Það er ekki hægt að segja annað en að Albert Sigurður Rútsson sé litríkur einstaklingur enda hefur hann víða komið við á sinni lífsleið. Hann er mikið snyrtimenni, ávallt smekklega klæddur og gengur stundum um með hatt á höfði.
Hann var áberandi í íslensku skemmtanalífi á sjöunda áratugnum en síðar einna þekktastur fyrir bílasölur, fornbíla og hótel- og veitingahúsarekstur.
Albert var kosinn Mosfellingur ársins 2008 en í september það ár opnaði hann ásamt fjölskyldu sinni Hótel Laxnes sem telur 26 herbergi.
Albert Sigurður fæddist á Sigríðarstöðum í Fljótum í Skagafirði 14. maí 1946. Foreldrar hans eru Svanfríður Guðrún Stefánsdóttir verkakona og Rútur Kr. Hannesson harmonikkuleikari og hljómsveitarstjóri. Rútur lést árið 1984. Albert er einkabarn en hann á ellefu hálfsystkini.
Veiddi dúfur og seldi
„Ég ólst upp hjá móður minni á Siglufirði. Ég kynntist föður mínum lítið en hann bjó í Hafnarfirði. Mamma vann mikið og á meðan hafði ég skjól hjá afa og ömmu og móðursystur minni, Sigrúnu, og Ástvaldi eiginmanni hennar, sem var mér eins og faðir.
Ég tók mér ýmislegt fyrir hendur á mínum yngri árum, ég tíndi upp sígarettustubba fyrir afa en hann notaði þá í pípuna sína og fyrir það fékk ég smá pening. Ég hjálpaði mömmu í síldinni og svo mokaði ég snjó frá bíódyrunum og fékk frítt inn í staðinn.
Ég veiddi líka dúfur og seldi en þær komu alltaf til mín aftur svo ég seldi alltaf sömu dúfuna og stórgræddi,“ segir Alli og hlær.
Látinn sitja eftir og fékk oft skammir
„Ég gekk í barnaskóla á Sigló en mér gekk illa í skóla, aðallega vegna lesblindu, en lesblindan hefur oft hjálpað mér í seinni tíð. Ég var kallaður tossi, látinn sitja eftir og fékk oft skammir. Ég held að ég hafi verið ofvirkur unglingur, ég vildi helst vera að gera eitthvað allt annað en að læra.
Ég gerði upp bát þegar ég var fjórtán ára, keypti í hann utanborðsmótor og leigði hann svo út. Tveimur árum seinna eignaðist ég Willis jeppa, sem ég leigði líka út í sambandi við snjómokstur í Siglufjarðarskarði. Fóstri minn, Friðgeir Árnason, var vegaverkstjóri á þessum tíma.“
Hitaði pylsurnar á prímus
„Þegar maður fór að fara á sveitaböllin þá lét ég vini mína sem voru komnir með bílpróf keyra bílinn minn. Við tókum með okkur farþega sem greiddu fyrir farið og þar með var bíllinn minn orðinn aðalleigubíllinn á Sigló.
Í skottinu var ég með pylsur og prímus, ég hitað pylsur eftir böllin og seldi grimmt. Þetta var skemmtilegur tími.
Eftir að ég fékk bílpróf keypti ég mér vörubíl og fékk starf á Vörubílastöðinni. Þar var brjálað að gera, enda síldarár. Þegar vinnan minnkaði á Sigló náði maður í möl í Fljótin eða í sand til Ólafsfjarðar.
Seinna keypti ég mér annan vörubíl og fór þá til Þórshafnar og vann þar í smá tíma.“
Var eftirsóttur skemmtikraftur
Alli ákvað að flytja til Reykjavíkur og byrjaði að troða upp á skemmtunum á sjöunda áratugnum. Hann vakti fljótlega athygli fyrir skemmtilega framkomu og varð eftirsóttur sem kynnir á skemmtunum.
Hann fór einnig með gamanmál og söng gamanvísur, oft með öðrum skemmtikröftum eins og Ómari Ragnarssyni, Bessa Bjarnasyni og Gunnari Eyjólfssyni að ógleymdum Karli Einarssyni en þeir félagar komu oft fram sem Gøg og Gokke.
Alli var einnig eftirsóttur sem jólasveinn. Hann var einmitt í jólasveinagírnum þegar barnaplatan hans, Kátir voru krakkar, var gefin út af Fálkanum árið 1973. Á henni er að finna fjögur lög.
Gríðarlegt áfall
„Ég starfaði í fasteignabransanum en færði mig svo yfir í bílabrask. Fékk vinnu á Bílasölu Guðmundar og vann þar í 10 ár.
Á þessum tíma var ég búinn að kynnast stúlku, Lilju Sveinsdóttur. Við keyptum okkur íbúð við Sporðagrunn og framtíð okkar var björt. Lilja varð ófrísk og þegar hún var komin sjö mánuði á leið vaknaði hún eina nóttina og leið ekki vel. Við köllum á lækni sem tók þá ákvörðun að leggja Lilju inn á spítala. Á meðan á rannsóknum stóð skrapp ég í vinnuna og hringdi svo til að kanna með hana en var þá sagt í símann að hún væri látin.
Þetta var gríðarlegt áfall og ég var lengi að ná mér,“ segir Alli alvarlegur á svip.
„Ég minnkaði að skemmta og hætti á bílasölunni.“
Stofnaði sína eigin bílasölu
„Ég fór síðar að vinna á bílasölu sem hét Bílahúsið og var þar í nokkur ár. Stofnaði síðan mína eigin bílasölu, Bílasölu Alla Rúts, í Borgartúni. Ég seldi svo fyrirtækið en ekki nafnið og byggði svo 700 fm bílasölu uppi á Höfða. Eftir það ævintýri fór ég til Þýskalands með góðum mönnum til að kaupa vinnuvélar og vörubíla sem við ætluðum að selja og ég garfaði í því í nokkur ár.“
Vinsælt að koma við og fá sér hóstasaft
„Ég kynntist góðri konu, Erlu Haraldsdóttur, og á með henni þrjú börn. Íris Ósk er fædd 1972, Jónas Svanur er fæddur 1978 og Anna Mæja fædd 1985. Fyrir átti ég Katrínu Þóru fædda 1967. Ég á sex barnabörn. Við Erla slitum samvistir.
Ég var í hestamennsku í mörg ár og var með þeim fyrstu sem byggði hesthús í Víðidal. Ég flutti í Mosfellsbæ í hús sem heitir Klöpp og var með hesthús heima. Það var nokkuð vinsælt að koma við hjá mér og fá sér smá hóstasaft,“ segir Alli og brosir.
Hótelið fengið mjög góða einkunn
„Ég seldi húsið þegar ég keypti veitingahúsið Áslák sem ég hef nú rekið í 16 ár. Ég sá möguleika á að byggja við og fékk leyfi til að byggja hótel.
Margir höfðu ekki trú á mér en ég seldi nokkra bíla og var í fjögur ár að byggja hótelið sem fékk nafnið Hótel Laxnes. Ég og fjölskylda mín eigum og rekum það saman. Við erum með tólf starfsmenn í vinnu.
Við áætlum að stækka hótelið á næstu misserum og erum byrjuð að teikna. Hótelið hefur fengið mjög góða einkunn og er það starfsfólki okkar að þakka.“
Gefur út ævisögu
„Það er gaman að segja frá því að ég er að fara að gefa út ævisögu mína. Ég fékk Helga Sigurðsson sagnfræðing til að skrifa bókina sem er langt komin.“
Albert á sjötugsafmæli þann 14. maí og ég spyr hann hvað hann ætli að gera í tilefni dagsins? „Ætli ég fari ekki bara í göngutúr í Kolaportinu og horfi svo á Eurovision um kvöldið.“
Með þeim orðum kveð ég afmælisbarnið með kossi á kinn.
Mosfellingurinn 12. maí 2016
Myndir og texti: Ruth Örnólfs