Best að búa í Mosó

Ásgeir Sveinsson

Nýlega voru kynntar niðurstöður í árlegri þjónustukönnun Gallup þar sem viðhorf íbúa til þjónustu í 20 stærstu sveitarfélögum landsins eru mæld.
Enn eitt árið getum við Mosfellingar glaðst yfir því að Mosfellsbær kemur mjög vel út úr flestum viðhorfsspurningum, og þess má geta að Mosfellsbær og Garðabær deila efsta sætinu þegar spurt er um hvar best sé að búa.
Breytingar á niðurstöðum könnunarinnar milli ára eru mjög litlar nema í spurningu um þjónustu við fatlað fólk í sveitarfélaginu sem lækkar markvert milli ára. Þetta þarf að skoða vel, sérstaklega þegar horft er til þess að stöðugt er verið að auka og styrkja þjónustuna í málaflokknum.
Í september sl. var hafin vinna við stefnumótun í málaflokki fatlaðs fólks. Þar gafst íbúum, starfsfólki og öðrum sem málið varðaði tækifæri til að koma sínum athugasemdum á framfæri. Sú vinna er í gangi.
Þess má einnig geta að í Mosfellsbæ eru hlutfallslega flestir samningar um notendastýrða persónulega aðstoð (NPA) miðað við íbúafjölda á landinu. Áfram verður haldið að rýna í hvað hægt er að gera betur í málflokknum til að auka ánægju notenda þjónustunnar.

Leik- og grunnskólar
Undanfarin tvö ár hefur mikil áhersla verið lögð á að auka þjónustu leikskólanna og var leikskólaplássum fyrir yngstu börnin fjölgað á síðasta ári í bæjarfélaginu og gjöld lækkuð um 5%.
Forráðamenn leikskólabarna í Mosfellsbæ eru ánægðir í 97% tilfella með þjónustu leikskólanna samkvæmt könnuninni og er það ánægjuhlutfall sem nánast þekkist ekki í könnun sem þessari. Þessi niðurstaða er fyrst og fremst mikið hrós til starfsfólks leikskólanna sem vann sína vinnu við mjög erfiðar aðstæður á síðasta ári.
Ánægja með þjónustu grunnskólanna minnkar aðeins á milli ára og er mikilvægt að rýnt verði í þá niðurstöðu. Verður það gert m.a. með sérstakri foreldrakönnun og rýnihópum til að fá upplýsingar hver upplifun foreldra er af þjónustu grunnskólanna.
Það sem stendur upp úr á síðasta ári er það starf sem kennarar, skólastjórnendur, fræðslusvið Mosfellsbæjar og skólasamfélagið allt lagði á sig til þess að halda skólum opnum á erfiðum Covid-tímum og var sú vinna ómetanleg. Ég held að fólk geri sér ekki grein fyrir því grettistaki sem þarna var lyft og fyrir það ber að þakka.

Aðrir málaflokkar
Þjónusta við aldraða er einnig mikilvægur flokkur og þar er Mosfellsbær stöðugt að bæta í þjónustu. Þar má til dæmis nefna nýjungar varðandi hreyfingu og heilsueflingu, verkefnið Karlar í skúrnum o.fl.
Aðstaða til íþróttaiðkunar hækkar milli ára enda er uppbygging í gangi t.d. á Varm­ársvæðinu, Fjölnotahúsið Fellið var tekið í notkun og mun uppbygging halda áfram í samráði við Aftureldingu á næstu árum.

Gerum gott betra
Það er ánægjulegt og þakkarvert að sjá það traust sem Mosfellingar sýna starfsemi og þjónustu bæjarins sem endurspeglast í jákvæðu viðhorfi til þjónustunnar.
Mosfellsbær hefur á að skipa mjög metnaðarfullu og hæfileikaríku starfsfólki sem mun m.a. nota niðurstöðu þessarar könnunar til þess að rýna til gagns og bæta þá þætti sem betur mega fara í þjónustu bæjarins, með því gerum við Mosfellsbæ enn betri.

Ásgeir Sveinsson, formaður bæjarráðs
og skipulagsnefndar Mosfellsbæjar.