112 er líka fyrir börnin

Sigurbjörg Fjölnisdóttir

Það er mikið ánægjuefni fyrir okkur sem störfum við velferðarþjónustu í Mosfellsbæ, þar sem einstaklingurinn er í forgrunni, að 112 dagurinn sé að þessu sinni helgaður barnavernd og öryggi og velferð barna og unglinga.
Í barnaverndarlögum er kveðið á um tilkynningaskyldu almennings og opinberra aðila ef grunur leikur á misfellum í aðbúnaði barns. Allt frá árinu 2004 hefur símanúmerið 112 verið tengt aðstoð frá barnaverndaryfirvöldum. Því er hægt að leita eftir aðstoð barnaverndar Mosfellsbæjar með þrennum hætti: Með því að hringja í símanúmerið 112, senda tilkynningu í gegnum heimasíðu Mosfellsbæjar eða hringja í ráðgjafa barnaverndar Mosfellsbæjar á símatíma, sem taka á móti tilkynningum og geta veitt upplýsingar og ráðgjöf ef fólk er í vafa um hvort beri að tilkynna um slæman aðbúnað.
Að börn og unglingar hafi aðgengi að símanúmerinu 112 til að tilkynna um slæmar aðstæður barna auðveldar þeim hópi að koma ábendingum á framfæri, þar sem aðrar leiðir til þess að tilkynna gætu reynst þeim flóknari.
Það er mikið gleðiefni fyrir barnavernd Mosfellsbæjar að bæta enn frekar aðgengi barna og unglinga að barnaverndinni með því að setja í loftið ábendingahnapp fyrir þennan hóp og gera slíkt á sjálfan 112 daginn. Á forsíðu heimasíðu Mosfellsbæjar má nú sjá hnapp merktan „Ég er barn og hef áhyggjur“ þar sem börn geta komið slíkum tilkynningum á framfæri til barnaverndar.
Sú tilkynning er einfaldari í sniðun en sú tilkynning sem fullorðnir fylla út. Í tilkynningunni greinir barnið frá því hverju það hefur áhyggjur af, hvað það heitir sem og símanúmer þess. Starfsmenn barnaverndar fara yfir allar slíkar tilkynningar og hafa samband við barnið, ef við á, til að fylgja tilkynningunni eftir.
Það er hagur okkar allra sem samfélags að veita góða þjónustu við börn í vanda og fjölskyldur þeirra. Hluti af þeirri þjónustu er að allir hafi greiðan aðgang að barnavernd í sínu sveitarfélagi. Þegar símanúmerið 112 var tengt við barnavernd í öllum sveitarfélögum bætti það verulega þjónustu og aðgengi fyrir börnin. Barnavernd Mosfellsbæjar hefur átt í farsælu samstarfi við 112 og þakkar sérstaklega fyrir það samstarf með hvatningu til allra um að hika ekki við að tilkynna um slæmar aðstæður barns annaðhvort í gegnum 112 eða með öðrum leiðum sem hafa verið kynnar hér að framan.

Sigurbjörg Fjölnisdóttir
Framkvæmdastjóri fjölskyldusviðs Mosfellsbæjar