Bætt þjónusta og framtíðarsýn í fjárhagsáætlun

Meirihluti Framsóknar, Samfylkingar og Viðreisnar hefur nú lagt fram sína fyrstu fjárhagsáætlun og ber hún merki um nýjar áherslur.
Rekstrarumhverfi sveitarfélaga er snúið þessi misserin m.a. vegna hárrar verðbólgu og afleiðinga innrásar Rússa inn í Úkraínu. Misjafnt er hvernig sveitarfélög taka á aðstæðum.
Sum hver hafa ákveðið að fara í niðurskurð, uppsagnir og skerðingu á þjónustu til að mæta áskorununum. Við höfum ákveðið að fara ekki þá leið.

Bætt þjónusta
Mikilvægi skólaþjónustunnar er óumdeilt og styrking hennar tímabær. Það ætlum við að gera og fyrstu skrefin verða tekin á næsta ári með ráðningu sérfræðings. Við hleypum líka krafti í vinnu við innleiðingu farsældarlaga sem krefjast nýrra vinnubragða og tökum upp þráðinn við innleiðingu hugmyndafræði barnvæns samfélags. Þessum áföngum verður ekki náð nema að bæta þjónustu við börn.

Fjármagn til velferðarþjónustu hækkar um tæplega hálfan milljarð milli ára. Þar má nefna fjölgun NPA samninga og búsetuúrræða, aukningu skammtímavistunar fatlaðra barna, eflingu Úlfsins og styrkingu í ráðgjöf við börn og fjölskyldur.
Við bætum heimaþjónustu og gerum ráð fyrir stóraukningu á félagslegu innliti til þeirra samborgara okkar sem þá þjónustu þurfa. Við festum í sessi betri matarþjónustu með heimsendingu matar um helgar.

Mosfellsbær er að fara inn í tímabil mikillar uppbyggingar og til að sú uppbygging gangi vel fyrir sig er nauðsynlegt að styrkja innviði stjórnsýslunnar. Reyndar er sú styrking löngu tímabær. Aukið verður við stöðugildi inni á umhverfissviði og ráðinn verður lögfræðingur.
Þessar breytingar eru bráðnauðsynlegar svo allur undirbúningur og vinna við skipulagsmál nýrra uppbyggingarsvæða verði marviss og að stjórnsýsla bæjarins hafi getu til að takast á við þau stóru viðfangsefni. Þessi mikla uppbygging mun skila bæjarsjóði auknum tekjum í framtíðinni og þar af leiðandi mikilvægt að setja hana í forgang.

Framkvæmdir
Við erum að leggja fram mjög metnaðarfulla fjárfestingaráætlun með skýra sýn um uppbyggingu til framtíðar. Strax á næsta ári eru fyrirhugaðar miklar framkvæmdir. Má þar sérstaklega nefna framkvæmdir vegna nýrra lagna í óbrotnu landi á fyrirhuguðu athafnasvæði í landi Blikastaða. Hér er um stóra fjárfestingu að ræða fyrir sveitarfélagið en jafnframt nauðsynlegan þátt í undirbúningi að byggingu þess hverfis sem mun í framtíðinni auka tekjur sveitarfélagsins og skapa ný atvinnutækifæri fyrir Mosfellinga.
Viðhaldsverkefni sveitarfélagsins eru fjölmörg í fjárhagsáætluninni. Í Mosfellsbæ hefur byggst upp viðhaldsskuld í áranna rás og vill meirihlutinn vinna markvisst á henni. Í viðhaldi viljum við ganga alla leið og gott dæmi þar um er Kvíslarskóli. Að sönnu eru fjárhæðirnar sem áætlaðar eru í viðhald og endurbætur þess skóla háar en meirihlutinn vill ljúka verkinu, ekki taka smábúta hér og þar.

Gott samfélag
Við viljum fjárfesta í fólki. Það er stöðugt ákall eftir meiri og betri þjónustu sveitarfélaga og viljum við svara því kalli innan þess ramma sem ábyrg fjármálastjórn veitir okkur. Að reka gott samfélag þar sem hugað er að þörfum allra og pláss er fyrir okkur öll kostar.
Fjármagn til rekstrarins verður að koma úr þeim reglulegu tekjustofnum sem við höfum yfir að ráða. Þannig mun þessi meirihluti nálgast fjármálastjórn sveitarfélagsins.

Bæjarfulltrúar Framsóknar, Samfylkingar og Viðreisnar.