hvata til að lifa umhverfisvænna lífi, draga úr óþarfa neyslu, minnka kjötneyslu, að skipulagsmálin sem snerta skipulagsvald sveitarfélaganna sé með umhverfisvænum áherslum og grænni sýn sem er sérstaklega nauðsynlegt fyrir Mosfellsbæ og gleðilega íbúafjölgunina þar. Í þessu getum við öll haft áhrif og vonandi séð árangur okkur og náttúrunni til heilla á næsta ári og árum.
Undir lok árs vorum við minnt rækilega á að við erum ennþá stödd í úrvinnslu #metoo-byltingarinnar sem náði hámarki fyrir rúmu ári. Í þeirri úrvinnslu er ótrúlega mikilvægt að við náum sátt um hvaða viðmið við viljum hafa í heiðri sem samfélag þegar kemur að samskiptum okkar á milli. Engin manneskja á að búa í samfélagi þar sem óæskileg hegðun, niðrandi tal um aðra og kynbundin áreitni eða kynferðisofbeldi er liðið. Við þurfum sem samfélag að leggjast öll á eitt að uppræta niðurlægjandi hegðun og vinna gegn ofbeldismenningu. Stuðla öll að meiri virðingu, nærgætni og vera öll sammála um hversu lífsnauðsynlegt það er að útrýma kynbundinni áreitni, kynbundnu ofbeldi og ofbeldishegðun af hvers kyns toga. Það hlýtur að vera göfugt markmið á árinu 2019.
Ég óska öllum íbúum Mosfellsbæjar gleðilegs nýs árs með kærum þökkum fyrir liðið ár.

Rósa Björk Brynjólfsdóttir,
þingmaður VG í suðvesturkjördæmi.

Getur þú hjálpað þegar á reynir?

Margrét Lúthersdóttir

Margrét Lúthersdóttir

Eitt af mörgum verkefnum Rauða kross deilda er að standa fyrir fjölbreyttum námskeiðum í skyndihjálp. Slys gera ekki boð á undan sér og því er þekking á skyndihjálp mikilvæg fyrir alla.
Sé rétt að skyndihjálp staðið getur hún skipt sköpum og skilið á milli lífs og dauða. Oftast eru það vinir og ættingjar sem koma fyrstir á vettvang þegar einhver slasast eða veikist alvarlega. Stutt skyndihjálparnámskeið getur gert þér kleift að bjarga mannslífi þegar aðstæður kalla á skjóta ákvarðanatöku. Með skyndihjálp má tryggja öryggi og rétt viðbrögð við slysum og áföllum á heimilinu.
Þann 7. febrúar næstkomandi mun deildin standa fyrir námskeiðinu Slys og veikindi barna þar sem tekið er á helstu vörnum gegn slysum á börnum, orsökum slysa almennt svo og þroska barna og aldurstengdum slysum. Þátttakendur fá leiðbeiningar í skyndihjálp við slysum barna og áverkum af ýmsu tagi, endurlífgun barna og andlegum undirbúningi við komu barna á sjúkrahús. Enn eru nokkur pláss laus svo það er um að gera að skrá sig á skyndihjalp.is.
Útbreiðsla skyndihjálparþekkingar hefur verið eitt af meginverkefnum Rauða kross Íslands í meira en 80 ár og á hverju ári sækja um 5.000 manns skyndihjálparnámskeið á hans vegum. 11. febrúar næstkomandi er einnig þekktur sem 112-dagurinn og miðar að því að efla vitneskju landsmanna um mikilvægi skyndihjálpar í slysum og áföllum. Stutt athöfn fer fram í Björgunarmiðstöðinni Skógarhlíð þar sem skyndihjálparmaður Rauða krossins verður einnig tilkynntur. Nánar má kynna sér málið á raudikrossinn.is eða skyndihjalp.is.
Þann 24. apríl verður 4 klukkustunda námskeið í almennri skyndihjálp þar sem farið verður yfir grundvallaratriði í skyndihjálp og endurlífgun. Markmiðið er að þátttakendur verði hæfir til að veita fyrstu hjálp á slysstað og viti í hvaða tilfellum er nauðsynlegt að hringja í 112. Við hvetjum alla til að skrá sig á skyndihjalp.is.
Skyndihjálp skiptir máli.

Fyrir hönd Rauða krossins í Mosfellsbæ,
Margrét Lúthersdóttir, deildarstýra

Hamingjan hefst hjá þér!

Ólöf Kristín Sívertsen

Ólöf Kristín Sívertsen

Það er svo ótal margt sem við getum gert til að efla vellíðan okkar og leggja rækt við okkur sjálf.
Það er löngu vísindalega sannað að nægur svefn er grunnurinn að góðri heilsu og vellíðan. Holl og fjölbreytt næring hefur einnig jákvæð áhrif á líkamlega og andlega líðan okkar og hið sama gildir um hreyfingu. Ekki má svo gleyma mikilvægi þess að eiga í góðum og kærleiksríkum samskiptum við aðra.

Kærleiksvikan 11.-17. febrúar
Kærleiksvikan hefur verið við lýði í Mosfellsbæ allt frá árinu 2010 en markmið hennar er að virkja kærleikann innra með okkur, bæði í garð okkar sjálfra sem og annarra. Nemendur grunnskólanna hafa m.a. hengt kærleiksrík skilaboð á innkaupakerrur í Krónunni og Bónus og boðið hefur verið upp á ýmsa viðburði sem sjá má nánar á „Kærleiksvika í Mosfellsbæ“ á Facebook.

Lífshlaupið
Lífshlaupið, heilsu- og hvatningarverkefni ÍSÍ, hefst 6. febrúar nk. og hvetjum við fyrirtæki, stofnanir og einstaklinga í Mosfellsbæ eindregið til virkrar þátttöku. Mörg lið hafa að sjálfsögðu skráð sig til leiks nú þegar og má þar m.a. nefna bæjarskrifstofuna, Varmárskóla, Lágafellsskóla og FMOS. Í Lífshlaupinu eru landsmenn hvattir til að huga að daglegri hreyfingu sinni og hvernig megi auka hana. Getum við t.d. gengið/hjólað á milli staða í stað þess að nýta bílinn? Getum við gengið stigann í staðinn fyrir að nota lyftuna? Höldum við á börnunum okkar eða leyfum við þeim að ganga/hlaupa?

Meistaramánuður Íslandsbanka
Það er alltaf gott að setja sér markmið í lífinu og þau geta verið alls konar. Veldu þér markmið sem skipta þig máli og hafðu þau SMART. Það þýðir skýr (stutt og laggóð), mælanleg (augljóst hvenær og hvernig árangri er náð), aðlögunarhæf (sveigjanleg), raunhæf (sem þú veist þú getur náð) og tímabundin (settu tímamörk). Gott er að skrifa markmiðin niður, taka eitt skref í einu og gefast ekki upp. Markmiðin geta snúist um samverustundir fjölskyldunnar, að lesa loks bókina sem maður ætlaði alltaf að lesa, leika sér meira úti o.s.frv. Mitt helsta markmið í meistaramánuði er t.d. að fara fyrr að sofa og ná að lágmarki 7 klst. svefni á nóttu.

Það er klárlega ýmislegt skemmtilegt fram undan og fjölmörg tækifæri til að hlúa vel að sjálfum sér. Titill pistilsins er sóttur í einkunnarorð Kærleiksvikunnar í Mosfellsbæ sem eiga alltaf við og því tilvalið að enda á þeim líka því – „Hamingjan hefst hjá þér“!

Ólöf Kristín Sívertsen,
lýðheilsufræðingur og verkefnisstjóri Heilsueflandi samfélags í Mosfellsbæ

Um áramót

Haraldur Sverrisson

Haraldur Sverrisson

Kæru Mosfellingar!
Um áramót er hefðbundið að líta yfir farinn veg, rifja upp og meta hvernig liðið ár hefur gengið og ekki síður að velta fyrir sér hvað bíður okkar á nýju ári.
Árið 2018 var stórt afmælisár hjá okkur Íslendingum. Því var fagnað að 100 ár voru liðin frá því að Ísland fékk fullveldi frá Dönum árið 1918. Margt hefur drifið á daga íslenskrar þjóðar á þessum 100 árum og hún færst úr fátækt í að verða meðal best stöddu samfélaga veraldar. Sú staðreynd sýnir vel hvað býr í íslensku þjóðinni og hvers við erum megnug sem samfélag og þá sérstaklega þegar við stöndum saman. Árið 2018 var líka hagfellt þjóðarbúinu og hagvöxtur hélt áfram að vaxa þó hægt hafi á vexti hans frá síðustu árum.
Verkefni næstu ára verður að vinna af yfirvegun úr þeim mikla uppgangi sem verið hefur í íslensku efnahagslífi síðustu árin og sjá til þess að samdráttur í hagvexti hafi ekki óæskileg áhrif á hagkerfið þannig að lendingin verði mjúk og farsæl. Mikilvæg forsenda þess er að gera skynsamlega kjarasamninga nú í vor. Kjarasamninga sem fela í sér kaupmáttaraukningu en eru þeirrar gerðar að atvinnulífið standi undir þeim og þannig að þeir hrindi ekki verðbólgu af stað. Við höfum verið svo lánsöm að vera laus við þann draug síðustu ár sem er meginástæða þess að kaupmáttaraukning hefur verið í hæstu hæðum hér á landi undanfarin ár.

Í maí sl. var gengið til sveitarstjórnarkosninga. Þær voru að mörgu leyti sérstakar í Mosfellsbæ. Óvenju mörg framboð buðu fram í kosningunum eða samtals átta sem telst mjög mikið í ellefu þúsund manna sveitarfélagi. Þessi fjöldi framboða þýddi meiri dreifingu atkvæða og varð niðurstaðan sú að sex af þessum átta framboðum fengu mann inn í bæjarstjórn. Nú sitja sjö karlar og tvær konur í bæjarstjórn sem eru kynjahlutföll sem eru ekki til eftirbreytni.
Sjálfstæðisfólk getur unað vel við úrslit kosninganna. Sjálfstæðisflokkurinn fékk fjóra menn kjörna í bæjarstjórn en hin framboðin fimm fengu einn mann hvert. Fljótlega að kosningum loknum var gengið frá málefnasamningi um áframhaldandi samstarf Sjálfstæðisfólks og Vinstri grænna í bæjarstjórn. Samstarf sem hefur staðið yfir frá því í maí 2006 og hefur reynst samfélaginu hér í Mosfellsbæ afar farsælt. Við Sjálfstæðisfólk og ég persónulega erum afar þakklát og stolt yfir þeim mikla stuðningi sem við hlutum í kosningunum enda fengum við þar skýrt umboð til að halda áfram að leiða stjórn bæjarins næstu fjögur árin.

Góður gangur í Mosó
Mikill uppgangur er í Mosfellsbæ um þessar mundir. Íbúafjölgun á árinu 2018 var rúmlega 8% og er það annað árið í röð sem íbúafjölgun í Mosfellsbæ fer yfir 8%. Þetta er fordæmalaus vöxtur og lýsir fyrst og fremst vinsældum Mosfellsbæjar til búsetu. Leirvogstunguhverfið er að nálgast það að verða fullbyggt og í Helgafellshverfi heldur uppbygging áfram. Þéttasti hluti þess sem kallast Augað er að verða fullbyggt og áfram verður haldið með næstu áfanga á komandi árum þar sem verður um að ræða dreifðari byggð en í Auganu.
Loks á mikil uppbygging sér stað í miðbænum okkar þar sem rúmlega 200 íbúðir eru í byggingu auk húsnæðis fyrir verslun og þjónustu. Því er fyrirséð að Mosfellingum mun halda áfram að fjölga þó að það verði væntanlega ekki af þeirri stærðargráðu sem hefur verið síðustu tvö árin.
Íbúafjölgun af þessum skala kallar á fjárfestingar og frekari eflingu innviða. Á árinu 2019 verður slegið met í fjárfestingu og þar ber hæst tvö verkefni. Annars vegar bygging Helgafellsskóla en fyrsti áfangi hans var tekinn í notkun nú í vikunni. Hins vegar bygging fjölnota knatthúss að Varmá sem áformað er að taka í notkun næsta haust.
Smærri framkvæmdir eru einnig á áætlun og má þar nefna endurbætur á húsnæði Varmárskóla, útskipting allra gólfefna í íþróttasölum að Varmá og þátttaka í uppbyggingu skíðasvæða höfuborgarsvæðisins m.a. í Skálafelli. Miklar gatnagerðarframkvæmdir eru einnig áætlaðar en gatnagerðargjöld munu standa undir þeim.

Meiri og betri þjónusta en lægri álögur
Fjárhagsáætlun fyrir árið 2019 einkennist af því að þjónusta eykst og álögur lækka. Framtíðarsýn okkar er sú að að Mosfellsbær sé fjölskylduvænt, heilsueflandi og framsækið bæjarfélag sem setur umhverfið í öndvegi og hefur þarfir og velferð íbúanna að leiðarljósi.
Fjárhagsáætlun árisins 2019 er ætlað að endurspegla áherslur sem færa okkur enn nær þessari framtíðarsýn. Efnahagslega, félagslega og umhverfislega sjálfbær vöxtur er lykillinn að því að raungera þessa framtíðarsýn. Nú sem fyrr ríkir gott jafnvægi í rekstri Mosfellsbæjar og allar okkar helstu kennitölur eru þar sem við viljum hafa þær.
Á sviði skóla- og frístundamála verða engar hækkanir á gjaldskrám fyrir utan verðlagshækkun á skólamáltíðum næsta haust og þá munu leikskólagjöld lækka um 5% á árinu 2019. Þá er gert ráð fyrir að komið verði á fót tuttugu nýjum plássum á leikskólum fyrir 12-18 mánaða börn og eru þá orðin samtals um 70 pláss á ungbarnadeildum leikskóla bæjarins. Áfram verður verulegum fjármunum varið til upplýsinga- og tæknimála skólanna sem bæta aðstöðu í grunn- og leikskólum bæjarins. Á sviði fjölskyldumála munu framlög til afsláttar á fasteignagjöldum tekjulægri elli- og örorkuþega hækka um 25% og komið verður á fót heimili fyrir geðfatlaða. Þá mun framlag í lista- og menningarsjóð hækka um 20%. Framlög til viðhalds húsa og lóða bæjarins verða aukin þriðja árið í röð.
Loks stendur fyrir dyrum endurskoðun á aðalskipulagi, lokið verður við mótun umhverfisstefnu og hafist verður handa við mótun lýðheilsu og forvarnarstefnu. Þá verður skólastefnan endurskoðuð. Á sviði miðlægrar þjónustu verður unnið að verkefnum sem lúta að því að sækja fram á sviði rafrænnar þjónustu og stjórnsýslu þvert á skipulag bæjarins í samvinnu við íbúa. Loks verður lýðræðisverkefnið Okkar Mosó sett af stað á nýju ári.

Okkur Mosfellingum eru allir vegir færir og með gildin okkar góðu VIRÐINGU – JÁKVÆÐNI – FRAMSÆKNI og UMHYGGJU sem leiðsögn höldum við áfram að feta veginn með heill og hamingju íbúa í forgrunni.
Ég vil nota tækifærið og þakka ykkur öllum fyrir gott samstarf, samskipti, vináttu og stuðning á árinu 2018 og megi nýrunnið ár verða okkur öllum gæfuríkt og gleðilegt.

Haraldur Sverrisson
bæjarstjóri

Litið yfir heilsuárið 2018

Ólöf Kristín Sívertsen

Ólöf Kristín Sívertsen

Eins og undanfarin ár var ýmislegt spennandi í boði í heilsubænum Mosfellsbæ þegar kemur að heilsueflingu og vellíðan bæjarbúa.

Leikfiminámskeið fyrir 67+
Rannsóknir hafa sýnt mikinn ávinning af fjölþættri líkamsrækt fyrir elsta aldurshópinn og því var ýtt úr vör tilraunaverkefni á vegum Félags aldraðra í Mosfellsbæ (FaMos), Mosfellsbæjar og World Class nú á haustmánuðum.
Öllum Mosfellingum 67 ára og eldri var boðið að kaupa þriggja mánaða kort með góðum afslætti í World Class og réð Mosfellsbær sérstaka íþróttakennara til að halda utan um hópinn. Þetta tilraunaverkefni tókst svo vel að það mun verða framhald á.

Gulrótin 2018
Heilsudagurinn var haldinn í lok maí og hófst með hressandi morgun­göngu í samstarfi við Ferðafélag Íslands. Einnig var blásið til glæsilegs málþings í Listasalnum þar sem við heyrðum m.a. af áhugaverðum heilsuverkefnum í skólum bæjarins og kynntumst síðan (góð)mennsku, góðum samskiptum, siðum og framkomu að hætti Bergþórs Pálssonar og Alberts Eiríkssonar. Síðast en ekki síst var Gulrótin, lýðheilsuviðurkenning Mosfellsbæjar, afhent í annað sinn.
Verðlaunahafarnir voru Guðjón Svansson og Vala Mörk en þau hafa svo sannarlega látið sig heilsu og vellíðan varða, m.a. með rekstri Kettlebells Iceland, og þykja einstaklega hvetjandi, áhugasöm, fagleg og flottar fyrirmyndir þegar kemur að heilsusamlegum lífsstíl.

Fjölskyldutímar að Varmá
Þetta frábæra verkefni hefur verið við lýði síðan árið 2015 og er óhætt að segja að það hafið notið einstakra vinsælda hjá fjölskyldum í Mosfellsbæ.
Um er að ræða opna tíma á sunnudagsmorgnum yfir vetrartímann fyrir alla fjölskylduna þar sem horft er sérstaklega til grunnskólanemenda. Að tímum loknum er svo frítt í Varmárlaug fyrir alla fjölskylduna og hvetjum við Mosfellinga til að nýta þetta kostaboð og skemmta sér saman.

Hreyfivika UMFÍ
Við tókum að sjálfsögðu þátt í þessu verkefni eins og síðustu ár og það er skemmst frá því að segja að dagskráin var stórglæsileg og þátttakan hefur aldrei verið betri. Hjartans þakkir Mosfellingar!

Lýðheilsugöngur FÍ
Ferðafélag Íslands stóð fyrir Lýðheilsugöngum á landsvísu alla miðvikudaga í september og hér í bæ var gengið frá Reykjalundi undir leiðsögn heimamanna. Óhætt er að segja að Mosfellingar hafi tekið þessu framtaki vel og stóðu göngugarpar bæjarins svo sannarlega undir merkjum.

Hér hefur verið stiklað á stóru og hlökkum við til þess sem árið 2019 mun bera í skauti sér. Við þökkum ykkur fyrir frábært samstarf og velvilja og óskum ykkur heilbrigði og gleði á nýju ári.

Ólöf Kristín Sívertsen,
lýðheilsufræðingur og verkefnisstjóri Heilsueflandi samfélags í Mosfellsbæ

Áramótaheit!

Berta Þórhalladóttir

Berta Þórhalladóttir

Gleðilegt nýtt ár kæru Mosfellingar. Árið 2019 er gengið í garð og byrjar dásamlega.
Það er ekkert betra en að fara út að skokka í 8 stiga hita í janúar en ég var einmitt að koma af minni fyrstu hlaupahópsæfingu hjá henni Höllu Karen í World Class.
Eru allir búnir að setja sér áramótheit? Eða markmið fyrir árið 2019? Hver kannast ekki við að gefast upp á þeim? Ég hef alla vega gert það nokkrum sinnum og hef ætlað mér allt of mikið og sprungið. Ég er þó hér enn og er alltaf að læra, maður getur nefnilega alltaf gert betur. Mig langar til að deila með ykkur nokkrum punktum varðandi hreyfingu í von um að það veiti ykkur hvatningu á nýju ári.
1. Hugsum um hreyfingu til langtíma ekki skammtíma – við þurfum ekki að sigra heiminn í janúar. Byrjum smátt og aukum álagið jafnt og þétt yfir árið. Ef við ætlum okkur um of eru meiri líkur á að við gefumst upp.
2. Veldu hreyfingu sem þér þykir skemmtileg og vertu dugleg/ur að prófa nýja hluti til að finna hvað það er sem þér þykir skemmtilegt. Það er ýmislegt sem flokkast undir hreyfingu eins og að ganga, dansa, spila fótbolta, stunda garðyrkju og hjóla til vinnu. Þegar þú ert að koma þér í gang er mikilvægt að velja eitthvað sem er skemmtilegt svo hvatinn verði meiri.
3. Öll hreyfing er af hinu góða og við þurfum ekki alltaf að sprengja okkur á hverri æfingu. Það er mikilvægt og gott að hugsa „ætla ég að vera íþróttamaður í 10 ár eða 40 ár?“
4. Skiptu hreyfingunni þinni upp. Það er hægt að hreyfa sig í 30 mín á dag í nokkrum pörtum af degi, sem dæmi 10 mín ganga til vinnu, smá göngutúr í hádeginu og svo að vinnu lokinni.
5. Ef þú ert óörugg/ur í líkamsræktarstöð, fáðu þér þjálfara eða bókaðu tíma hjá þjálfara t.d. Ölfu eða Ella í tækjakennslu. Við erum hér til þess að hjálpa ykkur.
6. Göngutúr er ágætis hreyfing sem gerir helling fyrir líkama og sál. Hann þarf ekki að vera langur heldur er það að komast í návígi við náttúruna það sem skiptir sköpum. Reyndu þó að labba rösklega eða auka hraðann á ákveðnum köflum, hægt og bítandi eykst þolið.
7. Fáðu vin/vinkonu með þér í lið, það er hvatning að mæla sér mót við einhvern.
8. Skráðu þig í tíma, þá hefur þú tekið ákvörðun um að þú ætlir að mæta.
9. Verðlaunaðu sjálfa/n þig þegar þú stendur þig vel eða hefur náð settu markmiði.
Fögnum nýju ári með gleði og höfum gaman af þeirri hreyfingu sem við veljum okkur.

Berta Þórhalladóttir
Kennir tabata í World Class Mosó
á þriðjudögum og fimmtudögum kl: 18:20.

Nýárskveðja frá sunddeildinni

Jón Ágúst Brynjólfsson

Jón Ágúst Brynjólfsson

Við hér í Mosfellsbæ eigum tvær frábærar sundlaugar. Annars vegar Lágafellslaug sem er ein vinsælasta sundlaug höfuðborgarsvæðisins og hins vegar gamla góða Varmárlaug sem er falinn demantur.
Hér er unnið mjög metnaðarfullt starf innan sunddeildar Aftureldingar við afreksþjálfun í sundi. Deildin mun í vor einnig bjóða upp á námskeið í skriðsundi fyrir fullorðna og þannig stuðla að því að efla íþróttaiðkun almennings í Mosfellsbæ.

10 ástæður fyrir því að þú ættir skella þér í laugina og rifja upp gamla takta úr sundkennslu í grunnskóla.
1. Eykur liðleika – Sund er mjúk hreyfing sem setur lítið álag á bein og liðamót. Í sundlaugum hér á landi þar sem vatnið er allt frá 27–30 gráður þá ná vöðvarnir góðri slökun og hjálpar þér að teygja á mikilvægum vöðvum. Ef þú ert mikið fyrir það að hlaupa eða hjóla þá er sund tilvalin íþrótt til að slaka á eftir erfiða æfingu og hjálpa þér að hreinsa líkamann og losa um stífleika.
2. Brennsla – Klukkustundar sund á rólegu tempói brennir allt að 500 kcal. Sund eykur grunnbrennsluna og heldur áfram að brenna eftir æfingar.
3. Bætir vöðvasamræmi – Þegar þú syndir þá notar þú yfir 2/3 vöðva líkamans í það að koma þér áfram. Þú notar hendur, fætur, búkinn og höfuð og þarft að láta alla þessa vöðva vinna saman til þess að finna hið fullkomna jafnvægi til þess að njóta sundsins.
4. Bætir líkamsstöðuna – Sund styrkir liðamót og bætir líkamsstöðuna með því að rétta úr hryggjasúlunni. Sund er því tilvalið fyrir fólk sem er með alls kyns bakvandamál.
5. Sund er fyrir ALLA – Börn allt niður í 3 mánaða hafa möguleika á sundkennslu og fólk sem er 100 ára syndir. Um leið og þú kemur ofan í vatnið þá verður líkaminn þinn léttur, mjúkur og það skiptir ekki máli hversu gamall eða gömul þú ert, líkamanum líður rosalega vel í vatni og þú í kjölfarið finnur til slökunar. Hversu gott væri að ná þeirri tilfinningu á hverjum degi?
6. Fullkomin líkamsrækt – Sund er tilvalin íþrótt til þess að móta líkamann. Þú þarft ekki á þungum lóðum að halda, þú þarft ekki að kaupa rándýran íþróttafatnað. Eina sem þarf er líkaminn, sundfatnaður og sundlaugin.
7. Fulllkomin þolíþrótt – Sund talin ein fullkomnasta loftháða íþrótt sem til er. Ólíkt hlaupum þá þartu að stjórna öndun þinni mun meira í sundi sem kallar á meira súrefni til vöðvana, lætur þá vinna meira fyrir súrefninu án þess að þú takir eftir því. Sund styrkir einnig hjartavöðvann, stækkar það og gæðin í hverri pumpu verða betri sem leiðir til betri blóðrásar.
8. ALLA ÆVI – Sund er íþrótt sem þú þarft aldrei að segja skilið við. Sund er íþrótt sem er til staðar fyrir þig alla ævi og þú getur stundað hana á hverjum degi.
9. Endurhæfing – Ertu að jafna þig eftir meiðsli, slæm/ur í hnjám og þarft hvíld frá sífelldum höggum frá gangstéttinni? Sund er tilvalið til að viðhalda úthaldi og styrk. Með góðri þjálfun 3x í viku getur þú viðhaldið úthaldi og styrk í allt að 8 vikur á meðan þú jafnar þig af meiðslum.
10. Minnkar stress – Í sífellt hraðari heimi verður fólk stöðugt meira stressað. Það er margsannað að sund getur bætt skapgerð og minnkað stress hjá fólki. Það að skella sér í laugina eftir langan vinnudag dregur úr stressi og þú nærð fullkominni slökun á líkama og sál.
Birt með leyfi höf.: Guðmundur Hafþórsson, yfiþjálfari sundfélagsins Ægis

Kær sundkveðja, Jón Ágúst Brynjólfsson, formaður sunddeildar Aftureldingar

Gefum okkur tíma

Ólöf Kristín Sívertsen

Ólöf Kristín Sívertsen

Það er auðvelt í amstri hversdagsins að detta í sjálfstýringuna og sérstaklega í kringum hátíðirnar. Mikilvægt er að við gefum sjálfum okkur þá gjöf að staldra við, draga djúpt andann og taka inn augnablikið. Upplifa og njóta líðandi stundar.

Veitum athygli
Allt sem við veitum athygli vex og dafnar. Veitum börnunum okkar óskipta athygli, hlustum á þau, verum áhugasöm og tökum virkan þátt í lífi þeirra. Þannig veitum við þeim gott veganesti út í lífið og munið líka að við fullorðna fólkið erum þeirra helstu fyrirmyndir. Veitum sjálfum okkur athygli, leyfum okkur að njóta og slaka á. Við þurfum ekki að gera allt í einu, einbeitum okkur að því sem við erum að gera þá stundina og veitum því athygli. Finnum fyrir eigin líðan og tilfinningum án þess að dæma.

Lifum og njótum
Gefum okkur tíma með sjálfum okkur þar sem við fjarlægjum okkur frá áreiti hvers konar. Við getum t.d. farið í göngu, fundið hvernig veðrið leikur við andlitið, andað að okkur hreina loftinu, upplifað fegurð náttúrunnar, hvernig við segjum skilið við áhyggjur og byggjum upp nýja orku innra með okkur. Hlustum á ástvini okkar og veitum þeim óskipta athygli án þess að koma með ráð, stundum þarf nefnilega bara einhvern til að hlusta. Skipuleggjum samverustundir með fólkinu okkar, gerum eitthvað skemmtilegt og ekki er verra að hlæja saman.

Gerum góðverk
Góðverk er hægt að gera á margvíslegan hátt, allt eftir efnum og aðstæðum hverju sinni. Gefum af sjálfum okkur, við höfum öll ýmislegt að gefa. Ræktum ástvini okkar og heimsækjum og/eða spjöllum við þá sem eru einmana. Við getur látið eitthvað af hendi rakna til þeirra sem minna hafa á milli handanna. Aðstoðum aðra, þarf ekki að vera meira en að halda hurð opinni! Bjóðum góðan daginn og brosum – góðverk þurfa nefnilega ekki að kosta neitt en gleðja bæði þann sem nýtur og þann sem gefur.

Á þessum nótum óskum við, sem stöndum að Heilsueflandi samfélagi í Mosfellsbæ, ykkur gleðilegra jóla og hamingju og gleði á komandi ári um leið og við þökkum hjartanlega fyrir samstarfið á liðnu ári. Lifið heil!

Ólöf Kristín Sívertsen, lýðheilsu­fræðingur og verkefnisstjóri
Heilsueflandi samfélags í Mosfellsbæ

Jákvæð þróun að Varmá

Birna Kristín Jónsdóttir

Birna Kristín Jónsdóttir

Árið 2018 leyfi ég mér að segja að sé búið að vera farsælt ár hjá Aftureldingu. Margt gott hefur áunnist í félaginu okkar, árangur innan allra þeirra 11 deilda sem við höfum starfandi er gríðarlegur.
Við höfum unnið marga titla og líka stundum verið nálægt því að vinna titla. Enn fremur hefur iðkendum okkar fjölgað töluvert á árinu og alltaf bætast við nýir sjálfboðaliðar því það segir sig sjálft að það þarf margar hendur til að vinna það öfluga uppeldis- og afreksstarf sem fer fram í fjölgreinafélagi eins og Aftureldingu með tæplega 1.300 iðkendur.
Við getum verið stolt af því í Aftureldingu hversu margir leggja hönd á plóg, en rannsóknir sýna afgerandi að þátttaka í skipulögðu íþróttastarfi hefur ýmis jákvæð áhrif á líðan og hegðun barna og ungmenna. Þau sem taka þátt í formlegu íþróttastarfi fá útrás fyrir hreyfiþörf sína og eru líklegri til að sleppa notkun á áfengi, tóbaki og öðrum vímuefnum. Jafnframt eru þau líklegri til að vera heilsuhraustari og líða betur andlega, líkamlega og félagslega en þau börn sem ekki taka þátt í starfinu.

Uppbygging hafin á fjölnota íþróttahúsi
Samhliða fjölgun iðkenda þarf meira rými til æfinga og búnaður og mannvirki láta á sjá eðli málsins samkvæmt. Það er því mjög ánægjulegt að geta sagt frá þeirri miklu uppbyggingu og viðhaldi sem nú er í gangi og er fram undan.
Í haust var byrjað á byggingu fjölnota íþróttahúss sem verður mikill munur fyrir knattspyrnudeild en þar hefur iðkendum fjölgað um tæp 20% á árinu. Aðstaðan okkar var löngu sprungin og bætast þarna við þeir fermetrar af æfingasvæði sem hefur vantað. Ekki skemmir fyrir að geta tekið eina og eina æfingu innanhúss þó að fyrsta val knattspyrnufólks leyfi ég mér að fullyrða sé alltaf að æfa utandyra.
Báðir meistaraflokkarnir okkar í knattspyrnu munu spila í næstefstu deild næsta tímabil. Ljóst er að við notum gervigrasvöllinn ekki óbreyttan og á dögunum funduðum við fulltrúar Aftureldingar og Mosfellsbæjar með KSÍ og eru þau atriði sem þar þarf að laga komin í ferli. Inni í íþróttahúsinu að Varmá er um þessar mundir verið að skipta út dúk á gólfinu í sal 3 sem verður mikil bragarbót fyrir þær greinar sem þar æfa og keppa.
Í vor er svo fyrirhugað að skipta út gólfinu í sölum 1 og 2 þegar skólum og vetrarstarfi lýkur. Búningsaðstaðan þarf að fylgja með þar sem mikil fjölgun hefur orðið í félaginu síðan húsið var byggt og stendur yfir sameiginleg vinna Mosfellsbæjar og Aftureldingar að finna út hver þörfin er og koma með lausnir þar á.

Sofnum ekki á verðinum
Ljóst er að mörgu hefur verið hrint í framkvæmd og enn önnur verkefni komin í farveg. Við þurfum að vera vakandi yfir því að þessum viðhaldsverkefnum lýkur aldrei. Við þurfum stöðugt að vinna að því að efla starfið okkar og styrkja aðstöðuna ekki síst vegna þess að kröfurnar breytast líka mjög hratt. Völlur sem kannski þótti einn af þeim bestu fyrir 10 árum síðan er úreltur í dag.
Þetta er hluti af starfinu og þetta er það áhugaverða við starf íþróttafélaganna þ.e. þessar sífelldu breytingar og framfarir. Við í aðalstjórn og bæjaryfirvöld þurfum að passa okkur að sofna ekki á verðinum um hagsmuni þess öfluga starfs sem unnið er í félaginu okkar.
Milli jóla og nýárs verður svo einn skemmtilegasti viðburður félagsins en þá verðlaunum við framúrskarandi iðkendur og sjálfboðaliða. Það er alltaf jákvætt og skemmtilegt að sjá og upplifa svo magnaða uppskeru.
Mig langar að þakka ykkur öllum samstarfið á árinu og hlakka til framhaldsins.

Með jólakveðju,
Birna Kristín Jónsdóttir, formaður Aftureldingar

Jólaljós og lýsing fyrir börnin, eldri borgara og okkur öll

Þórunn Magnea Jónsdóttir

Þórunn Magnea Jónsdóttir

Á aðventunni skreytum við hús okkar og önnur hýbýli, við lýsum upp tilveruna og skammdegið með fögrum litríkum jólaljósum. Þau veita okkur gleði og við fögnum hvert okkar þessum frítíma fjölskyldurnar í friði og ró.
Öll þurfum við ljós í líf okkar og það skiptir málið þegar skamm­degi ríkir að við getum lýst upp bæði hjörtu okkar sem og næsta nágrenni, götur, stíga og skuggasund hvers konar. Við viljum slá skjaldborg um börnin, eldri borgara og þá sem minna mega sín.
Allir þurfa ljós og umfjöllun um lýsingu í Mosfellsbæ hefur verið ítarleg síðustu ár og sérstaklega varðandi gönguleiðir barna í og úr skóla sem og við skólabyggingar. Innakstur við skóla og umferðarþungi í bænum hefur aukist umtalsvert síðustu ár án þess að átak hafi verið gert varðandi lýsingu bæði í næsta nágrenni skólamannvirkja og á þeim leiðum sem börn fara um, gangandi eða hjólandi.

Það sorglegasta sem komið getur fyrir er að aðeins eitt alvarlegt umferðaratvik verði til þess að vekja okkur upp og vonandi að nýlegur atburður hér í bænum geti vakið fleiri en foreldra upp af værum svefni nú í skammdeginu. Það nægir ekki að skreyta bæ ljósum ef lýsingin fyrir börnin sem og aðra er ekki fullnægjandi.
Lengi vel hefur verið bent á göngustíga á milli húsa í mörgum hverfum Mosfellsbæjar og önnur skuggasund sem eru ekki nægjanlega upplýst þannig að eldri borgarar eiga erfitt með að fóta sig og finna örugga leið. Það er afskaplega mikilvægt að bæta þarna úr og gæta að því að fólk geti bjargarlaust komist á milli staða án þess að þurfa að búa sig sérstaklega með mikinn ljósabúnað til þess eins að komast á milli staða í sínu hverfi eða til starfa, hvort sem er í skóla eða í daglegu lífi sínu. Vil ég því upplýsa fólk um þessa afstöðu mína og vilja til að bætt verði þarna úr.

Ég vil einnig leggja áherslu á að þetta er eitt af þeim málum sem Miðflokkurinn hefur bent á og má þá helst nefna athugasemd vegna lýsingar við Skeiðholtið þar sem dróst nokkuð lengi í haust að koma á lýsingu áður en skólar hófust. Þar var gripið í taumana sem betur fer en það er mun meira sem eftir er að bæta úr eins og bent hefur verið á. Við búum í fallegum bæ sem er fullur af ævintýrum og frábærum börnum. Njótum þess og leitum einnig logandi ljósum að lausnum til framtíðar fyrir þau sem aðra.

Að lokum vil ég þakka allan stuðninginn sem Miðflokkurinn fékk í síðustu sveitastjórnarkosningum. Óska ég öllum Mosfellingum gleðilegra jóla og farsældar á komandi ári. Megum við öll líta björtum augum til framtíðar og njóta alls þess besta á nýju ári.

Þórunn Magnea Jónsdóttir,
varafulltrúi Miðflokksins í skipulagsnefnd, bæjarráði og bæjarstjórn Mosfellsbæjar