Tillögu um greiðslu á húsaleigu vegna Karla í skúrum hafnað

Rúnar Bragi Guðlaugsson

Þann 5. apríl 2018 var haldinn opinn íbúafundur í Framhaldsskólanum í Mosfellsbæ um stefnumótandi áherslur íbúa varðandi málefni eldri íbúa í Mosfellsbæ. Þátttakendur voru um 110 talsins.
Það kom líklega fyrst fram á prenti hér í Mosó það sem síðar varð að átaksverkefninu frá Rauða krossinum, Karlar í skúrum, en það sem fram kom á íbúafundinum var einmitt mikilvægi þess að ,,virkja karlana í kjallaranum“ eins og það var orðað þá!

Verkefnið Karlar í skúrum sækir fyrirmynd sína til Ástralíu og Írlands og hefur Rauði kross Íslands haft frumkvæði að stofnun verkefnisins hér á landi, sem síðan varð að veruleika í Mosfellsbæ í nóvember 2020.
Tilgangur starfsins er að auka lífsgæði félagsmanna, einkum eldri karlmanna, í gegnum handverk og samveru og vinna þannig gegn félagslegri einangrun og neikvæðum afleiðingum hennar og skapa karlmönnum vettvang til að hittast á þeirra eigin forsendum.

Karlar í skúrum er opið fyrir alla karlmenn og gefur þeim stað og stund til að hittast, spjalla og vinna að ýmsum sameiginlegum verkefnum sem þeir sjálfir ákveða. Þar skiptast þeir á þekkingu og gefa til samfélagsins í leiðinni.
Markmið verkefnisins var að skapa aðstæður þar sem heilsa og vellíðan karlmanna er í fyrirrúmi, þar sem þeir halda sér við líkamlega, andlega og félagslega.

Mosfellsbær hefur frá upphafi styrkt verkefnið meðal annars með því að greiða fyrir húsaleigu en eftir að upphaflegi samningurinn rann út hafa karlarnir sjálfir þurft að greiða húsaleiguna.
Við í D-listanum komum með þá tillögu til fjárhagsáætlunar að Mosfellsbær myndi áfram greiða húsaleigu fyrir þetta frábæra verkefni. Meirihlutinn ákvað á fundi bæjarráðs nr. 1556 að koma með tillögu um að nýta ágóðahlutagreiðslu frá Eignarhaldsfélagi Brunabótafélags Íslands til að styrkja verkefnið Karlar í skúrum og Heilsa og hugur (Heilsa og hugur er verkefni sem var sett á laggirnar á síðasta kjörtímabili af þáverandi meirihluta).
Styrkurinn hljóðar upp á 782.000 kr. en við í D-listanum komum með málsmeðferðartillögu um að þessi styrkur færi ekki til greiðslu húsaleigu heldur til tækja- og vélakaupa og/eða námskeiðshalda og að Mosfellsbær héldi áfram að greiða húsaleigu að fullu fyrir þetta mikilvæga verkefni.
Þeirri tillögu var alfarið hafnað af B-,C- & S-lista meirihlutans, og munu því Karlar í skúrum áfram greiða húsaleigu sem nemur kr. 120.000 á mánuði, að frátöldum fyrrnefndum styrk.

Rúnar Bragi Guðlaugsson
Bæjarfulltrúi