Gefur sjálfri sér bók í afmælisgjöf

Steinunn með sjálfsævisögu sína.

Steinunn með sjálfsævisögu sína.

Steinunn Marteinsdóttir myndlistarkona á Hulduhólum hefur gefið út veglega bók um ævi hennar og verk.
Bókin nefnist Undir regnboganum og rekur Steinunn sögu sína í máli og myndum. Hún fjallar um uppvöxt sinn í Reykjavík, nám sitt og störf. Bregður upp minnisstæðum svipmyndum af fjölskyldu, vinum og öðru samferðafólki og lýsir farsælum myndlistarferli.
Bókin er litprentuð og í stóru broti, prýdd fjölmörgum ljósmyndum og myndum af listaverkum Steinunnar, sem lýsa vel þróuninni í myndlist hennar. Samantekt á ensku er birt í bókarlok, auk þess sem allir myndatextar eru bæði á ensku og íslensku.

Bók í áttræðisafmælisgjöf
„Ég var búin að ákveða að gefa sjálfri mér það í afmælisgjöf að gefa út bók um verk mín,“ segir Steinunn sem verður áttræð í byrjun næsta árs. „Fyrst ætlaði ég að fá Árna Bergmann til að skrifa við mig viðtal en sjálfur var hann svo upptekinn við eigin bók. Ég fór þá að punkta niður sjálf og fannst það mjög skemmtilegt. Það endaði því þannig að ég skrifaði allan textann sjálf.
„Þetta hefur verið mikil vinna undanfarið eitt og hálft ár en ég hef verið heppin með samstarfsfólk og er virkilega sátt við útkomuna.“

Ekki sest í helgan stein
Steinunn byrjaði sem krakki að teikna mikið og mála. Síðustu áratugi hefur hún verið afkastamikil í listmálun og leirlist. Vinnustofa Steinunnar er á heimili hennar á Hulduhólum og segist hún sækja innblástur úr ýmsum áttum, þó aðallega úr náttúrunni.
Steinunn er hvergi nærri sest í helgan stein eftir útgáfu bókarinnar og undirbýr nú næstu sýningu sína sem sett verður upp á nýju ári. „Nú fer maður að hafa meiri tíma fyrir keramikið og myndlistina,“ segir Steinunn að lokum.
Bókina Undir regnbogann má nálgast í öllum helstu bókaverslunum sem og á vinnustofu Steinunnar að Hulduhólum.

Tekin við rekstri Blómasmiðjunnar

Helga og Leifur í Blómasmiðjunni.

Helga og Leifur í Blómasmiðjunni.

Mosfellingarnir Helga Kristjánsdóttir og Leifur Guðjónsson eru nýir eigendur að Blómasmiðjunni í Grímsbæ við Bústaðaveg.
„Við tókum við rekstrinum þann 1. júlí og erum mjög ánægð með viðtökurnar. Við erum með mikið úrval af afskornum blómum, pottablómum og fallegri gjafavöru. Við flytjum einnig sjálf inn ákveðnar vörur eins og reykelsi og fleira. Við leggjum mikið upp úr svokallaðri árstíðarbundinni gjafavöru eins og sumarblómum, jóla- og páskavörum og fleiru,“ segir Helga sem hefur unnið í faginu í 30 ár.

Góð og persónuleg þjónusta
„Úrvalið hjá okkur af samúðarskreytingum og samúðar­kertum er mjög gott. Við erum með góða þjónustu fyrir brúðkaup, jarðarfarir og allt þar á milli, einnig erum við með heimsendingarþjónustu. Við reynum að vera með fjölbreytt úrval og allir ættu að geta fundið eitthvað við sitt hæfi. Svo leggjum við metnað okkar í það að veita góða og persónulega þjónustu,“ segir Helga.
„Búðin er vel staðsett með góðu aðgengi og nóg af bílastæðum og erum við ánægð með hvað Mosfellingar eru duglegir að koma og versla hjá okkur. Við hvetjum alla til að kíkja til okkar, það er opið alla daga,“ segir Leifur að lokum.

Nýr organisti í Lágafellssókn

Keith Reed hefur verið ráðinn sem tónlistarstjóri og organisti Lágafellssóknar og tekur til starfa í byrjun desember. Keith sem hefur áralanga reynslu af kórstarfi starfar nú sem organisti í All Saints Parish í Corning í New York. En þar býr hann ásamt konu sinni Ástu Bryndísi Schram. Keith er vel þekktur innan kirkjunnar og starfaði áður sem tónlistarstjóri og organisti hjá Lindakirkju og Breiðholtskirkju. Keith er menntaður í kórstjórn og söng og hefur verið nátengdur kirkjustarfi í fjöldamörg ár ýmist sem sjálfboðaliði eða tónlistarstjóri. Keith tekur við af Arnhildi Valgarðsdóttur sem sinnt hefur starfinu síðustu ár.

Sprotafyrirtækið IceWind framleiðir stormskýli

Stormskýli við Hörpu gæti litið einhvernvegin svona út.

Stormskýli við Hörpu gæti litið einhvernvegin svona út.

Mosfellska sprotafyrirtækið IceWind tekur þessa dagana þátt í frumkvöðlaþáttum á RÚV sem nefnast Toppstöðin. Átta hópar taka þátt og vinna undir leiðsögn sérfræðinga. Um 140 verkefni sóttu um þátttöku en einungis átta komust áfram.
IceWind var stofnað árið 2012 með það að markmiði að þróa og koma á markað samkeppnishæfum og endingargóðum vindtúrbínum. „Við erum mjög ánægðir með að fá tækifæri til að taka þátt í þessu verkefni,“ segir Sæþór Ásgeirsson vélaverkfræðingur. Auk hans eru það Gunnar Eiríksson rennismíðameistari og Þór E. Bachmann viðskiptafræðingur sem standa að fyrirtækinu en allir tengjast þeir Mosfellsbæ.

Sjálfbært strætóskýli við Hörpu
„Við erum með samfélagslegt verkefni þar sem við ætlum að setja tvær litlar vindtúrbínur á stætóskýli fyrir framan Hörpuna. Túrbínurnar munu sjá um alla orkuþörf skýlisins, lýsingu, auglýsingaskjá o.þ.h. Hægt verður að hlaða farsímann í skýlinu og fara frítt á netið.
Hrint hefur verið af stað hópfjármögnun á Karolina Fund til að fjármagna þetta verkefni og stendur söfnunin yfir í þrjár vikur. Við ætlum að einbeita okkur að fyrirtækjum þar sem seldar verða auglýsingar á annars vegar túrbínublöðin sjálf og hins vegar á stafrænan auglýsingaskjá. Auðvitað er almenningi líka velkomið að styrkja okkur,“ segir Sæþór.
Ýmsar styrktarleiðir eru í boði og þeim sem vilja kynna sér það er bent á www.icewind.is eða www.karolinafund.com.

Lokaþátturinn í beinni útsendingu
Lokaþáttur Toppstöðvarinnar fer fram í beinni útsendingu þann 5. nóvember og þá er það almenningur sem velur sigurvegara í símakosningu. „Við gerum ráð fyrir mikilli samkeppni og þurfum á öllum hugsanlegum stuðningi að halda. Þetta kvöld hafa dómararnir ekkert vægi, aðeins símakosningin og við þurfum að stóla á að þjóðin kjósi okkur,“ segir Sæþór og hvetur Mosfellinga sérstaklega til að standa við bakið á þeim.
„Við fjármögnum einnig fyrirtækið okkar IceWind og erum búnir að opna fyrir örfjárfesta, þar sem almenningur getur fjárfest og fengið hlut í fyrirtækinu. En framtíðarhorfur fyrirtækisins einskorðast ekki eingöngu við vindtúrbínur heldur stefnir fyrirtækið á að stækka með nýjum hugmyndum og vörum. Fyrirtækið stefnir á að vera leiðandi í grænni orku á Íslandi auk þess að vera með starfsemi á heimsvísu,“ segir Sæþór að lokum.

Icewind hefur sett af stað söfnun á Karolina Fund. Hér er hægt að leggja verkefninu lið.

Flottustu hrútarnir í sveitinni

mosfellingur_hrutar

Sameiginleg hrútasýning fyrir Mosfellsbæ, Kjalarnes og Kjós var haldin að Kiðafelli í Kjós 12 . október. Ljóri frá Meðalfelli var valinn besti hrúturinn og tryggði hreppaskjöldinn á Meðalfell í Kjós.
Þar gafst bændum kostur á að fá stiguð og ómmæld lömb og veturgamla hrúta. Sýningin er jafnframt vettvangur til að verða sér út um gripi til kynbóta. Þá fór fram verðlaunaafhending fyrir flottustu hrúta sýningarinnar og urðu úrslit eftirfarandi:

Lambhrútar hvítir:
1. sæti Hrútur nr. 428 frá Kiðafelli. Eigandi Sigurbjörn.
2. sæti Hrútur nr. 381 frá Grímsstöðum.
Eigendur Ásta og Hreiðar.
3. sæti Hrútur nr. 244 frá Kiðafelli. Eigandi Sigurbjörn.
Lambhrútar kollóttir og mislitir:
1. sæti Hrútur nr. 19 frá Kiðafelli. Eigandi Sigurbjörn.
2. sæti Svarti haninn frá Hraðastöðum. Eigandi Baddi.
3. sæti Golli frá Kiðafelli. Eigandi Björgvin.
Veturgamlir hrútar
1. sæti Ljóri frá Meðalfelli (keyptur frá Snartar­stöðum). Eigandi Sigurþór og Sibba.
2. sæti Djúpur frá Kiðafelli. Eigandi Sigurbjörn.
3. sæti Borginmóði frá Reykjum (keyptur frá Miðdal). Eigandi Ingibjörg Ásta.

Út með kassann

Guðjón Svansson gudjon@kettlebells.is

Guðjón Svansson
gudjon@kettlebells.is

Settist niður til að skrifa pistil um mikilvægustu styrktaræfingu okkar tíma, róður í böndum. Frábært mótvægi við kryppustöðuna sem við mannkynið erum að vinna okkur inn í með síaukinni snjallsíma- og tölvunotkun. Einföld æfing, þráðbeinn líkami, hælar í jörðu, hendur halda í kaðal eða bönd sem hanga neðan úr trjágrein eða slá. Upphafsstaðan er útréttar hendur, svo togar maður sig hægt upp þangað til hendur nema við brjóstkassa, líkaminn beinn allan tímann. Því láréttari sem líkaminn beini er, því erfiðari er æfingin. Gott að gera þessa æfingu reglulega, hún réttir vel úr brjóstbakinu og leiðréttir kryppustöðuna.

En svo langaði mig frekar að skrifa pistil um mikilvægi þess að læra í gegnum leik. Að kenna börnum íþróttir með því að leyfa þeim að ærslast og leika sér. Setja leikina þannig upp að þau læri ómeðvitað hreyfingar sem nýtast þeim í íþróttum. Sitjandi rugby er til dæmis góð leið til að æfa grunnhreyfingar í brasilísku jiu jitsúi. Við prófuðum þetta tveir pabbar um síðustu helgi með 4-12 ára krökkunum okkar og ætlum að halda áfram að vinna með þessa aðferð enda mjög skemmtileg.

Mig langaði líka í þessum pistli að hrósa bæjaryfirvöldum í Mosfellsbæ. Það gleymist oft að láta vita af því sem vel er gert. Mosfellsbær er að verða mikil fyrirmynd varðandi hreyfingu og heilsu. Fyrir utan sparkvellina, sundlaugarnar, íþróttasalina og önnur mannvirki, þá bætist jafnt og þétt í flóru göngu- og hjólastíga í bæjarfélaginu. Það er frábær þróun sem hvetur okkur öll til þess að stunda meiri útivist og koma okkur á milli staða án þess að nota bílinn. Ég þarf sjálfur að taka mig hressilega á í þeim efnum, nota bílinn alltof mikið til að skottast á milli staða í Mosó, en lofa bót og betrun.

Sem sagt, út með kassann, leikum meira og munum að hrósa.

Heilsumolar Gaua
Mosfellingur 22. október 2015

Áskorun til ríkis­stjórnar Íslands

Bæjarráð samþykkti á fundi sínum fimmtudaginn 15. október sl. að fela bæjarstjóra að senda ríkisstjórn Íslands fyrirliggjandi áskorun bæjarráðs um að hún beiti sér fyrir breytingum á tekjustofnum sveitarfélaga. Jafnframt verði afrit sent öllum þingmönnum. Í áskoruninni eru tilteknar leiðir til að tryggja fjölþætta og sveigjanlega tekjustofna sveitarfélaga. Þar segir að ljóst sé að verði ekkert að gert mun rekstrarkostnaður sveitarfélaga hækka langt umfram tekjur þeirra á næstu mánuðum. Því liggi fyrir að við óbreyttar aðstæður munu sveitarfélög ekki geta staðið undir hlutverki sínu og skyldum á næstu misserum með sama hætti og verið hefur. Áskorunin í heild sinni er aðgengileg á heimasíðu Mosfellsbæjar.

Krefjandi, ögrandi og öðruvísi leikverk

Að lokinn vel heppnaðri leiksýningu í Bæjarleikhúsinu.

Að lokinn vel heppnaðri leiksýningu í Bæjarleikhúsinu.

Leikfélag Mosfellssveitar frumsýndi á dögunum leikritið Mæður Íslands við góðar undirtektir. Verkið sem er krefjandi og tilfinningaríkt er unnið út frá „devised“ aðferð. Allur leikhópurinn undir handleiðslu leikstjórans skapar og skrifar leikverkið saman en þó innan ákveðins ramma.
Mæður Íslands fjallar um veruleika íslenskra kvenna á einlægan og ögrandi hátt. Verkið er unnið úr frá sönnum sögum og áhrifum þeirra á lífið. Listrænir stjórnendur eru þær Agnes Wild, leikstjóri, Sigrún Harðardóttir, höfundur tónlistar og Eva Björg Harðardóttir, leikmynda- og búningahönnuður.
Uppselt hefur verið á flestar sýningar hingað til en sýnt er á sunnudögum í Bæjarleikhúsinu. Hægt er að nálgast upplýsingar í síma 566-7788. Mæður Íslands er krefjandi, ögrandi og öðruvísi leikverk sem snertir hjartað.
Mosfellsbær heiðraði Leikfélag Mosfellssveitar á dögunum og útnefndi það sem bæjarlistamann Mosfellsbæjar.

Mosfellsbær gefur út nýtt hjólakort

Í tilefni af Samgönguviku í Mosfellsbæ hafa verið gefin út ný hjólakort fyrir íbúa og gesti bæjarins. Annars vegar hefur verið gefin út ný útgáfa af hjólastígakorti fyrir bæinn, sem sýnir alla helstu hjólastíga í Mosfellsbæ og tengingu þeirra við stígakerfi höfuðborgarsvæðisins.
Hins vegar hefur nú verið gefið út nýtt hjólastígakort með sérmerktum hjólaleiðum í sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu, þar sem m.a. er að finna áhugaverða 18 km fjallahjólaleið í Mosfellsdal.
Hjólastígakortunum verður dreift á alla helstu staði í bænum, íþróttamiðstöðvar og sundlaugar, og sett á heimasíðu bæjarins, auk þess sem þau eru aðgengileg í þjónustuveri Mosfellsbæjar. Íbúar eru hvattir til að nýta sér fjölbreytt úrval hjólastíga í bænum til útivistar.

Hér er hægt að nálgast kortið á vef Mosfellsbæjar

Hér má nálgast fleiri gagnleg kort á vef bæjarins

„Fólk vill eiga kost á hollari máltíðum“

Miklar breytingar hafa orðið í Háholtinu.

Miklar breytingar hafa orðið í Háholtinu.

Í sumar urðu breytingar á rekstri Snælandvideo sem nú heitir Ice boost and burgers. Vídeóspólurnar fengu að víkja fyrir metnaðar­fullum safa- og samloku­bar.
Hjónin Ásta Björk Benediktsdóttir og Gunnlaugur Pálsson sem eru búin að vera með þennan rekstur í 15 ár eru ánægð með breytingarnar. „Ég var búin að ganga með þessa hugmynd í maganum í langan tíma. Það hefur verið mikil umræða um heilsu­eflandi samfélag hér í Mosfellsbæ og fólk vill eiga kost á holl­ari máltíðum,“ segir Ásta.

Safar, skyrdrykkir og samlokur
„Við bjóðum uppá ýmsa safa, skyrdrykki og ferskar samlokur, auk þess erum við með flottan ísbar og svo hefðbundin grillmatseðil. Við reynum að koma til móts við þarfir og óskir viðskiptavinarins, erum til dæmis alltaf með drykk mánaðarins.
Mosfellsbakarí bakar fyrir okkur svokallaða hleifa sem er heilsubrauð og erum við með skemmtilegt úrval af heilsusamlegu áleggi t.d. heimagerðu pestói. Þetta hefur farið mjög vel af stað og fólk kemur aftur og aftur. Við höfum fengið virkilega góð viðbrögð, enda höfum við lagt mikinn metnað í þetta og er gaman að geta boðið upp á svona fjölbreytt úrval,“ segir Ásta.

Fersk engifer- og túrmerikskot
Vinsældir engifer- og túrmerikskota er alltaf að aukast, en það eru margir fastakúnnar sem koma á hverjum degi og fá sér orkuskot.
„Þessi skot eru algjör snilld. Það eru margir sem segjast finna mikinn mun á sér bæði hvað varðar orku og ýmsa kvilla sem eru að hrjá fólk. Við erum að fá fjölbreyttari kúnnahóp til okkar eftir breytingarnar, því það ættu flestir að finna eitthvað við sitt hæfi,“ segir Ásta og bætir við að þau hafi í gegnum tíðina verið einstaklega heppin með starfsfólk sem gerir reksturinn bæði auðveldari og skemmtilegri.

Það féllu tár þegar ég kvaddi hann

Reynir Örn Pálmason og hestur hans Greifi frá Holtsmúla urðu heimsmeistarar í fimmgangsgreinum á heimsmeistaramóti íslenska hestsins í Danmörku

Íslendingar unnu til fernra gullverðlauna og tvennra silfurverðlauna í fullorðinsflokki á heimsmeistaramóti íslenska hestsins sem fram fór í ágúst í Herning í Danmörku en keppendur voru frá fjórtán löndum.
Einn keppendanna, Reynir Örn og hestur hans, Greifi frá Holtsmúla urðu heimsmeistarar í samanlögðum fimmgangsgreinum en þann titil hlýtur sá keppandi sem reynist vera með hæstu meðaleinkunn úr forkeppni í fimmgangi, slaktaumatölti og skeiðgrein.

Reynir Örn er fæddur í Reykjavík 17. apríl­ 1971. Foreldrar hans eru þau Jóna Hulda Helgadóttir sjúkraliði og Pálmi Þór Vilbergs húsasmíðameistari. Systkini Reynis eru þau Viðar Þór og María.

„Það var bara yndislegt að alast upp í Mosfellssveit, við fluttum hingað árið 1976 og ég á bara góðar minningar frá æskuárunum. Það voru nýbyggingar út um allt, fullt af timbri og öðru dóti til að byggja kofa og fleka. Maður var stanslaust úti í einhverjum leikjum eða að gera dyraat,” segir Reynir Örn og glottir.
Ég gekk í Varmárskóla og Gaggó Mos, við félagarnir fórum oft gangandi í hesthús foreldra minna eftir skóla og héngum þar en fórum svo ríðandi heim með skóladótið sem var mjög þægilegt því þá voru Arnartangi og Brekkutangi ystu göturnar í hverfinu.
Ég æfði fótbolta, handbolta og badminton á þessum tíma en svo tók hestamennskan alveg yfir.“

Útskrifaðist sem blikksmiður
„Eftir útskrift úr gagnfræðaskólanum tóku við nokkrar misheppnaðar tilraunir til að fara í menntaskóla en þær einkenndust mest af skrópi og hesthúsaferðum ásamt því að starfa á hinum og þessum stöðum.
Ég var svo atvinnulaus um tíma og ákvað að setja inn auglýsingu í Dagblaðið og óskaði eftir vinnu í þrjá mánuði því ég ætlaði mér aftur í skóla og bara læra eitthvað. Tveir svöruðu auglýsingunni, hamborgarastaður í Ármúla og Blikksmiðja í Kópavogi sem varð fyrir valinu. Ég lærði blikksmíði og útskrifaðist úr Iðnskólanum í Reykjavík 1994 en hef aldrei starfað við fagið því strax eftir útskrift bað ég um ársfrí og það frí stendur enn.“

Dvölin stóð yfir í átta ár
„Ég ákvað að fara í búfræði- og tamninganám að Hólum í Hjaltadal og áður en námi mínu lauk þar var mér boðið að fara til Svíþjóðar að þjálfa hesta í þrjá mánuði. Ég þáði boðið og fór út haustið 1996 eða strax eftir útskrift. Dvölin ytra ílengdist til muna því hún stóð yfir í átta ár eða til 2004 þá ákvað ég að drífa mig aftur á Hóla og klára reiðkennaranám.“

Draumur minn var að komast í sveit
„Eftir dvölina á Hólum flutti ég í Mosfells­bæinn og starfaði við reiðkennslu ásamt þjálfun hrossa. Reiðkennslan fór að mestu leyti fram erlendis og ég var að fara allt upp í 20 ferðir á ári, mest til Finnlands og Svíþjóðar. Það kom síðan að þeim tímapunkti að mér fannst orðið þreytandi að fara svona á milli, draumur minn var að komast í sveit.“

Hrossaræktarbúið Margrétarhof
„Ég hélt alltaf góðu sambandi við fjölskylduna sem ég vann hjá í Svíþjóð. Þeirra draumur var að eignast jörð á Íslandi og árið 2010 kom draumajörðin, Krókur í Ásahreppi, á sölu og þau keyptu hana. Strax var hafist handa við uppbyggingu og er þetta nú eitthvert glæsilegasta hrossaræktarbú á landinu með hesthús fyrir um 50 hross, reiðhöll með kennsluaðstöðu og gistirými fyrir gesti og gangandi, allt til mikillar fyrirmyndar.
Á búinu eru ræktuð hross undir ræktunar­nafninu Margrétarhof en nafnið vísar til ræktunar sem eigendurnir stunda á búgarði sínum í Svíþjóð.
Ég starfa sem bústjóri á þessu búi og lífið snýst um hesta. Við rekum alhliða þjálfunar­miðstöð, bjóðum upp á kennslu, bæði helgarnámskeið og einkatíma, ásamt því að hafa ávallt vel tamin hross til sölu. Mikill tími fer í keppnir og nánast um hverja helgi er eitthvað um að vera.”

Eiga von á barni í október
Unnusta Reynis er Aðalheiður Anna Guðjónsdóttir reiðkennari en þau eiga von á barni í október. Reynir á tvo syni frá fyrra sambandi, þá Arnar Frey viðskiptafræðing hjá WOW Air og Eið Örn sem er nemi.

Þetta er mikil upplifun
Reynir Örn er alinn upp í Hestamannafélaginu Herði og hefur starfað þar sem reiðkennari og sinnt félagsstörfum. Hann hefur verið valinn íþróttamaður Harðar sjö sinnum og er góð fyrirmynd ungu kynslóðarinnar.
Í sumar keppti hann á Heimsmeistaramóti íslenska hestsins í Herning í Danmörku en mótið er haldið á tveggja ára fresti. Ég spyr Reyni út í mótið en hann náði bestum árangri Íslendinga. „Það er gríðarleg stemning á svona móti og þetta er mikil upplifun, þarna eru fleiri þúsund áhorfendur. Ég fór með hestinn minn, Greifa frá Holtsmúla, og við unnum tvenn silfurverðlaun og eitt gull á mótinu.“

Kveðjustundin erfið
„Íslendingar mega ekki koma með hestana sína aftur til Íslands ef þeir fara með þá erlendis svo það var komið að leiðarlokum hjá okkur Greifa. Þetta var erfið stund, átta ára samvinna og það féllu nokkur tár. Ég hugga mig við það að hann fór á góðan stað og vonandi mun hann veita nýjum eiganda góðar stundir í framtíðinni.“
En hvað tekur nú við? „Það er að finna nýjan hest, byggja hann upp og mæta hnarr­reistur að tveim árum liðnum og verja titilinn,“ og með þeim orðum kveðjumst við.

Myndir og texti: Ruth Örnólfs

Tónleikadagskrá framundan í Hlégarði

Haustdagskráin í Hlégarði er farin að taka á sig mynd en nokkrir listamenn hafa boðað komu sína í félagsheimilið til áramóta. Á laugardaginn mætir Kjósverjinn Bubbi Morthens og heldur tónleika. Hann er á örstuttri tónleikaferð í nágrenni höfuðborgarinnar. Á sunnudaginn verður hann á heimavelli í Félagsgarði í Kjós en báðir tónleikarnir hefjast kl. 20:30.
Föstudaginn 6. nóvember verður hljómsveitin Dúndurfréttir með tónleika í Hlégarði. Þeir tóku generalprufu í Hlégarði í sumar við frábærar undirtektir.
Laugardaginn 5. dessember mæta svo systkinin KK og Ellen og halda jólatónleika. Tónleikar þeirra eru orðnir fastur liður í jólahaldi fjölmargra Íslendinga. Í ár verða þau á faraldsfæti líkt og áður, syngja jólalög í bland við sín eigin og segja sögur af sér sínum sem laða fram gleði og eitt og eitt tár. Með þeim verður fimm manna úrvalssveit tónlistarmanna undir stjórn hljómborðsleikarans góða Jóns Ólafssonar. Nánari upplýsingar má finna á Facebook-síðu Hlégarðs.

Reisa 55 íbúðir í Vefarastræti

Tölvuteiknuð mynd af fjölbýlishúsunum sem rísa munu í Vefarastræti. Alls 55 íbúðir í tveimur húsum.

Tölvuteiknuð mynd af fjölbýlishúsunum sem rísa munu í Vefarastræti. Alls 55 íbúðir í tveimur húsum.

Verk­taka­fyr­ir­tækið MótX vinn­ur nú að því að reisa tvö ný fjöl­býl­is­hús í Helgafellshverfi. Um er að ræða þriggja til fjögurra hæða hús með samtals 55 íbúðum. 23 íbúðir við Vefarastræti 28-30 og 32 íbúðir við Vefarastræti 24-26.
„Við í MótX er mjög spenntir fyrir þessu verkefni hér í Mosfellsbæ, enda bærinn í örum vexti, innviðir góðir og bjart framundan.“ Eigendur MótX ehf. eru þeir Svanur Karl Grjetarsson, Vignir Steinþór Halldórsson og Viggó Einar Hilmarsson.

Í sátt við álfa og menn
„Hérna ætlum við að sinna markaðnum og íbúðir í réttum stærðum og á verði sem fólk ræður við,“ segir Vignir Halldórsson stjórnarformaður MótX. „Við höfum lengi haft augastað á þessu svæði enda flottar suðurhlíðar. Svo hyggst bæjarfélagið reisa hér leik- og grunnskóla í nágrenninu.
Við munum vinna þetta hratt og örugglega og ætlum okkur rúmt ár þetta. Við höfum mikla og góða trú á verkefninu.“
Vignir segist hvergi smeykur við álfa og huldufólk í sjálfum Sauðhól sem stendur við byggingarreitinn. „Ég held við náum þessu í mikilli vinsemd enda munum við koma fram við alla af virðingu,“ segir Vignir.
Verktakafyrirtækið MótX var stofnað 2005 og hefur byggt fjölda einbýlishúsa og fjölbýlishús í Kópavogi.

Sjálfboðaliðar bjóða upp á námsaðstoð

redcrossHafið er nýtt verkefni hjá Mosfellsbæjardeild Rauða krossins þar sem boðið er upp á námsaðstoð fyrir börn í 3.-6. bekk. Sjálfboðaliðar munu aðstoða börnin við heimanám og skólaverkefni. Andrúmsloftið verður létt og afslappað þar sem hver og einn fer á eigin hraða. „Ég hef áður tekið þátt í svona verkefni í Grafar­vogi sem gekk mjög vel,“ segir Signý Björg Laxdal sjálfboðaliði. „Mig langar að skapa svipað umhverfi hér í mínum heimabæ og um leiða vekja athygli á starfi Rauða krossins í Mosfellsbæ. Ég er búin að fá nokkra samnemendur mína í HÍ til að mæta vikulega. Við tökum vel á móti krökkum og foreldrum í Þverholti 7 á mánudögum kl. 15-17. Tilvalið fyrir börn með námsörðugleika eða hafa íslensku sem annað tungumál. Nú eða bara þá sem vilja klára lærdóminn snemma í vikunni,“ segir Signý.

Hentu

Guðjón Svansson gudjon@kettlebells.is

Guðjón Svansson
gudjon@kettlebells.is

Það er gott fyrir mann að hætta að gera það sem tekur frá manni orku og gera í staðinn það sem gefur manni orku. Því meiri orku sem maður hefur sjálfur, því meir getur maður gefið af sér. Hlutir geta líka tekið frá manni orku. Dýrir hlutir, fínir hlutir, hlutir með sögu, hlutir sem mann langar í, hlutir, hlutir sem mega ekki skemmast, hlutir sem mega ekki týnast. Dæmi: fíni spegillinn frá ömmu, iPhone 6 (bráðum 7), finnski vasinn, rétti hjólabúningurinn, dúnúlpan, fellihýsið og leðurstígvélin. Listinn er ótæmandi og mismunandi eftir lífstíl hvers og eins.

Alveg eins og það er frelsandi að losa sig úr orkutæmandi verkefnum er ótrúlega gott fyrir sálina að losa sig við alla þessa hluti. Hlutunum fylgja áhyggjur og óþarfa vesen. Áhyggjur skapa stress. Stress hefur bein áhrif á andlega og líkamlega heilsu. Því meira stress, því meira álag á líkamann. Þar af leiðandi er borðleggjandi að því færri hluti sem maður á og því færri hluti sem mann langar í, því betri er líkamleg heilsa manns. Mitt markmið, og ég er mjög nálægt því í dag, er að eiga svo fáa hluti sem mér er ekki sama um að ég geti pakkað þeim í stóran bakpoka. Það sem skiptir mig máli er að vera með fjölskyldunni og öðru góðu fólki, gera það sem ég elska að gera og reyna að hvetja aðra til þess að bæta líf sitt, láta drauma rætast.

Ég skora á þig að taka til í dótinu þínu. Losa þig við alla orkukrefjandi hluti, líka stóra spegilinn sem þú erfðir frá ömmu, henni er pottþétt sama þótt þú leyfir öðrum að njóta hlutanna hennar. Prófaðu svo að gera lista yfir þá hluti sem þú myndir setja í 60 lítra bakpoka, þá fáu hluti sem virkilega skipta þig máli.
Áfram veginn!

Heilsumolar Gaua
Mosfellingur 1. október 2015