Listir og menning

Bjarki Bjarnason

Hvað er LOMM?
Listir og menningarlíf auðga tilveru okkar allra, hvort sem um er að ræða hreint glens og grín eða viðfangsefni um hinstu rök tilverunnar.
Í Mosfellsbæ eru mörg félög og einstaklingar sem sinna menningu og listum: fjöldi söngkóra, leikfélag, myndlistarfólk, tónlistarfólk, rithöfundar og fleiri.
Í vetur stofnaði listafólk og áhugafólk um menningarlíf félag hér í bæ sem heitir „Lista- og menningarfélag Mosfellsbæjar“ – skammstafað LOMM. Dagsetning fundarins hljómar skemmtilega: 22.2.2022 og einhver hafði á orði: „Með slíka dagsetningu að vopni getur þetta ekki klikkað!“
Á stofnfundinum spunnust meðal annars samræður um þá umgjörð sem Mosfellsbær skapar gagngert fyrir lista- og menningarlíf innan sveitarfélagsins. Hér á eftir verður fjallað stuttlega um þá hlið málsins.

Hlégarður
Félagsheimilið Hlégarður, sem var vígt árið 1951, hefur lengi verið miðstöð menningar- og félagslífs í Mosfellssveit. Síðustu árin hefur það verið ljóst að ráðast þyrfti í umfangsmiklar viðgerðir og endurbætur á húsinu svo það geti risið undir blómlegri starfsemi. Húsinu var lokað á meðan framkvæmdir stóðu yfir en núna er jarðhæðin tilbúin til notkunar og um síðustu helgi hélt GDRN, einn af bæjarlistamönnum Mosfellsbæjar, tónleika í húsinu. Á næstu árum verður ráðist í endurbætur á efri hæð hússins.

Bryndís Brynjarsdóttir

Hlégarður á sér merkilega sögu og er vel í sveit sett í jaðri höfuðborgarsvæðisins. Eftir endurbæturnar aukast möguleikarnir á nýtingu hússins að miklum mun, það verður eitt ef verkefnum bæjarstjórnar á næsta kjörtímabili að taka ákvörðun um hvernig notkun hússins og rekstrarformi þess verður háttað.

Menningarhús í miðbænum
Þegar unnið var að skipulagi fyrir miðbæ Mosfellsbæjar á sínum tíma var ætlunin að byggja kirkju og menningarhús á lóð sem er við miðbæjartorgið. Efnt var til verðlaunasamkeppni um það verkefni og niðurstöður kunngjörðar árið 2009. Samkvæmt þeim var meðal annars gert ráð fyrir kirkju, sýningarsal og bóksafni á lóðinni.
Nú hafa mál þróast þannig að ljóst er að ekki verður byggð kirkja á þessum stað. Þess vegna opnast nýir möguleikar á nýtingu lóðarinnar sem er skilgreind fyrir menningarstarfsemi.

Stefna V-listans
Mosfellsbær hefur alla burði til þess að styrkja stöðu sína í lista- og menningarlífi höfuðborgarsvæðisins. Við teljum að það sé verkefni bæjaryfirvalda að móta metnaðarfulla umgjörð utan um hinar ýmsu listgreinar og menningarstarfsemi í bænum.
Í stefnuskrá V-listans fyrir komandi kosningar er lagt til að ráðist verði í heildarskoðun á nýtingu á þeim mannvirkjum sem ætluð eru fyrir lista- og menningarlíf hér í sveitarfélaginu. Einnig viljum við að teknar verði upplýstar ákvarðanir um hvaða byggingar muni rísa á lóðinni í miðbænum sem nefnd var hér að ofan.

Bjarki Bjarnason skipar 1. sæti V-listans í kosningunum 14. maí
Bryndís Brynjarsdóttir skipar 4. sæti listans

Skipulagsmál á mannamáli

Hjörtur Örn Arnarson

Orð eins og íbúalýðræði, þátttaka almennings og upplýsingaflæði eru mikið notuð og eru mjög jákvæð. En eru þetta bara orð sem notuð eru á tyllidögum? Sett í stefnuskrá og notuð af stjórnmálafólki sem sækist eftir atkvæðum?
Oft er það þannig en núverandi meirihluti D- og V lista hafa lagt áherslu á þessa þætti í skipulagsmálum sveitarfélagsins undanfarin ár. Við viljum gera enn betur á komandi kjörtímabili. En hvernig getum við aukið áhuga almennings enn frekar á t.d. skipulagsmálum?

Í nýlegri rannsókn sem gerð var af Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands og fjallaði um samráð við almenning um skipulagsmál kemur margt áhugavert fram. Þar kemur fram að fólk eldra en fimmtugt er virkast og auðveldast að ná til þeirra en erfiðast er að ná til ungs barnafólks.
Fagaðilar voru margir hverjir sammála um að ungt fólk væri sá hópur sem einna eftirsóknarverðast er að eiga í samtali við um skipulags- og framkvæmdamál, því yngri kynslóðin væri oft opnari en þeir sem eldri eru. Hún væri oftar tilbúnari til að hlusta á rök en fólk á öðrum aldursskeiðum. Þá hefði ungt fólk margt mikilvægt til málanna að leggja. (Guðný Gústafsdóttir, Stefán Þór Gunnarsson og Ásdís A. Arnalds (2021). Samráð við almenning um skipulagsmál. Reykjavík: Félagvísindastofnun Háskóla Íslands).

Til að vekja áhuga almennings á m.a. skipulagsmálum þarf að setja efni fram á þann hátt að bæði sé auðvelt að sækja og skilja upplýsingar sem settar eru fram. Flestir hafa áhuga á því hvað framkvæmdir og skipulag hafa á sitt nærumhverfi.
Við á lista Sjálfstæðisflokksins viljum bæta enn frekar upplýsingaflæðið, setja upplýsingar um skipulag, verklegar framkvæmdir o.þ.h. fram á nútímalegan hátt og á „mannamáli“ til að auka áhuga og athygli fólks á þessum málum. Það skilar sér vonandi í meiri þátttöku almennings sem leiðir til meiri sáttar um bæjarmálin.

Hjörtur Örn Arnarson
Höfundur skipar 5. sæti á lista Sjálfstæðisflokksins fyrir komandi sveitarstjórnarkosningar

Setjum börnin í forgang

Kolbrún Ýr Oddgeirsdóttir

Það eru forréttindi að búa í Mosfellsbæ, hér eru falleg græn svæði sem bæta lífsgæði bæjarbúa.
Það er VG ofarlega í huga að vernda og viðhalda bæjarbragnum og náttúrunni hér en það þarf jafnframt að horfa á grænu svæðin sem velferðar- og heilbrigðismál. Aðgengismál þurfa að vera í forgangi og tryggja þarf að allir bæjarbúar hafi aðgang að grænum svæðum, enda lýðheilsubætandi. Bæta þarf hjólastólaaðgengi og sjá til þess að aðgengi ólíkra hópa sé í fyrirrúmi.

Mosfellsbær er heilsueflandi samfélag, hér er gott að búa með börn. Á síðastliðnu kjörtímabili hafa miklar framfarir orðið í bænum, leikskólaplássum var fjölgað, börn frá 12 mánaða aldri fá leikskólapláss ásamt því að leikskólagjöld hafa lækkað umtalsvert síðustu árin.
Vinstri græn vilja styðja enn betur við foreldra sem bíða eftir leikskólaplássi, við leggjum til að styrkur sem nemur brú milli dagforeldris og leikskóla geti farið beint til foreldra á meðan beðið er eftir plássi. Jafnframt viljum við halda áfram að lækka leikskólagjöld og að endingu verði leikskólar í Mosfellsbæ gjaldfrjálst skólastig.

Við viljum stuðla að því að öll börn sitji efnahagslega við sama borð, meðal annars með gjaldfrjálsum skólamáltíðum og hærri frístundastyrk. VG vill bæta velferðarkerfi Mosfellsbæjar og setja velferð barna í forgang.

Kolbrún Ýr Oddgeirsdóttir,
skipar 2. sæti V-listans í kosningunum 14. maí

Ímynd Mosfellsbæjar – Hver er sérstaðan?

Auður Sveinsdóttir

Þegar spurt er hver eru sérkenni Mosfellsbæjar geta svörin orðið með ýmsu móti, til dæmis:
Þjóðvegur nr. eitt og leiðin til Þingvalla liggja þvert í gegnum bæinn.
Mosfellsbær er „úthverfi Reykjavíkur“.
Mosfellsbær er svefnbær!
Svörin geta líka verið allt önnur, í samræmi við viðhorf og upplifun hvers og eins. En burtséð frá því er full þörf á því að við Mosfellingar spyrjum okkur hver ímynd og séreinkenni Mosfellsbæjar eigi að vera í bráð og lengd.

Hvað er staðarvitund?
Með sjö ára búsetu hér í bænum kynnist ég staðháttum sífellt betur og það styrkir jafnframt vitund mína um þá möguleika sem geta aukið lífsgæði okkar Mosfellinga.
Sérhver staður hefur sín sérkenni – eitthvað sérstakt/einstakt fram yfir aðra, þetta má kalla staðaranda og staðarvitund og tengist til dæmis:
• umhverfi – landslagi – (strönd – fell – dalir – stöðuvötn).
• sögu – menningarminjum – listum – gömlum atvinnuháttum.
Staðarandi/staðarsjálfsmynd geta aukið vellíðan íbúanna, þeir tengjast betur bæjarfélaginu og verða meðvitaðri um sérstöðu sinnar heimabyggðar. Sterkur staðarandi er einnig aðdráttarafl fyrir ferðamenn og fyrirtæki og eykur áhuga þeirra á sveitarfélaginu. Veikan staðaranda er hægt að styrkja með góðri og meðvitaðri hönnun og skipulagi þar sem sóknarfæri og aðstæður byggja meðal annars á sögu, menningu og umhverfi og geta orðið að ákveðinni sérstöðu.
Mosfellsbær hefur sérstöðu innan höfuðborgarsvæðisins með afar fjölbreytta náttúru, landslag og menningarminjar,innan sinna marka, til dæmis fellin, heiðarlandslag, strandlengju í Leiruvogi og stöðuvötn upp til heiða.
Í mínum huga eru ótal tækifæri til að byggja upp og efla enn frekar sterka staðarvitund/staðaranda í Mosfellsbæ, tæki til þess eru til dæmis:
• Orkuskipti síðustu aldar með nýtingu jarðhitans – það var framkvæmd á heimsvísu sem er jafnframt innlegg í loftslagsumræðu nútímans. Nýlega undirrituðu Mosfellsbær og Veitur viljayfirlýsingu um uppbyggingu jarðhitagarðs í Reykjahverfi til að halda þessari merku sögu á lofti.
• Uppbygging ullariðnaðar á Álafossi með nýtingu vatnsorkunnar var mikið og sögulegt frumkvöðlastarf.
• Margar merkar sögulegar staðreyndir tengjast Mosfellsbæ og fjöldi menningarminja er hér að finna. Þar má nefna þjóðleiðir á Mosfellsheiði, Hafravatnsrétt, hersetuna, ylrækt, gamla búskaparhætti
• Listsköpun af margvíslegum toga.
• Náttúruminjar og friðlýst svæði.
• Fjölbreytileiki landslagsins frá fjöru til fjalla og um leið fjölbreyttir útivistarmöguleikar.

Hafravatnssvæðið
Hafravatn og nágrenni þess í sunnanverðum Mosfellsbæ er útvistarsvæði sem auðvelt er að tengja við staðarvitund og hina metnaðarfullu umhverfisstefnu Mosfellsbæjar. Útivistarmöguleikar á Hafravatnssvæðinu eru fjölmargir, hér verða nokkrir nefndir til sögunnar:
• Gönguleiðir, hjóla- og reiðleiðir sem tengjast aðliggjandi svæðum, bæði fellum, Mosfellsheiði og þéttbýli bæjarins.
• Vegur („útivistarvegur“) meðfram vatninu með 30–40 km hámarkshraða, einnig leið fyrir gangandi og hjólandi umferð, auk reiðleiðar.
• Aukið aðgengi að vatninu.
• Siglingar (kajak, kanó, seglbátar o.fl.).
• Silungsveiði, sumar og vetur.
• Svifdrekar.
• Náttúruskoðun um fjölbreytt landslag: Skóglendi, votlendi og fjörur.
• Menningarminjar, til dæmis Hafravatnsrétt og gullnáman í Þormóðsdal.
• „Græni trefillinn“ er samheiti yfir útivistar- og skógræktarsvæði í útjaðri höfuðborgarsvæðisins, þar á meðal Mosfellsbæjar.
• Baðaðstaða við Hafravatn sem samþykkt var í íbúakosningunni „Okkar Mosó“.
Mikilvægt er að fá skýra stefnu um nýtingu Hafravatnssvæðisins til að það geti orðið að „paradís“ útivistar á höfuðborgarsvæðinu og um leið hluti af sterkum staðaranda Mosfellsbæjar. Sú stefna myndi tengjast aðalskipulagi bæjarins og þeim markmiðum sem sett hafa verið fram í samræmi við heilsueflandi samfélag, útivist, lýðheilsu og loftslagsmál.
Ég legg til að tekið verði upp samtal milli ólíkra hagsmunaaðila við Hafravatn sem leiði til stefnumörkunar og verði grunnur að útivistardeiliskipulagi svæðisins. Í stefnuskrá V-listans fyrir komandi kosningar er lögð áhersla á að styrkja enn frekar staðarvitund Mosfellsbæjar og efla útivistarmöguleika Hafravatnssvæðisins með tengingu við fjöll og dali þar í grenndinni.

Auður Sveinsdóttir, skipar 8. sæti
V-listans í kosningunum 14. maí

Dýravelferð

Helga Diljá Jóhannsdóttir

Fjöldi fólks nýtur návist dýra og þess að eiga dýr. Fjölmargir umgangast dýr í tengslum við störf sín, eru bændur, ræktendur dýra eða starfa með dýrum, sbr. lögregla með sporhunda eða blindir í leik og starfi með leiðsöguhunda. Einnig eru margir með gæludýr sér til ánægju og yndisauka, fjölskyldumeðlim sem skiptir þá miklu.
Við sem dýrkum dýrin viljum tryggja velferð þeirra. Við viljum að þau lifi og dafni við hin bestu skilyrði. Um velferð dýra gilda ákvæði laga nr. 55/2013. Markmið laganna eru m.a. að dýr, sem og skyni gæddar verur, séu laus við: Vanlíðan; Hungur og þorsta, ótta og þjáningu, sársauka, meiðsl og sjúkdóma.

Í Mosfellsbæ er einnig fjöldi einstaklinga sem stundar hestamennsku og eiga gæludýr. Í Mosfellsbæ er m.a. heimilt að halda allt að 6 hænur en hanar eru óheimilir. Slíkt leyfi er veitt til 5 ára í senn. Líkur eru á að hávaðinn í hönum valdi þessu.
Aðeins eitt hundagerði, um 1500 fermetrar, er í Ullarnesbrekkum í annars ágætu umhverfi Ævintýragarðsins hér í bænum. Ég vil sjá að fjölgað verði hundagerðum í Mosfellsbæ. Það mætti t.d. koma upp hundagerði við fallegt umhverfið á Leirvogstungumelum, á Blikastöðum og á gönguleiðum við Helgafellshverfi svo einhver dæmi séu nefnd. Mikilvægt er að hundar, sem annars eru mikið í bandi, fái hreyfingu og að eigendur geti leitað á svæði þar sem dýrin eru örugg. Það er hluti að dýravelferð.
Einnig þurfum við að gæta að því að ónæði verði ekki af dýrahaldi með því að tryggja að hundar gangi ekki lausir í þéttbýli eða séu eftirlitslausir. Í dag verða bæjarbúar í Mosfellsbæ að leita til Heilbrigðiseftirlits Garðabæjar, Hafnarfjarðar, Kópavogs, Mosfellsbæjar og Seltjarnarness sem staðsett er í Hlíðarsmára 14 í Kópavogi til skráningar. Það kom til eftir að ákveðið var að leggja niður Heilbrigðiseftirlit Kjósasvæðis sem Mosfellsbær var aðili að og var áður staðsett hér í bænum. Sé ætlunin að skrá hunda hér í Mosfellsbæ skal því nú leitað til þessa eftirlits í Kópavogi.
Sérstakt fagráð, sem sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra staðfestir skipun á, er Matvælastofnun til ráðuneytis um stefnumótun og einstök álitaefni er varða málefni á sviði velferðar dýra. Í þessu fagráði sitja fimm menn og skal það skipað fagfólki á sviði m.a. dýralækninga, búfræði og siðfræði.

Ég er sjálf hundaeigandi og mér þykir afskaplega vænt um dýr enda valdi ég mér starfsvettvang við umönnun dýra. Með því að umgangast dýr geta margir aukið lífsgæði sín til muna, aukið hreyfingu og heilsueflingu. Því er mér mikið í mun að í Mosfellsbæ verði komið upp „Degi dýranna“ þar sem skapaður yrði vettvangur fyrir dýraeigendur og almenning til að kynnast betur hvor öðrum og heim dýranna. Þar gætu fyrirtæki á sviði dýravelferðar, dýralæknar og aðrir, kynnt störf sín og þjónustu og jafnvel væri hægt að bjóða uppá fræðslu um umönnun og umgengni dýra. Einnig gætu bændur, sem starfa í bænum, kynnt starfsemi sína.
Með slíkum viðburði mætti einnig koma á framfæri upplýsingum til eigenda svo auka megi velferð dýra.

Helga Diljá Jóhannsdóttir, dýralæknir
Skipar 4. sæti á lista Miðflokksins fyrir næstkomandi sveitarstjórnarkosningar – Fyrir lifandi bæ

Erum við ekki öll Vinir?

Katarzyna Krystyna Królikowska

Ég heiti Katarzyna Krystyna Króli­kowska og skipa 3. sæti á lista Vina Mosfellsbæjar.
Ég er kölluð Kata og er af pólskum uppruna, flutti til Íslands og í Mosfellsbæ 2006 og fékk íslenskan ríkisborgararétt 2013.
Ég er gift Piotr Kólikowski, sem er smiður, og við eigum við eitt barn og búum í Grundartanga.
Ég er verkfræðingur að mennt og starfa sem þjónustustjóri hjá Sólar ehf. en var áður starfsmaður hjá íslenskum textíliðnaði, Ístex hf., í Mosfellsbæ í 13 ár.
Áhugamálin eru að ganga á fjöll, og tek ég hundinn minn iðulega með í þær ferðir, og svo spila ég blak með Aftureldingu.
Mín helstu áherslumál í sveitarstjórnarmálum eru félags- og velferðarmál.
Saman getum við gert meira. Erum við ekki öll Vinir?
Nazywam sie Katarzyna Krystyna Krolikowska i jestem 3 na liscie w Przyjaciolach Mosfellsbær do samorzadu w Mosfellsbær. Moimi zamierzeniami sa kwestie socjalne spolecznosci obcego pochodzenia w naszym miescie.
Razem mozemy zrobic duzo wiecej.

Katarzyna Krystyna Królikowska

Lítur Mosfellsbær undan?

Anna Sigríður Guðnadóttir

Í Úkraínu geisar stríð. Stríð sem fylgir eyðilegging, hörmungar, sorg, dauði og fólksflótti. Flóttafólk streymir inn í nágrannaríkin í Evrópu, aðallega konur og börn.
Samkvæmt upplýsingum frá Rauða krossinum koma að meðaltali 20 flóttamenn á dag hingað til lands frá stríðshrjáðri Úkraínu. Nú þegar eru komin vel á sjötta hundrað manns og þann 31. mars höfðu 520 sótt um vernd á Íslandi. Samkvæmt upplýsingum UNICEF, hafa 60% barna í Úkraínu flúið heimili sitt, 60 prósent!

Tillagan
Undirrituð lagði fram tillögu í bæjarráði Mosfellsbæjar í byrjun marsmánaðar um að bærinn snéri sér til Flóttamannanefndar og byðist til að taka þátt í að taka á móti flóttamönnum frá Úkraínu enda hafði nefndin biðlað til sveitarfélaga í fjölmiðlum.
Með þessari tillögu vildi ég gera mitt til að Mosfellsbær skipaði sér í fremstu röð sveitarfélaga í landinu þegar kemur að varðstöðu um mannúð og mannréttindi. Að Mosfellsbær axlaði sína samfélagslegu ábyrgð þegar þjóðin stendur frammi fyrir stórum úrlausnarefnum á sviði mannúðar og mannréttinda.

Afgreiðslan
Afgreiðsla bæjarráðs fólst í að óska eftir minnisblaði um málið. Svar meirihlutans við þessari tillögu var að fá minnisblað um að Mosfellsbær sé að móta sér stefnu í málaflokknum. Engin leið er að skilja þessa afgreiðslu öðru vísi en svo að flóttafólk, stríðshrjáð heimilislaust fólk, konur og börn verði bara að bíða eftir að þeirri stefnumótun ljúki áður en Mosfellsbær getur ákveðið hvort, hvernig eða hvenær hann tekur þátt.
Það er verst að rússneska innrásarliðið veit ekki af þessari stefnumótunarvinnu svo það geti hægt á árásaraðgerðum sínum.

Nágrannasveitarfélög
Nokkur fjöldi íslenskra sveitarfélaga hafa lýst sig viljug til að taka við fólki, til lengri og skemmri tíma, og standa viðræður yfir milli þeirra og ríkisvaldsins og Rauða krossins um fyrirkomulag.
Þegar þessi grein er skrifuð eru tvö sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu sem skera sig úr og eru ekki í þessum hópi sem er verið að semja við. Annað þeirra er heimabær okkar.

Af hverju?
Hvað veldur þessari afstöðu Vinstri grænna og Sjálfstæðisflokksins? Tvær skýringar koma upp í hugann. Fyrri er sú að það sé hvaðan þessi tillaga kom sem valdi þessu sinnuleysi Vinstri grænna og Sjálfstæðisflokksins.
Hin skýringin er að meirihlutinn telji sér bara ekki koma við hvað verður um konur og börn sem flúið hafa grimmdarlega innrás í heimaland sitt og leitað hingað til Íslands eftir skjóli.
Ég held að það sé fyrri skýringin en mikið ósköp er hún fáfengileg.

Anna Sigríður Guðnadóttir,
bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar

Nýir vendir sópa best

Stefán Ómar Jónsson

Framboðslisti Vina Mosfellsbæjar var samþykktur á fundi félagsins þann 28. mars síðastliðinn.
Kynslóðaskipti verða í forrystusveit Vina Mosfellsbæjar þar sem undirritaður oddviti listans síðustu fjögur ár færir sig lítið eitt aftar á framboðslistanum að eigin ósk. Reynsla mín í sveitarstjórnarmálum hverfur ekki á braut heldur mun ég veita nýjum Vinum Mosfellsbæjar stuðning og tryggja yfirfærslu þekkingar.

Það er nauðsynlegt að þeir sem gegna forystu í pólitísku starfi þekki hvenær tími er kominn til endurnýjunar. Breytingar á forrystusveit Vina Mosfellsbæjar á þessum tímapunkti eru að mínu viti skynsamlegar og liður í því að Vinir Mosfellsbæjar verði góður valkostur til framtíðar.

Ólafur heitinn Jóhannesson fyrrum forsætirráðherra var inntur eftir því við myndun sinnar fyrstu ríkistjórnar hverju það sætti að innan borðs í ríkisstjórninni væru nýir og ungir ráðherrar. Svar Ólafs var á þessa leið „Nýir vendir sópa best”. Það voru orð að sönnu og nýju ráðherrarnir stóðu sig með prýði.
Vinir Mosfellsbæjar ganga nú til sveitarstjórnarkosninga með sterkan og endurnýjaðan lista. Vinir Mosfellsbæjar munu kappkosta að reka kosningabaráttuna nú sem fyrr af heiðarleika þar sem farið verður í boltann en ekki manninn.
Erum við ekki öll Vinir?

Stefán Ómar Jónsson,
bæjarfulltrúi vina Mosfellsbæjar

Tökum samtalið

Sævar Birgisson

Sem íbúar í bæjarfélagi þá höfum við öll skoðanir á einhverjum málefnum er varða bæinn okkar. Hvort sem það tengist skipulaginu á nýjum stíg í hverfinu eða útdeilingu á leikskólaplássi fyrir barnið þitt.
Ef þú sem íbúi hefur skoðun sem þú telur að geti komið að gagni þá skaltu láta í þér heyra. Eins frá sjónarhóli þess frábæra fólks sem starfa hjá sveitarfélaginu og sinna daglegri starfsemi í bænum okkar má gera ráð fyrir að þau hafi skoðanir á ýmsu sem hægt væri að gera betur. Það sama gildir um aðra hagsmunaaðila sem sjá tækifæri til úrbóta. Látið rödd ykkar heyrast.
Við viljum að á okkur sé hlustað og að við upplifum okkur sem mikilvæg. Við búum öll saman í bæjarfélaginu og viljum auðvitað að okkur og öðrum íbúum líði vel og allir þrífist eins og best verður á kosið. Við þurfum að eiga samskipti og stuðla að því að þau séu uppbyggileg og jákvæð og til þess fallin að gera bæinn okkar að enn betri stað til að búa á.
Þegar kemur að góðri stjórnun, samstarfi og samvinnu almennt eru markviss og uppbyggileg samskipti lykilatriði. Í sumum málum getur það beinlínis hamlað framþróun að hunsa eða leitast ekki eftir skoðunum hagsmunaaðila. Það getur oft á tíðum fært mál í verri farveg og jafnvel sett þau aftur á byrjunarreit.
Það er til að mynda ekki skynsamleg ákvörðun að leggja hjólastíg og reiðstíg hlið við hlið, það er ekkert sjálfsagt mál að allir sjái vandamálið við það en þeir sem stunda hestamennsku væru fljótir að benda á það væri ekki ákjósanlegt.

Bæjarfulltrúar starfa jú í umboði kjósenda, sem eru íbúar bæjarins. Þeim ber því skylda til að vinna ætíð með hagsmuni íbúa að leiðarjósi. Til þess að það geti gengið sem best þurfum við að vera dugleg að taka samtalið.

Sævar Birgisson
3. sæti á lista Framsóknar í Mosfellsbæ

Friðlýsing Leiruvogsins

Úrsúla Jünemann

Eitt af mest spennandi svæðum í Mosfellsbænum er Leiruvogurinn. Í hann renna 4 ár: Leirvogsá, Kaldakvísl, Varmá og Úlfarsá. Þetta svæði býður upp á skemmtilega útivist við allra hæfi: göngu, skokk, hjólreiðar, golf og hestamennsku.

Góðir stígar gera fólki með hreyfihömlum einnig kleift að njóta útiverunnar. Áhugamenn um fuglalíf finna varla betri stað til skoðunar því þar eru fuglar allan ársins hring, bæði mismunandi stórir hópar og sjaldgæfar tegundir. Leirurnar eru mikilvæg fæðuuppspretta fyrir staðfugla, farfugla og umferðafugla sérlega vor og haust.
Svona náttúruperlur ber að varðveita og vernda fyrir ágengi manna sem kann að valda raski og mengun.

Núna liggja fyrir drög að friðlýsingu Leiruvogs sem nær bæði yfir landið í Mosfellsbæ og Reykjavík. Samstarfshópur um friðlýsingu Blikastaðakróar og Leiruvogs fundaði þann 1. mars. Vonandi er að koma skrið á þetta ferli og sátt um útfærslu þess. Í fundargerð Umhverfisnefndar Mos. frá 24. mars 2022 má fræðast um þetta nánar.

Og svo að fyrirhugaða friðlýsta svæði er að mestu leyti fjara og sjávarbotn þá ber einnig að gæta þess að mengun berst ekki í voginn utan frá. Sem dæmi ætla ég að nefna hrauka af efni sem féllu til við götusópun að vori til sem einu sinni voru sturtað niður mjög nálægt friðlandinu að Varmárósum.
Hestaskítur á ekki að fara í grennd við fjöruna heldur frekar á landsvæði sem menn ætla að græða upp og nota til skógræktar. Og fjúkandi plasttætlur frá heyböggunum ættu að heyra sögunni til. Auðvitað á að vakta reglulega árnar sem renna í voginn.

Ég vona að Mosfellsbær muni bera gæfu til þess að vinna með heilum hug í samstarfi við Reykjavíkurborg að friðlýsingu Leiruvogsins.

Úrsúla Jünemann

Fjölbreyttari ferðamáti er allra hagur

Valdimar Birgisson

Við erum sjálfsagt öll orðin langþreytt á þeim umferðarteppum sem myndast á álagstímum til og frá Mosfellsbæ.
Það er fátt leiðinlegra en að þurfa að bíða í endalausri bílaröð þegar hægt væri að nýta tímann í eitthvað annað. Samgönguframkvæmdir á höfuðborgarsvæðinu hafa verið of litlar í langan tíma og afleiðingin er þessi. Við þurfum að hanga í bílum til þess að komast til vinnu og svo aftur heim. Það var fyrirséð að umferð myndi aukast með auknum fólksfjölda og tilraunir með að fá fólk til þess að nota almenningssamgöngur hafa verið veikburða og ekki skilað tilætluðum árangri.
Nú er hins vegar farið að hylla undir breytingar. Verið er að hrinda í framkvæmd samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins þar sem ríki og bæjarfélög sameinast um að leysa þennan vanda.
Fjármagnið skiptist c.a. 50/50 á milli almenningssamgangna og umferðarmannvirkja annars vegar og göngu- og hjólastíga hins vegar.
Við í Viðreisn leggjum áherslu á að jafnframt verði hafist handa við lagningu Sundabrautar sem allra fyrst. Það mun létta á umferð um Mosfellsbæ og minnka umferðartafir í Ártúnsbrekku, sem hefur bein áhrif á umferð úr Mosfellsbæ.
En af hverju ekki að nota allt fé í að bæta samgöngur fyrir bíla? Svarið við þessu er að það einfaldlega ekki hægt.
Því er spáð að umferð ökutækja, að öllu óbreyttu, muni aukast um 40% á næstu 15 árum. Það gefur því auga leið að það mun ekki vera hægt að anna þeirri aukningu með fjölgun vega eða akreina þannig að við verðum að beina hluta af umferð annað. Svo er það hreinlega krafa stórs hluta íbúa að boðið sé upp á valkost við einkabílinn.

Bættar almenningssamgöngur og fjölgun á göngu- og hjólreiðastígum mun leiða til þess að fólk hafi meira val um að velja sér ferðamáta. Viðreisn styður áform um fjölbreyttari ferðamáta á höfuðborgarsvæðinu.

Valdimar Birgisson

Fólk eða flokka í bæjarstjórn?

Anna Sigríður Guðnadóttir

Það er stundum sagt og skrifað að stjórnmálaflokkar séu til óþurftar. Má skilja á stundum að stjórnmálafólki sem starfar innan stjórnmálaflokka sé ekki treystandi til að starfa af heilindum að hagsmunum bæjarbúa.
Í síðasta Mosfellingi birti bæjarfulltrúi framboðsins Vinir Mosfellsbæjar grein þar sem fram kom sú skoðun að óháður bæjarlisti þar sem einungis hagsmunir bæjarbúa ráði för eigi fullt erindi í Mosfellsbæ. Nú ætla ég ekki að dæma um það hvaða flokkar eða framboð eiga erindi í bæjarstjórn, það er kjósenda að ákveða það. Ég vil hins vegar draga fram af hverju það er kostur að þeir aðilar sem bjóða sig fram og setjast við bæjarstjórnarborðið séu hluti stjórnmálahreyfingar með skýr stefnumið.

Á hverju byggjum við okkar störf?
Við sem störfum í bæjarstjórn og nefndum bæjarins í nafni Samfylkingarinnar vinnum að sjálfsögðu af fullum heilindum að hagsmunum bæjarfélagsins og íbúa þess. En á hverju byggjum við þær ákvarðanir sem við tökum? Við byggjum þær á stefnu flokksins sem við störfum innan, jafnaðarstefnunni. Okkar starf miðar að því að efla velferðarsamfélagið með frelsi, jafnrétti, samábyrgð og réttlæti að leiðarljósi. Leiðarljósið er þessi öfluga stjórnmálastefna sem norræn velferðarsamfélög eru reist á. Þetta eru grunngildi Samfylkingarinnar.
Á sveitarstjórnarstigi er veitt sú þjónusta og teknar flestar þær ákvarðanir sem hafa hvað mest áhrif á daglegt líf og lífsgæði íbúa, á hvaða aldri sem þeir eru. Gott samfélag verður til þegar allir íbúar fá tækifæri til að taka virkan þátt í samfélaginu og enginn er skilinn eftir, þar sem íbúar upplifa frelsi, samstöðu og samhygð.

Áskoranir framtíðar
Við sem samfélag stöndum frammi fyrir áður óþekktum áskorunum. Það eru áskoranir í umhverfismálum, velferðarmálum og atvinnumálum sem við verðum að bregðast við á markvissan og öflugan hátt. Þessum áskorunum verður ekki mætt á fullnægjandi hátt nema með aðkomu sveitarfélaga og samstarfi sveitarfélaga. Þess vegna er mikilvægt að í sveitarstjórnum sitji fólk með framtíðarsýn sem byggist á stefnu um jöfn tækifæri allra, stefnu um heilbrigt og öflugt atvinnulíf sem gengur ekki á rétt komandi kynslóða um heilnæmt umhverfi og sjálfbæra nýtingu auðlinda. Fólk sem lítur fyrst og fremst til velferðar barna og fjölskyldna í öllum sínum störfum.

Framtíðarákvarðanir
Á hverju fjögurra ára kjörtímabili koma upp ýmis álitaefni og mál til afgreiðslu í bæjarstjórn sem ómögulegt er að sjá fyrir í kosningabaráttu eða í upphafi tímabilsins. Það að kjörnir fulltrúar séu hluti stjórnmálahreyfingar með heildstæða stefnu um uppbyggingu velferðarsamfélags fyrir okkur öll, hefur forspárgildi um á hverju ákvarðanir síðar á kjörtímabilinu verði byggðar. Í tilfelli bæjarfulltrúa Samfylkingarinnar verða þær byggðar á jafnaðarstefnunni, stefnunni um velferðarsamfélagið sem byggist á jöfnuði og réttlæti.

Anna Sigríður Guðnadóttir,
oddviti framboðslista Samfylkingarinnar.

Skarhólabraut í Mosfellsbæ

 

Sveinn Óskar Sigurðsson

Í gegnum árin hefur verið fjallað á margvíslegan þátt um stytting einn hér í Mosfellsbæ sem ber heitið Skarhólabraut sem liggur frá Vesturlandsvegi, fram hjá slökkvistöðinni í bænum, upp með Úlfarsfellinu og yfir í Reykjahverfi.
Fallegt íbúðahverfi hefur mótast á þessu svæði og þar er að finna göturnar Aðaltún, Lækjartún, Hamratún, Hlíðartún og Grænumýri. Steinsnar þar hjá er iðnaðarhverfið við Flugumýri og Desjamýri.
Auglýst hefur verið deiliskipulag á svæðinu. Íbúum og fjárfestum hefur verið kynnt það ítrekað þegar á að fjárfesta á svæðinu og við önnur tilefni. Finna má deiliskipulagið á kortavef Mosfellsbæjar og þar sagt að það hafi verið samþykkt í bæjarstjórn 12. mars 2008 og er því nýlega orðið 14 ára gamalt. Það er önnur saga og óljós.
Eftir stendur undirritað skjal af þáverandi bæjarritara Mosfellsbæjar sem liggur á kortavef bæjarins og hefur ítrekað verið kynnt, t.a.m. í október 2007 í auglýsingu í Morgunblaðinu, þá sem „skematísk“ mynd, þar sem auglýstar voru atvinnuhúsnæðislóðir. Var myndin af Skarhólabrautinni eins og framangreint deiliskipulag gerir ráð fyrir, þ.e. með eyjum og öllu tilheyrandi.
Síðan eru þær lóðir allar seldar og búið að byggja á þeim, starfsemi einnig hafin. En Skarhólabrautin hefur vart tekið nokkrum breytingum og alls ekki í samræmi við það deiliskipulag sem kynnt hefur verið og liggur enn á kortavef bæjarins.
Frábær fyrirtæki eru á þessu svæði þar sem Skarhólabraut liggur um. Þar eru starfandi aðilar sem hafa metnað og vilja búa í góðri sátt við alla í bæjarfélaginu og umhverfið sitt. Enn er verið að selja lóðir upp með allri Desjamýrinni og umferðin um svæðið eykst.
Stórvirkar vinnuvélar eru á förum þarna fram og til baka og stórir flutningabílar fara þarna um sem þarf að þjónusta í einu stærsta og metnaðarfyllsta bifreiðaverkstæði landsins sem er komið á svæðið.
Íbúarnir á svæðinu þurfa að þola ágang þessara tækja illu heilli því Skarahólabrautin, sem á að beina umferð inn á iðnaðarsvæðið og fram hjá íbúabyggð, hefur ekki verið fullunnin. Skarhólabraut er illa fær bæði stórum og minni ökutækjum. Vegna þessa aka þessi tæki fremur um Flugumýri og fram hjá íbúðarbyggðinni þar. Þetta boðar ekki gott.
Í greinum að undanförnu hef ég fjallað um brotin loforð meirihlutans í Mosfellsbæ. Má þar m.a. finna brot á eigin málefnasamningi þessa meirihluta. Þar er af nógu að taka. Skarhólabrautin átti að hafa verið komin í gagnið fyrir margt löngu. Hvað tefur? Þetta snýr ekki aðeins að þjónustu við þá sem hafa þarna fjárfest heldur einnig að öryggismálum, loftslagsmálum og loforðum sem þessum aðilum hafa verið gefin sem þarna starfa og búa.

Sveinn Óskar Sigurðsson,
bæjarfulltrúi Miðflokksins í Mosfellsbæ.

Er gott að vera eldri borgari í Mosó?

Kolbrún Jónsdóttir

Í sumar eru fyrirhugaðar miklar byggingaframkvæmdir að Eirhömrum og Hömrum í Mosfellsbæ. Sennilega hefjast þessar framkvæmdir í júlí, jafnvel fyrr.
Það á að byrja á að byggja tengibyggingu ofan á elstu og best byggðu eininguna á Eirhömrum. Í þessari einingu eru 6 íbúar í jafn mörgum íbúðum og okkur hefur verið gert að flytja út, tæma íbúðirnar alveg. Þessar framkvæmdir geta tekið ca. tvö ár, en Eir segist munu sjá um flutninginn og útvega okkur íbúðir á þeirra vegum, enginn kostnaður af okkar hálfu, bara ótrúlega mikil fyrirhöfn. Ef við flytjum í dýrari íbúð en þá sem við erum í, þá borgum við ekki meira fyrir þá íbúð, en samt bara meðan á framkvæmdum stendur.

Fyrirhugað er að byggja 4-5 hæða blokk við Bjarkarholt, samtals um 100 íbúðir, síðan á að byggja nokkrar hæðir ofan á Hamra. Á meðan verðum við sexmenningarnir annars staðar, kannski á Eirhömrum, Eirborgum, í Spönginni eða Eir í Grafarvogi. Hljómar spennandi …?
Ég verð að viðurkenna að mér hrýs hugur við að fara að pakka niður þegar ég hef loksins klárað að koma mér fyrir hérna. Þegar ég flutti úr Miðholtinu eftir 24 ár, þá hélt ég að sá pakki væri búinn, en nei, aldeilis ekki.

En Mosfellsbær þarf ekki að hafa áhyggjur af okkur, bærinn er löngu búinn að afsala sér eldriborgararéttindum til Eirar. Við borgum mismunandi háa leigu til Eirar, td. er leigan fyrir 60 fermetra íbúð núna „aðeins“ 250 þús. á mánuði. Innifalið í því er rekstrargjald sem er mismunandi hátt eftir íbúðum.
Ljótt að segja það, en Mosfellsbær er ekki til staðar fyrir okkur. Því miður.

Ég vona að ég sé ekki að fara með neinar rangar staðreyndir í þessari litlu grein. Þetta er bara það sem okkur hefur verið sagt um áformin. Ég hef ekki verið í samráði við aðra sem þurfa að flytja.
Mér bara ofbýður.

Kolbrún Jónsdóttir

Kosningavor

Bjarki Bjarnason

Á almennum félagsfundi VG í Mosfellsbæ, sem haldinn var 12. mars sl., var framboðslisti félagsins í komandi kosningum samþykktur einróma. Listann skipa 22 einstaklingar, í samræmi við fjölgun bæjarfulltrúa úr 9 í 11.

Við erum afar þakklát fyrir það traust sem okkur er sýnt við að leiða listann, hann er skipaður einstaklingum úr ýmsum stéttum samfélagsins, þeir hafa svipuð lífsviðhorf þar sem félagslegt jafnrétti, samfélagsleg ábyrgð og umhverfismál eru sett á oddinn.

VG hefur starfað í meirihluta bæjarstjórnar á þessu kjörtímabili; á því tímaskeiði hefur fjölmargt áunnist, má þar nefna byggingu Helgafellsskóla, byggingu knatthúss á Varmársvæði sem var vígt haustið 2019, unnið hefur verið markvisst að friðlýsingu Leiruvogs og afar vönduð umhverfisstefna bæjarins verið samþykkt. Um leið og við horfum stolt um öxl lítum við til framtíðar, hafin er stefnumótunarvinna hjá VG-Mos fyrir komandi kosningar og mun niðurstaða þeirrar vinnu birtast í stefnuskrá framboðsins.

Kolbrún Ýr Oddgeirsdóttir

Veturinn hefur verið óvenju rysjóttur að þessu sinni og veður bæði grimm og dimm á köflum. En senn snúum við baki við vetrinum og vorið tekur við – það verður kosningavor. Að þessu sinni verður það ekki einungis grænt – heldur vinstri grænt!

Bjarki Bjarnason, skipar 1. sæti V-lista.
Kolbrún Ýr Oddgeirsdóttir, skipar 2. sæti V-lista.