Æfingahópurinn þinn

Heilsumolar_Gaua_27april

Ég hef verið tengdur íþróttum og hreyfingu síðan ég var smá gutti. Hef æft með ýmsum hópum og félögum. Þrótti, Fylki, Aftureldingu, ÍR og Mjölni, svo nokkur séu nefnd. Ég tilheyri í dag tveimur æfingahópum. Þjálfa og held utan um annan og er þátttakandi í hinum.

Hver æfingahópur hefur sína menningu. Hún er mótuð af þeim sem stýra hópnum og þeim sem mynda hópinn. Einkenni góðra æfingahópa er að fólk mætir reglulega, bætir sig, hlakkar til að mæta og líður vel eftir æfingu. Góður húmor skiptir máli, hvetjandi aðhald þjálfara og annarra æfingafélaga líka. Og það sem mér finnst mjög mikilvægt, að það sé pláss fyrir alla. Alla sem virkilega vilja vera með í hópnum og æfa með honum. Við erum öll ólík, öll sérstök á okkar hátt, en það gefur lífinu lit og gerir hópinn sterkari að innan hans séu einstaklingar sem fara sínar eigin leiðir, án þess að fara gegn óskrifuðum reglum hópsins eða eyðileggja út frá sér. Ég hef verið í æfingahópum þar sem ekki var pláss fyrir þá sem þóttu of öðruvísi. Það er hálf óþægileg tilfinning að hugsa til þess eftir á og ég er viss um að þeir hópar hefðu náð lengra ef menning þeirra hefði verið opnari.

Það skiptir ekki máli hvers konar hreyfingu maður stundar eða hvaða íþrótt maður er að æfa, öflugur æfingahópur er alltaf mikill styrkur. Gefur manni orku, veitir manni jákvætt aðhald og andlega upplyftingu.

Það eru margir æfingahópar í Mosfellsbæ. Afturelding og hin íþróttafélögin í bænum eru til dæmis með marga hópa á sínum vegum, líkamsræktarstöðvarnar sömuleiðis. Hópar hittast til að sparka í bolta, glíma, ganga á fjöll eða hlaupa. Möguleikarnir eru ótal margir og í bæ þar sem margir þekkja marga er mjög líklegt að þú getur fundið æfingahóp sem hentar þér og þínum lífstíl.