STRAX-heilkennið í Mosfellsbæ

Sveinn Óskar Sigurðsson

Embættismenn í Kína tilheyra gamalli stétt. Sú er mun þróaðri en sú íslenska. Rekja má kínverska embættismannakerfið langt aftur í aldir.
Réðu þar konungar og keisarar sem oft á tíðum voru fremur lítt stjórntækir. Má þar m.a. nefna síðasta keisarann Puyi. Puyi sagði af sér embætti „STRAX“ í upphafi síðustu aldar. Við tók borgarastyrjöld, svo árásir Japana og að lokum kommúnistar.
Á bæjarstjórnarfundum í Mosfellsbæ virðist þessu öðruvísi farið en þar sem best lætur. Í Mosfellsbæ á embættis- og stjórnmálamaður það til að renna saman í einn mann rétt eins og í óræðu listaverki eftir uppáhaldið mitt, sjálfan Salvador Dali. Heima hjá Dali, í spænska sjávarþorpinu Port Lligat við Miðjarðarhafið, er stigi sem liggur upp í ekkert. Ætli að þar sé að finna hinn eiginlega metorðastiga hins íslenska pólitískt ráðna embættismanns sem haldinn er „Stokkhólms-heilkenni“?
Bóseindir eðlishyggjunnar birtast er embætti forseta bæjarstjórnar, pólitískt ráðna bæjarstjórans og kjörna bæjarfulltrúans, þ.e. oddvita Sjálfstæðisflokkins, renna saman í einn mann. Á sér þá stað fremur óstöðugur kjarnasamruni, sérlega þegar fara á „STRAX“ í fundarhlé. Ekki er séð hvaða neyðarástand er uppi þegar svo brátt skal brugðist við.

„Únglingurinn í skóginum“ varð til hér í Mosfellsbæ. Frá þeim tíma er Hriflubóndinn bannfærði Laxness hefur ekki verið uppi súrrealískara ástand í Mosfellsbæ, þökk sé meirihluta Sjálfstæðisflokks og VG. Hvorki eru anemónur kysstar næ hlegið. Það er miður.
Fréttir herma að nýlega hafi Mosfellsbær tapað dómsmáli í héraði gegn fjölfötluðum einstaklingi. Samkvæmt efni dómsins varðar málið NPA samning sem bærinn dró að ganga frá. Þegar bæjarfulltrúar, sem vilja hreyfa við viðkæmum málum en mikilvægum er slíkt túlkað, af helstu „súrrealistum“ bæjarstjórnar, sem árás á Mosfellsbæ eins og hann leggur sig. Í versta falli er í slíkum málum fullyrt að viðkomandi bæjarfulltrúar, sem gagnrýna lélegan rekstur og gerræðislegt stjórnarfar, séu að ráðast með ofbeldi á starfsmenn bæjarins.
Hversdagsleiki illskunnar á sér hér engin takmörk í augljósri ógnarstjórn er skákar hér í skjóli aumkunarverðs meirihluta. Sá sem stýrir er sá sem ber ábyrgð en ekki einstakir starfsmenn. Ábyrgðina á þessu ber embættismaðurinn og bæjarstjórinn í senn. Mun meirihlutinn axla hana?

Þessu til fyllingar skal bent á grátkór sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu. Sá kallar stöðugt eftir fjármagni úr ríkissjóði, jafnvel í gegnum gjallarhorn banka. Ríkissjóður reynir að halda sig við langtíma fjármálaáætlun í sama mund og sveitarfélögin mörg hafa úr ónýttum skattheimildum að moða. Þetta staðfesti formaður Sjálfstæðisflokksins og fjármálaráðherra nýlega.
Ekki skal mærð aukin skattlagning en þarna virðist hnífurinn standa í heilagri kú. Sveitarfélögin mörg sóa ítrekað af almannafé og það í gæluverkefni eins og hönnun á óarðbærri borgarlínu. Nefna má einnig sóun í SORPU og illa rekinn Strætó. Þau senda nú sjálfsagt brátt frá sér hágrát úr fjarskiptakerfinu vegna NPA samninga við fatlaða einstaklinga. Er það þar sem á að spara og láta hart mæta hörðu?
Vonum að embættismannakerfið á Íslandi, sérstaklega í yfirstjórn Mosfellsbæjar, breytist. Þurfum við að bíða þar til enn einn vel meinandi embættismaðurinn gefst upp, hættir, hverfur? Já, hverfur rétt eins og í Kína.

Sveinn Óskar Sigurðsson, bæjarfulltrúi Miðflokksins í Mosfellsbæ