Mosfellsbær – heilsueflandi samfélag

Hanna Guðlaugsdóttir

Hanna Guðlaugsdóttir

Mosfellsbær býður starfsmönnum sínum að sækja fjölbreytta íþróttatíma, þeim að kostnaðarlausu. Er þetta liður í að hvetja alla starfsmenn til að hreyfa sig með reglubundnum hætti, bæta heilsufar sitt, vellíðan og hreysti.
Þetta hefur mælst vel fyrir og hafa starfsmenn sótt tíma í jóga, vatnsleikfimi, Peak Pilates og nú bætast skokk- og hlaupahópar við fram á sumar.
Mosfellsbær hóf einnig að bjóða starfsmönnum sínum samgöngustyrk árið 2018 og hvetja þannig starfsmenn til að bæði hreyfa sig meira og nota vistvænan ferðamáta til og frá vinnu í a.m.k. 80% tilvika eða fjóra daga í viku.

Nú er að hefjast árlegt heilsu- og hvatningarverkefnið „Hjólað í vinnuna“. Meginmarkmið átaksins „Hjólað í vinnuna“ er að vekja athygli á virkum ferðamáta sem heilsusamlegum, umhverfisvænum og hagkvæmum samgöngumáta.
Allir sem nýta eigin orku til að ferðast til og frá vinnu eru gjaldgengir þátttakendur þ.e. hjóla, ganga, hlaupa, nota línuskauta/hjólabretti o.s.frv. Þeir sem nota almenningssamgöngur geta einnig tekið þátt en þá er skráð sú vegalengd sem gengin/hjóluð er til og frá stoppistöð.
Starfsmenn Mosfellsbæjar eru hvattir til að taka virkan þátt í átakinu og sækja þá einnig um samgöngustyrk. Mosfellsbær verður með hvatningarstöðvar á eftirtöldum dögum/stöðum þar sem þeir sem „Hjóla í vinnuna“ geta stoppað við eftir hjólatúrinn og fengið sér hressingu við skemmtilega tónlist áður en haldið er til vinnu.

hannagreinHREYFUM OKKUR INN Í SUMARIÐ!
Mosfellsbær – Heilsueflandi samfélag

Hanna Guðlaugsdóttir
Mannauðsstjóri Mosfellsbæjar

Tökum vel á móti íþróttafólkinu okkar!

Hanna Björk Halldórsdóttir

Hanna Björk Halldórsdóttir

Í fjölda ára hefur íþróttafólkið okkar í Aftureldingu farið til útlanda í keppnis- og æfingaferðir. Þessar ferðir eru frábærar fyrir svo margar sakir.
Í ferðunum eru krakkarnir saman nánast öllum stundum og kynnast því betur en ella. Iðkendur fá að æfa og keppa við bestu aðstæður, í góðu veðri og við nýjan andstæðing. Þetta bætir heldur betur í reynslubankann hjá íþróttafólkinu okkar. Þessar ferðir skapa liðsheild, vinskap og frábærar minningar.

Hjá Aftureldingu sjá foreldrarráðin, með hjálp stjórn deilda, um að skipuleggja þessar ferðir. Vinnan á bak við svona ferð er gríðarleg, hóparnir eru sumir hverjir stórir, sumir iðkendur kannski með einhverjar meiri þarfir en aðrir og einhverjir eru að fara til útlanda í fyrsta skipti. Að mörgu þarf að huga.
Kappkostað er að hafa þessar ferðir sem ódýrastar, alltaf kostar þetta þó sitt. Þar koma fjáraflanir inn, en vel skipulagðar fjáraflanir geta minnkað kostnaðinn allverulega ef iðkendur eru duglegir að taka þátt. Og það eru til dæmi um að iðkendur nái að safna sér fyrir allri ferðinni. Fjáraflanirnar einar og sér geta skapað sömu liðsheild, vinskap og minningar og ferðin sjálf. Svo talað sé ekki um uppeldislegt gildi þeirra.

Happdrætti, harðfiskur, hamingja
Fjáraflanir eru alls ekki allar jafn skemmtilegar. Sumar eru bara hreinlega leiðinlegar, en sumar eru nauðsynlegar. Ég var að öllum líkindum ekki sú vinsælasta þegar ég sendi krakkana út að tína rusl í bænum okkar í síðasta mánuði, og hreinlega með ólíkindum að ég hafi ekki verið með hiksta þegar það byrjaði að rigna og fjúka. Til þess að halda uppi fjörinu hafa foreldrafélögin reynt að hafa þær sem fjölbreyttastar. Á móti koma skemmtilegu fjáraflanirnar. Mosfellingar hafa eflaust fengið einhverja í heimsókn nú þegar með happdrættismiða eða harðfisk. Á næstu vikum fara af stað allra skemmtilegustu fjáraflanirnar, þ.e. maraþonin.
Í sumar fara nokkrir flokkar til útlanda. Frá handknattleiksdeildinni fara þrír flokkar, 4. og 5. flokkur kvenna og 4. flokkur karla, frá knattspyrnudeildinni fara 3. og 4. flokkur kvenna, frá sunddeildinni fer Gullhópur og frá frjálsíþróttadeildinni fara iðkendur 14 ára og eldri. Nú í maí og júní ætla þessar deildir að efna til maraþons, hver innan sinnar deildar. Þá eyða krakkarnir 10-12 klst saman í íþróttahúsum og sundlaugum bæjarins. Meirihuti tímans fer í að stunda þá íþrótt sem þau keppa í en svo er þessu einnig slegið upp í leik og keppnir í öðrum íþróttagreinum
Mig langar til því að biðja þig, kæri Mosfellingur, að taka vel á móti íþróttafólkinu okkar. Á næstu vikum eigið þið eftir að fá metnaðarfullt, jákvætt og duglegt íþróttafólk í heimsókn sem ætlar að safna áheitum fyrir maraþon. Þrjú maraþon, fjórar deildir og átta flokkar eru margir iðkendur. Öll stefna þau þó að því sama, að komast í keppnisferð og að verða betri. En höfum það í huga að öll stunda þau íþróttina sína hjá sama félagi.
Takk sjálfboðaliðar, takk foreldraráð og takk foreldrar fyrir að gera þessar ferðir mögulegar. Takk bæjarbúar, fyrir stuðningin og góðar móttökur.
Áfram Afturelding!

Hanna Björk Halldórsdóttir,
íþróttafulltrúi Aftureldingar

Vinnustaðurinn okkar, Varmárskóli

varmarskoligrein

Við undirritaðar vinnum í Varmárskóla og erum stuðningsfulltrúar. Við erum stoltar af því vinna í Varmárskóla og þar ríkir góður vinnuandi.
Okkur og fleirum þykir miður þessi neikvæða umræða um vinnustaðinn okkar, rúmlega 800 nemenda og 150 annarra starfsmanna sem hefur verið undanfarið. Í Varmárskóla starfar frábært starfsfólk sem leggur mikið á sig.
Í Stundinni birtist bréf sem byrjar á þessa leið: „Foreldrar og kennarar barna í Varmárskóla eru ósáttir við skólastjórnendur.“ Þótt við séum ekki kennarar við skólann þá vitum við að það er engin óánægja meðal starfsfólks með skólastjórnendur. Kannski er pistlahöfundurinn að vitna í starfsmann sem er löngu hættur störfum?
Mikil umræða hefur verið um myglu í skólanum, við starfsfólkið höfum verið mjög vel upplýst um gang mála. Haldnir hafa verið fundir með okkur starfsfólki með umhverfissviði bæjarins. Það hafa fundist rakaskemmdir sem er kannski ekki óeðlilegt í gömlu skólahúsnæði en reynt hefur verið að laga það og telja menn að það hafi tekist vel til en það þarf alltaf að vera á tánum í þessum málaflokki. Það er ekkert óeðlilegt að viðhald fari fram, ekki síst í húsnæði sem er notað kvölds og morgna.
Húsnæðið okkar nýta kórar og bekkjarfulltrúar eru duglegir að gera eitthvað skemmtilegt með krökkunum eftir að skóla lýkur. Það vekur furðu okkar að spyrja á pólitískri Face­book-síðu hér í bæ hvort fólk mæli með skólanum. Á síðu þar sem einmitt hefur verið ítrekað fundið að skólanum í einu og öllu. Að sjálfsögðu koma mismunandi sjónarmið eins og samfélagið er uppbyggt. Sum svörin dæma sig sjálf og það er dapurt að sjá einstaklinga kasta fram fullyrðingum sem ljóst er að skólinn getur ekki tjáð sig um.
Fullyrt er að það sé allt morandi í einelti og ekki tekið á því. Við skólann starfar mjög öflugt eineltisteymi sem fundar um leið og mál koma upp og setja í ferli. Málin eru hinsvegar ekki alltaf leysanleg ef heimilin koma ekki með í þá vegferð. Sumt á sér stað utan skóla, í netheimum og þar þurfa heimilin að stíga fast niður.
Einnig er talað um að það sé engin sérkennsla lengur í skólanum! Hvaðan fá aðilar þær upplýsingar? Í Varmárskóla yngri deild er stoðþjónustan örugglega með þeim allra bestu sem þekkist á landinu. Þar starfar 18 stuðningsfulltrúar, þrír sérkennarar, einn þroskaþjálfi og einn iðjuþjálfi.
Að auki hafa margir kennarar og stuðningsfulltrúar það hlutverk að vera lestrarstuðningur við þá nemendur sem ekki hafa náð lestrarviðmiðum og þurfa auka þjálfun. Við erum með Varmárstofu sem þjónustar nemendur meðal annars með einhverfu og aðrar raskanir.

Við erum stolt af skólanum okkar og teljum okkur vera að vinna gott starf. Uppbyggileg gagnrýni er að sjálfsögðu gild en þegar hún verður til niðurrifs hefur hún þá ekki snúist í andhverfu sína?

Fyrir hönd stuðningsfulltrúa við Varmárskóla
Margrét Gróa Björnsdóttir , Ása Þ. Matthíasdóttir, Birgitta
Jóhannsdóttir, Sandra Rut Falk og Sigríður F. Jónbjörnsdóttir

Náttúran eflir og læknar

Ólöf Kristín Sívertsen

Ólöf Kristín Sívertsen

Sagt hefur verið að útivera og ferskt loft sé eitt besta meðalið sem hægt er að fá við nánast öllu.
Nú hafa sænskir vísindamenn sýnt fram á með nýlegum rannsóknum að svo sé og jafnframt að náttúran virki betur, t.d. gegn kulnun, en lyf.

Náttúran betri en lyf
„Við sjáum það mjög skýrt og endurtekið við vinnu okkar í endurhæfingarstöðinni í Alnarp að náttúran virkar mun betur en lyf og aðrar meðferðir, til að mynda gegn kulnun“ segir Erik Skärbäck, prófessor í borgarskipulagi og landslagsarkitekt við Alnarp landbúnaðarháskólann í Svíþjóð.
Á meðal þess sem var skoðað sérstaklega voru göngur, bæði í skóglendi og náttúrunni almennt, og var niðurstaðan sú að slíkar göngur væru betri fyrir heilsuna en hinir hefðbundnu lyfjakúrar. Það er virkilega ánægjulegt að fá það staðfest að sú ró og friður sem við upplifum í náttúrunni geti haft svo jákvæð áhrif á líðan okkar og heilsu.

Heilinn slakar á
Heili okkar nær að slaka á í rólegu umhverfi, ólíkt því sem gerist í áreiti borga þar sem t.d. bílaumferð er mikil og ýmis hljóð bergmála í umhverfi okkar. Náttúran, eins og t.d. fiðrildi, flugna­suð og lauf, tekur ekki eins mikla orku frá okkur og því getum getum við leyft huganum að reika segir Erik Skärbäck.
Það er til dæmis ástæðan fyrir því að þegar við förum í skógargöngu eða göngu í náttúrunni þá höfum við meira rými til að hugsa og komast til botns í ýmsum úrlausnarefnum þar sem það er ekki jafnmikið áreiti í náttúrunni.

Njótum útivistarsvæðanna
Það er því ærið tilefni fyrir okkur Mosfellinga að gleðjast enda örstutt í Hamrahlíðarskóginn, Reykjalundarskóginn, öll fellin okkar og dásamlegu útivistarsvæðin hér í túnjaðrinum. Allt saman tilvalin svæði til að njóta náttúrunnar og efla eigin vellíðan.

Við hvetjum að sjálfsögðu alla sem vettlingi geta valdið til að nýta sér þessar náttúruperlur í heilsubænum Mosfellsbæ. Munum líka að vera þakklát því það er svo sannarlega ekki sjálfgefið að vera í þessu návígi við náttúruna – náttúru sem eflir og læknar.

Ólöf Kristín Sívertsen
Lýðheilsufræðingur og verkefnisstjóri Heilsueflandi samfélags í Mosfellsbæ

Ársreikningur

Anna Sigríður Guðnadóttir

Anna Sigríður Guðnadóttir

Ársreikningur fyrir árið 2018 var samþykktur nýverið í bæjarstjórn. Niðurstaða hans var góð og allar lykiltölur jákvæðar. Ástæðan er fyrst og fremst hagstæð ytri skilyrði.
Rekstrarafgangur A og B hluta er um 800 milljónir en það eru rífleg frávik frá upphaflegri áætlun með viðaukum sem var upp á rúmlega 300 milljónir. Það er umtalsverð upphæð. Líkt og árið 2017 skýrist niðurstaðan aðallega af eftirfarandi þáttum. Fjölgun íbúa um 8% var vel umfram áætlanir og tekjur íbúa hærri sem þýðir hærri útsvarsgreiðslur inn í bæjarsjóð. Þá voru vextir og verðbætur lægri en gert hafði verið ráð fyrir vegna lægri verðbólgu. Sala byggingarréttar var einnig talsvert meiri en gert var ráð fyrir.

Pólitísk forgangsröðun
Starfsfólk bæjarins hefur, eins og ávallt áður, unnið ötullega að því að halda rekstrinum innan þess ramma sem settur er í stefnumörkun þess pólitíska meirihluta sem ræður ferðinni í bæjarstjórn Mosfellsbæjar. Það sem er gert og ekki síður það sem látið er ógert er hvort tveggja byggt á pólitískum ákvörðunum meirihluta Vinstri grænna og Sjálfstæðisflokks og á ábyrgð þeirra.
Meginhlutverk sveitarfélagsins er að veita íbúum þjónustu og til þess nýtum við útsvarið. Sú fjölgun íbúa sem við verðum vitni að þessi árin, sem og aðhald undanfarinna ára í rekstri og viðhaldi, hrópar á innspýtingu í þjónustu bæjarins og viðhald fasteigna. Í því samhengi nefni ég sérstaklega skólana okkar, innra starf og húsnæði, en Samfylkingin hefur á umliðnum árum margrætt nauðsyn þess að bæta þar um betur.

Undanfarið ár hefur umræðan um slakt viðhald Varmárskóla verið ofarlega á baugi. Sem betur fer hefur bæjarstjórn öll loks samþykkt að fara í gagngera úttekt og viðhald á því húsi sem og öðrum byggingum sem hýsa skólastarf. Það er bara sérstakt að pólitískur meirihluti VG og Sjálfstæðisflokks skuli ekki hafa brugðist við fyrr. Vanrækt viðhald er ávísun á stóraukinn kostnað í framtíðinni. Opin umræða um það sem aflaga fer eða er talið ábótavant er jafn mikilvæg og jafnvel mikilvægari en umræða um það sem tekst vel. Með gagnsæi, opinni umræðu, samstarfi og upplýsingamiðlun má koma í veg fyrir að umræðan lendi í öngstræti. Vonandi tekst að lægja öldurnar í kringum Varmárskóla því nemendur og starfsfólk skólans þurfa vinnufrið.
Bætt þjónusta innan skólanna er að sjálfsögðu eilífðarverkefni, þar verður seint komið að endastöð. Öflug þjónusta innan skólakerfisins getur skipt sköpum fyrir þroska og framtíð nemendanna. Í svo ört stækkandi bæjarfélagi hlýtur fræðslukerfið að þurfa að bæta í og auka þjónustuframboð. Ég nefni sérstaklega sérfræðiþjónustu sem brýn nauðsyn er á að efla.

Fæðslumálin eru fyrirferðarmest í rekstri bæjarins en síaukinn fjöldi bæjarbúa kallar á að félagsþjónustan og tómstundastarf í heilsueflandi samfélagi fái aukinn stuðning svo ekki sé minnst á almennt viðhald mannvirkja og gatna eða mál málanna, umhverfismálin. Í öllum þessum málaflokkum þarf að taka til hendinni.
Eins og ég nefndi hér áður þá byggjast ákvarðanir um rekstur bæjarins á pólitískri stefnu þeirra aðila sem mynda meirihluta í bæjarstjórn, Vinstri grænna og Sjálfstæðisflokks. Þar er þjónustustigið í raun ákveðið og þar hvílir ábyrgðin.

Anna Sigríður Guðnadóttir
bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar

EES-samningurinn 25 ára

Bryndís Haraldsdóttir

Bryndís Haraldsdóttir

Fyrir 25 árum opnaðist um 500 milljóna markaður fyrir íslenskum fyrirtækjum með inngöngu í EES. Samningurinn var umdeildur á sínum tíma en samningurinn hefur fært okkur mikla velsæld.
Landsframleiðsla á mann hefur tvöfaldast, verðmæti útflutnings á mann þrefaldast og kaupmáttur heimilanna nær þrefaldast. Ég tel það ekki bara gott heldur lífsnauðsynlegt fyrir lítið eyríki í Norður-Atlantshafi að eiga í góðum samskiptum, bæði viðskipta-, stjórnmála- og menningarlegum við önnur ríki. En þá má spyrja hvort við ættum ekki bara að ganga í Evrópusambandið? Svar mitt við því er NEI. Sjálfstæði og velferð okkar er betur varið utan ESB en þó í góðu sambandi við ESB.
Þannig er EES samningurinn að mínu viti besta lausnin. Ég hef stundum heyrt fleygt spurningum á borð við: En er allt svona frábært við þetta EES kjaftæði? Erum við ekki bara einhver stimpilpúði fyrir Brussel? Höfum við nokkra aðkomu að löggjöfinni? Nei það er ekki allt frábært, en hagurinn er mikill. Við þurfum alltaf að gæta hagsmuna okkar. Við tökum bara upp gerðir sem falla undir málaflokka samningsins, það eru um 13% þeirra gerða sem ESB hefur samþykkt á þessum 25 árum. Við semjum um undanþágur og fyrirvara þegar það á við og samráð við Alþingi er mikið.

Þriðji orkupakkinn
Nú liggur fyrir þinginu að innleiða þriðja orkupakkann, tæknilegt framhald af þeim fyrsta og öðrum. Sú innleiðing hefur takmarkaða þýðingu hér á landi. Enda er lagalegur fyrirvari um að hlutar pakkans taki ekki gildi hér þar sem íslenski orkumarkaðurinn er ekki tengdur þeim evrópska. Allur vafi er tekinn af um það að hér verður aldrei lagður sæstrengur nema með samþykki Alþingis. Þá spyrja sumir af hverju erum við þá að þessu?
Í pakkanum felst aukin neytendavernd, krafa um gegnsæi á markaði og sjálfstætt raforkueftirlit. Engin hætta er fólgin í pakkanum og yfirráð yfir auðlindum okkar færist ekki úr landi. EES-samningurinn er mikilvægasti alþjóðasamningur sem Ísland hefur gert og við getum ekki einhliða valið hluti úr því samstarfi. Við getum sótt um undanþágur, sett fyrirvara og aðlagað eins og við höfum nú þegar gert. Engin innleiðing á Evrópureglugerð hefur fengið jafn mikla umfjöllun sérfræðinga, þingmanna og ráðherra á 9 ára vinnslutíma þess. Þannig hafa fjöldi þingmanna úr nær öllum flokkum komið að málinu á síðustu árum, öll álit hafa verið á þá leið að ekkert mæli á móti innleiðingu pakkans.
Einhvern tímann kann að koma upp sú staða að við viljum nota neyðarhemilinn og segja nei. Til þess þurfa að liggja fyrir góð málefnaleg rök enda hefur slíkt aldrei verið gert í sögu samningsins. Þau rök liggja ekki fyrir í þessu máli. Ef ég teldi hættu á ferð myndi ég ekki hika við að segja nei við innleiðingunni og senda hana aftur til Brussel. Hagsmunir íslensku þjóðarinnar eru það eina sem ræður afstöðu minni í þessu sem og öðrum málum sem ég fæst við á þinginu.
Við eigum alltaf að standa vörð um auðlindir Íslands og ég skil vel að margir kunni að vera óöruggir í ljósi þeirrar umræðu sem sprottið hefur um þetta mál. Ef þú er í þeirri stöðu og vilt leggja fyrir mig spurningu, viðra skoðanir, eða óska eftir gögnum þá er þér velkomið að hafa samband.

Bryndís Haraldsdóttir
Þingmaður Sjálfstæðisflokks
bryndish@althingi.is
www.facebook.com/bryndispolitik

Hatrið mun sigra?

Margrét Lúthersdóttir

Margrét Lúthersdóttir

Hatur. Þetta orð heyrum við mikið um þessar mundir. Hatrið mun sigra. Hatari. Hatursorðræða.
Íslendingar hafa ekki farið varhluta af þeirri þróun sem hefur verið að eiga sér stað í nágrannalöndum okkar. Smátt og smátt verða fordómar og hatursorðræða í garð minnihluta- og jaðarhópa eins og innflytjenda, hælisleitenda, hópa sem deila stjórnmála-, lífs- og trúarskoðunum samofnir þjóðfélaginu okkar. Við hættum að gefa þeim gaum og rasistar bera þann titil jafnvel með stolti.
Eitt af hlutverkum Rauða krossins á Íslandi er að standa vörð um mannréttindi og mannlega reisn. Hluti grundvallarhugsjóna hreyfingarinnar byggist á þeirri einföldu reglu; mannúð, óhlutdrægni, hlutleysi, sjálfstæði. Mikilvægt er að vekja athygli á því hvernig hatursorðræða smeygir sér inn í innstu kima samfélagsins, jafnvel án þess að við veitum henni sérstakan gaum. Áður en við vitum af þykir ekkert tiltökumál að vera kallaður rasisti sem ber fyrir sig tjáningarfrelsi. En hvers virði er frelsið ef það nýtist ekki þeim sem standa höllum fæti í samfélaginu okkar?
Það er svo auðvelt og þægilegt að hugsa; við og hinir. Ég er ekki í þessum aðstæðum, þetta snertir mig ekki, en við erum öll mennsk. Það er okkar skylda að mæta öðrum manneskjum þar sem þær eru, gera ekki greinarmun á þeim eftir þjóðerni, uppruna, trúarbrögðum, stjórnmálaskoðunum eða kynhneigð. Það er okkar skylda að veita jaðarsettum hópum samfélagins aðstoð og styðja þá við að koma undir sig fótunum á ný.
Það flýr enginn sitt heimaland án þess að hafa ríka ástæðu til. Ef þér og fjölskyldu þinni væri ekki stætt á Íslandi lengur, hvað myndirðu vilja varðveita af þínum menningararf á nýjum viðkomustað? Hverja myndirðu tala við? Hvernig myndi þér líða?
Áður en við berum fyrir okkur tjáningarfrelsið. Áður en við leiðum hatursorðræðuna hjá okkur. Áður en við reynum að hundsa það sem erfitt er. Hugsum um hvers virði tjáningafrelsið er, hvers virði þægindin eru, ef við getum ekki staðið vörð um mannréttindi þeirra sem verst standa.
Við verðum að láta gjörðir fylgja orðum og sýna þeim sem verst standa að okkur er ekki sama. Við erum tilbúin til að standa saman gegn hatrinu, gegn fordómum og gegn fáfræðinni. Við erum tilbúin að fræða.
Því hatrið mun ekki sigra.

Margrét Lúthersdóttir
Deildarstýra Rauða krossins í Mosfellsbæ

Mosfellsbær laði nýútskrifaða kennara til starfa

Stefán Ómar Jónsson

Stefán Ómar Jónsson

Nýverið kynnti mennta- og menningarmálaráðherra hugmyndir sínar sem byggðar eru á tillögum sem unnar voru í samráði við Sambands ísl. sveitarfélaga, Kennarasamband Íslands, Háskólann á Akureyri, Menntavísindasvið Háskóla Íslands, Heimili og skóla o.fl. um að bjóða nemendum á lokaári meistaranáms til kennsluréttinda á leik- og grunnskólastigi launað starfsnám sem og námsstyrk til þess að sinna lokaverkefnum samhliða starfsnáminu. Ráðherra gerir ráð fyrir að tillögurnar komi til framkvæmda á hausti komanda.
Af þessu tilefni lagði undirritaður bæjarfulltrúi Vina Mosfellsbæjar fram svohljóðandi tillögu á 736. fundi bæjarstjórna þann 3. apríl sl.:
„Bæjarstjórn Mosfellsbæjar samþykkir að stofna starfshóp sem fái það verkefni að móta með hvaða hætti Mosfellsbær geti laðað nýútskrifaða kennara til starfa í skólum Mosfellsbæjar í framtíðinni. “
Tillagan var samþykkt samhljóða og henni vísað til bæjarráðs til afgreiðslu. Á 1396. fundi bæjarráðs þann 24. apríl sl. var samþykkt samhljóða að vísa tillögunni til umsagnar framkvæmdastjóra fræðslusviðs Mosfellsbæjar.
Brautin er því bein í þessu efni eftir samhljóða samþykktir tillögunnar í bæjarstjórn og bæjarráði og vonast undirritaður til þess að umsögn fræðslusviðs verði með þeim hætti að Mosfellsbær setji sig í stellingar til þess að, bæði vinna með tillögum ráðherra um þetta efni og í leiðinni stígi einhver þau skref að Mosfellsbær geti tryggt sér í auknum mæli réttindakennara til starfa í bæði leik- og grunnskólum bæjarins.
Í greinargerð undirritaðs með tillögunni segir þetta:
„Bæjarráði verði falið að skipa starfshópinn, en hann skoði meðal annars hvernig samstarfi skóla Mosfellsbæjar við mennta- og menningarmálaráðuneytið og háskóla vegna fyrirhugaðs starfsnáms kennaranema verði best háttað og vinni tillögur um hvernig Mosfellsbær getur laðað til starfa nýútskrifaða kennara til dæmis með því að veita þeim laun á starfsnámstíma þeirra hjá Mosfellsbæ og eða styrk þegar þeir hefja störf að lokinni útskrift, gegn því að þeir skuldbindi sig til þess að starfa í tiltekinn tíma hjá bænum.“

Stefán Ómar Jónsson
Bæjarfulltrúi L lista Vina Mosfellsbæjar

Vinaliðaverkefni í Varmárskóla

Ása Þ. Matthíasdóttir

Ása Þ. Matthíasdóttir

Vinaliðaverkefnið er norskt að uppruna. Það hefur á fáum árum náð mikilli útbreiðslu og er nú starfrækt í yfir 1000 skólum í Noregi.
Vinaliðaverkefnið gengur út á það að hvetja nemendur til meiri þátttöku í afþreyingu í frímínútum og skapa betri skólaanda. Verkefnið hófst í yngri deild skólans, þar sem nemendum í 4.-6.bekk bauðst að taka þátt en unglingadeild skólans bættist svo við þar sem nemendur þróuðu verkefnið áfram fyrir 7.-10.bekk og buðu upp á afþreyingu við sitt hæfi.
Eitt leiðarljós verkefnisins er að nemendur hlakki alla daga til að mæta í skólann sinn og auki því jákvæðni og vellíðan en aðalmarkmið verkefnisins er að vinna gegn einelti með því að bjóða upp á jákvæða afþreyingu á skólalóðinni í frímínútum.

Þeir nemendur sem eru kosnir til að vera vinaliðar fá sérstakt leikjanámskeið og leiðtogaþjálfun. Þeir sjá um að setja upp stöðvar í frímínútum á mánudegi til fimmtudags. Vinaliðar eiga að láta vita af því ef þeir halda að nemendum leiðist, séu einmana eða ef þeir verða vitni að einelti, útilokun eða öðru sem getur valdið vanlíðan. Vinaliðar fara á fundi reglulega, ákveða skipulag verkefnanna tvær vikur fram í tímann og stýra leikjum á skólalóðinni með stuðningi fullorðinna gæsluaðila.
Mín upplifun er sú að vinaliðaverkefnið sé kærkomin viðbót sem forvörn gegn einelti. Það skiptir gríðarlega miklu máli að nemendur hafi möguleika á jákvæðri afþreyingu í frímínútum. Þegar nemendur fara út í frímínútur vita þeir upp á hvaða leiki verður boðið, leikjastöðvar eru tilbúnar og allir eru hvattir til að taka þátt. Helst af öllu myndum við vilja útrýma einelti, en á sama tíma erum við meðvituð um að það getur reynst afar erfitt.

Í dag er skynsamleg notkun upplýsingatækninnar ofarlega á baugi. Ein af áskorunum foreldra og skóla er að setja börnum okkar mörk er kemur að notkun snjalltækja. Samskipti, heilsa og heilbrigði eru og verða mikilvægir þættir í skólastarfi, að eiga samskipti augliti til auglitis við annað fólk, fá nægan svefn og borða næringarríkan mat og hreyfa okkur.
Í vinaliðafrímínútum eiga nemendur sannarlega í samskiptum við aðra, hreyfa sig og víðast hvar er lögð áhersla á að snjalltæki séu lögð til hliðar á meðan. Það hefur sýnt sig í þeim skólum sem verkefnið hefur verið innleitt en árangurinn hefur komið hratt og örugglega í ljós, nemendum til hagsbóta og það höfum við orðið vör við í okkar skóla. Það er mitt mat að vinaliðaverkefnið sé mjög góð viðbót við allt það góða starf sem fram fer í Varmárskóla.
Nú er ég að ljúka mínum störfum fyrir Varmárskóla, en þar hef ég starfað síðastliðin 13 ár sem stuðningsfulltrúi og hef verið verkefnastjóri Vinaliðaverkefnis í 4 ár.
Ég geng stolt frá borði og er þakklát fyrir þá reynslu að hafa starfað í grunnskóla og ekki síst unnið með frábæru fólki, stjórnendum, kennurum og öðru starfsfólki.

Ása Þ. Matthíasdóttir
verkefnastjóri vinaliðaverkefnisins í Varmárskóla

Mosfellsheiði

Guðjón Jensson

Guðjón Jensson

Árbók Ferðafélags Íslands 2019 kemur óvenjusnemma þetta vorið eða í fyrrihluta apríl. Á liðnum árum hefur útkoman verið nokkru síðar eða í maí.
Að þessu sinni er Mosfellsheiðin tekin fyrir og er margt gott að finna í ritinu einkum þar sem lýst er leiðum eftir gömlum en misjafnlega niðurföllnum vörðum. Munu vera nálægt 800 vörður og vörðubrot á heiðinni en Mosfellsheiði var lengi vel ein fjölfarnasta leið í landinu og er enn.
Sitthvað má finna að þessu verki. Titill árbókarinnar er Mosfellsheiðin en spyrja má hvar höfundar þessa rits draga mörkin því einn kaflinn er teygður á gamla þingstaðinn og getið allra þeirra hátíða sem þar fóru fram allt frá 19. öld. Auðvitað áttu þeir sem leið á Þingvöll oftast leið um Mosfellsheiði en hefði ekki þurft að minnast á þetta atriði sérstaklega í titli verksins ef þetta átti að vera hluti ritsins?
Ein mjög slæm staðreyndavilla kemur fram í bókinni. Fyrrum var Seljadalur í Mosfellsbæ mikilvægur vettvangur seljabúskapar fyrrum. Örnefnið Seljadalur ber með sér að þar hafi verið tvenn eða jafnvel fleiri sel þar í Dalnum. Þekkt er Nessel undir suðurhlíð Grímannsfells en hvar er hitt eða hin selin? Við mynni hans er gömul rétt, Kambsrétt sem var lögskilarétt fram um miðja 19. öld. En um miðja þá 16. verða siðskiptin sem bókstaflega gjörbyltu íslensku samfélagi. Má um það lesa í ritgerð um Þingvallaskóg í Skógræktaritinu 2010.

Viðeyjarsel var eftir máldögum í Seljadal en bókarhöfundar flytja það suður fyrir Lækjarbotna undir Selfjall.
Eitt frægasta hestakvæði á íslenskri tungu er án efa Fákar. Sagt er að Einar Benediktsson hafi fengið hugmyndina að þessu einstaka kvæði á reið sinni um Mosfellsheiðina. Í nokkurs konar boðsriti um þessa bók var á þetta minnst en einhverra hluta vegna hefur þetta ekki ratað í árbókina sem verður að teljast mjög miður. Í staðinn er vikið að gamalli kjaftasögu sem Jón Ólafsson ritstjóri 18 blaða kom á flot en þegar Einar Benediktsson var á leið haustið 1904 austur í Rangárvallasýslu sem nýskipaður sýslumaður, reið hann sökum fótarmeins í kvensöðli í stað venjulegs hnakks. Auðvitað átti þetta vissulega að vera vel valin sneið til skáldsins. Jón Ólafsson átti til að vera nokkuð dyntóttur og gat oft ekki setið á sárs manns höfði enda ritstjórinn til í ýmis konar uppákomur eins og frægt er í sögunni.

Frá Skálabrekku var Hjörtur Björnsson myndskeri og rithöfundur. Hann var þekktur fyrir náttúrurannsóknir sínar. Hann fann a.m.k. tvær sjaldgæfar jurtir við austurbrún Mosfellsheiðar.
Hjörtur dó ungur úr berklum og ritaði kennari hans, Ríkharður Jónsson myndskurðarmeistari, mjög fögur eftirmæli um hann í Vísi 1942. Nokkrum árum áður birtist ritgerð hans um örnefni á Mosfellsheiði í Árbók fornleifafélagsins 1939. En Hjörtur var mjög góður rithöfundur og hefði mátt segja ögn frá honum enda fáir á 20. öld sem tengjast jafn traustum böndum og hann.
Í kaflanum „Náttúrufar“ er gott yfirlit um jarðfræði heiðarinnar sem hefur verið mörgum jarðfræðingum mikill og góður efniviður. Þaðan hafa gríðarmikil grágrýtishraun runnið um langan veg og mótað landslag norðurhluta höfuðborgarsvæðisins. Árni Hjartarson jarðfræðingur hefur bent á að jarðfræðin er í raun nokkuð flóknari. Er bent á það í ritinu og vísað í heimildir.
Gróðurfar á Mosfellsheiði er á margan hátt nokkuð sérstætt. Í dag ber eðlilega mest á mosanum en svo hefur ekki alltaf verið. Gróðurfar hefur breyst mikið á Mosfellsheiði á liðnum öldum. Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá 1704 er getið um að enn séu skógarleifar í landi Elliðakots. Sjálfsagt hefur rányrkja og einkum vetrarbeit sauðfjár gengið nærri birkinu, hinum upphaflega gróðri heiðarinnar.
Um gróðurfarið er einkum byggt á tölvupóstum sem farið hafa milli höfunda og Ágústar H. Bjarnasonar. Ekki ber ég neitt vantraust til hans en ég minnist þess hvergi að hafa rekist jafnoft vísað í tölvupósta og hér í þessu riti. Það verður að teljast mjög óvenjulegt. Tilvísanir og heimildir eru til þess ætlaðar að hefja rit á hærri stall og greinir eðlilega milli vísindarita og skáldsagna.

Það hefði aukið gildi ritsins um Mosfellsheiðina að dokað hefði verið með útgáfu og fengnir hefðu verið staðfróðir aðilar til að lesa yfir og bæta úr göllum. Ekkert mannanna verk er það fullkomið að ekki megi bæta það í einhverju.
Gallarnir eru nokkrir og hefur verið vikið að nokkrum þeirra hér. En mjög margt er vel ritað og sérstaklega þykir mér vel ritaðir kaflarnir um sæluhúsin sem byggð voru á 19. öld og fylgdi ferðamönnum við viðsjárverð veður bæði einsemd og jafnvel draugagangur. Gamlar ljósmyndir af sæluhúsunum á heiðinni eru birtar og hafa þær væntanlega ekki komið fyrir sjónir margra fram að þessu. Og ekki síðri er kaflinn um veitingastaðina eftir að þeir komu við sögu. Má segja að þarna sé upphafið að „sjoppumenningu“ landsmanna sem hvarvetna blasir við ferðamönnum á Íslandi í dag. Þessir veitingastaðir voru víða á leið ferðamanna yfir Mosfellsheiðina og einn þeirra meira að segja uppi nánast á háheiðinni, „Heiðarblómið“ sem bjartsýnn danskur maður kom á fót fyrir rúmlega öld. Þá er kaflinn um samgöngurnar á bifreiðaöld mjög vel ritaður og upplýsandi.

Þingvallaleiðin var eðlilega mjög oft farin. Hún tengdi landshluta saman, Faxaflóasvæðið við Suðurland og algengt var að farið var um Kaldadal og áfram norður að sumri. Langur kafli er um erlenda ferðamenn yfir heiðina og rakin ummæli þeirra um heiðina sem þeim þótti bæði löng og leiðinleg einkum þegar veður voru misjöfn. Þennan kafla hefði mátt stytta verulega enda ekki nauðsynlegt að segja nema í stuttu máli hvaðan þeir komu, hvert þeir fóru og hverja þeir hittu og höfðu misjafnlega reynslu af landsmönnum. Þar reyndi verulega á úthald mitt sem lesanda sem var spenntur að lesa meira um heiðina sjálfa.

Eitt þykir mér vanta um kaflann um Gamla Þingvallaveginn sem tengja mætti jafnframt nútímanum. Þessi gamli vegur var „hannaður“ fyrir ríðandi ferðamenn sem og umferð hestvagna. Í dag gætir sá misskilnings hjá sumum að með því að þræða gamla vegi sé ekki verið „að aka utan vega“. Þessir gömlu vegir voru lagðir með frumstæðri tækni og ekki ætlast til að eftir þeim væri ekið í þungum ökutækjum sem eru kannski 2-3 tonn. Þessir gömlu vegir voru „börn“ síns tíma og þarf að umgangast þá með virðingu. Mjög víða meðfram gamla Þingvallaveginum má allt of mikið af utanvegaakstri þar sem ekið hefur verið eftir að vegurinn sjálfur hefur orðið ófær.

Niðurstaða:
Ágætt og læsilegt rit sem betur hefði mátt úr garði gera. Ljósmyndir eru margar sem sumar hefðu mátt hafa verið teknar við betri aðstæður hvað birtu og árstíð varðar. Villur eru fáar nema nokkrar staðreyndavillur sbr. um Viðeyjarsel sem er flutt nokkuð úr leið. Frágangur ritsins er ágætur, meinlegar prentvillur engar en undirbúning hefði mátt betur vanda.

Guðjón Jensson

Menntun í takt við tímann

varmagreinMenntun og mannauður eru mikilvægar forsendur góðra lífskjara og því til mikils að vinna að yngsta kynslóðin fái þá menntun sem þörf er fyrir á hverjum tíma.
Fjórðu iðnbyltingunni sem þegar er hafin fylgja miklar breytingar á störfum og tækni. Sérfræðingar telja að 65% starfa sem grunnskólabörn munu vinna við séu ekki til í dag og að störf framtíðarinnar muni í auknum mæli byggjast á læsi á tækni og forritunarkunnáttu.
Nú þegar er misræmi á milli þeirrar færni sem atvinnulífið sækist eftir og færni þeirra sem eru á vinnumarkaði. Mikilvægt er því að efla kennslu í tækni og forritun til að mæta þessari hröðu samfélagslegu þróun.
Þótt tækni sé orðin samofin öllu okkar daglega lífi eru flest börn aðeins neytendur á tækni en skapa ekkert sjálf. Það má því segja að þau séu læs á tækni en ekki skrifandi. Í dag er hins vegar orðið nauðsynlegt að hafa grundvallarskilning á því hvernig þessi tæki virka.
Í gegnum forritunarkennslu læra börnin að nálgast vandamál með skapandi og lausnamiðuðum hætti auk þess sem þau þjálfast í rökhugsun, samvinnu og þrautseigju.
Nágrannasveitarfélög okkar eru að efla kennslu í tækni og forritun, auka framboð á forritunarnámi í skóla- og frístundastarfi og veita kennurum fleiri tækifæri til starfsþróunar. Í þeim skólum sem eru hvað lengst komnir er forritun orðin skyldufag sem má auðveldlega samþætta við aðrar greinar.
Hver er stefna og framtíðarsýn Mosfellsbæjar í upplýsinga- og tæknimálum? Í Vegvísinum svokallaða frá 2017 komu fram skýrar óskir kennara um endurskoðun fyrirkomulags á upplýsinga- og tæknimálum.
Nú þegar kennarar eru komnir með aðgang að vinnutölvum og búið er að tengja alla skólana við umheiminn er tímabært að tryggja skólunum tækjabúnað og veita kennurum nauðsynlegan stuðning við innleiðingu á fjölbreyttari kennsluháttum. Við verðum að undirbúa börnin fyrir framtíðina og veita þeim menntun í takt við kröfur nútímans.

F.h. stjórnar Foreldrafélags Varmárskóla
Elfa Haraldsdóttir

Útikennslustofan við Varmá

Úrsúla Jünemann

Úrsúla Jünemann

Nú leyfir heilsan mín mér loksins að ganga lengri vegalengdir en síðustu 2 árin. Ég kemst aftur á gamlar slóðir hér um bæinn okkar. Í dag löbbuðum við hjónin um Ævintýragarðinn eftir endalöngu fram og tilbaka. Þetta er orðið vinsælt og fallegt útivistarsvæði.
En ég varð fyrir áfalli þegar ég sá hvernig útikennslusvæðið Varmárskólans er útileikið. Þarna er búið að brjóta og bramla og eyðileggja allt sem hægt er að skemma. Ég veit ekki hversu lengi það er búið að vera svona.
Þetta þótti á sínum tíma með flottustu útikennslusvæðum á landinu og ég vann á sínum tíma við þróun þess. Ég notaði þá svæðið mikið í minni kennslu. Varmárskólinn fékk Grænfánann sem er viðurkenning fyrir starf í þágu umhverfismenntunnar og átti þetta fyrirmyndar útikennslusvæði þátt í því.
En núna virðist enginn lengur hafa áhuga á þessu starfi og ekkert annað er til ráða en að rífa og fjarlægja það sem stendur eftir af útikennslustofunni. Svona skemmdarverk eru slæm fyrirmynd. Þetta er ekki neinum til sóma og hefur neikvætt uppeldisgildi fyrir ungmennin okkar. Vonandi verður svæðið hreinsað sem fyrst. Spurningin er hvort þetta væri ekki með brýnustu verkefnum í „Okkar Mósó“.

ursula_greinÚrsúla Jünemann

Af hverju sofum við?

Ólöf Kristín Sívertsen

Ólöf Kristín Sívertsen

Mikið hefur verið rætt um svefn og mikilvægi hans á síðustu misserum og ekki hvað síst í tengslum við tilfærslu klukkunnar.
Vissir þú til dæmis að nægur svefn styrkir ónæmiskerfið og gerir okkur betur í stakk búin til að mæta alls kyns umgangspestum? Að rannsóknir hafa einnig staðfest samhengi milli of lítils svefns og aukinnar hættu á of háum blóðþrýstingi, þunglyndi, offitu, sykursýki, heilablóðföllum og hjartaáföllum?
Í bókinni Why we sleep eftir dr. Matthew Walker kemur einnig fram að nægur og góður svefn bætir námsgetu, rökhugsun og minni auk þess að gefa okkur betri stjórn yfir tilfinningum og matarlyst.

Svefnleysi skerðir lífsgæði
Við þekkjum það flest hversu erfitt það getur verið að komast í gegnum daginn eftir svefnausa nótt enda hefur sú iðja að svifta fólk svefni verið notuð sem pyntingaraðferð í gegnum aldirnar. Athygli okkar og einbeiting skerðist og við verðum pirruð, fyllumst orkuleysi og jafnvel vonleysi. Svefnleysi getur því haft mjög víðtæk áhrif á líðan okkar og hegðun og komið niður á starfi okkar, fjölskyldu- og félagslífi.

Hvað þarf að sofa mikið?
Svefnþörf er einstaklingsbundin en fullorðnir þurfa að sofa a.m.k. 7-8 klst á sólarhring en börn og ungmenni þurfa talsvert meiri svefn. Sem dæmi má nefna að frá 5 ára aldri og fram á unglingsár er svefnþörfin á bilinu 9-11 klst. og upp í 15,5 klst. hjá yngri börnum.

Góður svefn hægir á öldrun
Svefn veitir hvíld, endurnærir hug og líkama og endurnýjar orkuna sem gerir okkur kleift að takast á við dagsins gleði og amstur.
Á heimasíðu Svefnrannsóknarfélagsins kemur fram að vaxtarhormón myndast í djúpum svefni fyrri hluta nætur. Þessi hormón stýra vexti hjá börnum og unglingum en eru einnig mikilvæg þeim sem eldri eru þar sem þau hraða endurnýjun á frumum líkamans og geta þar af leiðandi hægt á öldrun.

Í hraða nútímasamfélagsins virðist gildi svefns því miður alltof oft vanmetið og viðhorf til svefns nokkuð brenglað. Í hugum margra virðist það tengt dugnaði og atorkusemi að sofa lítið og stærir fólk sig stundum af slíku á meðan það að sofa virðist frekar tengt leti og metnaðarleysi.
Þarna er búið að snúa málinu alveg á hvolf því nægur svefn er ein af grunnþörfum mannsins og einfaldlega lífsnauðsynlegur til að ná þeim árangri sem við viljum ná í lífinu.

Ólöf Kristín Sívertsen,
lýðheilsufræðingur og verkefnisstjóri Heilsueflandi samfélags í Mosfellsbæ

Tökum höndum saman

Kristín Ýr Pálmarsdóttir

Kristín Ýr Pálmarsdóttir

Umhverfis- og loftlagsmál eru mikið í umræðunni þessa dagana, það er líka mjög jákvætt hvað ungir krakkar eru orðnir meðvitaðir um þessi mál.
Þau geta haft mikil áhrif á aðra og hafa virkilega mikinn baráttuvilja til að koma í veg fyrir hlýnun jarðar með ýmsum leiðum. Þar er hægt að nefna Gretu Thunberg frá Svíþjóð sem berst fyrir framtíðinni.
Hún byrjaði með þöglum mótmælum í þeim tilgangi að fá fólk til að opna augun fyrir þessum vanda og hefur hún breytt út boðskapinn þannig að keðjan rúllaði af stað og fleiri og fleiri krakkar í öðrum löndum, þar á meðal Íslandi, eru farnir að hugsa meira um umhverfis- og loftslagsmál og gera sér grein fyrir því að ef allir leggjast á eitt í baráttunni fyrir umhverfis- og loftlagsvernd þá er hægt að hægja á og jafnvel koma í veg fyrir hlýnun jarðar.
Það er hægt og þú getur tekið þátt í því með því að flokka sorpúrgang frá heimilinu meira, labba meira, keyra minna, fljúga minna og kaupa minna af fötum og hætta eða minnka að kaupa óþarfa hluti sem gefa okkur gervigleði.

Ég hef verið svo heppin að vinna með frábærum hóp af ólíku fólki í umhverfisnefnd að gera umhverfisstefnu Mosfellsbæjar að veruleika. Nú er verið að leggja lokahönd á þá vinnu og vonumst við til að það hjálpi í þeirri alvarlegu stöðu sem loftslagsmálin stefna í ef ekki verður gripið til aðgerða í þeim efnum.
Tökum höndum saman og lofum sjálfum okkur því að við ætlum að gera betur í dag og næstu ár en við höfum gert hingað til.

„Við þurfum í raun að grípa til aðgerða núna. Við höfum 10-12 ár, rúman áratug, til þess að breyta því hvernig við lifum og koma í veg fyrir gríðarlegar afleiðingar sem hlýnun jarðar og súrnun sjávar mun hafa. Núna er tækifærið og við verðum að grípa það.“

Staðreyndir um þessi mál
Þannig munu jöklar og hafís bráðna og minnka og yfirborð sjávar hækka um allt að 7 metra á næstu 10 árum, með þeim afleiðingum að stór láglend landsvæði myndu sökkva, eins og hluti af Bangladesh, Hollandi og Flórída, og margar litlar úthafseyjar
Mosfellsbær er einn af eigendum að Sorpu sem er að taka í notkun gas og jarðgerðastöð sem verður í Álfsnesi. Hún verður tekin í notkun 2020 þar sem molta og metan verður búið til og verður því hægt að nýta það áfram sem er jákvætt fyrir umhverfið og gott er að taka jákvæð lítil skref sem verða að stórum markmiðum síðar.

Kristín Ýr Pálmarsdóttir

Einvera – einföld leið til agastjórnunar

Fjalar Freyr Einarsson

Fjalar Freyr Einarsson

Einvera er aðferð til að stöðva hegðunarvanda með því að koma barninu úr þeim kringumstæðum sem það er í á skjótan og einfaldan hátt.
Aðferðin er notuð á börn á aldrinum tveggja til tólf ára. Um leið og barn sýnir óásættanlega hegðun fær það aðvörun þannig að talið er frá einum upp í þrjá. Fyrst er sagt „einn“ um leið og brotið á sér stað, sé brotið ekki þeim mun alvarlegra. Ef barnið lætur sér ekki segjast fer talningin upp í tvo. Dugi það ekki til fer talningin upp í þrjá og samhliða er sagt: „Einvera.“
Barninu er því næst fylgt á fyrir fram ákveðinn stað (þegar barnið er komið í þjálfun getur það farið sjálft) þar sem það bíður í einveru í jafnmargar mínútur og aldur þess er í árum. Fjögurra ára barn myndi þannig vera í einveru í fjórar mínútur.

Fjarri öðru heimilisfólki
Sumir agaráðgjafar telja áhrifaríkast að barnið sitji á stól t.d. í herberginu sínu þar sem það situr í einverunni án þess að mega hafa neitt fyrir stafni. Aðrir agaráðgjafar telja nóg að barnið sé í herberginu sínu og því sé frjálst að gera það sem það vill að undanskildum öllum raftækjum (sjónvarpi, síma, spjaldtölvum o.þ.h.).
Agaráðgjafar sem aðhyllast þessa aðferð eru þó sammála um að fjarlægja þurfi barnið þaðan sem hegðunin á sér stað og koma því á stað þar sem það er fjarri öðru heimilisfólki. Þess vegna er það kallað einvera því að barnið á að vera eitt.

Tíminn öllum ljós
Mikilvægt er að tíminn sem barnið er í einveru sé öllum ljós. Gott er að hafa sjónrænar klukkur (niðurteljara) eða svokallaða tímavaka hjá barninu svo það sjái hvað tímanum líður. Tímavakar fást t.d. í skólatengdum verslunum. Einnig er hægt að birta sjónrænar klukkur á tölvuskjá eða spjaldtölvu, en munið að barnið á ekki að leika sér í tölvunni.
Leitarorðið „timetimer online“ kemur þér á sporið. Barnið fylgist þannig sjálft með tímanum og kemur fram þegar klukkan sýnir að einverunni sé lokið.

Allir komast í kælingu
Kosturinn við einveru er að allir aðilar komast strax úr kringumstæðunum og í kælingu. Það er nefnilega þannig að við, hinir fullorðnu, þurfum stundum sjálfir stund til að ná áttum. Með því að barnið fari strax í einveru fer hinn fullorðni ekki að skamma barnið og æsa jafnvel sjálfan sig upp.
Þegar einverunni er lokið hefur barnið tekið út sína refsingu og engin orð þarf að hafa meira um það. Sé rétt að málum staðið veit barnið hvers vegna það var sett í einveru. Barnið kemur því úr einverunni búið að taka út sína refsingu og þarf ekki að kvíða eftirmálum.
Þegar um mjög ung börn er að ræða (tveggja til fjögurra ára) er samt skynsamlegt að útskýra fyrir barninu með einni til tveimur setningum hvers vegna það fór í einveru. Gott er að spyrja barnið hvort það viti af hverju það fór í einveru til að tryggja að skilningurinn sé til staðar.

Stöðva óásættanlega hegðun
Einveru er hægt að nota þegar stöðva þarf óásættanlega hegðun. Einveru ætti ekki að nota þegar börn neita að gera hluti s.s. að taka upp dótið sitt, sinna heimanámi eða æfingum. Einnig skal varast að nota einveru gagnvart öllu því sem miður fer. Veldu heldur örfá hegðunarbrot (tvö er alveg nóg) til að vinna með í einu, sérstaklega til að byrja með.
Sé einvera rétt notuð er hún örugg og árangursrík aðferð við að stöðva óásættanlega hegðun barns. Hægt er að finna gagnrýni á þessa aðferð eins og flest allt annað. Ég hef engu að síður engar rannsóknir séð sem sýna fram á að einvera skaði börn tilfinningalega að því gefnu að aðferðin sé rétt notuð.

Fjalar Freyr Einarsson, aga- og uppeldisráðgjafi
www.agastjornun.is