Jesús minn hvað gott er að búa í Mosfellsbæ

Sveinn Óskar Sigurðsson

Í síðustu grein minni fjallaði ég um loforð sem sett var í málefnasamning Sjálfstæðisflokks (XD) og Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs (VG) eftir sveitastjórnarkosningarnar 2018. Þar var því lofað að leikskólagjöld yrðu lækkuð, án tillits til verðlagshækkana.
Sé litið á þróun leikskólagjalda fyrir börn yngri en 12 til 13 mánaða, fyrir 4 klukkustunda dvöl, var nýlega afgreidd gjaldskrá þar sem gjaldið fyrir þennan tíma kr. 9.787 en sú gjaldskrá tekur gildi frá og með 1.8.2022. Þetta var tillaga meirihlutans í Mosfellsbæ, XD og VG. Þetta er lækkun um 14,27% en ekki 25% lækkun í samræmi við gefið loforð. Rétt tala, sé staðið við loforðið væri kr. 8.562 fyrir sama tíma. Hér er því verið að „snupra“ barnafólk í Mosfellsbæ um kr. 1.224 krónur fyrir þessa dvöl á mánuði, a.m.k. þá sem treystu þessum flokkum fyrir atkvæði sínu. Fyrir 9 klst. dvöl er verið að „snupra“ með sama hætti sömu kjósendur um 3 þúsund á mánuði. Það munar um minna enda nemur þetta tugum til hundraða þúsunda á fjölskyldur í Mosfellsbæ á því kjörtímabili sem er að líða og inn á það næsta, sbr. nýsamþykkta gjaldskrá og tillögu XD og VG. Þessi gjaldskrá er þeirra pólitíska útspil og á henni bera þeir ábyrgð. Yrði lögð fram tillaga um að leiðrétta þetta yrði ég fús til að styðja hana komi hún fram nú fyrir kjördag en það þarf þá meirihluta til.
Er hægt að styðja framangreind framboð sem standa ekki við loforð? Þetta voru þeirra loforð. Líkur eru á að prófkjör og val á lista þessara framboða sýni fram á nýja sýn og endurnýjun. Því ber að fagna.
Annað mun eldra loforð var ekki aðeins gefið okkur kjósendum heldur einnig almættinu. Í grein fráfarandi bæjarstjóra Mosfellsbæjar og oddvita Sjálfstæðisflokksins, sem birt var í Morgunblaðinu 27. maí 2006, segir: „Á stefnuskrá okkar Sjálfstæðismanna fyrir komandi kosningar er að byggð verði kirkja í miðbæ Mosfellsbæjar.“
Á nýliðnum bæjarráðsfundi nr. 1520 þann 27. janúar sl., kom fram tillaga frá þessum sama meirihluta að byggja ekki kirkju í miðbæ Mosfellsbæjar. Þetta 16 ára afmælisár loforðsins var nýtt í að brjóta 8. boðorðið: „Þú skalt ekki bera ljúgvitni gegn náunga þínum.“ Eru þá þegar einnig nokkur önnur af boðorðunum fokin út í veður og vind hjá þessum meirihluta.
Um þessar mundir má sjá myndbönd og auglýsingar um hve gott er að búa í Mosfellsbæ og það kyrja þeir sem hafa gengið í gegnum hverjar kosningar af fætur öðrum segjandi ósatt eða boða hálfsannleik. Það er fagnaðarefni ef miklar breytingar verði á listum framangreindra flokka enda ekki þörf á. Því er skorað á kjósendur Sjálfstæðisflokksins í komandi prófkjöri að taka hressilega til enda ekki vanþörf á kæru gömlu félagar. Við í Miðflokknum viljum starfa að heilindum með hugdjörfu fólki.
Guð minn góður hve gott er að búa í Mosfellsbæ.

Sveinn Óskar Sigurðsson
bæjarfulltrúi Miðflokksins í Mosfellsbæ

Tölum saman um menntamálin

Valgarð Már Jakobsson

Það vill oft verða þegar tekist er á í stjórnmálum að þeir sem takast á eru í raun ekki að tala hver við annan.
Maður sér þetta oft á Alþingi Íslendinga að pólitíkusar eru ekki að reyna að sannfæra hver annan um eigin málstað heldur eru þeir sem tala í raun bara að tala við kjósendur. Ekki er verið að miðla málum til að finna bestu lausnina heldur er áherslan lögð á að klekkja á andstæðingnum. Menntamál eru fyrirferðarmikil í pólitískri umræðu í öllum sveitarfélögum.
Allir hafa skoðun á skólakerfinu og eru umræður oft fyrirferðarmiklar á samfélagsmiðlum og Mosfellsbær er engin undantekning í því. Fræðslunefnd Mosfellsbæjar hefur starfað með ágætum þetta kjörtímabil og málefnaleg umræða verið um öll þau mál sem koma fyrir nefndina. Auðvitað hafa flokkarnir stundum mismunandi áherslur en það er augljóst á því góða fólki sem nú skipar nefndina að allir bera hag skólanna fyrir brjósti. Því hefur andrúmsloft samvinnu og virðingar svifið yfir vötnum á fundum nefndarinnar.
Eitt af stóru verkunum nú undir lok kjörtímabilsins hefur verið að smíða nýja menntastefnu Mosfellsbæjar. Skipuð var fagleg nefnd með fulltrúum allra skólastiga til að vinna þessa vinnu og haldnir hafa verið fjölmargir rýnifundir með hagaðilum til að fá sem flestar raddir til að hljóma. Fundað hefur verið með starfsfólki skóla, með skólabörnum og sérstakur opinn fundur var haldinn með íbúum bæjarins, þar sem allir gátu fengið að tjá sig og koma með hugmyndir. Upp úr þessum fundum hefur nú verið smíðuð menntastefna sem er á lokastigum og verður frábært leiðarljós fyrir skólastarf í bænum.
Á þessu kjörtímabili hefur mikið áunnist í skólamálum. Frábært þróunarstarf í leikskólamálum og fjölgun plássa. Við höfum verið að taka í notkun glæsilegasta skólahús landsins í áföngum og endurbætur á eldra skólahúsnæði hefur verið með þeim hætti að önnur sveitarfélög eru að taka það til fyrirmyndar. Þrátt fyrir það heyrast oft raddir sem reyna að rífa niður þetta ágæta starf og tilgangurinn virðist ekki vera að bæta skólastarfið heldur einungis að koma höggi á stjórnmálamenn. Það er mikilvægt að friður sé um skólastarf á öllum stigum og að ekki sé verið að nota skólamál til að koma pólitísku höggi á andstæðinga með þeim hætti að það bitni á skólunum.
Höldum áfram góðu og uppbyggilegu samtali um skólamál þar sem allar raddir fá að hljóma en hættum skítkasti og skotgrafahernaði.

Valgarð Már Jakobsson, varaformaður
fræðslunefndar Mosfellsbæjar fyrir hönd VG.

Stjórnmál eru hópíþrótt

Kolbrún G. Þorsteinsdóttir

Ég hóf afskipti af bæjarmálum hér í Mosfellsbæ í upphafi árs 2010 en þá gaf ég kost á mér í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins fyrir bæjarstjórnarkosningar.
Ég hafði áður hrifist af stjórnun bæjarins og þeim breytingum sem urðu á ímynd og rekstri hans eftir að Sjálfstæðisflokkurinn varð leiðandi afl í bæjarstjórn. Ég tók eftir stefnumótunarvinnunni sem unnin var árin 2008-2009 og framtíðarsýninni sem kom út úr þeirri vinnu. Ég tók eftir samheldninni í hópnum og þeim jákvæðu straumum sem frá honum stafaði. Mig langaði að vera hluti af þessum hóp því þarna sá ég mig geta blómstrað og vaxið með því að taka þátt í því að gera samfélagið sem ég brenn svo fyrir, enn betra. Þess vegna ákvað ég að taka þátt í prófkjörinu.

Ég náði 5. sætinu og fannst það góð byrjun. Strax eftir prófkjörið var hafist handa við að undirbúa stefnuskrá okkar sjálfstæðisfólks fyrir kosningarnar þá um vorið. Skipaðir voru málefnahópar og opnir málefnafundir auglýstir fyrir alla bæjarbúa þar sem safnað var hugmyndum og ábendingum hvernig við gætum gert góðan bæ enn betri. Í þeirri vinnu fengu allar raddir að njóta sín og öll sjónarmið voru gild undir stjórn oddvitans og leiðtogans.
Með afrakstur þessarar vinnu fórum við svo af stað í kosningabaráttuna, full af eldmóði, glöð í fasi og með bjartsýni í hjarta. Þetta gat ekki klikkað og við unnum kosningarnar með glæsibrag. Sjálfstæðisflokkurinn var aftur kominn með hreinan meirihluta í bæjarstjórn. Ég man hvað ég var glöð yfir þátttöku minni og fannst ég hafa verið þátttakandi í ævintýri og lagt mitt af mörkum til að gera samfélagið betra.

Leiðtoginn skiptir máli
Ég hef lært mikið á þessum árum mínum í bæjarmálunum ásamt því að hafa menntað mig í stjórnunar og leiðtogafræðum. Enginn fæðist fullnuma leiðtogi, leiðtogafærni ávinnst með reynslu, menntun og þjálfun. Franklin Covey segir í sínum fræðum frá fjórum hlutverkum leiðtoga sem eru:
1. Byggja upp traust
2. Skapa sýn
3. Framkvæma stefnu
4. Leysa hæfileika úr læðingi

Ég vil sjá leiðtoga sem hefur skarpa sýn og hlýtt hjarta, manneskju sem tekur ábyrgar ákvarðanir á grundvelli þekkingar. Sagt hefur verið að algengustu mistök leiðtoga séu fólgin í því að ofmetnast, fyllast drambi, fyllast oftrú á sjálfan sig og eigin visku og getu. Leiðtoginn sem ber sér á brjóst og hrósar sjálfum sér, leiðtoginn sem stendur í stafni og baðar út öngum verður fljótlega bara leiðtogi yfir sjálfum sér, aðrir farnir burt. Mosfellsbær er þekkingarfyrirtæki og þar þarf leiðtoginn að vera leiðbeinandi og hvetjandi.
Ég veit að menntun mín og reynsla munuhöfða til breiðari hóps Mosfellinga, nýrra Mosfellinga og eldri Mosfellinga, til foreldra sem þurfa öruggt umhverfi fyrir börnin sín í skólum og frístund bæjarins.
Ég vil verða næsti leiðtogi sjálfstæðisfólks í Mosfellsbæ og leiða flokkinn til sigurs í kosningunum í vor. Þess vegna býð ég mig fram í 1. sætið í prófkjörinu 5. febrúar. Munum að stjórnmál eru hópíþrótt, gerum þetta saman og höldum áfram að gera Mosfellsbæ að besta bæ fyrir alla.

Kolbrún G. Þorsteinsdóttir bæjarfulltrúi
Frambjóðandi í 1. sætið í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins

Vertu með

Elín Anna Gísladóttir

Fyrir fjórum árum síðan tók ég þátt í því að koma á laggirnar stjórnmálaflokk hér í Mosfellsbæ, Viðreisn í Mosfellsbæ.
Þátttaka mín í þeirri vegferð kom ekki til af því ég skilgreindi sjálfa mig sem manneskju sem hefði brennandi áhuga á pólitík, heldur kom hún til af einlægri ást minni á bænum mínum – Mosfellsbæ.
Ég var ekkert endilega þeirrar skoðunar að hér væri allt ómögulegt, meira þeirrar skoðunar að það væri hægt að gera betur. Og jafnvel ennþá betur en hafði verið gert.
Það sem hefur komið mér hvað mest á óvart í þessari vegferð sem þetta hefur verið frá síðustu sveitarstjórnarkosningum er hversu ótrúlega gaman þetta hefur verið. Ég hef í gegnum stjórnmálin kynnst ótrúlega fjölbreyttum hópi fólks, en einnig hef ég eignast dýrmæta vini í félögum mínum í Viðreisn.
Það er nefnilega þannig að þátttaka sem þessi getur gefið manni svo margt. Vináttu, reynslu, tækifæri til þess að hafa áhrif, innsýn inn í hið dýrmæta samfélag sem við eigum hér í Mosfellsbæ og margt fleira. Ég er þakklát fyrir þetta og langar til þess að fleiri sem kannski eru núna á sama stað og ég var fyrir fjórum árum taki skrefið og taki þátt.
Ef þú hefur áhuga á því að vera með okkur í málefnavinnunni, ef þú vilt bjóða þig fram á lista hjá okkur, ef þú vilt deila af reynslu þinni, ef þú vilt vita eitthvað meira um félagið, ef þú vilt taka þátt í þessari vegferð með okkur þá hvet ég þig til þess að setja þig í samband við okkur á mosfellsbaer@vidreisn.is, í gegnum facebook síðuna okkar eða í gegnum einhvern af okkar fulltrúum.
Saman getum við nefnilega ennþá gert betur!

Elín Anna Gísladóttir
Formaður stjórnar Viðreisnar í Mosfellsbæ

Blanda af safngötu og húsagötu fyrir ungar fjölskyldur

Kári Sigurðsson

Þannig er mál með vexti að ég er nýfluttur í Langatangann með fjölskylduna. Við færðum okkur ekki langt um set þar sem áður bjuggum við í Gerplustræti í Helgafellshverfinu.
Ég velti því fyrir mér hversu margar ungar fjölskyldur í Mosfellsbæ eru að kljást við sömu áhyggjur og við. Langitanginn er flokkaður sem blanda af safngötu og húsagötu. Þetta þýðir það að þarna fara í gegn bílar úr hverfum allt í kring en einnig snúa innkeyrslur beint út á götu.
Umferðarþunginn og hraðinn á þeim bílum sem keyra hér í gegn er gífurlegur. Fyrir framan innkeyrsluna hjá okkur er hraðahindrun. Þessi hraðahindrun þjónar engum tilgangi, hvorki til að hægja á hraða né sem gangbraut. Frekar virkar þessi hraðahindrun sem lítill rampur fyrir bíla þar sem þeir geta prófað fjöðrunina á bílunum.
Vefarastrætið er að mínu mati einnig gata sem býður upp á hættu frá umferðarþunga og hraða þar í gegn. Húsin eru byggð mjög nálægt veginum og það má ekki mikið út af bregða til að börn séu komin út á götu.
Einnig má nefna Reykjaveginn í þessu samhengi og eflaust fleiri götur.
Hinsvegar má ekki gagnrýna án þess að benda á það sem vel er gert, og finnst mér nýtt skipulag á Skeiðholti (framhjá Holtunum) til algjörrar fyrirmyndar og mætti yfirfæra slíkt skipulag á fleiri hverfi.

Ég held að við sem Mosfellingar verðum að fara að setja öryggi almennings og barnanna okkar í fyrsta sætið þegar það kemur að skipulagsmálum í Mosfellsbæ.

Kári Sigurðsson
– Gefur kost á sér í 2. sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Mosfellsbæ.

Lýðræðisveislan heldur áfram

Bryndís Haraldsdóttir

Sjálfstæðisflokkurinn heldur prófkjör hér í Mosfellsbæ um komandi helgi.
Sjálfstæðisflokkurinn var eina stjórnmálaaflið sem hélt fjölmenn prófkjör í öllum kjördæmum fyrir síðustu alþingiskosningar. Í þeim tóku yfir 20.000 félagsmenn þátt í að stilla upp á lista sem boðnir voru fram í kosningum þar sem Sjálfstæðisflokkurinn náði áfram þeim árangri að vera stærsti flokkurinn á þingi og burðarafl í ríkisstjórn sem hélt velli. Ekkert annað stjórnmálaafl stillir framboðslistum sínum upp með jafn lýðræðislegum hætti og með aðkomu svo stórs hluta kjósenda landsins.
Nú heldur veislan áfram og þér gefst kostur á að velja milli 17 frambærilegra einstaklinga sem allir vilja vinna fyrir þig að því að gera sveitarfélagið okkar framúrskarandi. Að prófkjörinu kemur fjöldi fólks. Auk þeirra 17 sem bjóða sig fram, fjölskyldna þeirra og stuðningsmanna, eru fjölmargir sjálfboðaliðar sem koma að framkvæmd prófkjörsins. Ég þakka ykkur öllum fyrir ykkar framlag.

Kosið um nýjan oddvita
Sitjandi oddviti Sjálfstæðisflokksins og bæjarstjóri Mosfellsbæjar til margra ára, Haraldur Sverrisson, hefur ákveðið að stíga til hliðar. Frá árinu 2007 hefur Haraldur leitt sveitarfélagið og meirihlutasamstarf Sjálfstæðismanna og Vinstri grænna í gegnum margvíslegar áskoranir. Mosfellsbær er vel rekið sveitarfélag þar sem þjónusta sveitarfélagsins mælist með því besta sem gerist á landinu.
Ég vil nota tækifærið og þakka Haraldi fyrir vel unnin störf en honum, ásamt bæjarstjórn og ómetanlegum starfsmönnum bæjarins, hefur tekist að gera þjónustufyrirtækið Mosfellsbæ að því sem það er. Sveitarfélagi sem ávallt kemur vel út í mælingum, sveitarfélagi og samfélagi sem í búar geta verið stoltir af því að tilheyra.
Nú gefst okkur tækifæri til að kjósa nýjan oddvita og vonandi með því nýjan bæjarstjóra beri Sjálfstæðisflokknum áfram gæfa og traust til að stýra sveitarfélaginu okkar. Tækifærið er þitt, íbúi góður, til að taka þátt í að stilla upp öflugum lista sjálfstæðisfólks, fólks sem vill vinna fyrir þig að því að gera bæinn okkar enn betri.
Mættu og taktu þátt í lýðræðisveislunni!

Bryndís Haraldsdóttir
Þingmaður Mosfellinga og fyrrverandi bæjarfulltrúi.

Er Mosfellsbær bær fyrir ungt fólk?

Ragnar Bjarni Zoëga

Á hátíðarstundum er gjarnan rætt um mikilvægi þess að ungt fólk komi að uppbyggingu samfélagsins. Með þessi orð í eyrum hefur ungt fólk víða um land tekið þeirri áskorun og boðið sig fram til verka í bæjarstjórnum. Oftar en ekki hefur því ekki gengið nægilega vel til að ná kjöri í sæti bæjarfulltrúa.
Í Mosfellsbæ eru nú rúmlega 40% bæjarbúa undir þrítugu. Þá mætti ætla að a.m.k einn bæjarfulltrúi væri á þessum aldri eða hvað? Nei, svo er nú raunin ekki. Allt frá aldamótum hefur enginn kjörinn bæjarfulltrúi í bæjarstjórn verið undir þrítugu.

Kjósum ungt fólk til ábyrgðar
Frá jafnréttissjónarmiði er þetta ekki ásættanlegt, 40% bæjarbúa eru án talsmanns í stjórn bæjarins. Fyrir mér ætti bæjarstjórn að endurspegla landslagið í sínu bæjarfélagi og þá er ég ekki endilega að segja að 40% af þeim sem sitja í bæjarstjórn ætti að vera undir þrítugu. En þeir sem eru undir þrítugu ættu nú allavega að hafa einn eða mögulega tvo fulltrúa.
Mosfellsbær er bær unga fólksins, það sést á tölum ef skoðað er hlutfall fólks undir þrítugu af heildarfjölda bæjarbúa. Fólk undir þrítugt er um 40% íbúa bæjarins, hvað segir það okkur? Þetta segir mér að hér vill unga fólkið eiga heima, hér vill ungt fólk stofna fjölskyldur. Það er vegna þess að það sér hvað Mosfellsbær hefur upp á að bjóða.
Í Mosó eru góðir skólar, glæsilegt tómstundalíf, flott íþróttaaðstaða og ekki skemmir nálægð bæjarins við náttúruna sem við Mosfellingar elskum svo mikið. Ætíð koma nýjar hugmyndir með nýju fólki, ungt fólk býður sig fram til áhrifa ekki til þess að vera skraut á tyllidögum. Við höfum skoðanir, hugmyndir og viljum svo gjarnan vera hluti af því að byggja upp og skapa betra samfélag fyrir okkur og fjölskyldur okkar til framtíðar.
Þess vegna óska ég eftir stuðningi í 4. sætið í komandi prófkjöri Sjálfstæðismanna þann 5. febrúar næstkomandi. Ég hef óþrjótandi áhuga á félagsmálum og samfélaginu okkar hér í Mosfellsbæ. Ég sit í stjórn Viljans, félags ungra Sjálstæðismanna í Mosó. Ég var formaður nemendafélags FMOS og stunda núna nám til atvinnuflugmanns.
Ég væri þakklátur fyrir stuðning í 4. sætið í prófkjörinu. Kjósum ungt fólk til ábyrgðar!

Ragnar Bjarni Zoëga

Mosfellingar – ykkar er valið

Ásgeir Sveinsson

Sjálfstæðisflokkurinn í Mosfellsbæ heldur prófkjör 4.-5. febrúar þar sem kosið verður á lista fyrir bæjarstjórnarkosningar sem fara fram þann 14. maí.
Alls eru 17 glæsilegir frambjóðendur á öllum aldri í boði, 9 konur og 8 karlar. Þetta fólk er hlaðið hæfileikum, með fjölbreyttan bakgrunn, reynslu og þekkingu í farteskinu.
Þessi hópur á það sameiginlegt að hafa brennandi metnað fyrir velferð Mosfellsbæjar og vill leggja sitt af mörkum að gera ánægju íbúa enn meiri og halda áfram þeim fjölmörgu jákvæðu og spennandi verkefnum sem eru í gangi í sveitarfélaginu.

Meirihlutasamstarf D- og V-lista hefur gengið ákaflega vel á þessu kjörtímabili þrátt fyrir ýmsar krefjandi áskoranir. Við höfum náð að uppfylla allflest okkar markmið sem komu fram í málefnasamningi flokkanna og er það gríðarlega ánægjulegt miðað við þær krefjandi aðstæður sem komu upp m.a. tengdar faraldrinum.
Ég er stoltur að vera hluti af þessum öfluga hópi sem hefur myndað meirihlutann á þessu kjörtímabili og hlakka til að halda áfram að sinna mikilvægum verkefnum það sem eftir er þessa kjörtímabils og á næsta kjörtímabili.

Sterkur leiðtogi skiptir máli
Að prófkjöri loknu fer fram vinna við uppstillingu listans fyrir kosningarnar í maí og að því loknu hefst kosningabaráttan. Við munum ganga til kosninga stolt af verkum okkar og bjartsýn á framtíðina og hlökkum til að kynna fyrir Mosfellingum lista flokksins og stefnu, sem mun tryggja að bærinn okkar haldi áfram að blómstra og dafna til lengri og skemmri framtíðar.
Það þarf sterkan reynslumikinn leiðtoga til að leiða það verkefni áfram. Hann þarf að hafa skýra sýn, höfða til sem flestra, vera heiðarlegur og traustur, hafa góða ímynd og orðspor. Víðtæk reynsla mín og þekking sem stjórnandi og leiðtogi í viðskiptalífinu, auk mikillar reynslu af mannauðs- og félagsmálum hafa reynst mér vel í minni vinnu í bæjarstjórn Mosfellsbæjar og munu gera áfram.
Ég er tilbúinn í það hlutverk og að axla þá ábyrgð að leiða listann til sigurs í næstu kosningum og þess vegna býð ég mig fram í 1. sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í prófkjöri 4.-5. febrúar næstkomandi og treysti á þinn stuðning í 1. sætið.

Ásgeir Sveinsson
Frambjóðandi í 1. sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Mosfellsbæ.

Það vantar alls konar fólk í bæjarstjórn Mosfellsbæjar

Helga Möller

Kæru Mosfellingar!
Ég vildi bara láta ykkur vita hvað mér líður vel hér í Mosfellsbæ. Mér finnst bæjarmálin ganga mjög vel og dáist að margs konar uppbyggingu í mörgum málum.
Ég dáist að umhverfinu í kringum Álafosskvosina og Stekkjarflötina með ærslabelgnum, þar sem krakkarnir geta leikið sér … ratleikjunum í kringum Varmá, merkingunum sem segja mér allt um Álafoss og fleira … uppáhaldsfossinum mínum og svo mætti lengi telja.
Ég fæ styrk frá öllum trjánum í kringum Varmá og eitt af því sem ég geri er að faðma tré til að mér líði betur. Þið ættuð bara að prófa það.

Ég dáist að Álafosskvosinni og vildi óska að næsta bæjarstjórn myndi gera hana að gamla bænum í Mosfellsbæ.
Þarna er mikil saga Mosfellsbæjar og mér finnst að þarna ætti allt að iða af lífi. Tónlist á nýju sviði við Ullarbrekkuna frábæru, þar sem ætti að hljóma tónlist, leikþættir, tónleikar með kórunum okkar í Mosfellsbæ, leikrit frá Leikfélagi Mosfellsbæjar. Börnin í skólunum og tónlistarskólanum gætu komið þarna fram og útskrifast á sviðinu sem fer alveg að rísa og svona mætti lengi telja. Í Mosfellsbæ býr stór hópur frábærs listafólks sem við þurfum að hlúa að og við eigum að búa til undursamlega stemningu með þeim á sviðinu … bæta við miklu fleiri viðburðum en bara á bæjarhátíðinni okkar „Í túninu heima”.
Eins sakna ég kaffihúsins sem var í kvosinni og vildi óska þess að Álafossbúðin yrði aftur eins og hún var en þangað gerði ég mér ferð á meðan ég bjó í Reykjavík til að að kaupa mér garn.

Kæru þið öll!
Það vantar alls konar fólk í bæjarstjórn Mosfellsbæjar. T.d. konu eins og mig … 64 ára flugfreyju og söngkonu, íþróttakonu, móður, ömmu, vinkonu og bara svo margt fleira. Ég er ekki gallalaus og ég kann ekki allt, en með lífsreynslu og samvinnu með góðu fólki, alls konar fólki, verða góðir hlutir til, það er mín trú.
Ég býð mig því fram í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins því ég veit að ég get lagt eitthvað til og vonast eftir stuðningi ykkar í 3.-4. sætið.

Ykkar Helga Möller

Gerum góðan bæ enn betri

Helga Jóhannesdóttir

Framtíðin er björt í Mosfellsbæ, tækifærin mörg og það er okkar sem verðum í framboði í sveitarstjórnarkosningunum að marka leiðina með bæjarbúum.
Okkur ber sem fyrr að hlusta á og taka mið af ábendingum og athugasemdum bæjarbúa, endurskoða gildandi stefnur og meta hvernig gengið hefur hverju sinni og hverju þarf að breyta og bæta.

Verkefni sveitarfélagsins eru mörg, málaflokkarnir margir og fjölbreyttir og ekki hægt að taka eitt verkefni eða einn málaflokk fram yfir annan. Góð fjármálastjórn og skýr markmið eru forsenda góðs reksturs og þjónustu við bæjarbúa.

Gerum góðan bæ enn betri, gerum góða þjónustu Mosfellsbæjar til bæjarbúa enn betri og aukum lífsgæði og lýðheilsu Mosfellinga. Ég er tilbúin í þetta verkefni og sækist eftir öðru sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins 5. febrúar.

Helga Jóhannesdóttir

Sterkur leiðtogi skiptir máli

Þorsteinn Hallgrímsson

Kæri lesandi, fram undan er prófkjör hjá stærsta stjórnmálaaflinu í Mosfellsbæ. Það er ánægjulegt að sjá hve margir hæfir einstaklingar, ungir, gamlir, reyndir og óreyndir bjóða sig fram til starfa í bæjarstjórn Mosfellsbæjar.
Í þessu prófkjöri er í fyrsta skipti í langan tíma fleiri en einn í framboði í 1. sæti lista Sjálfstæðisflokksins og er það vel. Það skiptir miklu máli að hafa sterkan leiðtoga sem leiðir listann og hefur góða blöndu af þekkingu, reynslu og hæfileikum til þess að gera það.
Leiðtoginn þarf að vera góður stjórnandi, góður í mannlegum samskiptum, drífandi og hvetjandi, vera góður að fá fólk til að vinna með sér og draga fram það besta hjá samstarfsfólki sínu. Leiðtoginn þarf að vera góð fyrirmynd, vera heiðarlegur og hafa gott mannorð.

Ég hef þekkt Ásgeir Sveinsson um árabil en hann býður sig fram í 1. sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Mosfellsbæ og hann hefur alla þessa eiginleika og meira til.
Hann hefur setið í bæjarstjórn Mosfellsbæjar á þessu kjörtímabili og einnig gegnt embætti formanns bæjarráðs. Ásgeir hefur starfað af krafti að bæjarmálunum, er vel inni í öllum málaflokkum og margt af því sem hann lagði áherslu á fyrir síðustu kosningar hefur verið framkvæmt á þessu kjörtímabili.
Ásgeir hefur mikla reynslu sem leiðtogi og stjórnandi úr atvinnulífinu. Sem farsæll framkvæmdastjóri hjá Halldóri Jónssyni ehf. í 12 ár naut hann mikillar velgengni og var afar farsæll stjórnandi og leiðtogi. Verkefnin í þannig starfi eru mörg, ólík og flókin, þar má nefna daglegan rekstur, umsjón með mannauðsmálum, fjármálastjórnun og samningagerð bæði við alþjóðleg fyrirtæki og innlend. Ásgeir hefur einnig mikla reynslu af stjórnun í félagsmálum, var formaður karlahandboltans hjá Aftureldingu 2013–2019 á miklum uppbyggingar- og uppgangstímum. Hann hefur langa reynslu sem handboltaþjálfari hjá Aftureldingu, hefur setið í stjórnum félaga og fyrirtækja og syngur í Karlakór Kjalnesinga.
Það eru mörg spennandi verkefni og tækifæri fram undan í Mosfellsbæ.
Það skiptir miklu máli fyrir okkur Mosfellinga að sterkur leiðtogi leiði lista Sjálfstæðisflokksins í næstu bæjarstjórnarkosningum.
Þess vegna ætla ég að kjósa Ásgeir Sveinsson í 1. sætið og hvet þig, lesandi góður, til að gera slíkt hið sama.

Þorsteinn Hallgrímsson

Aðfluttur andskoti

Þóranna Rósa Ólafsdóttir

Að vera aðfluttur andskoti í Mosfellsbæ er bara ansi gott! Ég flutti í Mosfellsbæ í janúarbyrjun 2003 af Kjalarnesi. Eignaðist hér mitt seinna barn og upplifði góðan anda.
Í lok árs 2003 var íbúafjöldinn 6.574. Þá var maður alveg minntur á að vera ekki innfæddur enda þekkti maður ekki fjölskyldurnar sem hér höfðu ráðið ríkjum. Þið hafið vonandi horft á Verbúðina en í litlum samfélögum skipti einmitt máli að þekkja rétta fólkið! Hér hefur okkur fjölskyldunni liðið vel og viljum hvergi annars staðar vera. Bærinn hefur svo sannarlega blómstrað og breitt úr sér. Við sem erum aðflutt sjáum bara tækifærin í litla bæjarfélaginu okkar sem vex og dafnar.
Ég starfaði sem skólastjóri í 12 ár við einn stærsta grunnskóla landsins sem einmitt var staðsettur hér í litla bæjarfélaginu okkar. Áskoranirnar voru svo sannarlega til staðar en ég man eftir að vera með nemendafjölda frá 660 og fara upp í tæpa 1000. Við vorum á þessum tíma að taka á móti nýjum íbúum sem voru að marka spor sín hér í bæjarfélaginu og koma upp nýjum hverfum. Skólinn stækkaði ansi hratt og verkefnin um leið. Fólk hafði ýmsar skoðanir og við sem vorum í skólanum þurftum að hlaupa hraðar og byggja upp ný úrræði eftir því sem nemendum fjölgaði. Það sem bjargaði þessu var frábært starfsfólk og foreldrar sem fylktu sér við hlið okkar og saman unnum við í að takast á við skóla í hruni sem stækkaði ört og koma inn tækninýjungum.

Reynsla mín eftir þennan tíma er hversu mikilvægt er að samfélag fylki sér um skólana sína, íþróttafélögin, leikhúsið, tónlistarlífið og aðilana sem sinna sjálfboðaliðastarfi í bæjarfélaginu okkar. Því miður varð skólinn okkar uppspretta pólitískra afla sem reyndu að ná höggi á meirihluta í pólitíkinni. Þetta skapaði sundrung, umtal og aukna vinnu skólafólksins.
Nú eru bæjarstjórnarkosningar fram undan í vor og mín einlæga ósk er sú að fólk vandi sig í slagnum og verði málefnalegt. Flest af fólki í öllum flokkum er gott fólk sem vill vel. Mörg þeirra hafa unnið mjög vel fyrir bæjarfélagið, verið málefnaleg og veitt gott aðhald. Við þurfum öll sem hér búum að horfa til þess hvernig fólk við viljum í forystuna í Mosfellsbæ. Til þess þurfum við að horfa á hverjir bjóða sig fram, ganga í þá flokka og gefa fólki brautargengi. Við konur þurfum ekki síðar en karlarnir að taka afstöðu og styðja við þau málefni sem eru okkur hugleikin. Við þurfum öll að vera virk og taka þátt!

Kæru sveitungar, við erum núna orðin 13.025 manns og aðfluttu andskotarnir eru komnir í meirihluta. Ég hvet fólk til að taka afstöðu í kosningunum og hafa áhrif á listana. Sjónarmið allra skipta máli og saman gerum við gott bæjarfélag enn betra.
Ég styð Kolbrúnu Þorsteinsdóttur í 1. sæti hjá Sjálfstæðisflokknum.

Þóranna Rósa Ólafsdóttir
íbúi í Mosfellsbæ og skólastjóri í Rimaskóla

Áfram Ásgeir!

Gróa, Elísabet og Guðný.

Það var árið 2008 sem við „Á allra vörum“ stöllurnar hittum Ásgeir Sveinsson í fyrsta skiptið, en hann var þá framkvæmdastjóri Halldórs Jónssonar ehf., umboðsaðila Dior á Íslandi.
Ástæða fundarins var að fá hann til liðs við okkur þegar við undirbjuggum okkar fyrsta átak þ.e. að selja varagloss til styrktar góðu málefni. Markmiðið var að vekja þjóðina til umhugsunar um brjóstakrabbamein kvenna og safna fyrir lokagreiðslu í nýju brjóstamyndatæki fyrir Krabbameinsfélagið.

Þrautseigi Ásgeir
Það gilda strangar reglur um sölustaði hjá snyrtivörumerki eins og Dior og þegar Ásgeir kynnti hugmyndina fyrir því magnaða fyrirtæki fékk hann vægast sagt dræmar viðtökur. En hann lét ekki segjast og eftir ótal símtöl og heimsókn til höfuðstöðva fyrirtækisins í París tókst honum að sannfæra fólkið um að taka þátt í þessu einstaka átaki. Þar með fékkst leyfi til að selja Dior í stórmörkuðum, til fyrirtækja og einstaklinga sem skilaði frábærum árangri og uppskárum við 20 þúsund seld eintök. Það má fylgja sögunni að Diorfólk hafði svo sannarlega ekki búist við öðrum eins árangri og botnaði hvorki upp né niður í þessari glossglöðu þjóð. Það er alveg á hreinu að þrautseigja og úthald Ásgeirs hafði allt um það að segja að leyfi fékkst.

Pottþétti Ásgeir
Við kynntumst Ásgeiri bæði persónulega og viðskiptalega á þessu brölti okkar. Í stuttu máli má segja að allt hafi staðist eins og stafur á bók. Við höfum oft talað um það okkar á milli að hann eigi mikið í velgengni Á allra vörum og það sé ekki síst honum að þakka hversu vel okkur tókst að kynna átakið. Það skipti máli að vera með ábyggilegan samstarfsaðila og getum við þakkað hversu vel var vandað til verka í upphafi og var Ásgeir stór hlekkur í þeirri keðju.

Dugnaðarforkurinn Ásgeir
Ásgeir starfaði náið með okkur í öllum undirbúningnum, lánaði okkur húsnæði og var boðinn og búinn að létta undir á allan hátt. Við nutum góðs af hans hæfileikum í rekstri og stjórnun auk þess sem alltaf var hugsað í lausnum með þau fjölmörgu verkefni sem komu upp og þurfti að leysa. Hann er skipulagður og hefur einstakt lag á að fá fólk til að vinna með sér, enda lagði hann alltaf áherslu á liðsheild og passaði að allir hefðu hlutverk og væru á réttum stað á réttum tíma, enda tók starfsfólk HJ þátt með okkur af heilum hug eftir hans hvatningu.

Áfram Ásgeir
Um leið og við þökkum Ásgeiri stuðninginn við okkur stöllur í gegnum tíðina viljum við hvetja hann til dáða í baráttunni um leiðtogasæti Sjálfstæðisflokksins í Mosfellsbæ fyrir næstu kosningar. Þú ert réttur maður á réttum stað og íbúar geta hrósað happi að fá annan eins dugnaðarfork og framkvæmdamann sem oddvita Sjálfstæðisflokksins í Mosó.

Áfram þú, elsku Ásgeir!
Gróa, Elísabet og Guðný.
Á allra Vörum.

Uppskera

Birna Kristín Jónsdóttir

Gleðilegt ár kæru Mosfellingar og takk fyrir stuðninginn við okkur í Aftureldingu á liðnu ári. Á sunnudaginn sl. vorum við í Aftureldingu með okkar árlegu uppskeruhátíð. Hátíðin var smá í sniðum þetta árið en alltaf jafn dásamlegt að fá að taka þátt í að upplifa uppskeru með fólkinu okkar.
Hver deild tilnefnir sitt íþróttafólk sem nefnd á vegum Aftureldingar tekur svo að sér að velja úr. Öll sem tilnefnd voru eiga það sammerkt hversu sterkar og góðar fyrirmyndir þau eru og mikið eiga yngri iðkendur okkar það gott að eiga ykkur til þess að líta upp til.
Hlutskörpust í kjörinu í ár voru þau Þórður Jökull Henrysson karate og Thelma Dögg Grétarsdóttir blaki, þau hafa bæði skarað fram úr í sinni grein og átt gríðarlega gott ár.
Vinnuþjarkur Aftureldingar er einn af uppáhalds titlunum í mínum huga en við erum svo heppin að eiga marga og góða sjálfboðaliða sem alltaf eru boðnir og búnir, í þetta sinn varð fyrir valinu Haukur Sörli Sigurvinsson. Í mörg ár hefur Haukur verið lykilmaður i meistaraflokksráði karla í handbolta og verið formaður þess síðan 2018. Haukur er harðduglegur og leggur mikinn metnað í störf sín fyrir félagið sitt.

Sterk keðja
Öll erum við sem komum að Aftureldingu hlekkir í sterkri keðju. Afreksfólkið okkar, allir iðkendur, þjálfarar, sjálfboðaliðar, velunnarar, styrktaraðilar og Mosfellsbær. Við erum ekkert án hvers annars og í ár þökkuðum við Bakka byggingafélagi sérstaklega fyrir okkur. Bakki hefur stutt ríkulega við Aftureldingu í um 30 ár og verið okkur ómetanlegur bakhjarl bæði í afreksstarfinu sem og barna- og unglingastarfinu, en án góðra styrktaraðila og velunnara værum við ekki þar sem við erum í dag.
Ég ætla ekki að telja alla upp hér sem fengu viðurkenningu enda yrði það langt mál, allar upplýsingar má finna á heimsíðunni afturelding.is, en mig langaði að nefna þessa hér að ofan og þakka fyrir mig og óska ykkur öllum innilega til hamingju.
Fram undan er vonandi gott ár hjá okkur og vonandi getum við sem fyrst farið að starfa óhindrað og taka á móti ykkur sem áhorfendum kæru stuðningsmenn af því að það er svo gaman. Það er fátt betra en að tilheyra svona flottum hóp sem Afturelding er.

Áfram Afturelding,
Birna Kristín Jónsdóttir, formaður Aftureldingar.

Forysta með framtíðarsýn

Kolbrún G. Þorsteinsdóttir

Ég, Kolbrún Guðný Þorsteinsdóttir, býð mig fram í fyrsta sætið í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins þann 5. febrúar.
Ég er kennari og lýðheilsufræðingur að mennt og er að ljúka námi í stjórnun menntastofnana. Ég hef setið sem bæjarfulltrúi fyrir Sjálfstæðisflokkinn í tvö kjörtímabil. Áður var ég varabæjarfulltrúi og formaður fjölskyldunefndar. Nú er ég formaður fræðslunefndar og eiga skólamálin því stóran part af hjarta mínu. Ég hef búið í Mosfellsbæ frá 9 ára aldri og hér liggja mínar rætur. Ég býð mig fram í fyrsta sætið í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins því ég hef reynslu, þekkingu og getu til að leiða stærsta stjórnmálaaflið í Mosfellsbæ.

Mín sýn
Ég vil áfram styðja við okkar mikilvæga skólastarf og halda áfram að byggja upp góða leikskóla. Ég mun halda áfram að styrkja innviðina samhliða fjölgun íbúa eins og nauðsynlegt er. Mikilvægt er að fötluð börn fái þjónustu við hæfi og þarf að endurskoða stefnuna um skóla án aðgreiningar. Það krefst samtals við ríkið um meira fjármagn til skólanna fyrir börn sem þurfa meiri stuðning.
Ég vil hefja stórsókn í að skapa skilyrði fyrir fyrirtæki sem vilja byggja upp skapandi greinar eða græna nýsköpun þar sem hringrásarhagkerfið verður í hávegum haft. Mosfellsbær er í góðri stöðu til að bjóða til sín slíkum fyrirtækjum og er atvinnusvæðið í Blikastaðalandi t.d. kjörið til slíkrar uppbyggingar. Fyrsta skrefið verður að móta áræðna atvinnustefnu sem hefur bæði jákvæð umhverfis- og efnahagsleg áhrif fyrir bæjarfélagið.

Við ætlum að vera eitt lið
Mosfellsbær er fyrsta sveitarfélagið sem varð Heilsueflandi samfélag og vil ég styrkja þá starfsemi enn frekar. Bærinn á að vera leiðandi í heilsueflingu með kröftugum markmiðum eins og fram koma í nýrri lýðheilsustefnu bæjarins.
Mosfellsbær er íþrótta– og heilsubær umkringdur fallegri náttúru og er fyrsta val fólks sem vill búa, njóta og vinna þar sem slíkar aðstæður eru fyrir hendi. Þá vil ég tengja saman íþróttafélögin, skólana, Reykjalund og atvinnulífið – fella múra og að við verðum eitt lið sem hefur það að markmiði að efla heilsu allra bæjarbúa. Ég treysti mér fyllilega til að leiða þetta mikilvæga verkefni því ég veit að það er mikill mannauður í Mosfellsbæ sem vill hefja þennan leiðangur saman. Þannig gerum við Mosfellsbæ að sönnum íþrótta– og heilsubæ.
Íþrótta– og tómstundafélögin kalla á meira fjármagn og betri aðstöðu til iðkunar og hefur samráðsvettvangur Aftureldingar og bæjarins sett fram stefnu um uppbyggingu að Varmá. Það er metnaðarfullt plan sem vonandi flestir geta sæst á. Það þarf stöðugt að hugsa til framtíðar og halda áfram að byggja upp. Börn og ungmenni hafa mikið val um íþróttir og tómstundir og þannig viljum við að það verði áfram.

Það þarf reynslu, þekkingu og dugnað
Til að láta drauma okkar rætast þarf kraftmikla forystu sem hefur reynslu af rekstri sveitarfélagsins. Okkar helsta aðalsmerki hefur verið góð fjármálastjórn og ábyrgur rekstur og það verður að vera áfram. Í framboði í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins eru einstaklingar með fjölþætta reynslu og bakgrunn. Ég vil leiða þennan hóp til áframhaldandi góðra verka fyrir okkar góða samfélag. Gerum þetta saman.

Kolbrún G. Þorsteinsdóttir
bæjarfulltrúi og frambjóðandi í 1. sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins.