Samvinna eftir skilnað – barnanna vegna

Guðrún Marínósdóttir

Í nóvember 2020 bauð félagsmálaráðuneytið fjölskyldusviði Mosfellsbæjar, ásamt sex öðrum sveitarfélögum í landinu, að vera með í tilraunaverkefni um framkvæmd félagslegrar ráðgjafar sem sérstaklega snýr að skilnaðarráðgjöf.
Markmið samkomulagsins um verkefnið er að innleiða og þróa nýtt vinnulag í samstarfi við félagsmálaráðuneytið. Verkefnið snýr að eflingu félagslegrar ráðgjafar með áherslu á skilnaðar-, forsjár- og umgengnismál.

Félagsmálaráðuneytið tryggir innleiðingu verkefnisins hvað varðar kostnað vegna samninga, annars vegar við danska fyrirtækið Samarbejde Efter Skilsmisse (SES) og hins vegar við íslenska sérfræðinga sem hafa umsjón með innleiðingu verkefnisins á Íslandi, þ.m.t. þýðingu efnis, fræðslu og handleiðslu til starfsmanna. Gildistími verkefnisins er 1. janúar til 30. júní 2021.
Fjölskyldunefnd Mosfellsbæjar fékk kynningu á verkefninu 17. nóvember 2020. Verkefnið var síðan staðfest á fundi bæjarstjórnar 25. nóvember 2020. Félagsráðgjafar fjölskyldusviðs Mosfellsbæjar hafa nú fengið þjálfun og kennslu frá sérfræðingum SES í þeim gagnreyndu aðferðum sem notaðar eru í verkefninu og geta þannig stutt við þá foreldra sem taka þátt í SES.
Rannsóknir hafa sýnt að þeir foreldrar sem taka þátt í SES skilnaðarráðgjöf líður betur bæði andlega og líkamlega, en þátttaka foreldra hefur einnig áhrif á bætta líðan barna þeirra.

Ráðgjöfin er miðuð við foreldra barna 0-18 ára. Ráðgjöfin miðar að því að koma í veg fyrir og/eða draga úr ágreiningi milli foreldra sem standa í skilnaðarferli og á þann hátt að vernda börn þeirra í ferlinu. Í gegnum verkefnið öðlast foreldrar færni og verkfæri til að takast á við óvæntar uppákomur sem tengjast skilnaðinum sem og skilning á viðbrögðum barna sinna við honum.

Meginmarkmið verkefnisins er að vernda hagsmuni barnsins í ferlinu og bæta andlega og líkamlega líðan foreldra og barns. Úrræði verkefnisins sem í boði eru:
1. Rafrænt námskeið.
Námskeiðið samanstendur af þremur áföngum: Áhrif skilnaðar á foreldra, viðbrögð barna við skilnaði og samvinna foreldra við skilnað.
2. Sérhæfð ráðgjöf hjá SES ráðgjöfum Mosfellsbæjar.
3. Hópnámskeið. Námskeið fyrir foreldra er fyrirhugað á árinu (2021) þar sem ítarlega verður fjallað um áhrif skilnaðar á fjölskyldu.

Mikilvægt er að hafa í huga að ráðgjöfin þarf ekki að fara fram jafnhliða í skilnaðarferli og er einstaklingsmiðuð. Þannig er hún líka fyrir foreldra þótt lagt sé um liðið frá skilnaði. Ekki er þörf á að báðir foreldrar taki þátt í SES verkefninu, þó svo það sé æskilegt, heldur getur annað foreldrið hæglega nýtt sér úrræðin sem í boði eru.
Frekari upplýsingar um verkefnið má finna á samvinnaeftirskilnad.is, og á heimasíðu Mosfellsbæjar, þar sem einnig er hægt að sækja um í ráðgjöfina í gegnum mínar síður. Þá hefur samstarfsaðilum fjölskyldusviðs verið kynnt úrræðið.

Fyrir hönd SES hjá Mosfellsbæ,
Guðrún Marinósdóttir,
Stjórnandi barnaverndar