Ert þú á löglegum hraða?

Ásgeir Sveinsson

Skipulagsnefnd fundar aðra hverja viku og hefur nefndin fundað aukalega í ár vegna endurskoðunar aðalskipulags. Endurskoðun aðalskipulags Mosfellsbæjar er langt komin og er áformað að vinnunni ljúki fyrri hluta næsta árs.
Nefndinni hafa borist þónokkur erindi er tengjast endurskoðun aðalskipulagsins og er mögulegt að sjá þessi erindi í fundargerðum nefndarinnar.
Skipulagsnefnd berast erindi er varða til dæmis breytingar á deili- og/eða aðalskipulagi Mosfellsbæjar, en þar sem nefndin er einnig umferðarnefnd, koma málefni er tengjast umferðarmálum í Mosfellsbæ einnig til nefndarinnar. Á fundi skipulagsnefndar í nóvember sl. kom fram samantekt um hraðamælingar lögreglunnar hér í Mosfellsbæ, sem framkvæmdar voru fyrr á árinu. Niðurstöður þessara hraðamælinga voru því miður ekki góðar. Hraðamælingar fóru fram á 12 stöðum hér í bænum og kom í ljós að 7-38% ökumanna óku of hratt, mismunandi eftir götum og hverfum. Á einum stað þar sem hámarkshraði er 70 km/klst. var til dæmis ekið á allt að 124 km hraða. Þetta er því miður of hátt hlutfall og of mikill umferðarhraði. Við hvetjum alla bæjarbúa til að virða umferðarhraða og umferðarreglur í bænum okkar því við verðum að sýna gott fordæmi, sérstaklega nú í skammdeginu.

Helga Jóhannesdóttir

Meðal verkefna sem eru í vinnslu og undirbúningi hjá skipulagsnefnd má nefna deiliskipulag 6. áfanga Helgafellshverfis, deiliskipulagsbreytingar við Bjarkarholt og miðbæjargarð, skipulag Borgarlínu og umferðar í miðbæ Mosfellsbæjar, umferðaröryggisáætlun fyrir bæinn, uppbyggingu á athafnasvæði Blikastaðalands, uppbyggingu Hamraborgar við Langatanga og 5. áfanga Helgafellshverfis.
Í nýsamþykktri samþykkt um stjórn Mosfellsbæjar hafa skipulagsfulltrúa nú verið fengnar víðtækari heimildir en áður til afgreiðslu erinda sem berast, sem er mjög jákvætt og mun stuðla að enn betri og skilvirkari þjónustu við bæjarbúa.

Ásgeir Sveinsson og Helga Jóhannesdóttir,
bæjar­fulltrúar D-lista og fulltrúar í skipulagsnefnd