Afturelding tekur þátt í Evrópukeppni félagsliða

umfaevrópa

Ásgeir Sveinsson formaður meistaraflokksráðs.

Ásgeir Sveinsson formaður meistaraflokksráðs.

Ljóst er að meistaraflokkur Aftureldingar í handknattleik mun leika í EHF Evrópukeppni félagsliða í haust. Í keppninni taka þátt bikarmeistarar auk annarra toppliða í hverju landi sem vinna sér inn þátttökurétt. Því er um að ræða sterka keppni með öllum bestu liðum Evrópu.
„Þetta er gríðarlega spennandi verkefni og það eru allir klárir í slaginn,“ segir Ásgeir Sveinsson formaður meistaraflokksráðs Aftureldingar.

Hvernig öðluðumst við þátttökurétt?
„Við fáum keppnisrétt vegna þess að Afturelding lék í bikarúrslitum gegn Val í vetur. Valsararar fóru með sigur af hólmi en urðu jafnframt Íslandsmeistarar í vor og öðlast þannig rétt til að leika í keppni meistaraliða.“

Er þetta eitthvað í líkingu við Áskorendakeppni Evrópu?
„Nei, þetta er talsvert sterkari keppni en Valsararnir voru í um daginn.“

Fylgir þessu ekki mikill kostnaður?
„Jú, kostnaðurinn er gríðarlegur, 2-3 milljónir á hverja umferð, sem fer svolítið eftir því hvar við lendum. Við ætlum að borga hluta af þessu og strákarnir í liðinu ætla að borga 75 þúsund á mann í hverja umferð. Svo verður farið í miklar fjár­aflanir.
Við erum auðvitað ekkert atvinnumannalið en ætlum að láta þetta ganga upp. Til stóð að fara í æfingaferð til Danmerkur en við ætlum að taka slaginn um Evrópu í staðinn. Þetta er virkilega spennandi og þroskandi fyrir okkar unga og efnilega lið því hjá okkur eru margir ungir leikmenn sem stefna að atvinnumennsku.“

Hafa lið verið að nýta sér þátttökurétt í þessum keppnum?
„Það er allur gangur á því en er að byrja aftur núna. Haukarnir hafa verið duglegir í gegnum tíðina. Þetta er rosalega spennandi dæmi. Ef við komumst í 2. umferð getum við mætt toppliðum í Þýskalandi eða Skandinavíu sem væri algjör draumur.“

Skiptir þetta einhverju máli fyrir okkur?
„Já, þetta hefur mikla þýðingu og er stórt skref upp á við fyrir félagið.
Afturelding hefur tekið þátt í keppninni áður en það er orðið ansi langt síðan. Spilað var við Drammen rétt fyrir aldamótin og Bjarki Sig var seldur þangað í kjölfarið.“

Hvenær hefst svo keppnin?
„Það fer eftir því hvernig þetta raðast í styrkleikaflokka. Við gætum átt fyrsta leik í byrjun september.“