Verður byggð blokk í bakgarðinum hjá þér?

Jón Pétursson

Þegar fólk kaupir sér húsnæði er að mörgu að hyggja. Byggingin þarf að uppfylla lög og reglugerðir en því miður virðast allt of margir gallar koma í ljós eftir að eigendur taka við fasteign. Margir slíkra galla eru á ábyrgð hönnuða, byggingastjóra eða meistara.
Skv. lögum má Húsnæðis- og mannvirkjastofnun (áður Mannvirkjastofnun) ávíta og svipta starfsréttindum þá sem vanrækt hafa starfsskyldur sínar. Ekki hefur komið til þess að hönnuður, byggingastjóri eða iðnmeistari hafi hlotið áminningu og misst löggildingu eða starfsleyfi á grundvelli 57. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki. Ótrúlegt! Hér er ekki við byggingafulltrúa að sakast heldur Húsnæðisstofnun svo að það sé tekið fram. Yfirvöld í bænum ættu hins vegar að beita sér fyrir að byggingaeftirlit fái nægt fjármagn til þess að veita aðhald þeim sem starfa í mannvirkjagerð innan bæjarmarka.
Aðrir hagsmunir vega einnig þungt, t.a.m. skipulagsþátturinn. Þar gilda önnur lög en í grófum dráttum má segja að skipulagsvaldið sé pólitískt. Bæjarstjórn tekur ákvörðun um aðalskipulag sem er áætlun eða stefna. Það má segja að aðalskipulag sé framtíðarsýn.
Deiliskipulag er áætlun fyrir afmarkað svæði eða reiti sem í manna máli eru kölluð hverfi. Þetta er þó ekki algilt.
Skipulagsþátturinn er alfarið á ábyrgð kjörinna fulltrúa. Skipulagsvaldið er nánast alltaf í höndum sveitarfélagsins.
Miðflokkurinn í Mosfellsbæ hefur tekið þá afstöðu að deiliskipulagi sem er í gildi eigi ekki að breyta. Átæða þess er sú að við breytingar skerðast gæði þeirra sem fyrir eru.
Á þessu eru að vísu fáeinar undantekningar. Þær eru t.d. breytingar er lúta að umferðaröryggi íbúa og aðgengi. Miðflokkurinn hefur líka verið fylgjandi breytingum á deiliskipulagi hverfa sem eru óbyggð enda vita fasteignakaupendur þar að hverju þeir muni ganga.
Það er nefnilega raunin að þegar verið er að gera breytingar er of algengt að horft sé til gróðasjónarmiða vertaka. Rökin sem beitt er geta verið að markaðurinn kalli eftir tilteknum stærðum eigna og því sé eðlilegt að fjölga íbúðum. Yfirleitt fylgja slíkum fullyrðingum engin gögn.
Greiningardeild Ríkislögreglustjóra gaf út skýrslu um skipulagða brotastarfsemi 2019. Í skýrslunni var vitnað í Noreg og ástandið þar.
„Í kafla um spillingu á bæjar- og sveitarstjórnarstigi segir að sakamál síðustu ára gefi til kynna sérstaka áhættu á spillingu í tengslum við leyfisveitingar vegna skipulagsmála og byggingaframkvæmda. Sú hætta sé fyrir hendi að starfsmenn á bæjar- og sveitarstjórnarstigi ýmist reyni að hagnast á aðstöðu sinni með tilliti til leyfa vegna framkvæmda eða þeim séu boðnar mútur. Fjallað er um að framferði sem almenningur upplifi sem siðleysi og spillingu á þessu sviði stjórnsýslunnar þurfi ekki nauðsynlega að fela í sér lögbrot. Sagt er frá rannsókn á vegum samtaka sveitarfélaga í Noregi árið 2018. Í henni kváðust 85% stjórnenda á bæjar- og sveitarstjórnarstigi telja spillingu „litla eða mjög litla“ á þessu sviði opinbers reksturs. Í sömu könnun sögðu 13% þátttakenda að þeir hefðu á síðustu 12 mánuðum orðið fyrir þrýstingi um að hygla sérstaklega tilteknum aðilum í störfum sínum.“
Vonandi stöndum við okkur betur en Noregur.

Jón Pétursson, fulltrúi Miðflokksins í skipulagsnefnd Mosfellsbæjar