Vorhreingerningar

Michele Rebora

Veturinn í vetur hefur verið afskaplega blíður hér í bænum og lítið tilefni til að kvarta undan veðri.
Því kitlar hækkandi sól og lengri dagsbirta eflaust marga til að huga að vorverkum, hvort sem er í görðum, hesthúsum, bílskúrum eða geymslum. Vorinu fylgir oft innileg löngun til endurnýjunar, til þess að taka til og gera hreint. Tiltektin og endurnýjunin skila okkur vellíðan og snyrtilegu nærumhverfi en leiða jafnan af sér einhvers konar úrgang, eitthvert „drasl“ sem við þurfum að losa okkur við. Þá er gott að staldra dálítið við og velta fyrir sér hvernig best er bera sig að.
Sumt sem við sjálf höfum ekki lengur not fyrir getur komið sér vel fyrir aðra. Nýtum okkur t.d. hverfissíður á Facebook og auglýsum hlutina gefins, spörum okkur sporin og stuðlum um leið að betri nýtingu auðlinda. Endurnotkun er besta tegund endurvinnslu.
Ef við erum með garð er tilvalið að koma sér upp moltugerð sem getur tekið við laufum, grasi og öðrum minni garðúrgangi, ásamt flestum lífrænum eldhúsúrgangi. Þannig drögum við úr akstri, viðhöldum hringrás næringarefna á staðnum og fáum fínan áburð án búðarferða.
Auðvitað verður þó alltaf eitthvað sem við þurfum að losa okkur við og fara með í SORPU. En þá er gott að kíkja á vef fyrirtækisins, sorpa.is, og skoða vel hvaða flokkar eru í boði á okkar ágætu endurvinnslustöð hér að Blíðubakka. Rusl er nefnilega ekki bara rusl og fullt af því er hægt að endurvinna sé því komið í réttan farveg. Það er því mikilvægt að kynna sér möguleikana og skipuleggja ferðirnar eftir því.
Hreingerningarþörfin nær að sjálfsögðu líka til bílanna okkar; meira og minna salt-skítugir kaggar bíða þess eins að verða þrifnir. Munum þá að innkeyrslur og bílaplön eru almennt ekki staðurinn til þess. Tjöruhreinsir og drullugt sápuvatn mega ekki renna niður götuna og hverfa ofan í niðurfall. Þau hverfa nefnilega ekki, heldur berast óhreinsuð í læki og ár og eyðileggja lífiríki þeirra. Notum viðurkenndar bílaþvottastöðvar og þvottaplön bensínstöðvanna þar sem frárennsli fer í gegnum viðunandi hreinsivirki áður en því er veitt í fráveitukerfi.
Sleppum svo fram af okkur beislinu í vorhreingerningum og hjálpumst að í að fegra bæinn okkar eftir veturinn. Að plokka er til að mynda frábær leið til að sameina útihreyfingu og umhverfismál. Og það er ekki bara ruslið sem tínt er upp, heldur ýtir snyrtilegt umhverfi undir betra umgengni. Svo ekki sé talað um mikilvægi jákvæðs fordæmis.
Já, það er vor í lofti og gildir einu þótt eitthvert páskahret sé eftir, tiltektin er hafin.

Michele Rebora
Fulltrúi Vina Mosfellsbæjar í umhverfisnefnd