Að reka sveitarfélag

Aldís Stefánsdóttir

Á síðustu vikum hefur sveitarstjórnarfólk af öllu landinu komið saman til að fjalla um rekstur og málefni sveitarfélaga.
Í lok september var haldið Landsþing sambands íslenskra sveitarfélaga og í október var fjármálaráðstefna.
Það er mjög gagnlegt fyrir fólk sem kemur að því að stýra þessum mikilvægu innviðum um allt land að hittast og bera saman bækur sínar. Bæði kjörnir fulltrúar og bæjar- og sveitarstjórar. Áskoranirnar eru miklar en það sést best á því að sveitarfélögum sem uppfylla ekki lágmarksviðmið eftirlitsnefndar með fjármálum sveitarfélaga hefur fjölgað um helming nú í kjölfar heimsfaraldursins. Mosfellsbær er sem betur fer ekki í þeim hópi.
Hluti af skýringunum á þessum rekstrarerfiðleikum er flutningur á málaflokki fatlaðs fólks til sveitarfélaga fyrir um 10 árum. Síðan þá hefur þjónustan þróast í samræmi við breytingar á lögum og verið verið nútímavædd og kostnaðurinn að sama skapi aukist mikið án aukningar á mótframlagi frá ríkinu. Breyting á þjónustu skýrir líka aukinn kostnað í fleiri málaflokkum. Þar er hægt að nefna leikskólamál. Kostnaður sveitarfélaga vegna leikskóla eru um 60 milljarðar króna á landsvísu.
Á síðustu áratugum hafa sveitarfélög byggt upp leikskóla sem standast nútímakröfur þar sem vistunartími hefur verið lengdur bæði með tilliti til aldurs barna og einnig með tilliti til lengdar á vistunartíma. Nú heyrir það til undantekninga ef börn eru ekki komin á leikskóla á öðru aldursári og að þau dvelji þar að minnsta kosti í átta tíma á dag. Hluti af skýringunni á erfiðum rekstri sveitafélaga er líka mikil fólksfjölgun og fjárfestingarþörf sem fylgir henni. Íbúum á höfuðborgarsvæðinu hefur til að mynda fjölgað um rúmlega 30 þúsund á síðustu 10 árum.

Ég er með þessum skrifum ekki að leggja til neina töfralausn á rekstri sveitarfélaga. Því miður. Heldur er ég frekar að deila þeim upplýsingum sem liggja fyrir og hugleiðingum þeim tengdum. Mér finnst mikilvægt að þau sem taka að sér að taka ákvarðanir um rekstur okkar sameiginlegu sjóða upplýsi um það hvernig gengur og af hverju ekki er hægt að gera allt fyrir alla strax.
En ég er hinsvegar bjartsýn á að okkur muni áfram farnast vel hér í Mosfellsbæ við það krefjandi verkefni að takast á við mikla fjölgun íbúa á sama tíma og við nútímavæðum og bætum þjónustuna.
Það þýðir að við þurfum að vera skynsöm og forgangsraða með tilliti til fjárfestingargetu hverju sinni. Það þýðir líka að við þurfum að leggja áherslu á stefnumótun þannig að við vitum hvert við erum að fara og með samtalinu finnum við út úr því hvernig á að komast þangað.

Aldís Stefánsdóttir
Bæjarfulltrúi Framsóknar í Mosfellsbæ