Það er betra að vera unglingur í bæ en í borg

Guðrún Helgadóttir

Ég vil vekja athygli á hversu gott það er að vera unglingur í bæ en ekki í borg. Það geri ég vegna væntanlegra aðgerða Reykjavíkurborgar í niðurskurði á opnunartíma félagsmiðstöðva, sem er aðför að barna- og unglingavelferð.
Við í stjórn SAMFÉS – samtaka félagsmiðstöðva og ungmennahúsa á Íslandi gagnrýnum þetta harðlega ásamt öllum þeim sem koma að þessum vettvangi.
Unglingar í Mosfellsbæ eru einstaklega heppnir þegar kemur að félagsmiðstöðvarstarfi. Hvergi á landinu er jafn mikill opnunartími félagsmiðstöðva. Mosfellsbær býður upp á þetta mikla starf til að tryggja að börn og unglingar hafi samastað í öruggu umhverfi þar sem bæði fer fram formlegt og óformlegt frístundastarf. Þar er hægt að tryggja mikilvægt samstarf barna/unglinga, skóla, foreldra og félagsmiðstöðva.

Það sem Mosfellsbær býður upp á umfram flest, ef ekki öll, bæjarfélög er heilsdagsopnun félagsmiðstöðva. Nú hugsa eflaust margir um hvers vegna félagsmiðstöð sé að opna klukkan 9:00 á morgnana þegar börnin eiga að vera í skóla? Í hugum margra er félagsmiðstöðin geymslustaður fyrir unglinga eftir skóla og fram á kvöld. Þar sem unglingarnir eru best geymdir til að drepa tímann.
Ég hitti reglulega fyrrum unglinga sem koma til að þakka fyrir að starfsmenn Bólsins voru alltaf til staðar og benda á að Bólið bjargaði þeim á svo margan hátt. Oft eru þetta unglingar sem pössuðu ekki inn í ramma skólans eða voru ekki svo heppnir að búa við hin fullkomnu skilyrði heima fyrir. Hver sem ástæðan var, þá áttu þeir öruggt athvarf í Bólinu.

Það sem félagsmiðstöðvarstarf snýst um er að vinna með einstaklinga og hópa á jafnréttisgrundvelli. Án stífra ramma en alltaf með virðingu að leiðarljósi. Félagsmiðstöðin er staður þar sem unglingar geta komið og opnað sig, tjáð tilfinningar, áhyggjur og sorgir. Staður þar sem er hlustað er á þá og ef á þarf að halda, staður þar sem starfsmenn koma erfiðum málum í rétt ferli, þannig að hægt sé að tryggja velferð og öryggi barna og unglinga. Staður þar sem starfsfólk er vinir, en á sama tíma fagfólk sem getur gripið inn í óæskilega hegðun. Starfsmenn sem eru vinir en þekkja mörk og heilbrigð samskipti og geta miðlað því áfram til unglinganna. Starfsmenn sem eru vinir, en eru ófeimnir við að nálgast erfið umræðuefni sem unglingurinn er ekki tilbúinn til að ræða við foreldra/aðstandendur.
Það sem gerist á daginn í félagsmiðstöðinni er að unglingarnir koma til okkar í frímínútum, í eyðum, í félagsfærni eða þeir koma í þau valfög sem við kennum. Valfögin eru alls konar. Þar má nefna kynfræðslu, fatahönnun, félagsfærni og félagslega styrkingu. Auk þess þá tökum við alla bekki unglingadeildanna til okkar í fræðslu tengda fræðsluherferðum okkar.

Til að koma aftur að upphafspunktinum, þá er ég svo þakklát fyrir langtímasýn stjórnenda Mosfellsbæjar. Með niðurskurði á þessum vettvangi er verið að kasta krónum til að spara aura. Ráðuneytin eru meðvituð um að staða barna og unglinga eftir heimsfaraldur er ekki eins og við óskum okkur. Til að bregðast við, þá sit ég ásamt öðrum sem vinna að málefnum barna og unglinga í ótal vinnuhópum á vegum ráðuneytanna um hvernig megi bregðast við þessari þróun sem er meðal annars aukin áhættuhegðun, kvíði og félagsleg einangrun. Þrátt fyrir þetta þá ætlar Reykjavíkurborg að skera niður fjárveitingu, sem er með öllu óskiljanlegt.

Því vil ég enn og aftur þakka fyrir að stjórnendur Mosfellsbæjar sjái og meti það góða og mikilvæga starf sem félagsmiðstöðvar sinna. Þó svo enn sé vinna fram undan við að koma starfseminni á þann stað sem okkar börn og unglingar eiga skilið, þá er Mosfellsbær orðinn það bæjarfélag sem horft er til á þessum vettvangi.
Hrós til Mosfellsbæjar – ég er þakklát fyrir að unglingarnir mínir fái að alast upp í bæjarfélagi sem er tilbúið að styrkja undirstöðuna, sem er unga fólkið okkar.

Virðingarfyllst,
Guðrún Helgadóttir
Forstöðumaður Bólsins