Nú kemur þetta hjá okkur!

Erla Edvardsdóttir

Ég hef verið iðkandi, þjálfari, foreldri og sjálfboðaliði í Aftureldingu frá því ég flutti í Mosfellsbæ.
Á þessum tíma, sem spannar nú nokkra áratugi, hef ég upplifað alls konar, eins og gerist og gengur innan íþróttafélaga. En það sem stendur upp úr fyrir mig er allt það frábæra fólk sem ég hef kynnst.
Að starfa fyrir og í kringum klúbbinn er ofboðslega gefandi en það getur líka verið erfitt. Sérstaklega þegar maður upplifir að hlutirnir gangi ekki eins og maður hafði haft væntingar um, viðhald og uppbygging sé ekki í takt við þarfir félagsins á hverjum tíma sem leiðir af sér alls konar erfiðleika á borð við ófullnægjandi aðstöðu, yfirfullar deildir og biðlista, erfiðleika þegar kemur að því að halda í og laða að góða þjálfara og leikmenn, og síðast en ekki síst, halda í og fjölga sjálfboðaliðum, sem vinna gríðarlega óeigingjarnt og algjörlega ómetanlegt starf í þágu félagsins.

Á næstu árum stendur til að fara í mikla uppbyggingu að Varmá. Strax á næsta ári fær Afturelding langþráða aðstöðu fyrir styrktarþjálfun í takti við nútímaþarfir íþróttafólks. Á næsta ári verður líka hafist handa við að uppfæra vellina þar sem meðal annars verður skipt um gervigras og vökvunarbúnaður settur upp og ráðist í gagngera endurnýjun á aðalvellinum okkar sem er löngu tímabært.
Þjónustubyggingin er á dagskrá eins og ákveðið hefur verið og stefnt að því að hún verði byggð á kjörtímabilinu.
Á næstu dögum verður skipaður starfshópur á vegum Mosfellsbæjar sem hefur það hlutverk að leggja fram fullbúna, tímasetta tillögu að framtíðarskipulagi Varmársvæðisins.
Í þeirri vinnu þarf að taka tillit til hagsmuna og ábendinga allra þeirra sem starfa á svæðinu og umgangast það. Til dæmis Aftureldingar, almennings sem umgengst svæðið sem sitt íþrótta- og útivistarsvæði, grunnskólakennara og grunnskólanema og annarra sem starfa á svæðinu.
Lögð verður áhersla á að hópurinn skili niðurstöðum á skýran og myndrænan hátt. Þessi vinna mun þó ekki hafa áhrif á þau verkefni sem þegar hefur verið ákveðið að ráðast í eins og endurnýjun valla og nýja þjónustubyggingu.

Ég veit og skynja að það er komin þreyta í hópinn og skil það svo vel. Á sama tíma hef ég aldrei verið eins vongóð og spennt fyrir því sem koma skal að Varmá.
Aftureldingarfólk hefur sýnt það og sannað að í því býr seigla, leikgleði og framsýni. Við þurfum á öllu okkar góða fólki að halda og saman sköpum við betra samfélag sem styður við börnin okkar og gefur okkur sjálfum ánægjuna af því að hafa tekið þátt í uppbyggingunni.

Virðingarfyllst,
Erla Edvardsdóttir, formaður íþrótta-og tómstundanefndar.