Aðstöðuleysi Aftureldingar

Birna Kristín Jónsdóttir

Ég er í grunninn frekari bjartsýn og jákvæð manneskja sem ég held að hafi komið sér afar vel í starfi mínu sem formaður Aftureldingar en það verður samt að viðurkennast að það verður erfiðara og erfiðara með tímanum.
Í aðdraganda sveitarstjórnarkosninga sl. vor voru væntingar keyrðar upp úr öllu valdi og þar spilar enginn flokkur frítt. Flestir ef ekki allir flokkar vildu allt fyrir okkur gera og lofuðu að bæta aðstöðu iðkenda Aftureldingar.
Nú hafa verið lögð fram drög að fjárhagsáætlun Mosfellsbæjar næstu fjögur árin. Vonbrigðin eru gríðarleg svo ekki sé dýpra í árinni tekið. Árið 2019 á 110 ára afmæli Aftureldingar gaf Mosfellsbær okkur það að gjöf að þarfagreina svæðið og aðstöðuna að Varmá.
Eftir mikla vinnu við þarfagreiningar var niðurstaðan sú að byrja á því að reisa langþráða þjónustubyggingu. Þjónustubygging nýtist öllu félaginu mjög vel. Hún myndi rúma það sem okkur vantar hvað sárast:
• Vel búnir búningsklefar og aðstaða fyrir sjúkraþjálfara
• Aðstaða til styrktarþjálfunar fyrir Aftureldingu
• Félagsaðstaða sem sárvantar
• Aðstaða fyrir þjálfara sem er engin í dag

Eins og flestir vita átti að vera byrjað á þessari byggingu en engin tilboð bárust sem þá gáfu fólki færi á að stækka hana sem allir eru ánægðir með. Við fulltrúar Aftureldingar vorum kölluð á fund um miðjan júní þar sem fullyrt var að þetta verkefni myndi ekki tefjast lengur en um ár, við gátum alveg lifað með því þar sem við sáum að það mundi bætast við búningsklefa og rýmið til styrktarþjálfunar stækka svo eitthvað sé nefnt. En frestunin verður greinilega töluvert lengri miðað við framlagða áætlun.
Við erum orðin langþreytt á að bíða eftir tímasettri framtíðarsýn Mosfellsbæjar sem margsinnis hefur verið kallað eftir. Jú, vissulega hljómar það vel að á kjörtímabilinu eru á dagskrá tveir gervigrasvellir, fullbyggð stúka og þjónustubygging. Það sem verra er að aðeins áætlun næsta árs er bindandi og miðað við hvernig verkefni hverfa út af áætlunum þá er erfitt að trúa því og treysta að verkefnin munu raungerast. Ég er því hóflega bjartsýn en vona það besta.
Við í Aftureldingu sjáum okkur því knúin til að boða til opins fundar um aðstöðumálin okkar til þess að freista þess að opna augu fólks fyrir því hvernig raunstaðan er, á sama tíma gefst kjörnum fulltrúum tækifæri á að útskýra betur fyrir okkar félagsmönnum þeirra framtíðarsýn.
Auðvitað er þessi aðstöðuvandi ekki til kominn á stuttum tíma og við gerum okkur grein fyrir að það tekur tíma að vinda ofan af verkefninu en betur má ef duga skal.
Áfram Afturelding.

Birna Kristín Jónsdóttir,
Formaður Aftureldingar