Andlegt ferðalag

andlegtÍ lífi manna gengur mismikið á en hjá flestum safnast upp, með tímanum, atvik og tilfinningar sem erfitt getur verið að vinna úr. Sumt er meðvitað en annað ómeðvitað og því oft mjög erfitt að átta sig á því.

Ég er þarna engin undantekning og eftir því sem leið á, fann ég að eitthvað var ekki eins og það átti að vera. Eitthvað hafði slökknað innra með mér. Ég hélt samt áfram því ég þurfti að sjá fyrir mér og mínum! Það kom svo að því að ég varð algerlega uppgefinn. Ég var orðinn ómeðvitaður um eigin tilfinningar og þarfir, mér leið eins og ég væri tilfinningalaus! Gleðin var horfin úr lífi mínu og ég vissi ekki hvað ég vildi eða þurfti. Mér fannst fólk ráðskast með mig, bæði persónulega og í vinnu. Þó ég hefði einhverjar skoðanir stóð ég ekki á þeim heldur flaut bara með. Ég hafði lítið sjálfsálit og dæmdi mig hart ef eitthvað gekk ekki eins og ég vildi. Mér leið ekki vel og einangraði mig og sinnti í engu mínum eigin þörfum. Mér fannst ég hafa misst stjórnina á lífinu.

Dag einn hitti ég gamlan vin sem greinilega tók eftir breytingu á mér og kannaðist við ástandið því hann fór að segja mér frá hvernig hann hafði endurskoðað líf sitt með aðferðum 12 sporanna. Með því hafði hann náð tökum á lífi sínu á ný. Hann lýsti því hvernig það að skoða líf sitt á þennan hátt, fékk hann til að koma auga á ýmislegt sem betur mátti fara. Á einum vetri hefði hann náð góðum tökum á lífi sínu á ný. Hann hafði tileinkaði sér nýjan lífsstíl þar sem hann notar aðferðir 12 sporanna til að tækla lífið og tilveruna. Með því var hann nú orðinn sáttur við líf sitt, sig og sína.
Vinur minn hvatti mig til að koma með sér á sporafund hjá Vinum í bata og athuga hvort ég finndi þar leið fyrir mig. Ég varð hissa því ég hélt að 12 sporin væru eingöngu fyrir þá sem ættu við áfengis- eða fíkniefnavanda að stríða.
Það er skemmst frá því að segja að ég sló til og fór í 12 sporin og get nú ekki hugsað mér lífið án þeirra. Með hjálp sporanna tileinkaði ég mér nýjan lífsstíl sem gerði mér kleift að ná tökum á lífinu, finna gleðina á ný og lifa í sátt við sjálfan mig og aðra.

Vinir í bata er hópur karla og kvenna á öllum aldri sem hafa tileinkað sér Tólf sporin til að vinna úr sínum málum, hvort sem er úr fortíð eða í nútíð.

Kynningar fundurinn verður í safnaðarheimili Lágafellskirkju að Þverholti 3, í kvöld fimmtudag kl. 19 og fimmtudagskvöldið 25. október, kl. 19. Það er síðasta tækifærið til að slást í hópinn þennan veturinn því eftir það verður hópnum lokað og hin eiginlega 12 spora vinna hefst.

Bestu kveðjur
Vinur í bata

Skólastarf, viðhald og það sem ekki fæst keypt

Kolbrún Guðný Þorsteinsdóttir

Kolbrún Guðný Þorsteinsdóttir

Þeir sem fylgdust með kosningum sl. vor tóku kannski eftir því að mikið var ritað og rætt um skólana okkar og þá sérstaklega Varmárskóla.
Það hafa allir skoðanir á skólum, skólastjórum og kennurum enda varðar skólinn allar fjölskyldur. Mörg orð vorum látin falla og stundum efast ég um að þau orð hafi verið öll til gagns. Ég veit þó að allir höfðu það markmið að leiðarljósi að bæta skólana okkar. Allir vilja bæta skólasamfélagið og lífið heldur áfram.
Nýtt skólaár er að hefja göngu sína og á ég fáar óskir heitari en þær að allt gangi vel og öllum líði vel. Sem formaður fræðslunefndar mun ég leggja mig alla fram við að styðja við skólasamfélagið í Mosfellsbæ af heilum hug.

Aukið fjármagn í innra starf og húskroppa
Bæjaryfirvöld í Mosfellsbæ hafa ávallt haft skólamálin í forgangi enda er þetta stærsti og mikilvægasti málaflokkurinn okkar. Sannarlega hefur íbúum í Mosfellsbæ fjölgað mikið á síðustu árum enda veit fólk að það er gott að ala upp börn í Mosfellsbæ. Við gerð fjárhagsáætlunar undanfarinna ára hefur fjármagn til skólanna verið aukið til muna. Það var gert um leið og fjárhagur vænkaðist.
Öll sveitarfélög eru að auka fjármagn til sinna skóla hvort sem það er í skólastarfið sjálft eða í húskroppana. Hvort tveggja þarf að vera í lagi. Í kjölfar kjarasamninga kennara var settur á laggirnar rýnihópur úr hópi kennara sem skrifaði lista um hvað vantaði og hvað þyrfti að bæta svo skólastarfið gengi betur. Sá listi fór inn í fjárhagsáætlun og er nú unnið samkvæmt listanum til að mæta óskum kennara.

Viðhald á skólunum
Allt viðhald á skólunum og öðrum stofnunum Mosfellsbæjar er í umsjón umhverfissviðs. Þar eru gerðar áætlanir um viðhald og viðgerðir undir vökulum augum sérfræðinga. Komi upp grunur hjá stjórnendum stofnana um skemmdir á skólahúsnæði þá fara málin í ákveðið ferli og húsnæðið lagað.
Grunur kom upp um rakaskemmdir í Varmárskóla og var í kjölfarið gerð úttekt á húsnæðinu af sérhæfðri verkfræðistofu og í kjölfarið farið í lagfæringar á húsnæðinu. Viðhald og endurbætur á húsnæði bæjarins er verkefni sem sífellt er í gangi.

Það mikilvægasta
Að lokum langar mig að nefna það sem hvorki fæst keypt né lagað af sérfræðingum í viðhaldi bygginga en það eru samskiptin, umhyggjan, þolinmæðin, umburðarlyndið og gagnkvæm virðing. Jafnvel í fullkomnum heimi þar sem til væri nóg af peningum og allt til alls, ef þetta vantaði væri skólastarfið farið fyrir lítið.
Ég veit sem kennari til margra ára að kennarastarfið er ekki auðvelt og oft reynir á í samskiptum við nemendur og foreldra. Það er markmið okkar sem komum að skólamálum í Mosfellsbæ að styðja við skólamenninguna svo öllu starfsfólki, kennurum og nemendum líði vel í sátt og samlyndi hvert við annað. Þannig eiga skólarnir okkar að vera og þannig náum við árangri saman.

Kolbrún G. Þorsteinsdóttir
formaður fræðslunefndar

Framtíðin veltur á því sem þú gerir í dag

Lóa Björk Kjartansdóttir

Lóa Björk Kjartansdóttir

Kannastu við þvala lófa, öndunarerfiðleika og jafnvel öran hjartslátt þegar athyglin beinist að þér?
Flestir finna fyrir kvíðaeinkennum þegar þeir standa upp og tjá sig á fundum. Staðreyndin er sú að mjög reyndir ræðumenn finna margir fyrir kvíða þegar þeir tala fyrir framan hóp af fólki. Því hefur jafnvel verið haldið fram að fólk óttist dauðann minna en að tala opinberlega.

Það er eðlilegt að vera taugaóstyrkur og það veldur því að við erum aðeins á tánum. Við erum líklegri til að undirbúa okkur þannig að vel takist til þegar við finnum fyrir fiðrildum í maganum. Ef maður er of afslappaður og ákveður að þetta reddist allt saman þá er maður ekki tilbúinn þegar á hólminn er komið.

Okkur finnst vont að vera kvíðin og taugaóstyrk, þá er ágætt að vita að auðvelt er að hafa stjórn á þessum tilfinningum. Markmiðið er að hafa stjórn, ekki að komast alveg yfir taugaóstyrkinn. Gott er að hafa í huga hvað það er sem veldur kvíðanum. Erum við hrædd við áheyrendur? Þeir eru bara venjulegt fólk. Erum við hrædd um að ræðan okkar sé ömurleg, eða að spurningin sem við viljum bera upp hallærisleg? Eða erum við hrædd við það óþekkta, verð ég kjánaleg, flækist ég í snúru á leiðinni í pontu? Get ég svarað öllum spurningum?
Þegar við tökumst á við þennan ótta og skiljum hvað það er sem veldur honum þá undirbúum okkur í samræmi við það. Það versta sem við gerum er að hætta við allt saman, sitja bara heima og segja ekki neitt.

Á fundum hjá Korpu mætir fólk og þjálfar sig í að takast á við þessar aðstæður. Það undirbýr erindi sín vel, bæði skrifin og flutning. Það finnur oft fyrir kvíða þegar það mætir og þegar það stendur upp og tjáir sig eða flytur ræður. En satt að segja þá sést það yfirleitt ekki á fólki, þeir sem á hlýða greina sjaldnast mikinn taugaóstyrk hjá þeim sem tala. Því fólk hefur undirbúið sig. En fólk undirbýr sig ekki bara heima áður en það mætir.

Hluti af góðum undirbúningi er t.d. að kynna sér salinn þar sem það ætlar að tala. Koma snemma og kynna sér umhverfið, passa að hljóðneminn sé ekki til vandræða, verði hann notaður. Ákveða fyrirfram hvaða leið best sé að ganga í ræðustól. Ef það á að nota skjávarpa, tölvu eða önnur tæki þá er gott að prófa allt slíkt áður en fundur hefst og vera viss um að allt virki áður en kemur að flutningi. Allur svona undirbúningur minnkar líkur á vandræðagangi og eykur öryggi flytjanda.

Það er alltaf gott að minna sig á að áheyrendur eru ekki komnir til að horfa á þig mistakast, þeir vilja í raun gjarnan að þér takist vel til, þeir eru með þér í liði. Það er eins með þetta og allt annað, reynslan byggir upp sjálfstraust og það er lykillinn að góðum ræðuflutningi og þátttöku á fundum.
Hjá Korpu færðu endalaus tækifæri til að þjálfa framkomu, ræðuflutning og almennt að tjá þig í hóp. Þar viðheldur fólk bæði þekkingu og þjálfun með því að mæta á fundi allan veturinn og bætir í reynslubankann með þátttöku í skemmtilegu starfi.

Fundir Korpu eru 1. og 3. miðvikudag í hverjum mánuði klukkan 20:00, í Safnaðarheimili Lágafellssóknar, Þverholti 3 á 2. hæð. Allir eru velkomnir á fundi og vel er tekið á móti gestum. Frekari upplýsingar um starfið má finna á powertalk.is
Næstu tveir fundir verða miðvikudaginn 3. október og miðvikudaginn 17. október klukkan 20.00. Ég hvet þig til að mæta og láta ekki kvíðann stjórna þér.

Lóa Björk Kjartansdóttir
Ritari Korpu 2018-2019

Til hamingju Afturelding! Til hamingju Mosfellsbær!

Stúkan á gervigrasvellinum var þétt setin á öllum leikjum í sumar

Stúkan á gervigrasvellinum var þétt setin á öllum leikjum í sumar.

Hanna Símonardóttir

Hanna Símonardóttir

Meistaraflokkur karla í knattspyrnu náði þeim frábæra árangri um helgina að sigra í 2. deildinni og þar með tryggja sér sæti í Inkasso-deildinni 2019. Stelpurnar héldu sér í Inkasso í ár og 3. flokkur karla varð Íslandsmeistari á dögunum.
Eftir uppskeru sem þessa er heldur betur ástæða til að líta um öxl og velta síðustu áratugum í starfi knattspyrnudeildar aðeins fyrir sér. Hjá mér er einkum tvennt sem kemur upp í hugann:
Annars vegar er það hversu magnað starf er unnið af þó allt of fáum sjálfboðaliðum í þágu allra bæjarbúa, og hins vegar er það aðstaðan sem starfið býr við.

Aðstaða 1960 og 2018
Árið 1959 þegar malarvöllur var vígður var íbúafjöldi í Mosfellssveit liðlega 700 manns. Knattspyrnuiðkendur höfðu þá sambærilega aðstöðu og þá sem best þótti á þeim tíma; malarvöll í fullri stærð.
Árið 2018 þegar íbúafjöldi er kominn yfir 11.000 er aðstaðan sem boðið er upp á til knattspyrnuiðkunar einn gervigrasvöllur. Breytingin hjá félögum almennt frá 1970 er að gervigras hefur leyst malarvelli af hólmi.
Staðreyndin sem við búum við í okkar ágæta Mosfellsbæ er því að einn knattspyrnuvöllur árið 1960 þjónaði um 700 íbúum en í dag yfir 11.000 íbúum.
Knattspyrnuiðkendur í Mosfellsbæ í dag eru um 600 talsins. Dag eftir dag eru yfir 130 börn á æfingu á þessum eina velli okkar á sama tíma. Það gefur auga leið að plássleysið á þeim æfingum er gríðarlegt. Ef einn af flokkunum á mótsleiki þá falla æfingar niður hjá allt að 250 iðkendum þann daginn.
Gervigrasið ætti að vísu ekki að vera svona þétt setið nema níu mánuði á ári því á sumrin höfum við Tungubakkana líka. Þeir þóttu á árum áður hinir myndarlegustu vellir, en staðreyndin er sú að fæstir flokkar innan knattspyrnudeildar Aftureldingar vilja æfa þar lengur á sumrin, heldur berjast um æfingatíma á gervigrasinu.
Nánast ekkert hefur verið gert í viðhaldi valla á Tungubökkum síðustu áratugi og eru þeir orðnir svo ósléttir að gæði æfinga jafnast á við gæðin fyrir 50 árum á megninu af svæðinu. Ef iðkendum fjölgar áfram eins og verið hefur má búast við að takmarka þurfi aðgengi barna að knattspyrnuæfingum vegna skorts á æfingaaðstöðu, það yrði nú saga til næsta bæjar ef sú staða kæmi upp í heilsueflandi bænum Mosfellsbæ.

Fögur fyrirheit en fátt um efndir
Hversu oft hef ég, sjálfboðaliði til yfir 20 ára, farið vongóð heim af fundum höldnum af Aftureldingu og/eða Mosfellsbæ varðandi úrbætur í aðstöðumálum? Ég hef ekki tölu á þeim en finnst lítið sem ekkert hafa áunnist þrátt fyrir fögur fyrirheit.
Aðstöðuleysið, sem er óumdeilanlegt, hefur þau áhrif að erfiðara er að fá sjálfboðaliða til að taka að sér verkefni þar sem enginn hlutur á sér samastað. Slegist er um hvern krók og kima til allra hluta bæði tengdum æfingum og félagsstarfi. Ætli vangaveltur um aðstöðuleysi í klefa- og félagsmálum sé ekki efni í næstu grein hjá mér hér í Mosfellingi? Í þessari umræðu má þó ekki gleyma því að starfsfólkið í íþróttamiðstöðvunum og á skrifstofu Aftureldingar á hrós skilið fyrir að vera ávallt boðið og búið til að aðstoða.
Lokaniðurstaðan eftir samanburð á vallaraðstöðu 1960 og í dag er sú að einn völlur sem dugði 700 íbúum til knattspyrnuiðkunar þá, á að duga fyrir rúmlega 11.000 íbúa í dag. Er ekki eitthvað bogið við það?
Gleðilegt komandi Inkasso-sumar, vonandi í bættri aðstöðu.

Hanna Sím. – sjálfboðaliði í rúm 20 ár.

Orð um tónlistarhús

Þorbjörn Kl. Eiríksson

Þorbjörn Kl. Eiríksson

Til þeirra sem stjórna og koma til með að stjórna í þessu bæjarfélagi, MOSFELLSBÆ.

Það virðist eins og allir vilji gera þennan bæ okkar að menningarbæ þar sem búa og starfa þekktustu listamenn á öllum sviðum. Þar með talinn fjöldi kóra sem er í Mosfellsbæ, en það er engin aðstaða fyrir þá til æfinga né til söngs og aðrar uppá­komur fyrir bæjarbúa og aðra til að hlusta á í almennilegu tónlistarhúsi.

Kór eldri borgara, Vorboðar, varð að fá inni í Reykjavík vegna söngtónleika sem kórinn stóð fyrir ásamt fjórum öðrum kórum sem hafa skipt með sér kórahaldi á hverju ári, og kom nú í hlut Vorboða að halda sameiginlega kvöldvöku sem milli 200-300 manns sækja.
Hvert var farið til þessarar samkomu? Alla leið í félagsheimili Seltjarnarness.

Það er oft búið að tala um, og ég held af öllum flokkum nema þeim sem eru að kom inn núna, (það fólk sem er þar þekkir þetta), að stækka þarf Hlégarð, en ekkert gerist í þeim málum. En ef rætt er um að við þurfum að stækka við Varmárhöllina þá er rokið í það og líka að byggja yfir fótboltavöllinn. Allt er það gott og gilt, en það þarf að forgangsraða.
Ég vil koma þessari samantekt til þeirra sem eru að huga að sókn í stjórnun bæjarfélagsins og þeirra sem verða á hliðarlínunni. Brettið nú upp ermar og gangið í stækkun Hlégarðs strax!

Þegar ég setti þetta á Facebook á sínum tíma, jú þá þóttust allir hafa haft þetta á stefnuskrá sinni, (gömlu) flokkarnir voru með þetta á sínum kosningabæklingum, en ég sá það ekki hjá hinum.

Þorbjörn Kl. Eiríksson

Göngum, göngum!

Ólöf Kristín Sívertsen

Ólöf Kristín Sívertsen

Staðfest hefur verið með fjöldamörgum rannsóknum að regluleg hreyfing gegnir lykilhlutverki fyrir heilsu og vellíðan alla ævi.
Hreyfing eykur líkamshreysti, hreyfifærni, vellíðan og lífsgæði almennt fyrir utan það að minnka líkurnar á flestum langvinnum sjúkdómum. Auk beinna áhrifa á heilsu og líðan getur lífsstíll, sem felur í sér daglega hreyfingu, einnig skapað tækifæri til að mynda og styrkja félagsleg tengsl og haft góð áhrif á andlega líðan okkar.

Hvernig aukum við hreyfingu?
Það þarf ekki að vera flókið að auka við hreyfingu í daglegu lífi. Ein einfaldasta leiðin er að velja virkan ferðamáta, svo sem göngu, hjólreiðar, hlaup og almenningssamgöngur.
Það besta er að ávinningurinn er ekki aðeins bundinn við líkamlega vellíðan heldur hefur regluleg hreyfing verulega jákvæð áhrif á andlega heilsu okkar. Þess utan er þetta einnig umhverfisvænn og hagkvæmur kostur til að komast á milli staða.

Göngum í skólann
Verkefnið Göngum í skólann hófst í gær, 5. september, og lýkur formlega með alþjóðlega Göngum í skólann deginum miðvikudaginn 10. október. Markmið verkefnisins er að hvetja börn til að tileinka sér virkan ferðamáta í og úr skóla og auka færni þeirra til að ferðast á öruggan hátt í umferðinni. Með því gefst jafnframt tækifæri til að draga úr umferðaþunga, hraðakstri og mengun nálægt skólum. Munum að þarna erum við fullorðna fólkið mikilvægar fyrirmyndir eins og í mörgu öðru.

Lýðheilsugöngur FÍ 2018
Ferðafélag Íslands stendur fyrir lýðheilsugöngum vítt og breitt um landið kl. 18:00 alla miðvikudaga í september. Þetta eru 60-90 mínútna fjölskylduvænar göngur og er tilgangur þeirra að hvetja fólk til útivistar og hreyfingar í góðum félagsskap og efla þar með heilsu sína og lífsgæði.
Í Mosfellsbæ verður gengið frá Reykjalundi kl. 18:00 alla miðvikudaga í september og hægt er að sjá nánari upplýsingar á www.fi.is/lydheilsa

„Vér göngum svo léttir í lundu, því lífsgleðin blasir oss við“ kvað Freysteinn Gunnarsson um árið og ef við leggjum textann út frá hreyfingu og vellíðan má segja að þarna hafi hann einmitt hitt naglann á höfuðið. Ganga og önnur hreyfing léttir nefnilega lundina og framkallar jákvæðari sýn á lífið.

Komdu og vertu með – allir vinna þegar þú tekur þátt!

Ólöf Kristín Sívertsen,
lýðheilsufræðingur og verkefnisstjóri Heilsueflandi samfélags í Mosfellsbæ

Að gefnu tilefni

Guðjón Jensson

Guðjón Jensson

Í árslok 1970 birtist í Morgunblaðinu grein Halldórs Laxness: „Hernaðurinn gegn landinu“. Þá var ég í námi í Menntaskólanum í Hamrahlíð og þessi grein kveikti bókstaflega í mér sem öðru ungu fólki. Síðan hef ég tekið töluverðan þátt í þjóðfélagsumræðunni, mörgu tengdu umhverfismálum og vona ég að ég verði enn að meðan ég lifi. Ég starfaði töluvert í Skógræktarfélagi Mosfellsbæjar um aldarfjórðungsskeið.
Við hjónin tókum gjarnan börnin okkar með í gróðursetningu og við að hlúa að skóginum meðan ung voru. Þá voru fjöruferðirnar í Leirvoginn okkur mjög lærdómsríkar. Ætli náttúran sé ekki eitt besta tækifærið að ala upp börn við holla og góða hreyfingu og fylgjast með lífinu á marga lund. Drengirnir okkar sem nú eru komnir á fertugsaldur minnast oft á þessar stundir sem einar þær bestu í bernsku þeirra.

Fyrir rúmum 11 árum átti ég þátt í að stofna Umhverfis- og náttúrufræðifélag Mosfellsbæjar. Því miður hefur starf þess legið niðri en það þarf að endurvekja við fyrstu hentugleika. Höfða ég sérstaklega til yngra fólksins að taka við keflinu enda erum við sem erum að hefja eftirlaunaárin ekki lengur miklir bógar. En við getum veitt mikið frá okkur og miðlað, bæði þekkingu og reynslu.

Mosfellsbær hefur tekið mjög miklum stakkaskiptum frá því við Úrsúla fluttum úr Reykjavík og hingað í ársbyrjun 1983. Alltaf er okkur minnisstætt þegar gríðarlega stór hópur snjótittlinga sveimaði á móti okkur þegar við ókum í flutningabílnum með fremur fátæklega búslóðina okkar niður Arnartangann. Nánast hvergi var trjágróður að sjá og hvergi skjól fyrir næðingnum og skafrenningnum sem oft fyllti götur og gerði þær mjög oft torfærar á vetrum.

Í Mosfellspóstinum sem þá kom út mátti oft sjá lesendabréf garðeigenda sem skömmuðust út af öllum rollunum sem víða óðu um garðana og átu allt sem tönn á festi.
Þá voru Mosfellingar einungis rúmlega 2.000 að tölu. Síðan hefur Mosfellingum fjölgað mjög mikið og verið iðnir við að rækta garðana sína og sinna nánasta umhverfi sínu. Er nú svo komið að Mosfellsbær er eitt af fegurstu sveitarfélögum landsins sökum fjölbreytts gróðurs.

Ég er þakklátur Mosfellingum fyrir að veita mér viðurkenningu á bæjarhátíðinni fyrir störf mín tengd umhverfismálum. Hún er mér dýrmæt og mun hvetja mig áfram við að halda áfram mínu striki þótt einhver óvænt hliðarspor verði.
Góðar stundir!

Guðjón Jensson
Arnartanga 43
Mosfellsbæ

Haustið er tíminn – Fimm ráð til að koma sér af stað

Unnur Pálmarsdóttir

Unnur Pálmarsdóttir

Helstu kostirnir við að gera líkamsrækt að lífsstíl og stunda daglega eru aukið heilbrigði, andleg og líkamleg vellíðan.
Þegar við breytum slíkum lifnaðarháttum þá fylgir aukin orka, ónæmiskerfið verður sterkara, bætt sjálfsmynd og aukið sjálfstraust.

Hér eru fimm kostir þess að stunda reglulega líkamsrækt og hreyfingu allt árið.

1. Bætir skapið og styrkir ónæmiskerfið
Þarftu að fá útrás? Eða þarftu að losa um streituna eftir erfiðan dag? Iðkun líkamsræktar eða ganga 30 mínútur rösklega getur hjálpað við að losa um streitu.
Líkamsrækt örvar ýmis efni heilans sem gera þig tilfinningalega hamingjusamari og hefur áhrif á eigin vellíðan sem gerir það að verkum að við verðum enn skapbetri í skammdeginu. Ónæmiskerfið styrkist með daglegri líkamsrækt og hreyfingu. Sjálfstraust og vellíðan á líkama og sál eykst.

2. Borðaðu á þriggja tíma fresti
Borðaðu á tveggja til þriggja tíma fresti til að halda brennslunni gangandi. Þegar þú ætlar að taka þig verulega á þá er nauðsynlegt að skera niður sætindi, gosdrykki, kex og kökur.
Allt er þó leyfilegt einu sinni í viku á nammidegi (t.d. á laugardögum). Verið dugleg að drekka nóg af vatni yfir allan daginn og einnig meðan á æfingu stendur. Vatn er allra meina bót.

3. Haltu matardagbók
Mjög gott er að halda utan um mataræðið sitt með því að skrifa matardagbók. Með því að halda matardagbók fær maður betri yfirsýn yfir það sem maður lætur ofan í sig og hefur betri yfirsýn yfir fæðuval.
Ég mæli með að borða fimm til sex máltíðir á hverjum degi. Það er morgunmatur, millimál, hádegismatur, millimál, kvöldmatur og kvöldsnarl.

4. Betri svefn
Áttu í erfiðleikum með svefn? Regluleg hreyfing getur hjálpað þér að sofna og dýpkar svefn þinn. Stundaðu líkams- og heilsurækt daglega og þú munt finna mun á svefninum.
Þegar við stundum meiri hreyfingu þá þurfum við meiri svefn. Svefnleysi getur m.a. stuðlað að því að þú borðar meira og finnur frekar til svengdar. Því er nauðsynlegt að ná góðum svefni til að ná meiri árangri í heilsurækt.

5. Betra kynlíf
Finnst þér þú vera of þreytt/ur eða langar ekki að njóta líkamlegrar nándar við maka þinn? Regluleg líkamsrækt getur haft jákvæð áhrif á kynlíf þitt. En það er meira en það. Regluleg hreyfing getur valdið aukinni örvun fyrir konur.
Karlmenn sem æfa reglulega eiga minni líkur á að lenda í vandræðum með ris­truflanir en þeir sem nýta ekki orkuna í að stunda reglulegt kynlíf. Kynlíf er hollt fyrir líkama, nándina og sálina.

Líkamsrækt er lífstíll
Íþróttir og líkamsrækt er besta og skemmtilegasta leiðin til að varðveita eigin heilsu. Við eigum aðeins einn líkama og heilsan okkar er það dýrmætasta sem við eigum. Líkamsrækt gefur þér tækifæri til að slaka á og njóta lífsins sem gerir þig hamingjusamari. Aukin líkamsrækt getur einnig hjálpað þér að tengjast betur fjölskyldu eða vinum í skemmtilegu félagslegu og hvetjandi umhverfi.

Ég vil hvetja þig kæri lesandi að byrja strax að hreyfa þig. Gangi þér vel!

Unnur Pálmarsdóttir, MBA
Mannauðs- og markaðsstjóri Reebok Fitness

Fjöldahjálp í Mosfellsbæ, Kjalarnesi og Kjósinni

Hrönn Pétursdóttir

Hrönn Pétursdóttir

Í Mosfellsbæ, Kjósinni og á Kjalarnesi eru starfandi þrjár skilgreindar fjöldahjálparstöðvar, í Varmárskóla og Klébergsskóla, og í húsnæði Rauða krossins í Þverholtinu í Mosfellsbæ.
Til viðbótar er unnið að því að bæta við tveimur stöðvum, annarri í Mosfellsbæ en hinni í Kjósinni.

Þegar loka þarf veginum um Kjalarnes gerist það oftar en ekki að opna þarf fjöldahjálparstöðina í Klébergsskóla þangað sem leita tugir og jafnvel hundruð strandaglópa. Ennfremur hafa stöðvarnar í Mosfellsbæ verið opnaðar nokkrum sinnum á síðastliðnum árum í kjölfar rútuslysa í nágrenni höfuðborgarsvæðisins. Það er mismunandi milli ára hversu oft þessar stöðvar eru opnaðar, en undanfarin ár hefur það verið alls í um fimm skipti á ári að meðaltali.

Fjöldahjálparstöðvar falla undir starfsemi almannavarna á Íslandi og er ákvörðun um það að opna stöðvarnar tekin af almannavarnanefnd höfuðborgarsvæðisins þegar veður, náttúruhamfarir eða slys gera það að verkum að koma þarf fólki í skjól eða aðstoða það í nauð.

Rekstur þessara stöðva er í höndum Rauða krossins. Sem hluti af almannavarnarkerfinu hefur félagið umsjón með fjöldahjálp og sálfélagslegum stuðningi þegar náttúruhamfarir og aðrir alvarlegir atburðir eiga sér stað, auk þess að veita áfallahjálp í kjölfar vinnuslysa, hópslysa og annarra alvarlegra atburða. Þá er þolendum húsbruna veitt fyrsta aðstoð á vettvangi, svo sem þak yfir höfuðið, mat og aðrar brýnustu nauðsynjar. Þessi þjónusta er veitt án endurgjalds og af vel þjálfuðum sjálfboðaliðum sem eru tilbúnir til aðstoðar, hvenær sem kallið kemur.

Undanfarin ár hefur Rauði kross á Íslandi séð um rekstur fjöldahjálparstöðvanna á Kjalarnesi og í Mosfellsbæ, en frá haustinu 2018 tekur deild Rauða krossins í Mosfellsbæ verkefnið yfir. Starfssvæði deildarinnar nær til Mosfellsbæjar, Kjalarness og Kjósar.

Deildin býr þegar yfir vel þjálfuðum og reyndum sjálfboðaliðum sem hafa búsetu í Mosfellsbæ, en þarf fleiri sjálfboðaliða í hópinn til að geta sinnt þessu verkefni. Er þar leitað að einstaklingum sem búa í Mosfellsbæ en ekki síst á Kjalarnesi og í Kjósinni.
Einstaklingar sem vilja leggja samfélaginu lið með því að koma til aðstoðar þegar aðrir eru í nauð geta fengið ítarlegri upplýsingar með því að hafa samband við Rauða krossinn í Mosfellsbæ í netfangið moso@redcross.is. Einnig má skrá sig á fyrsta þjálfunarnámskeiðið hér www.raudikrossinn.is/taktu-thatt/vidburdir/inngangur-ad-neydarvornum-mosfellsbaer, en námskeiðið verður haldið þann 3. september nk. kl. 18 -21 í húsnæði Rauða krossins í Mosfellsbæ.

Hrönn Pétursdóttir,
formaður Rauða krossins í Mosfellsbæ.

Hvað ætlar þú að gera í vetur?

Lóa Björk Kjartansdóttir

Lóa Björk Kjartansdóttir

Nú þegar líður að hausti fara margir að huga að því hvað þá langar að gera í vetur. Félagar í POWERtalk deildinni Korpu hafa verið í góðu sumarfríi en eru byrjaðir að huga að vetrarstarfinu.
POWERtalk samtökin eru þjálfunarsamtök sem leggja áherslu á einstaklingsmiðaða þjálfun í tjáningu sem skilar árangri. Markmið POWERtalk eru sjálfstyrking, uppbygging á eigin persónu og samskipti af virðingu við aðra auk þess að félagarnir verði færari um að tjá sig á formlegan hátt með þátttöku í og stjórnun félagsmála.

Starfsemin byggir á einstaklingsmiðaðri jafningjafræðslu sem hvetur fólk til dáða þar sem tjáskipta- og stjórnunarhæfileikar skipta sköpum til starfsframa og þátttöku á opinberum vettvangi. Félagar njóta einnig góðs af nauðsynlegu uppbyggilegu frammistöðumati reyndari félaga.
Þann 4. og 13. september munu samtökin halda ræðunámskeiðið „Fyrstu skrefin“, sem er tilvalið fyrir fólk sem langar að fá þjálfun í ræðuskrifum og framkomu. Námskeiðið er fyrir alla sem vilja stíga aðeins út fyrir þægindahringinn sinn. Ekki er skilyrði að vera í samtökunum til að skrá sig á námskeiðið. Það er tilvalið að fara á námskeiðið og halda svo áfram að efla sjálfan sig og fá áframhaldandi þjálfun með því að mæta á fundi hjá Korpu í kjölfarið og taka þátt í skemmtilegu starf.

POWERtalk deildin Korpa er ein af sjö deildum á Íslandi. Korpa starfar í Mosfellsbæ og er fyrir alla þá sem langar að læra og tileinka sér allt það sem viðkemur t.d. framkomu, ræðuskrifum, glærukynningum, fundarsköpum, viðburðastjórnun, greinaskrifum og tímastjórnun. Einnig fyrir þá sem langar að efla sjálfstraust sitt og færni í samskiptum og samvinnu. Í starfinu fær fólk tækifæri til að vinna á eigin hraða að markmiðum sínum. Og fólk fær uppbyggilega endurgjöf á vinnu sína og verkefni.

Langar þig að öðlast meira öryggi á fundum, sýna meira frumkvæði í vinnunni, tjá þig á foreldrafundi í leikskólanum eða flytja tækifærisræðu í stórafmæli? Langar þig að styrkja sjálfsímynd þína almennt og þannig eiga auðveldara með samskipti í bæði leik og starfi? Þá er starfið í Korpu fyrir þig og það er ekki eftir neinu að bíða.

Fundirnir eru haldnir fyrsta og þriðja miðvikudag í mánuði. Fyrsti fundur vetrarins verður haldinn miðvikudaginn 5. september klukkan 20:00, í Safnaðarheimili Lágafellssóknar, Þverholti 3, á 2. hæð. Gestir eru velkomnir á alla fundi í vetur og fólk er hvatt til að koma og kynna sér starfið.
Ef einhverjar spurningar vakna má gjarnan senda fyrirspurnir á netfangið korpa@powertalk.is og þeim verður svarað fljótt og vel. Einnig er hægt að kíkja á powertalk.is fyrir almennar upplýsingar um starf samtakanna.

Lóa Björk Kjartansdóttir
Ritari Korpu 2018-2019

Ný bæjarstjórn

Bryndís Haraldsdóttir

Bryndís Haraldsdóttir

Um miðjan þennan mánuð lét ég af störfum sem bæjarfulltrúi, ég hef verið þeirrar gæfu aðnjótandi að sitja í bæjarstjórn í 8 ár og sem varamaður 8 ár þar á undan.
Það eru því orðin heil 16 ár síðan ég kom fyrst að bæjarmálunum. Það hefur verið ótrúlega skemmtilegur tími og ég verð að viðurkenna að það er ekkert verkefni sem ég hef tekið að mér (ef frá er talið foreldrahlutverkið) sem hefur verið jafn skemmtilegt og lærdómsríkt og bæjarfulltrúahlutverkið.
Ég hef mikla trúa á Mosfellsbæ, ég veit að sveitarfélagið er vel rekið, hér eru bæði góðir skólar og leikskólar, íþrótta- og tómstundastarf er í miklum blóma og síðast en ekki síst er sveitarfélagið fallegt. Mosfellsbær er umvafinn fallegri náttúru, við erum innrömmuð fellum, ám og Leirvoginum. Endalaus tækifæri til útivistar og hreyfingar í túninu heima. Sveitarfélagið hefur vaxið mikið á síðustu árum og nú erum við komin yfir 10 þúsund. Það er bæði ánægjulegt en líka krefjandi verkefni þegar sveitarfélagið vex hratt bæði hvað varðar skipulagsmál svo og uppbyggingu innviða og nærþjónustu.

Höldum í sérstöðu Mosfellsbæjar
Ég hef þá sýn að Mosfellsbær eigi að byggja á sérstöðu sinni sem er bæði náttúrutengd og samfélagstengd. Þannig er mikilvægt að þrátt fyrir stækkun sveitarfélagsins og óhjákvæmilega og eðlilega þéttingu byggðar þá haldi sveitarfélagið samt í þá sérstöðu sína að hér sé hátt hlutfall sérbýla, hér sé stutt í náttúru og að við séum grænn og umhverfisvænn bær. Mosfellsbær hefur lengið verið eftirsóknarverður staður til að búa á og þá sérstaklega fyrir fjölskyldufólk en hvergi á höfuðborgarsvæðinu er hlutfall barna jafn hátt og hér í Mosfellsbæ.
En hvað samfélagslega þáttinn varðar þá er það ekki síst hlutverk okkar allra íbúa að tryggja að hér verði áfram sá þorpsbragur sem löngum hefur einkennt Mosfellssveitina. Okkur er umhugað um náungann og samfélagið okkar. Sá mikli samfélagslegi auður sem felst í sjálfboðastarfi allra sem koma að íþrótta- og tómstundafélögum hér í bæ er ómetanlegur. Það að við fjölmennum á þorrablót, brennu og bæjarhátíð og skemmtum okkur saman er líka mikilvægur hluti af öflugu og góðu samfélagi. Höldum því áfram.

Takk fyrir mig
Ég vil óska öllum nýkjörnum bæjarfulltrúum velfarnaðar í störfum sínum. Ég vona að nýrri bæjarstjórn auðnist að vinna saman að því að tryggja að það verði áfram best að búa í Mosfellsbæ. Ég vil þakka öllum þeim kjörnu fulltrúum sem ég hef unnið með á vettvangi bæjarstjórnar og nefnda bæjarins á síðustu árum. Einnig vil ég þakka því frábæra starfsfólki sem vinnur fyrir Mosfellsbæ en það hefur verið einstaklega ánægjulegt að kynnast þeim góða hópi sem vinnur á hverjum degi fyrir þjónustufyrirtækið Mosfellsbæ.
Síðast en ekki síst vil ég þakka kjósendum fyrir að hafa treyst mér fyrir því mikilvæga starfi sem bæjarfulltrúastarfið er, það eru forréttindi að fá að sinna því. Ég hef lagt mig alla fram við að gera það af metnaði og alhug. Það er aldrei hægt að gera þannig að öllum líki en ég hef ávallt haft hagsmuni heildarinnar að leiðarljósi. Í hlutverki kjörins fulltrúa lærir maður að málin geta oft verið mun flóknari en virðist í fyrstu og það er að mörgu sem þarf að huga áður en ákvörðun er tekin.
Þrátt fyrir að hverfa af vettvangi bæjarstjórnar mun ég áfram í starfi mínu sem þingmaður fylgjast með rekstri sveitarfélagsins og leggja mitt af mörkum við að tryggja framgang verkefna sem heyra undir ríkisvaldið en þjóna hagsmunum okkar hér í bæ. Sérstaklega má þar nefna stækkun hjúkrunarheimilis og umferðaröryggismál á Vesturlandsvegi og Þingvallavegi.

Bryndís Haraldsdóttir
þingmaður

Flokkun á plasti í Mosfellsbæ

Tómas G. Gíslason

Tómas G. Gíslason

Mosfellsbær hefur frá því sl. vor boðið íbúum upp á aukna þjónustu varðandi flokkun á plasti frá heimilum til endurvinnslu, þar sem heimilt er að flokka plast í lokuðum plastpokum í gráu sorptunnuna.
Plastflokkun í plastpoka er samstarfsverkefni SORPU og fjögurra sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu, Mosfellsbæjar, Hafnafjarðar, Garðabæjar og Seltjarnarnesbæjar. Sérhæfður vélbúnaður SORPU flokkar síðan plastið frá öðrum úrgangi og kemur til endurvinnslu. Ekki er nauðsynlegt að setja hreina plastið í sérstaka poka en þeir þurfa að vera úr plasti. Íbúar geta því t.d. notað innkaupapoka eða aðra plastpoka sem til falla á heimilum. Markmiðið er að auka endurvinnslu og draga úr urðun plasts og endurnýta þannig betur plastið sem hráefni.
Verkefnið hefur farið vel af stað og hefur magn af flokkuðu plasti frá íbúum í Mosfellsbæ aukist verulega. Þó er ennþá talsvert um að íbúar fleygi plasti óflokkuðu með blönduðum heimilisúrgangi, og því er tækifæri til að gera enn betur. Íbúar í Mosfellsbæ eru því hvattir til þess að kynna sér þessa nýju leið til flokkunar á plasti í plastpokum í gráu tunnuna, en einnig má benda á að hægt er að skila flokkuðu plasti á grenndargámastöðvum við Háholt, Olís Langatanga, Bogatanga og Dælustöðvarveg, auk endurvinnslustöðvar SORPU við Blíðubakka.
Vegna þessara breytinga, er nýjum límmiðum dreift með þessu eyðublaði Mosfellings og eru íbúar hvattir til að líma þá innan á lok sorptunna sinna, bæði bláu pappírstunnuna og gráu tunnuna fyrir almennt sorp og plast.

Hvers vegna að flokka plast?
Áætlað er að á árinu 2017 hafi að jafnaði um 27 kg af óflokkuðu plasti frá hverjum íbúa á höfuðborgarsvæðinu endað í hefðbundinni sorptunnu og farið á urðunarstað SORPU í Álfsnesi. Eingöngu um 5 kg af plasti á íbúa skilaði sér flokkað til endurvinnslu. Markmiðið er að auka þetta magn verulega og er plastflokkun í plastpoka í gráu tunnuna mikilvægt skref í þá átt.

Tómas G. Gíslason
Umhverfisstjóri Mosfellsbæjar

Pólitísk afskipti Varmárskóla af kosningabaráttunni

Sigrún Pálsdóttir

Sigrún Pálsdóttir

Þann 24. maí síðastliðinn birtist færsla á Facebook-síðu Varmárskóla þess efnis að ónafngreindir aðilar væru að vega að skólastarfinu og var sami texti settur á vef skólans daginn eftir.
Af samhengi og efni pósta í kjölfarið og gagnrýni sem fram kom á opnum íbúafundi í Hlégarði 24. maí var engum blöðum um það að fletta við hverja var átt, þ.e. frambjóðendur Í-lista. Færslunni í nafni skólans var dreift víða um netið og voru kjósendur m.a. hvattir til að kjósa listann ekki.
Nú er Varmárskóli opinber stofnun sem rekin er af Mosfellsbæ. Hann er stærsta uppeldisstofnun sveitarfélagsins og einn af stærstu skólum landsins. Færslan á samskiptasíðunni birtist tveimur sólarhringum fyrir kosningar. Sú tímasetning er ekki tilviljun.

Afskipti D-lista
Það sem gerir málið alvarlegra en ella er að skólayfirvöld í Mosfellsbæ lögðu blessun sína yfir færsluna með því að taka undir hana, þ.e. núverandi og fyrrverandi formenn fræðslunefndar, Kolbrún Þorsteinsdóttir og Hafsteinn Pálsson frambjóðendur D-lista. Bæði voru í framboði og má líta svo á að þessi aðför hafi því hentað þeim persónulega.
Ef marka má tilsvör bæjarstjóra og formanns fræðslunefndar í umræðum um málið á fundi bæjarstjórnar nr. 718 þótti fulltrúum D-lista ekkert tiltökumál að stofnanir sveitarfélagsins væru notaðar til að hafa áhrif á niðurstöður kosninga. Bæjarstjóri sagðist hafa heyrt „kjaftasögur“ og formaður fræðslunefndar talaði um „ótrúlegar tröllasögur“. Engin svör fengust þó við því um hvað þær fjölluðu, hverjir sögumennirnir voru eða hvernig opinberri stofnun datt yfirleitt í hug að færa sér ósómann í nyt til að skaða tiltekið framboð korteri fyrir kosningar.
Hvað sem öðru líður vekja afskiptin upp áleitnar spurningar um fagmennsku í skólamálum og siðferði í stjórnmálum.

Framlag Íbúahreyfingarinnar til skólamála
En hvað var svona ógnandi? Getur verið að það hafi verið ákall Íbúahreyfingarinnar um úrbætur í skólamálum á kjörtímabilinu? Undir eðlilegum kringumstæðum myndi fólk ætla að starfsmenn Varmárskóla hefðu fulla ástæðu til að taka því fagnandi. En hér það helsta:
• Byggt verði nýtt mötuneyti við Varmárskóla;
• Kæliklefum fjölgað í mötuneytinu til að koma í veg fyrir að matvæli skemmist;
• Settar verði upp færanlegar stofur fyrir tónlistarkennslu á skólatíma fyrir yngri nemendur í Varmárskóla;
• Bæjaryfirvöld láti sig ónægju kennara varða í kjölfar nýrra kjarasamninga;
• Endurskoða áætlanir um uppbyggingu skólamannvirkja vegna fyrirsjáanlegrar fjölgunar nemenda í Varmárskóla;
• Hvatt til að fram fari opin umræða í fræðslunefnd um áskoranir í skólastarfi;
• Starfsumhverfi kennara verði bætt;
• Sérfræðiþjónusta við börn með sérþarfir og fagleg stoðkennsla verði aukin til bæta líðan nemenda og að gera skóla án aðgreiningar betur mögulegan;
• Bæjarráð fái árlega skýrslu um eineltismál í fyrirtækjum og skólum Mosfellsbæjar inn á borð til sín til að kanna umfang eineltismála og bregðast við þeim;
• Stofna sérstakt embætti jafnréttisfulltrúa til að styðja við jafnréttis- og kynjafræðslu í skólunum, auk þess að fræða skólabörn um hinar ýmsu birtingarmyndir ofbeldis;
• Óháður aðili verði fenginn til að gera úttekt á Varmárskóla vegna óánægju foreldra með mikilvæga þætti í skólastarfinu;
• Mosfellsbær veiti skólum/kennurum árleg hvatningarverðlaun til að verðlauna það sem vel er gert og vekja athygli íbúa á skólastarfinu.

F.h. Íbúahreyfingarinnar
Sigrún H Pálsdóttir

Eftir kosningar

Anna Sigríður Guðnadóttir

Anna Sigríður Guðnadóttir

Ég leyni því ekki að niðurstöður kosninganna þann 26. maí voru vonbrigði fyrir Samfylkinguna í Mosfellsbæ.
Framboðum fjölgaði til muna í bænum við þessar kosningar frá þeim síðustu og ljóst að mun meiri samkeppni yrði um atkvæðin. Enda kom það á daginn og niðurstaðan varð að Samfylkingin tapaði einum bæjarfulltrúa.
Miklar breytingar verða nú í bæjarstjórn. Í minnihluta á síðasta kjörtímabili voru tveir flokkar en á þessu nýhafna kjörtímabili verða þeir fjórir og hver þeirra með einn fulltrúa. Vinstri græn höfnuðu tilboði þessara flokka um meirihlutaviðræður og töldu sínum áherslum og málefnum best borgið í fangi Sjálfstæðisflokksins líkt og áður sem kom kannski ekki á óvart.
Ásýnd nýrrar bæjarstjórnar verður einnig gjörbreytt því einungis tvær konur munu sitja í níu fulltrúa bæjarstjórn næsta kjörtímabil. Það er sorgleg staða árið 2018 og endurspeglar að stjórnmálaflokkar treysta konum síður til að sitja í oddvitasætum.
Á síðasta kjörtímabili náðum við Ólafur Ingi bæjarfulltrúar S lista góðum árangri og fengum samþykktar margar tillögur um málefni sem flokkurinn hafði sett á oddinn í kosningabaráttunni 2014. Þeim árangri náðum við með málefnalegu starfi og staðfestu. Þrátt fyrir breytta stöðu þá mun ég sem bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar halda áfram að vinna málefnum okkar jafnaðarmanna framgang innan bæjarstjórnar og nýta til þess málefnalegar leiðir.
Þeim sem ákváðu að treysta Samfylkingunni fyrir atkvæði sínu þakka ég af heilum hug. Full auðmýktar gagnvart verkefninu lofa ég að gera mitt allra besta til að vinna að áherslum okkar á ábyrgan rekstur, lýðræðislegt samráð og gagnsæi, mannvænt skipulag, jafnrétti, sjálfbærni og umhverfismál með hagsmuni framtíðarkynslóða í huga, að ógleymdri félagslegri samhjálp á grunni virðingar og mannréttinda, en allar þessar áherslur miða að því að auka jöfnuð, velsæld og gleði í bænum okkar góða.

Anna Sigríður Guðnadóttir
bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar

Finnsku húsin í Arnartanga

finnsku

Guðjón Jensson

Guðjón Jensson

Aðfaranótt 23. janúar 1973 hófst mikið eldgos í Heimaey eins og kunnugt er.
Í vetur sem leið voru því 45 ár liðin frá þessum atburði. Frækilegur brottflutningur fólks varð víðfrægur um allan hinn upplýsta heim og dáðust margar þjóðir að hversu Íslendingar reyndust úræðagóðir þegar mikið reyndi á.

Víða barst aðstoð erlendis frá. Norðurlöndin brugðust vel við og sendu hingað heilu raðhúsin til að gefa flóttafólkinu úr Vestmannaeyjum. Stofnaður var sjóður, Viðlagasjóður, og helsti tekjustofn hans var að lagður var sérstakur skattur og bætt við þáverandi söluskatt sem var undanfari virðisaukaskattsins. Þessi viðbótarskattur nam 2% og var hugsunin að hafa þessa skattheimtu tímabundna uns afleiðingarnar þessa goss yrðu til lykta leiddar. En skatturinn stendur enn þrátt fyrir að langur tími sé liðinn!

Í Mosfellsbæ voru byggðar 8 raðhúsalengur með alls 35 íbúðum og standa húsin við Arnartangann. Fram á níunda áratug síðustu aldar var Arnartangi vestasta byggðin í Mosfellssveitinni gömlu. Þessi hús eru falleg, einföld en praktísk og hafa reynst mjög vel enda hæfilega stór með ofurlitlum garði og hafa alltaf verið vinsæl. Er að mörgu leyti undarlegt að ekki séu byggð fleiri hús í svipuðum stíl og stærð.
Raðhúsin voru sérstök gjöf Finna hugsuð til að rétta Íslendingum hjálparhönd í erfiðleikum þeirra vegna eldgossins á Heimaey. Þau eru byggð úr timbri á steyptum sökklum að hluta til á steyptum grunni. Þau voru endurhönnuð með sérstöku tilliti til einangrunar, jarðskjálftahættu og veðurs á Íslandi enda eru aðstæður hér gjörólíkar en í Finnlandi sem er eitt skógríkasta land heims.

Lengi vel nutu húsin í Arnartanganum ekki skógarskjóls en nú eru vaxin upp tré töluvert upp fyrir lágreista byggðina. Austan við Arnartanga var fyrir um 30 árum plantað þremur löngum röðum af öspum sem hafa myndað mjög gott skjól fyrir austlægum áttum. Aspir vaxa yfirleitt mjög hratt en lifa fremur sjaldan lengur en hálfa öld, þá hrörna þær, fúna og deyja. Og þá geta margar og háar aspir reynst stórhættulegar þá Kári gamli er í essinu sínu.
Í Mosfellsbæ getur orðið nokkuð hvasst einkum í suðaustlægum áttum á vetrum. Nú þarf senn að huga að endurnýjun trjáa á þessum slóðum af þessum ástæðum og gróðursetja jafnvel aðrar hentugri tegundir. Má þar nefna sitkagreni sem vex og dafnar og getur orðið 300 ára gamalt en orðið mjög hátt, jafnvel hærra en turn Hallgrímskirkju. Sitkagreni nær hátt í hundrað metra í upprunalegu heimkynnum sínum í Norður Ameríku en verða hér varla mikið hærri en 30-40 metrar. En spurning er hvort við viljum hafa svo há tré í þéttbýli?

Í tilefni af því að finnski forsetinn Kekkonen kom hingað til lands að afhenda Íslendingum Viðlagasjóðshúsin á sínum tíma voru reistar tvær flaggstengur sem enn má sjá milli raðhúsanna og asparskógarins. Milli stanganna var komið fyrir hraunsteini úr Heimaey og fest á hann plata með áletrun um þennan atburð. Sú plata sem nú er mun ekki vera sú upprunalega því sú var úr kopar og fékk ekki að vera þar lengi og þjófar numið hana á brott enda eru þjófar mjög athugulir á fémæti.

Þegar Vigdís Finnbogadóttir var forseti barst hingað önnur gjöf frá finnsku þjóðinni sem minna bar á en þeirri fyrri en ekki síðri. Var það fræpoki með töluverðum slatta af fræi hengibjarkar (betula pendula). Hún er náskyld íslensku ilmbjörkinni enda hvoru tveggja norrænar tegundir.
Nú er liðinn um aldarfjórðungur frá þessari seinni gjöf og hengibjarkirnar finnsku hafa eignast vonandi þúsundir afkvæma sem dafna í íslenskri jörð. Er það tillaga mín að við komum nokkrum afkomendum þessara hengibjarka við minningamarkið austan við raðhúsin finnsku svo þar megi vaxa finnsk-íslenskur trjálundur sem kærkomin viðbót.

Vel gæti ég trúað að einhverjum þætti þetta vera hálfgert tildur en þess ber að geta að við eigum að hlúa sem best að gömlum vináttuböndum og efla þau eftir mætti. Og hvað er ekki betra en trjágróðurinn sem veitir okkur bæði mannfólkinu og fuglum himinsins mikilvægt skjól og yndi.

Guðjón Jensson
arnartangi43@43@gmail.com