Snemmtæk íhlutun með áherslu á málþroska og læsi

Sveinbjörg Davíðsdóttir

Lærdómssamfélag leikskóla í Mosfellsbæ

Í september 2018 fóru leikskólar í Mosfellsbæ í samstarf við Menntamálastofnun og Áshildi Bj. Snorradóttur talmeinafræðing um innleiðingu á verkefninu „Snemmtæk íhlutun með áherslu á málþroska og læsi“.
Áherslur í verkefninu voru í samræmi við áherslur Aðalnámskrár leikskóla þar sem vægi leiksins er þungamiðjan og meginnámsleið leikskólastarfsins. Leikur er þannig mikilvæg námsaðferð og getur kallað á fjölbreytta notkun tungumálsins og samskipti.

Markmið verkefnisins var
• Að öll börn í leikskólum Mosfellsbæjar nái hámarksárangri hvað varðar mál, tal og boðskipti og undirbúning fyrir læsi. Stefnt er á að þessi undirbúningur skili börnunum betur undirbúnum inn í fyrsta bekk grunnskóla og að unnið sé í anda heildstæðrar skólastefnu.
• Að Mosfellsbær taki leiðandi hlutverk í valdeflingu starfsfólks leikskólanna til að beita aðferðum snemmtækrar íhlutunar í daglegu starfi til að efla málfærni og læsi.

Þórunn Ósk Þórarinsdóttir

Lögð verður áhersla á að hvert barn fái íhlutun og kennslu við hæfi og að kennsla í grunnskólum byggist á niðurstöðum og áherslum í kennslu frá leikskólum, þannig að komið verði í veg fyrir afturvirkt rof. Unnið verður eftir hugmyndafræði um snemmtæka íhlutun með áherslu á hámarksárangur allra barna hvað varðar málfærni og læsi.
Samstarfinu lauk formlega í júní 2020 og afurðin eru handbækur sem innihalda verkferla og skráningar á málörvun innan hvers leikskóla. Stjórnendur, starfsfólk og foreldrar fengu fjölbreytta fræðslu um mikilvægi málþroska og leiðir til að efla málþroska og læsi á þessu tímabili. Ánægjulegt er að nefna hvað foreldrar tóku virkan þátt í fræðslunni og voru áhugasamir.

Mat
Mat á verkefninu var m.a. unnið út frá grunnmælingum á niðurstöðum athugana, HLJÓM2. Mælingar sýna að góður árangur er af verkefninu og gefur það okkur byr í seglin um að halda áfram þessu skemmtilega starfi
HLJÓM 2 er aldursbundin skimun sem er lögð fyrir til að meta hljóðkerfis- og málmeðvitund barna í elsta árgangi leikskólans í því skyni að greina þau börn sem eru í áhættu fyrir síðari lestrarerfið­leika.
Slök hljóðkerfis- og málvitund er talin aðalorsök lestrarvanda hjá 88% barna (9 af hverjum 10 börnum). (https://mms.is/hljom-2)
Vaxandi áhersla er lögð á að börnum sé strax frá unga aldri boðið markvisst upp á leiki og verkefni til örvunar hljóðkerfis- og mál­meðvitundar þeirra og að þeim sem virðast eiga í erfiðleikum sé sinnt sérstaklega. Verkefnin eru miðuð við námsleiðir ungra barna sem er fyrst og fremst í gegnum leik.

Afrakstur verkefnisins
Starfsfólk leikskóla Mosfellbæjar hélt vel utan um verkefnið. Hver skóli gerði handbók sem er sérsniðinað hverjum skóla með sínar áherslur í leik og námi. Þær nýtast hverjum starfsmanni sem leiðarvísir að því námi sem þarf að fara fram í leikskóla með skipulagðri kennslu í málþroska og læsi.

Lærdómssamfélagið
Kennarar og starfsfólk leikskóla eru stöðugt að reyna að bæta kennsluhætti sína. Við ígrundum reglulega starfið og með tilkomu handbókanna náðum við að ramma inn það starf sem við viljum hafa að leiðarljósi. Við innleiðingu handbókanna fara börn og starfsfólk í gegnum sameiginlegt nám, starfsþróun, sameiginleg gildi og sameiginleg ábyrgð sem verður að lærdómssamfélagi þar sem allir valdeflast í námi og starfi.

Sveinbjörg Davíðsdóttir leikskólastjóri á Hlaðhömrum
og Þórunn Ósk Þórarinsdóttir leikskólastjóri á Reykjakoti.