Heilsubærinn

heilsumolar_18maí

Ég ætlaði að skrifa kjarnyrtan upp-með-sokkana pistill til þeirra sem taka sér þriggja mánaða frí frá öllum æfingum á sumrin, borða allt sem hönd á festir og gleyma að sofa. Ranka svo móðir og andstuttir við sér einhvern tíma eftir verslunarmannahelgi með bullandi samviskubit og kaupa sér árskort í ræktina. En ég nenni því ekki. Fólk veit þetta alveg sjálft. Það er ekkert vit í því að taka sér margra mánaða frí frá heilbrigðu líferni og það er sáraeinfalt, alls ekki tímafrekt og mjög skemmtilegt að halda sér í góðu formi á sumrin. Lykillinn er að koma sér út úr húsi, hreyfa sig og æfa utandyra. Ná sér í birtu og súrefni. Borða alvöru mat og sofa á nóttunni.

En mig langar miklu frekar að skrifa um heilsubæinn Mosfellsbæ. Ég er dagsdaglega í samskiptum við sveitarfélög víðsvegar um landið og upplifi í gegnum þau samskipti hvað það er mikið litið til Mosfellsbæjar sem leiðandi sveitarfélags þegar kemur að heilsu. Það sem mestu máli skiptir, að mínu mati, er að gjörðir fylgja orðum. Mosfellsbær til dæmis hefur tekið þá ákvörðun að vera Heilsueflandi samfélag og fylgt þeirri ákvörðun eftir með ýmis konar jákvæðum framkvæmdum. Okkar Mosó er frábært verkefni og eitthvað sem önnur sveitarfélög eru og munu taka sér til fyrirmyndar. Lykilatriðið í því verkefni er að bærinn mun á næstu mánuðum koma í framkvæmd heilsueflandi hugmyndum íbúa bæjarfélagsins. Okkar hugmyndum. Íbúakosning án framkvæmda myndi litlu skila. Hafa þveröfug áhrif.

Við erum á góðum stað, Mosfellsbær, og erum í kjörstöðu til þess að fara alla leið. Við getum orðið Heilsubær Íslands. Fyrirmynd á heimsvísu. Kjörstaður þeirra sem vilja lifa heilbrigðu lífi og þeirra sem vilja vinna við heilsu og hollustu. Tækifærin eru til staðar. Grunnurinn hefur verið lagður og bærinn er stútfullur af fólki með góðar hugmyndir á þessu sviði.

Heilsumolar Gaua
Mosfellingur 18. maí 2017